07.11.1966
Efri deild: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (2075)

49. mál, listamannalaun og Listasjóður

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um listamannalaun og listasjóð, flutti ég hér á hv. Alþ. í fyrra. Þegar frv. var lagt fram þá, var allmjög liðið á þingtímann, enda fór svo, að Alþ. gafst ekki tóm til að taka efnislega afstöðu til málsins. Það var þó ljóst, bæði í sambandi við þetta frv. og frv. um sama efni, sem flutt var hér í d. af hv. 1. þm. Norðurl. e., svo og af þáltill., sem borin var fram í sameinuðu þingi, að alþm. gerðu sér þess fulla grein, að stuðningur hins opinbera við listamenn og við störf þeirra að listsköpun þarfnast endurskoðunar við. Þáltill. sú, sem ég nefndi, fól hæstv. ríkisstj. að taka þessi mál til endurskoðunar og leggja frv. um þau efni fyrir næsta reglulegt Alþ. Till. var samþ. einróma, og liggur því fyrir skýlaus viljayfirlýsing Alþ. um endurskoðun þessara mála. Jafnframt samþykkti þessi hv. d. að vísa mínu frv., svo og frv. hv. 1. þm. Norðurl. e., til ríkisstj., enda kæmu efnisatriði þessara frv. til greina við þá endurskoðun og frv.-gerð, sem ríkisstj. léti vinna að.

Nú kynni einhver að segja sem svo, að vel hefði mátt bíða eftir því að sjá væntanlegt frv. hæstv. ríkisstj. um þessi listlaunamál, áður en ég kæmi hugmyndum mínum um lausn þeirra á framfæri hér á hv. Alþ. í annað sinn. Þar til er því að svara, að eftir allvandlega íhugun þótti mér rétt að leggja frv. mitt frá síðasta þingi óbreytt fyrir hv. d. Ástæðurnar eru tvær. Hin fyrri er sú, að með endurflutningi frv. míns vil ég leggja á það sem allra ríkasta áherzlu, að ný skipan þessara listlaunamála verði framkvæmd og í lög tekin á því þingi, sem nú situr, og það svo tímanlega, að hægt verði að hafa hliðsjón af þeirri hinni nýju löggjöf við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1967, þar sem ákveðnar verða fjárveitingar á því ári til listamanna og til annars stuðnings við íslenzka listsköpun. Frv., sem kæmi fram seint á þingi og yrði ekki að lögum fyrr en löngu eftir að afgreiðslu fjárl. væri lokið, slíkt frv. hlyti annað tveggja að mótast varanlega af því fjárframlagi, sem um yrði að ræða í hinum samþykktu fjárl., eða að fresta þyrfti um eitt ár a.m.k. fullri framkvæmd þess, unz gengið hefði þá verið frá nýjum fjár1. Ég veitti því að vísu athygli, að i upphafi þessa Alþ., þegar hæstv. forsrh. flutti grg. ríkisstj. um þau mál, sem hún hyggst leggja fyrir Alþ. nú, var listlaunafrv. með í þeirri upptalningu, og ber að fagna því. Hins vegar var það svo aftarlega á lista hæstv. ríkisstj., að mér virðast næsta litlar líkur til þess, að það geti komið til fullra framkvæmda á næsta ári. Það þykir mér mjög miður farið, ef svo verður. Ég legg á það ríka áherzlu, að um þessi mál verði fjallað nú á fyrri hluta þings, svo að hægt verði að veita til þeirra það fé á fjárl. næsta árs, sem ný löggjöf um listamannalaun kann að gera ráð fyrir.

Þetta er sem sagt önnur meginástæðan til þess, að ég flyt frv. mitt nú, ef það mætti verða til þess að ýta við hæstv. ríkisstj. og flýta frumvarpsgerð þeirri, sem hún hefur boðað. Hin ástæðan er sú, að ég tel, að í frv. mínu séu tiltekin ákvæði og nýmæli, sem vel væru þess verð að ræðast á opinberum vettvangi og hafa mætti fulla hliðsjón af við setningu nýrra laga um þessi má1.

Þetta frv. mitt er ekki endurflutt vegna þess, að ég sé í neinu kapphlaupi við hæstv. ríkisstj. um lausn þessa máls. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að ekki megi leysa það sómasamlega með einhverjum öðrum hætti en hér er lagður ti1. En ég vil leggja það fram sem einhvers konar umræðugrundvöll um þessi mál. Ég hef rætt það nokkuð við ýmsa listamenn og aðra áhugamenn um þessi efni og tel mér óhætt að fullyrða, að flestir eða allir, sem hafa kynnt sér efni þess, telja, að meginákvæði þess horfi til mikilla bóta miðað við það ástand, sem ríkt hefur og enn ríkir í listlaunamálum.

Frv. mínu fylgir ýtarleg grg., þar sem er fjallað allrækilega um efni þess. Ég sé því ekki ástæðu til að fjölyrða um einstök atriði frv., en tel þó rétt að benda stuttlega á nokkur helztu ákvæðin, sem í því felast.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir algerlega nýrri skipan úthlutunarnefndar listamannalauna. Þar er lagt til, að sett verði föst nefnd, kosin til nokkurra ára í senn, og í henni eigi sæti fulltrúar frá samtökum listamanna, frá ríkisvaldinu og frá hlutlausum og tiltölulega óháðum aðila. Ég legg til, að stjórn Bandalags íslenzkra listamanna kjósi 3 menn í þessa n., menntamálaráð 2 og háskólaráð Háskóla Íslands 2. Þó er ákvæði um það, að enginn þessara aðila skuli vera bundinn við það að velja í n. menn úr sínum hópi. Um Bandalag íslenzkra listamanna geri ég beinlínis ráð fyrir, að fulltrúar þess í n. verði ekki starfandi listamenn, heldur tilnefni stjórnin eins konar trúnaðarmenn sína eða listamanna og þá gjarnan utan bandalagsins, þ.e.a.s. menn, sem engra persónulegra hagsmuna hafa að gæta við úthlutun listamannafjár. Ég tel það bæði einfaldara og heppilegra að hafa eina slíka úthlutunarnefnd heldur en margar úthlutunarnefndir, eina fyrir hverja listgrein, eins og hugmyndir hafa verið uppi um. Á hinn bóginn mundi ég telja líklegt og jafnvel sennilegt, að slík n. veldi sér ráðunauta, sem gerðu till. til hennar um einstakar listgreinar, en n. sjálf tæki endanlegar ákvarðanir og bæri formlega ábyrgð á úthlutuninni í heild.

Annað meginatriði þessa frv. er það, að þar er gert ráð fyrir þeirri breytingu, að fremstu og viðurkenndustu listamenn þjóðarinnar á hverjum tíma, 25 hið fæsta og 30 hið flesta, hljóti föst listamannalaun á fjárl., en þessir menn séu ekki og geti ekki verið árlegt bitbein og háðir ákvörðun úthlutunarnefndar hverju sinni. Ég hygg, að flestir séu sammála um nauðsyn þess að koma á einhverri slíkri skipan, þótt hins vegar megi vitanlega um það deila, hversu margir listamenn eigi að njóta þessa sóma og hve háar fjárhæðir þeim skuli ætlaðar.

Þriðja atriði þessa frv., sem ég vil aðeins vekja athygli á, og ein helzta nýjung þess er sú, að þar er lagt til, að nokkrum hópi listamanna verði tryggðir allverulegir starfsstyrkir, og er ætlunin samkv. frv., að þeir njóti þessara starfsstyrkja í tvö ár samfleytt a.m.k., en í þrjú ár hið lengsta hverju sinni. Hér yrði einkum um að ræða menn, sem þegar hafa sýnt, að þeir eru líklegir til góðra hluta á sviði listsköpunar, ef þeim verða veitt skilyrði til starfa, þ.e. að hér verði um að ræða listamenn í fullu starfsfjöri, sem mikils eða a.m.k. nokkurs má af vænta. Hér yrði um að ræða unga listamenn, sem þykja efnilegir og talið er, að eigi skilið að fá tækifæri til þess að sýna, hvað í þeim býr.

Í fjórða lagi felur þetta frv. í sér það ákvæði, að stofnaður skuli fastur listasjóður og sé honum ætluð árleg fjárveiting á fjárl., a.m.k. 5 millj. kr. á ári. Úr þessum sjóði er ætlunin að úthluta áðurgreindum starfsstyrkjum, en auk þess nokkrum öðrum lægri styrkjum, sem eru ekki hugsaðir sem föst listamannalaun, heldur í flestum tilfellum sem viðurkenning eða hvatning. Ýmist yrðu þessir styrkir veittir sama manni eitt ár eða oftar eftir atvikum. Þeir kæmu raunverulega í stað lægstu úthlutunarflokkanna samkv. því kerfi, sem gilt hefur undanfarin ár. En listasjóði er jafnframt þessu ætlað að sinna öðrum verkefnum en útdeilingu persónulegra styrkja. Í 12. gr. frv. eru nefnd 5 atriði, sem lagt er til, að sjóðurinn styrki. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftirstöðvum árlegra tekna listasjóðs er stjórn hans heimilt að verja til stuðnings listum og listamönnum svo sem hér segir: a) Með því að reisa, kaupa eða taka á leigu hús á hentugum stöðum, þar sem listamönnum yrði boðið að dveljast um skeið við listsköpun. b) Með því að skipuleggja og kosta eða styðja með fjárframlögum kynningu og túlkun góðra lista sem víðast um land. c) Með stuðningi við íslenzkar myndlistarsýningar erlendis. d) Með stuðningi við listahátíð, sem haldin yrði hér á landi á nokkurra ára fresti. e) Með því að greiða höfundarlaun og útgáfustyrk vegna allt að fjögurra bóka á ári, sem valdar yrðu úr íslenzkum samtíðarbókmenntum og gefnar út í ódýrum almenningsútgáfum með sérstöku tilliti til æskufólks. Hér er engan veginn um tæmandi upptalningu að ræða, heldur eru hér nefnd nokkur dæmi þess, hvernig slíkur fastur sjóður gæti stutt listamenn með nokkuð fjölbreytilegum hætti. Að öðru leyti er ráð fyrir því gert í frv., að stjórn listasjóðs setji reglur um stuðning sjóðsins við íslenzka listsköpun og við listtúlkun, og er ráð fyrir því gert, að menntmrh. staðfesti þær reglur.

Ég vil svo að lokum leggja á það áherzlu, að ég tel, að Alþingi geti ekki skotið því á frest öllu lengur að setja viðhlítandi löggjöf um þessi mál. Ég ætla ekki að halda því fram, að í frv. mínu felist eina hugsanlega lausnin í sambandi við þessi mál. Það er vitanlega ýmislegt fleira, sem kemur til álita. En þó er mér um það kunnugt af viðræðum við ýmsa listamenn og aðra áhugamenn um þessi efni, að meginstefnan, sem í þessu frv. felst, hefur hlotið mjög jákvæðar undirtektir þeirra.

Því er ekki að leyna, að þetta frv. gerir ráð fyrir allverulegum auknum fjárstuðningi við listir og listamenn, eða fullri tvöföldun þess framlags, sem á þessu ári er varið til listamannalauna. En þegar alls er gætt, tel ég, að hér sé í rauninni mjög hóflega í sakirnar farið. Ég er þeirrar skoðunar, að hvorki þing né þjóð muni telja eftir 7—8 millj. kr. árlegt framlag til fjölhliða stuðnings við listir í landinu, sé það jafnframt tryggt eftir föngum, að svo miklu leyti sem löggjöf getur gert það, að þeir fjármunir nýtist vel og verði umtalsverð lyftistöng við listsköpun og listkynningu í landinu.

Ég vil svo, herra forseti, óska þess, að að lokinni þessari umr. verði frv. mínu vísað til 2. umr. og menntmn.