28.11.1966
Efri deild: 19. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (2078)

70. mál, rafvæðing Vestur-Skaftafellssýslu

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Það er ekki nýtt af nálinni, heldur var það flutt hér í fyrra og fékk þá ekki afgreiðslu í hv. fjhn., sem því var vísað til eftir 1. umr., og hef ég nú leyft mér að endurflytja málið.

Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að héraðsrafmagnsveítur ríkisins skuli leggja rafmagnslínu frá Vík í Mýrdal í hreppana 5 austan Mýrdalssands og þeirri framkvæmd skuli lokið eigi síðar en á árinu 1969.

Í þeim drögum að vinnuáætlun um framhald rafvæðingaráætlunarinnar, sem sá dagsins ljós á s.l. hausti, þegar þau voru lögð fyrir raforkuráð, var Vestur-Skaftafellssýsla ekki meðtalin í þeim drögum, og eru þó aðeins tveir af 7 hreppum sýslunnar, sem hafa rafmagn frá samveitum. Hrepparnir 5 austan Mýrdalssands hafa ekki samband við almenningsveitur. Mun það vera stærsta og fjölmennasta samfellda svæðið, þar sem ekki er enn farið að gera neitt til þess að tengja það við samveitur. Síðan teknir voru upp mjólkurflutningar frá þessu svæði fyrir tæpum áratug, hefur búskapur aukizt í þessum héruðum og dafnað, og nauðsyn á öruggri og nægri raforku er þess vegna brýnni en áður, ekki sízt þegar litið er á þá nýju tækni, sem nú er notuð í búskapnum. Ástæðan til þess, að þessar sveitir hafa orðið á eftir í rafvæðingunni, er að sjálfsögðu sú, að þar sem meðallínulengd til bæja hefur verið látin ráða um röðun á rafvæðingaráætlanir og þar sem þessar sveitir liggja á milli óbyggðra svæða, sanda á báða vegu, sem lengja meðallínulengdina, er línulengdin til bæja þarna nokkru hærri en miðað hefur verið við fram að þessu. Það virðist þó óeðlilegt að láta svo fjölmennt og blómlegt hérað sem austanverða Skaftafellssýslu mæta afgangi, þó að sandarnir verði til þess að lengja meðallínulengdina nokkuð fram úr því, sem miðað hefur verið við annars staðar. Talið er, að meðallínulengd á býli á þessu svæði mundi vera 2.03 km eða rétt um 2 km, en í þeim drögum, sem ég nefndi áðan að vinnuáætlun um framhald rafvæðingarinnar, eru tekin þau býli, sem voru innan við 2 km.

Ýmsir hafa látið sér detta í hug, að aðrar leiðir kunni að vera til þess að leggja almenningsveitur um þetta svæði, og jafnvel hafa menn látið sér detta í hug að spara háspennuleiðslur yfir sandana með því að setja upp minni stöðvar, jafnvel dísilstöðvar, á svæðinu. Með því mundi sparast lína yfir Mýrdalssand, sem þó er ekki dýrari en svo, að andvirði hennar mundi tæpast nægja fyrir stofnkostnaði nauðsynlegrar dísilstöðvar, hvað þá fyrir þeim rekstrarkostnaði, sem á henni yrði. Það virðist þess vegna liggja ljóst fyrir, að önnur leið til lausnar þessu vandamáli en að leggja línu frá orkuveitusvæði Landsvirkjunar muni ekki vera fyrir hendi, og þeim mun frekar hníga rök að þessu, sem nú hefur verið mörkuð sú stefna með l. um Landsvirkjun frá því í hittiðfyrra, að rafvæðing landsins skyldi byggð á stórum aflstöðvum og víðfeðmum línunetum, en ekki á smáum virkjunum.

Sú skoðun hefur komið fram í sambandi við þessi mál og m.a. frá raforkumálastjóra sjálfum fyrir alllöngu, ekki nú alveg nýlega, að á þessu svæði séu svo margar og góðar einkarafstöðvar, að e.t.v. muni ýmsir raforkunotendur á svæðinu ekki kæra sig um rafmagn frá samveitum og mundi það rugla mjög dæmið í þessum efnum. Þessi skoðun virðist á misskilningi byggð. Það heitir að vísu svo, að um 70 af þeim 115 bæjum, sem þarna eru, hafi einkastöðvar, en þær eru flestar gamlar og úr sér gengnar, enda hefur það komið fram, að nær allir raforkunotendur á þessu svæði hafa nú þegar óskað eftir heimtaug. Á almennum bændafundum, sem haldnir hafa verið á þessu svæði, hefur komið fram almennur áhugi á því að fá rafmagn frá samveitum, og að frumkvæði þessara bændafunda og einnig sýslunefndar Vestur-Skaftafellssýslu hafa verið settir til þess tveir ágætismenn úr héraðinu að vinna sérstaklega að þessum málum. Það eru þeir Jón Helgason bóndi í Seglbúðum og Siggeir Björnsson bóndi í Holti á Síðu. Þessir tveir menn rituðu mér bréf í fyrra um þessi mál, og mun það vera samhljóða bréfi, sem þeir hafa sent hæstv. raforkumrh., þar sem segir m.a.:

„Á aðalfundi sýslunefndar Vestur-Skaftafellssýslu var okkur undirrituðum falið að kynna okkur og fylgjast með athugunum og undirbúningi að rafvæðingu sveitanna austan Mýrdalssands. Eftir viðtal, sem við áttum við fulltrúa raforkumálastjóra, Pál Hafstað, töldum við nauðsynlegt, að eindreginn vilji íbúa þessara sveita kæmi skýrt í ljós. Hinar gömlu vatnsaflsstöðvar, sem hafa verið þessum sveitum til ómetanlegs gagns, ganga nú óðum úr sér og eru flestar einskis nýtar langan eða stuttan tíma á veturna, m.a. sú stærsta þeirra að Kirkjubæjarklaustri, en þar á nú að fara að reisa heimavistarskóla, og er t.d. óhjákvæmilegt að leysa rafmagnsþörf hans, áður en hugsanlegt er, að hann geti tekið til starfa. Sendum við hér með lista, þar sem langflestir bændur og aðrir umráðamenn bygginga í þessum sveitum óska eindregið eftir heimtaug frá samveitu. Á fáeinum bæjum hafa feðgar eða bræður, sem búa félagsbúi, skrifað báðir undir, en langflestir eru einir umráðamenn heimilis.“

Þessu bréfi fylgdi svo afrit af undirskriftaskjölum, þar sem bændur og aðrir umráðamenn bygginga í þessum 5 hreppum, 122 talsins eða nær allir á þessu svæði, skrifa undir það, að þeir óski jafnframt eftir heimtaug frá þeirri línu, sem lögð yrði frá samveitu. Aðeins einn af þeim 122, sem undir skrifa, gerir fyrirvara um það, að frá hans hálfu sé þetta ekki ósk um heimtaug.

Þetta þótti mér rétt, að kæmi fram nú, vegna þess að þessi gögn lágu ekki fyrir, þegar frv. var flutt hér í fyrra. Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara um þetta fleiri orðum að sinni, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.