21.03.1967
Efri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (2110)

161. mál, togarakaup ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hafði tjáð hv. fyrra flm. þessa frv., að ég hefði löngun til að vera viðstaddur 1. umr. málsins með hliðsjón af efni þess, en vegna þess að ég hef verið upptekinn við umr. um aðra hlið sjávarútvegsmála í hv. Nd., hefur dregizt, að þetta mál hafi verið tekið á dagskrá, og er það mín sök.

Ég vil taka það fram strax í upphafi, að ég skal ekki tefja þessar umr. lengi, enda hafði ég aðstöðu til að hlusta á meginefni framsöguræðu hv. fyrra flm. Þegar frá eru dregin svigurmæli og stóryrði í garð ríkisstj., eins og sá háttur hefur verið hafður á á undanförnum árum í þessum efnum, tel ég, að hafi lítið nýtt komið fram í frv., og flestir könnuðust við þær upphrópanir. sem hann viðhafði um ávirðingar ríkisstj., frá umr., sem fóru fram í þessari hv. þd. fyrir örfáum dögum um aðstoð við sjávarútveginn, þannig að það er óþarft að rifja neitt upp af þeim hlutum.

Fyrsta atriðið, sem ég staðnæmdist við í ræðu hv. þm. var það, að hann taldi það a.m.k. lélegar handatiltektir, ef ég mætti orða það svo, að kjósa ætti nú n. til að íhuga þessi mál. Nú las hann tilvitnanir í ýmsa ágæta og þrautreynda forustumenn í íslenzkum sjávarútvegsmálum, sem sönnuðu m.a. það, að menn líta ekki á lausn þessara mála á einn veg, og sýnist sitt hverjum, ekki sízt meðal þeirra, sem við hljótum allir að vera sammála um, að hafi þar lengsta og bezta reynslu í. Ég skal bara vitna í eitt dagblaðanna, sem birt hefur greinar um þessi efni, og það er málgagn hv. flm., Þjóðviljinn, að þar hafa um þessi mál verið ritaðar greinar ýmist í viðtalsformi eða af höfundum sjálfum, auk sjálfrar forustugreinar blaðsins, og vitnaði hv. þm. sérstaklega í einn þeirra, viðtal við Halldór Halldórsson, hinn aflasæla skipstjóra á togaranum Maí. Tveir aðrir aðilar hafa skrifað um sjávarútvegsmálin i þetta ágæta blað, þeir Steindór Árnason, fyrrv. skipstjóri og Jóhann Kúld. Ég hef lesið þessar greinar allar með mikilli kostgæfni og komizt að raun um, að hver þessara manna um sig lítur lausn þess vandamáls, sem hér er um að ræða, á sinn hátt, og auk þess hef ég lesið greinar í Sjómannablaðinu Víkingi eftir þrautreynda menn á sviði togaraútgerðar og togveiðimála á undanförnum árum, og það er nánast óhætt að segja, að hver fari þar sína leið. Öllum ber þó saman um, að skuttogarar, þ.e.a.s. tveggja þilfara skip, séu framtíðin, og vitna þar til reynslu annarra þjóða, sem þegar er fengin í þeim efnum. Þó segja þessir aflasælu skipstjórar, sem ég hef tilhneigingu til að taka mest mark á í þessum umr., að veiðihæfni þessara skipa sé ekki mikil umfram síðutogarana, sem við eigum nú, heldur sé allur aðbúnaður um borð betri, mannskapurinn hafi betri vinnuaðstöðu og með tæknilegum nýjungum og notkun þeirra um borð í skipunum sé unnt að fækka ef til vill til muna áhöfninni og gera þar með rekstrargrundvöll skipanna tryggari og öruggarl. Þetta er það meginatriði, sem ég tel að gangi í gegnum greinar og viðtöl við þessa menn alla. En þegar kemur að sjálfri skipastærðinni, sýnist þar sitt hverjum, og er það kannske ekki óeðlilegt, þegar þeir miða við ákveðin not þessara skipa. Einn aðilinn vill t.d., að skipin séu eingöngu ætluð til þess að vinna heilfrystan fisk um borð, sem síðan verði þíddur upp, sem er nýjung í fiskiðnaðarmálum, og unninn eftir hendinni í frystihúsunum og skapaði þar með möguleika til jafnari og betri vinnu í þeim, og gætu þá jafnframt siglt til útlanda með fiskinn, ef markaðshorfurnar eru þar sérstaklega hagstæðar. Þeir, sem hugsa á þann veg, telja, að minnst 1200—1600 tonna skip kæmu þar til greina. Aðrir hafa sagt, að við ættum minna að hugsa um þessi stóru skip, þau væru sjálfsagt góð með, en við ættum að leggja höfuðáherzluna á minnstu gerðir togaranna, þessara skuttogara, togara, sem ekki hefðu nema 5—7 daga útivist og væru helzt eigendur þeirra þær vinnslustöðvar, sem erfiðast eiga með að afla sér hráefnis í dag.

Ég hef fengið út úr þessum lestri og viðtölum við marga þessa menn a.m.k. 4—5 gerðir, sem þeir hver um sig færa rök fyrir að eigi að koma, og vitna þar til reynslu starfsbræðra sinna erlendis og meira og minna síns persónulega mats. Auk þess telja þeir, að við mundum ekki verða ánægðir með ýmsan þann útbúnað, sem er á hinum erlendu skuttogurum í dag, og mundum vilja fá þar á verulegar breytingar, miðað við reynslu og íslenzka staðbætti, eins og þeir segja. Til þess, að þessi sjónarmið fái notið sín og þeim verði komið að, er vart hugsanleg önnur starfsaðferð við undirbúning á smíði þessara skipa og komu þeirra til landsins en sett sé á fót n., þar sem hagsmunasamtök þessara aðila fái að koma sjónarmiðum sínum að, og mun það gert.

Ég hirði ekki um að endurtaka þau orð, sem hv. þm., flm. frv., vísaði til úr umr. hér í sambandi við aðstoðina við sjávarútveginn. Þau eru ákvörðun ríkisstjórnarinnar, og þessa daga er verið að leita eftir tilnefningu frá þeim aðilum, sem helzt er talin nauðsyn á að komi þarna sjónarmiðum sínum fram. Það er lögð á það áherzla, að þessi n. taki fyrst og fremst afstöðu til þess, með hvaða hætti verði af ríkisins hálfu bezt greitt fyrir kaupum á slíkum skipum. Á að auka hin erlendu lán, eða er talið nauðsynlegt að styrkja með opinberu fé kaup á þessum skipum? Þetta eru atriði, sem koma undir þennan lið. Í öðru lagi: Hvaða skipastærðir skulu keyptar? Og í þriðja lagi: Hvaða aðilar skulu sitja fyrir kaupum á umræddum skipum, sem tryggi það, að fyrir framangreindum höfuðtilgangi um prófun á þessum ýmsu stærðum skipa fáist sem traustastur grundvöllur? Þetta eru atriði, sem ég tel rétt að komi fram hér. Efnislega fer þessi ákvörðun ríkisstj. mjög saman við þann tilgang, sem ég hygg að sé að baki því frv., sem hér er flutt og að því er hv. þm. sagði hér hefur verið flutt á undanförnum þingum, a.m.k. einu sinni áður, þó að sú breyting væri nú á, að eftir að ég gaf þessa yfirlýsingu hér við umr. fyrir örfáum dögum um, að ríkisstj. vildi beita sér fyrir því, að allt að 4 slík skip kæmu til landsins, hefur frá fyrri frv. hv. flm. verið hækkuð tala skipanna úr 3 í 6, til þess að örugglega væri yfir þeim till., sem ríkisstj. hyggst framkvæma í þessum efnum. Þessu lýsir hv. þm. alveg kinnroðalaust, á sama tíma sem hann ásakar hv. stjórnarliða eða stuðningsmenn ríkisstj. fyrir það að vera nú að hamast við tillöguflutning, vegna þess að í hönd fara á næstunni alþingiskosningar. Er ekki nokkuð augljóst, að talan úr 3 í 6 er þá kannske til komin af eitthvað svipuðum kenndum í brjósti þessa hv. þm., sem aldrei hafa gefizt vel hér á þingi, að vera með yfirboð rétt síðustu dagana fyrir kosningar?

En hvað sem líður öllum þessum atriðum, sem ég tel aukaatriði málsins, vona ég, að það takist að hraða svo framkvæmd þessara ákvarðana ríkisstj., að hingað fáist til landsins sjálfs, landsmanna sjálfra, sú reynsla, sem bezt er talin vera fyrir hendi í smíði togveiðiskipa. Það kom fram í umr. í hv. Nd. í gær, þó að óvenjulegt sé að vitna til umr. á milli deilda, að það hefði verið mátulega litill áhugi á kaupum á slíkum skipum á undanförnum árum og þar hefði hrætt sá rekstrargrundvöllur, sem virðist jafnerfiður og raun er á um íslenzka togveiðiflotann í dag. Þetta er sannleikur. Það hefur ekki verið ásókn til kaupa á þessum skipum,fyrr en þá alveg nú síðustu vikurnar, síðustu 2—3 mánuði, að menn hafa gefið sig fram og talið sig hafa áhuga á því að fá slík skip keypt. Þetta er rétt, að menn hafi í huga, þegar um það er að ræða, rétt eins og hægt sé að kaupa fiskiskip, jafndýr eins og þessi skip, sem hér er um að ræða, á lager og geyma hér, og virðist vera talað gegn betri vitund. Menn vita, að það hefur ekki fram til síðustu tíma verið áhugi á kaupum á þessum skipum. Það hafa verið gerðar tilraunir áður til þess að deila skipum til þeirra staða, sem erfiðast hafa átt með hráefnisöflun, og það endaði með þeim sorglega hætti, að þessir staðir töldu sig hafa frekar bagga af þeim skipum heldur en hagnað.

Nú er það atriði, sem allir þeir aðilar, sem um mál þetta hafa rætt eða ritað, eru sammála um, að þróun þessara mála muni verða sú, að slík skip verði í forustu um endurbyggingu togveiðiflotans, þó að menn greini á um skipastærðirnar. Ég tel eðlilega afleiðingu þess, að um ágreining er að ræða meðal færustu manna í þessum efnum, að hingað verði með einhverjum hætti fengnar þær tegundir, sem að fróðustu manna dómi eru taldar geta átt bezt við hinar íslenzku aðstæður hér, og á grundvelli þeirra megi síðan byggja framtíðarendurnýjunina, sem væntanlega á sér stað og verður að eiga sér stað, ef íslenzkur sjávarútvegur á að bera það uppi, sem hann hefur borið í efnahagskerfi íslenzku þjóðarinnar.

Umfram það, sem ég sagði áðan varðandi hugsanlega nefndarskipun, vil ég einnig upplýsa það, að frá hagsmunasamtökum þeim, sem mest samskipti hafa í sambandi við samningagerð á togveiðiskipum, hefur verið lögð á það áherzla, að ef ríkið hefði með einhverjum hætti afskipti af þessum málum, fengju þeir aðstöðu til að eiga sæti í slíkri n., sem um það fjallaði, og er það önnur meginástæðan til þess, að ég tel nefndarskipun nauðsynlega, enda á það ekki að þurfa að tefja fyrir framgangi málsins, nema síður sé.

Þetta taldi ég nauðsynlegt, að kæmi fram nú við 1. umr. þessa máls, svo að það yrði a.m.k. ekki fundið að við framhaldsumr., að enginn hefði látið sig þessi mál skipta og enginn teldi sig þau varða, ef hv. stjórnarandstæðingar ættu hlut að máli, eins og hv. flm. kom hér að í framsöguræðu sinni áðan. Hér er vissulega — og ég skal taka undir það með flm. — fjallað um mjög örlagaríkt mál fyrir íslenzkar fiskveiðar, og ég tel, að það sé rétt að farið með byrjunarframkvæmdir í því efni og ákvörðun, sem ríkisstj. hefur tekið, og tel, að ekki hafi komið fram í umr. um þessi mál til þessa svo haldgóð gagnrýni, að ástæða sé til stefnubreytingar í því efni, og mun því áfram verða unnið að málinu eftir þeirri leið, sem ég hef þegar lýst.