21.03.1967
Efri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (2111)

161. mál, togarakaup ríkisins

Flm. (Gíls Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. var dálítið hörundsár vegna þeirrar gagnrýni, sem fram kom í framsöguræðu minni á aðgerðaleysi hæstv. ríkisstj. í sambandi við málefni togaranna. Mér þykir vænt um, að hæstv. ráðh. skuli finna svo mjög til þessarar gagnrýni og taka hana dálítið nærri sér. Ég tel það góðs vita, að svo er, og ástæðan til þess, að hann tekur hana dálítið nærri sér, er vitanlega sú, að hann finnur, að hún er réttmæt.

Hann talaði um það, hæstv. ráðh., að ég hefði verið hér með svigurmæli í garð ríkisstj. fyrir ódugnað í þessum efnum. Ég kvað að vísu nokkuð fast að orði, en þó á engan hátt fram yfir það, sem ég tel fulla ástæðu til og full rök færð fyrir í mínu máli. En ég ætla nú ekki að fara að endurtaka nein af þeim ummælum.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði verið að fetta fingur út i það, að hann ætlaði að skipa n. til þess að athuga ákveðna framkvæmdaþætti í sambandi við þessi mál. Ég var ekki að gagnrýna nefndarskipun til þessara hluta út af fyrir sig. Ég var einungis að gagnrýna það, að nú fyrst ætti að fara að skipa slíka nefnd. Hvers vegna var það ekki gert? Hæstv. sjútvmrh. núv. hefði getað gert þetta í fyrra. Fyrirrennari hans gat gert það í hittiðfyrra eða fyrir 3—4 árum. Það var ástæða til þess fyrir 4 árum, og það var ástæða til þess í fyrra. Það, sem ég gagnrýni, er ekki nefndarskipun út af fyrir sig, hún er sennilega skynsamleg og nauðsynleg, þegar hafizt er handa, heldur hitt, að nú skuli fyrst renna upp það ljós fyrir hæstv. ríkisstj., að rétt sé að skipa n. til að athuga þessi mál.

Hæstv. ráðh. fann einnig að því og taldi, að þar væri um hreint kosningabragð að ræða, að við flm. þessa frv. skyldum breyta því á þann veg frá frv. í fyrra að hækka heimildina úr 3 togurum i 6. Ég gerði nokkra grein fyrir ástæðunni til þessa. Hún er ekki sízt sú, að það hafa að mínu viti verið færð fyrir því aukin rök frá því í fyrra, að þetta sé framtíðin, og ástandið í sambandi við hraðfrystiiðnaðinn er þannig, að það gerir það enn þá brýnna en áður að hraða uppbyggingu flotans eftir þeim leiðum, sem reynslan sýnir, að hentugastar séu. Ég vil í sambandi við þetta spyrja hæstv. ráðh., hvort það sé þá einhver þefur af kosningabrellu í því, að í fyrra í sambandi við umr. um þessi mál ræddi hann um þann möguleika að fá lánaðan einn skuttogara, ef ég man rétt. Þá var nú risið ekki hærra en það, að hann var að tala um að fá lánaðan einn skuttogara til reynslu. Úr þessu varð ekki neitt. Nú er hann þó kominn á það stig, hæstv. ráðh., að hann ákveður að setja n. til þess að athuga um það, að hingað verði keyptir 3—4 skuttogarar. Ég skal ekkert um það segja, hvort ástæðan er sú, að kosningar eru í nánd, ellegar hitt, að hæstv. ráðh. er nú þeirrar skoðunar, sem hann var kannske síður í fyrra, að framtíðin liggi þarna, endurnýjun togaraflotans liggi í þessu. Um það skal ég ekkert fullyrða, en þessi breyting hefur nú orðið á hans till. og er hún þó meiri en á till. okkar. Við lögðum til í fyrra, að heimildin næði til allt að 3 skipa, leggjum til í ár, að hún nái til allt að 6 skipa. Hann lagði til í fyrra eða var með bollaleggingar um það að fá kannske lánaðan einn skuttogara einhvern tíma. Nú er hann þó að hugsa um að greiða fyrir því, að það verði keyptir 3—4 togarar.

Hæstv. ráðh. fór um það allmörgum orðum í sambandi við hina fyrirhuguðu nefndarskipun sína, að það væru uppi ýmsar skoðanir um það, hvaða skipagerðir og skipastærðir væru okkur hentastar, þó að allir væru sammála um, að skip af skuttogaragerð væru það, sem koma skyldi. Það er rétt, að menn eru ekki allir á einu máli um það, þeir sem hafa kynnt sér þessi mál, hvaða skipastærðir einkum henta okkur. Og þó sýnist mér, að það séu aðallega tvær stærðir, sem þar er um talað, og þær, sem við bendum sérstaklega á í okkar frv. og okkar grg. Það eru annars vegar allstór skip, nokkru stærri en stærstu togarar, sem víð eigum nú, þ.e.a.s. um það bil 1100–1200 tonna skip, og hins vegar minni fiskiskip, um það bil 500 tonn. En ég mundi segja, að nú í hinni fyrstu lotu, meðan væri verið að kanna það, hvað hentaði bezt við hinar íslenzku aðstæður, ætti ekki að hafa það allt of þröngt, hvaða gerðir og stærðir yrðu fengnar til landsins. Þetta er að vissu leyti tilraunastarfsemi í byrjun, og ég mundi telja, að það væri eðlilegt, að a.m.k. tvær og jafnvel fleiri stærðir og gerðir yrðu reyndar og þá vitanlega þær, sem útgerðarmenn hafa sérstakan áhuga á og skipstjórar og aðrir, sem hafa kynnt sér þessi mál og koma til með að kynna sér þau, binda sérstakar vonir við. Ég teldi það óráðlegt að binda þessa tilraunastarfsemi við aðeins eina stærð skuttogara. Það þarf vissulega að fást reynsla á fleiri, a.m.k. þær tvær stærðir, sem menn eru nokkuð almennt sammála um, að fyllilega komi báðar til greina í sambandi við hagnýtingu íslenzkra fiskimiða.