14.04.1967
Efri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (2115)

197. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenzkum skipum flytur sjútvn. þessarar hv. d. að beiðni hæstv. sjútvmrh. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., hafa einstakir nm. óbundnar hendur um að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við afgreiðslu málsins. Frv. þetta er samið af nefnd, sem fyrrv. sjútvmrh. skipaði 5. ágúst 1966. Frv. var einnig flutt á síðasta Alþingi og var þá flutt til samræmis við annað frv., sem þá lá fyrir, um atvinnuréttindi vélstjóra. Það náði þó ekki að verða útrætt á þinginu og dagaði uppi. Mér er ekki kunnugt um, að um ágreining sé að ræða varðandi efni þessa frv., enda er það samið af mönnum, sem telja má að séu fulltrúar þeirra aðila, sem hér eiga hagsmuna að gæta.

Gildandi lög um það efni, sem frv. þetta nær yfir, eru frá árinu 1946, en síðan hafa að sjálfsögðu verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum, svo sem óhjákvæmilegt hefur verið vegna breyttra aðstæðna. Að þessu sinni er frv. þetta einnig nauðsynleg breyting til samræmis við önnur lög, sem þessum lögum eru nátengd. Inn í þetta frv. eru t.d. felld ákvæði laga um skipstjórnarréttindi á allt að 120 smálesta skipum til samræmis við lög um stýrimannaskólann í Reykjavík, enn fremur, að atvinnuskírteini skipstjóra á fiskiskipum af ótakmarkaðri stærð og verzlunarskipum allt að 400 smálestum verði eitt og hið sama. Það nýmæli er í þessu frv., að þeir, sem lokið hafa prófi úr 2. bekk farmannadeildar stýrimannaskólans, hljóti undirstýrimannsréttindi í takmarkaðan tíma. Siglingartími samkv. þessu frv. er styttur nokkuð frá því, sem nú er, og er ekki bundinn við utanlandssiglingar, eins og nú á sér stað varðandi verzlunarskip. Í þessu frv. er sú breyting varðandi aldursmark til að taka gildan siglingartíma, að það verður 15 ár í stað 16 ára áður.

Eins og þessar breytingar bera með sér, fela þær yfirleitt í sér nokkra rýmkun til handa skipstjórnarmönnum frá því, sem er í gildandi lögum. Þegar það er haft í huga, að þegar núgildandi lög voru sett, var skipastóll Íslendinga að miklum mun minni en nú og þá var tiltölulega meira framboð af skipstjórnarmönnum með atvinnuréttindi en nú á sér stað, er ekki óeðlilegt, að þær breytingar séu gerðar á lögum þessum, sem hér er lagt til, og að þær nái fram að ganga. Ég vil því, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr., en þar sem ég geri ráð fyrir, að málinu verði ekki vísað til n., mun sjútvn. fylgjast með því, sem fram kann að koma við afgreiðslu þess, og taka til nánari athugunar, eftir því sem nm. kann að finnast ástæða til.