12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2144)

67. mál, bætt aðbúð sjómanna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Fyrir hönd flutningsmanna till. vil ég þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu á henni. Við getum eftir aðstæðum sætt okkur vel við þær breytingar, sem gerðar eru. Eitt atriði í upphaflegu till., sem var flutt s.l. haust, hefur þegar verið afgreitt með lögum, en það, sem eftir stendur, er í meginatriðum varðandi aðbúnað síldarsjómanna í landi, en það er vissulega ástæða til þess að breikka svið till., þannig að teknar verði stærri fiskihafnir annara staðar en á Austurlandi. Tilgangurinn með hinni breyttu till. er einn og hina sami og með upphaflegu till., að leita ráða til að bæta aðbúð síldarsjómanna, þegar þeir eru í höfnum fjarri heimilum sínum, og ég vil leyfa mér að vænta þess, að till. geti orðið til þess að stuðla að þróun í þá átt.