02.02.1967
Sameinað þing: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2159)

44. mál, dvalarheimili fyrir aldrað fólk

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Þessi till. á þskj. 46 er flutt af mér og 4 öðrum hv. alþm. Till. var einnig flutt á síðasta þingi shlj. þessari og fékk þá ekki afgreiðslu. Efniskjarninn í till. er sá, að ríkisstj. er falið að skipa 7 manna n., einn frá hverjum þingflokki eftir tilnefningu flokkanna, einn frá Tryggingastofnun ríkisins, einn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og einn án tilnefningar og verði sá formaður. Þessi n. á að athuga og gera till. um, hvernig hagfelldast væri fyrir sveitar- og sýslufélög í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins og ríkið að koma upp á þeim stöðum víðs vegar um land dvalarheimilum fyrir aldrað fólk, þar sem hentugt kynni að þykja, og athuga möguleika á því, að þessir aðilar eignist færanleg íbúðarhús, sam aldrað fólk, t.d. hjón, gætu fengið leigð til íbúðar, á þeim stað þá, er þeim væri kærast að dveljast í ellinni, meðan heilsa leyfði dvöl utan elli- eða hjúkrunarheimilis.

Í grg. með till. er nokkurt yfirlit um það, hvernig aldurshlutföll hafa breytzt upp á síðkastið og hversu gífurlega þeim hefur fjölgað hlutfallslega, sem verða nú aldraðir. Þessi þróun er afleiðing af aukinni vísindalegri þekkingu og heilsugæzlu og af bættum lífakjörum þjóðarinnar almennt En um leið og gamla fólkið verður stærri og stærri hluti af þjóðinni, verður vitanlega að hugsa, fyrir þörfum þess sérataklega og á þann hátt, að hinir öldruðu geti átt þess kost að hjálpa sér sjálfir, svo lengi sem heilsa þeirra endist, og þeir geti fengið að dveljast þar í lengstu lög, sem hugur þeirra stendur til og þeir vilja helzt vera, enda á þann hátt líklegast, að þeir geti unnið sér og þjóð sinni eitthvert gagn, og það gagn, sem gamla fólkið getur gert með vinnu sinni, á vissulega að nýta. Með tilliti til þessa sjónarmiðs er sett fram sú hugmynd, hvort ekki mundi vera hægt að koma upp með samvinnu þeirra aðila, sem í till. eru nefndir, færanlegum íbúðarhúsum, sem aldrað fólk gæti fengið að nota, þar sem það helzt vildi vera eða gæti haft starf við sitt hæfi, auðvitað gegn hæfilegri leigu fyrir slíkar íbúðir. Tæknin hefur þegar leyst þá hlið málsins, að hægt er nú að taka heil hús, jafnvel stór hús, hvað þá lítil, eins og hér yrði um að ræða, upp og flytja á milli staða

Ég hygg, að flestir þekki dæmi þess, og ég þekki þau mörg, að aldrað fólk verður að flytjast burt frá heimkynnum sínum, þegar unga fólkið tekur við búskap eða atvinnurekstri hinna öldruðu, því að þá er hvergi pláss fyrir það. Væri hins vegar sá möguleiki að fá leigt hentugt húsnæði, meðan heilsan og einhverjir starfskraftar endast, yrðu flestir áfram í sínum heimahögum og gætu oftast veitt ýmsa aðstoð, sem vel væri þegin, bæði við uppeldi barna og ýmsa létta vinnu.

Þá er einnig mikil þörf á að koma upp dvalarheimilum á hentugum stöðum úti um land, helzt í hverri sýslu, fyrir gamla fólkið, þar sem það mundi dveljast ýmist í sér húsum eða margt saman, og þannig verður auðvitað alltaf að vera með þá, sem eru sjúkir og ekki sjálfum sér nógir að sjá um sig.

Ég tel ekki þörf á því að hafa um þetta miklu fleiri orð. Verkefni sem þessi þurfa mikillar athugunar við, ég vil segja: mjög gaumgæfilegrar athugunar, því að auðvitað kemur margt fleira til álíta heldur en það, sem hér hefur verið bent á í sambandi við þennan tillöguflutning, og auðvitað verður það með þetta vandamál eins og flest önnur, að hver kynslóð tekur það sínum sérstöku tökum.

Skýrslur hagstofunnar um lengingu manna ævinnar hér á landi benda á mikil verkefni fram undan fyrir okkur á þessu sviði, því að meðalaldur manna er nú orðinn einna hæstur hér á landi og hefur hækkað mjög ört síðustu tvo áratugi. Árið 1910 urðu 6.5% landsmanna 68 ára og eldri, en 1960 var þetta hlutfall 8.1%. Við flm. teljum, að þessi gleðilega þróun skapi verkefni, sem þarf að leysa með úrræðum, sem ekki eru of einhliða. Við bendum á vissar leiðir til athugunar og teljum, að í okkar hugmyndum séu úrræði, en við viljum, að allar færar leiðir í þessum málum verði athugaðar og reyndar. Ekkert allsherjarúrræði, sem eitt leysir vanda gamla fólksins og gæti verið því öllu jafnvel að skapi, mun finnast. Hér mun hver kynslóð vilja hafa sína aðferð, þegar fram í sækir.

Barnaheimili, skólar og leikvellir eru nauðsyn vegna æskunnar. Ellin þarf einnig sínar stofnanir. Málshátturinn segir, að tvisvar verður gamall maður barn. Þeim öldruðu fjölgar ört með þjóðinni. Við megum ekki gleyma þeirra þörfum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni. En ég sé, að það hefur verið gert ráð fyrir tveimur umr. um málið. Ég vil þess vegna leyfa mér að leggja til, að málinu verði nú að þessari umr. lokinni vísað til síðari umr. og til athugunar í hv. fjvn.