18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2162)

44. mál, dvalarheimili fyrir aldrað fólk

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Till. þessi til þál. um dvalarheimili fyrir aldrað fólk var til athugunar í fjvn. Efni till. var nokkuð rætt í n., og komst hún að sameiginlegri niðurstöðu um afgreiðslu málsins. Leggur fjvn. til, að tillgr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, á hvern hátt hagfelldast væri að koma á samstarfi milli sveitarfélaga, sýslufélaga og ríkis um skipulega uppbyggingu á dvalarheimilum fyrir aldrað fólk víðs vegar um landið. Í því sambandi skal m.a. haft í huga, að komið verði upp íbúðarhúsum fyrir aldrað fólk, t.d. hjón, sem ættu þess kost að fá húsnæði leigt.“

Það málefni, sem till. þessi nær til, er á síðari árum að verða meira og meira vandamál hinna ýmsu sveitarfélaga víðs vegar um landið. Það er því fyllilega tímabært, að Alþingi afgreiði till. þá, sem hér liggur fyrir, svo að það opinbera geti látið fram fara þá athugun, sem hér er lagt til.