08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2168)

56. mál, radíóstaðsetningarkerfi fyrir siglingar

Flm. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að flytja hér till. á þskj. 82 um athugun á radíóstaðsetningakerfum fyrir siglingar með sérstöku tilliti til fiskveiða. Það er gert ráð fyrir því samkv. till., að skipuð verði n. sérfræðinga til að gera athugun og till. um slík kerfi hér við Ísland með sérstöku tilliti til fiskveiða.

Þegar litið er til baka yfir tímabilið frá styrjaldarlokum, verður ljóst, að á þessu tímabili hefur orðið gífurlega ör þróun á öllu því, sem lýtur að tækniþróun á sviði siglinga og fiskveiða. Þetta er m.a. árangur af ýmsum uppfinningum; sem gerðar voru eða fullkomnaðar á styrjaldarárunum og voru notaðar beint í sambandi við styrjaldarreksturinn, en komu svo að almennum notum að styrjöldinni lokinni. Bezt munum við þekkja það tæki, sem þannig er ástatt um og notað er nú við fiskveiðar, hið svokallaða asdic- eða sónartæki, sem segja má að valdið hafi gerbyltingu í fiskveiðum okkar og þá fyrst og fremst síldveiðunum og er ein af meginforsendunum fyrir því, að sú þróun hefur getað átt sér stað í síldveiðunum, sem orðið hefur á síðustu 10 árum eða svo. Ýmis önnur tæki hafa komið fram á þessu tímabili, en ég vildi hér minnast á það, sem till. þessi fjallar um, hin svo kölluðu radíóstaðsetningarkerfi, sem rutt hafa sér til rúms á undanförnum áratugum á öllum fjölfarnari siglingaleiðum. Þar er um að ræða aðallega tvö kerfi, sem notuð hafa verið nokkuð eftir svæðum, svokölluð lórankerfi annars vegar og dekkakerfið hins vegar. Upphaflega voru þessi kerfi fyrst og fremst tekin í notkun vegna almennra siglinga og hafa haft mjög mikla þýðingu þannig. Þau hafa auðveldað siglingar og skapað mikið öryggi fyrir allar siglingar á þeim svæðum, þar sem þau ná til.

Það kom þó fljótlega í ljós, að slík kerfi geta haft mikla hagnýta þýðingu, ekki bara fyrir siglingarnar, heldur einnig fyrir fiskveiðarnar, og því hafa fiskimenn í vaxandi mæli tekið þessi kerfi í sína þjónustu og oft með mjög góðum árangri. Það hefur raunar oft verið rætt um það áður, að æskilegt væri, að til viðbótar því kerfi, sem við höfum hér á landi og er lórankerfið, yrði komið hér upp dekkakerfi, sem talið er að hafi ýmsa kosti fram yfir lórankerfið, aðallega það, að það er nákvæmara til staðsetningar, og með því að einmitt nákvæmnin í staðsetningu fiskiskipa í sambandi við fiskveiðar er eitt af höfuðatriðunum til þess, að góður árangur náist, hafa menn talið, að æskilegt væri að fá slíkt kerfi. Upphaflega þegar þetta var rætt, var það einkum með tilliti til almennra siglinga, en á seinni árum hafa menn meira og meira beint athygli sinni að þýðingu þess fyrir fiskveiðarnar. Og ég mundi segja, að einmitt þróunin á allra síðustu árum hefur gert mönnum þetta enn betur ljóst en áður, hverja þýðingu nákvæmt staðsetningarkerfi getur haft fyrir fiskveiðarnar og þá ekki sízt síldveiðarnar, sem stundaðar eru oft fjarri ströndum og krefjast oft mjög mikillar nákvæmni um staðsetningar.

Það er út frá þessu sjónarmiði, sem mér er kunnugt um að nú eru hafnar framkvæmdir í Noregi til þess að koma þar upp slíku staðsetningarkerfi. Það er út frá því sjónarmiði, að það verði að gagni fyrir fiskveiðarnar fyrst og fremst. Það hefur ráðið þar mestu um þær framkvæmdir, sem þar hefur verið ráðizt í og miða að því að koma upp slíku kerfi meðfram allri norsku ströndinni. Það var byrjað sunnarlega, suður undir Skagerak og Norðursjó, en er svo verið að færa sig norður eftir ströndinni, og menn vænta sér mikils af því að fá þetta kerfi, og einkum hef ég orðið var við það, að norskir síldveiðisjómenn telja mikið í húfi að fá slíkt kerfi. Þessu kerfi er þó samfara mjög mikill kostnaður. Það er mjög kostnaðarsamt að koma því upp, því er ekki að leyna, og þess vegna er mikils um vert, að allar aðstæður séu athugaðar mjög gaumgæfilega, bæði frá tæknilegu sjónarmiði og eins frá sjónarmiði fiskveiðanna, áður en ráðizt yrði í slíkar framkvæmdir. Mér er einnig kunnugt um það, að Norðmenn, eftir að þeir höfðu athugað málið mjög gaumgæfilega og látið sína sérfræðinga kanna allar hliðar þessa máls, réðust í þessar framkvæmdir. Þeir kostuðu miklu til. Sá undirbúningur mun hafa kostað margar millj. kr., áður en endanlega var hægt að taka ákvörðun um það, hvar og hvernig kerfinu skyldi komið upp.

Ég hef ástæðu til þess að ætla, að við gætum fengið að njóta mjög mikils góðs af þessum undirbúningsframkvæmdum Norðmanna, þar sem þær mundu að ýmsu leyti geta verið okkur til fyrirmyndar, og væri sjálfsagt að notfæra sér slíka tækniaðstoð, ef hún fengist, sem ég, eins og ég sagði, tel ástæðu til að ætla, að unnt yrði að fá. En hér eins og þar teljum við, sem þessa till. flytjum, nauðsynlegt, að áður en ákvarðanir verða teknar um æskilegar framkvæmdir, sé bráðnauðsynlegt, að fram fari mjög gaumgæfileg athugun á hinum mismunandi kerfum, sem hér er um að ræða og til greina geta komið, og það sé raunar ekki á færi annarra en sérfræðinga að athuga slíkt og sé raunar ekki hyggilegt að hefja neinar framkvæmdir, fyrr en fyrir liggi niðurstaða af slíkri sérfræðilegri athugun. Þar er fyrst og fremst um að ræða sérfræðinga á sviði þeirrar tækni, sem hér er um að ræða, en einnig verður nauðsynlegt, að þar komi til sérfræðiþekking á sviði fiskveiðanna Það er því von okkar, að þessi till. fái góðar móttökur hér á Alþ. og verði samþ. og komi síðar til framkvæmda

Ég vildi nú ljúka þessum orðum með því að leggja til, að till. verði vísað til síðari umr. að þessari umr. lokinni og til fjvn.