06.12.1966
Efri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er, eins og lýst hefur verið, borið fram til þess, að veitt verði formleg heimild fyrir rekstri sjónvarpsins. Eins og hæstv. menntmrh. hefur áður lýst yfir, mætti segja, að þó að slík formleg heimild hafi ekki verið áður, hefur efnislega ekkert verið gert nema eftir beinu samþykki Alþingis. En það rís upp sú spurning, þegar frv. sem þetta kemur fram um breytingar á l. um útvarpsrekstur ríkisins, hvort ekki hefði verið rétt að gera ýmsar aðrar breytingar á þessum lögum.

Þegar við 1. umr. var allmikið rætt um það af hv. 3. þm. Norðurl. v., og ég vil taka undir flest eða allt í meginatriðum, sem hv. þm. sagði í sambandi við þau atriði, sem hann fram taldi, að rétt væri að kæmu til athugunar við endurskoðun á þessum lögum. Það mætti að sjálfsögðu nefna ýmislegt fleira en þessi hv. þm. kom fram með, en ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara að fjölyrða um þá hlið þessa máls á þessu stigi málsins. Það mætti t.d. nefna, að það væri ástæða til þess að fella niður l. nr. 14 frá 1932 um opinbera greinargerð starfsmanna ríkisins. Í þessum l. er gert svo ráð fyrir, að embættismenn og sýslunarmenn ríkisins séu skyldir til þess að halda eitt eða tvö erindi á ári um störf þeirrar stofnunar eða starfsgreinar, sem maðurinn vinnur við. Eftir því sem ég bezt veit, held ég, að þetta hafi aldrei komið til framkvæmda, En þó að þetta hafi þótt geta komið til greina árið 1932, held ég, að allir geti verið sammála um, að það kemur ekki til greina að hafa lengur í lögum ákvæði sem þetta. Svona mætti nefna fleiri atriði, en ég skal ekki hverfa að því ráði nú.

Það er ákaflega þýðingarmikið í sambandi við endurskoðun laga um, útvarpsrekstur ríkisins að huga alveg sérstaklega að því, að útvarpið njóti viss sjálfstæðis — viss fjárhagslegs sjálfstæðis og viss sjálfstæðis gagnvart ríkisvaldinu á hverjum tíma. Þessi stofnun er þess eðlis, að ég tel, að það sé mjög mikið atriði, að þetta sjónarmið sé haft í huga, eftir því sem við verður komið. En ekki sízt verður þó að athuga sérstaklega um sjónvarpið og rekstur þess, þegar þessi lög koma endanlega til endurskoðunar, eins og gert hefur verið ráð fyrir og hæstv. menntmrh. hefur lýst yfir í umr. um þetta mál, að verði gert nú mjög bráðlega. Það þarf mjög að huga að ýmsu í því efni. Ég nefni aðeins eitt atriði, sem ég hef nokkuð hugsað um, án þess að ég hafi nú þegar myndað mér endanlega skoðun á því, en ég tel, að það sé eitt af grundvallaratriðum í sambandi við útvarpsreksturinn.

Samkv. l. fer útvarpsráð nú með vald til þess að ákveða dagskrána og undirbúa dagskrána, bæði í sjónvarpinu og hljóðvarpinu. Þetta er geysimikið vald, sem einu ráði er fengið í hendur. Það er ekki komin mikil reynsla á störf útvarpsráðs, síðan það fór að fást við bæði þessi verkefni, og það er ekki ástæða til þess að halda því hér fram, að það starf hafi gefizt illa eða útvarpsráð hafi ekki staðið í stöðu sinni á þessum stutta tíma, sem liðinn er frá því, að sjónvarpið var stofnað. En hins vegar, þegar við ræðum endurskoðun á þessum l. til frambúðar, virðist mér það koma mjög til greina, hvort þarna eigi ekki að vera tvö ráð, annars vegar til þess að dreifa ábyrgðinni, dreifa valdinu og hins vegar til þess að skapa grundvöll fyrir heilbrigðri samkeppni milli þessara tveggja greina ríkisútvarpsins.

Þetta frv. er til komið vegna sjónvarpsins. Og í sambandi við sjónvarpið skiptir það miklu máli og hefur verið margyfirlýst, hvenær sjónvarpið nær til landsbyggðarinnar í heild. Það eru allir sammála um, að það beri að verða svo fljótt sem nokkur kostur er. En ef við erum að ræða um þetta og viljum þetta, er okkur nauðugur sá kostur að gera okkur grein fyrir því, hvað það kostar að dreifa sjónvarpinu um landið allt. Sjónvarpsnefndin svokallaða gerði kostnaðaráætlun um þetta efni, tvær áætlanir, önnur miðuð við 5 ára framkvæmd, hin miðuð við 7 ára framkvæmd. En í báðum tilfellum var gert ráð fyrir, að kostnaðurinn væri 180 millj. Af þessum 180 millj. voru 30 millj., sem gert var ráð fyrir að kostaði að koma upp stöðinni í Reykjavík og til kaupa á nauðsynlegum tækjum. Samkv. upplýsingum, sem hæstv. menntmrh. hefur áður gefið Alþ., er þessi kostnaður í raun talinn vera um 80 millj. kr., þ.e. það, sem reiknað var með, að kostaði 30 millj. Það er rétt til skýringar í þessu sambandi að taka það fram, að í þessum 80 millj. eru 20 millj., sem eru rekstrarkostnaður á þessu ári, og stöðin, sem byggð var hér í Reykjavík, og húsakynni hennar eru miklu stærri en gert var ráð fyrir í áætlunum sjónvarpsnefndarinnar. En engu að síður má öllum vera ljóst, að það verður stórkostleg hækkun á kostnaði við það að dreifa sjónvarpinu um landið frá því, sem gert var ráð fyrir. Ég skal ekki fullyrða um það, hvað sá kostnaður verður að lokum, það getur í raun og veru enginn. Til þess eru þetta allt of miklar ágizkanir. En ég tel, að það hljóti að kosta a.m.k. 200 millj., sem gert var ráð fyrir í áætlun sjónvarpsnefndarinnar, að kostaði 150 millj. Ég held, að þessi fullyrðing mín sé ekki óvarkár, og þá geng ég út frá því, að flest í dreifingu sjónvarpsins fari eftir því, sem hinir tæknimenntuðu menn gerðu ráð fyrir, þegar þessi áætlun var gerð. En í dag er það ekki enn ljóst, hvort svo getur orðið í veigamiklum atriðum. Það liggur ekki enn þá fullkomlega ljóst fyrir, hvort það er hægt að senda mynd frá Skálafellsstöð að Bjargi í Hörgárdal eða um Vaðlaheiðarstöðina. Það er ekki enn þá víst. Ef það verður ekki hægt af tæknilegum ástæðum, raskast þessar áætlanir verulega til hækkunar.

Nú er talið, að um 110 þús. manns búi á svæði, sem geti náð til sjónvarpsstöðvarinnar, en dreifingin, sem þarf að framkvæma, sé fyrir 80 þús. manns. Ef við gerum ráð fyrir því, að tíundi hver maður á næstu 4 árum af þessum 80 þús. kaupi sjónvarpstæki, eru tekjur af aðflutningsgjöldum af þessum tækjum, miðað við 7500 kr. meðaltolltekjur af hverju tæki, 60 millj. kr. Ég taldi, að þessi kostnaður yrði aldrei undir 200 millj., og tel mig tala varlega. Af þessu sést, að hér þarf eitthvað meira að koma til, ef við ætlum að fram fylgja þeirri áætlun sjónvarpsnefndarinnar að dreifa sjónvarpinu á 5 árum um allt landið, hvað þá heldur ef við ætlum að gera það á skemmri tíma. Það er líka áætlað núna, eins og hæstv. menntmrh. hefur skýrt Alþ. frá áður, að tekjur af aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum verði á næsta ári 17.5 millj. kr. Það kann að vera, að þetta sé nokkuð varlega áætlað. Við skulum nú setja dæmið upp þannig, að í staðinn fyrir 17.5 millj., sem áætlað er, að tekjur af aðflutningsgjöldum séu næsta ár, verði þær 25 millj. og þær verði það næsta ár líka 25 millj. og þær verði þriðja árið líka 25 millj., sem er mjög vafasamt, og við skulum segja fjórða árið líka. Þá eru tekjurnar af aðflutningsgjöldum 100 millj. á næstu 4 árum. Þó að við værum svona bjartsýn á tekjurnar af aðflutningsgjöldum, sýnist mér, að það sé augljóst, að það verði að gera sérstakt átak, ef við ætlum að koma sjónvarpinu til alls landsins, — við skulum segja bara á 5 árum, hvað þá heldur á styttri tíma.

Aðrar tekjur sjónvarpsins eiga að vera afnotagjöld af tækjum og auglýsingatekjur. Það hefur verið gert ráð fyrir því, að afnotagjöldin og auglýsingatekjurnar standi undir rekstrinum, en tekjur af aðflutningsgjöldum standi undir stofnkostnaðinum. Nú hefur hæstv. menntmrh. sagt á Alþ., að hann telji, að það geti komið til greina, að afnotagjöldin frá því fólki, sem í dag getur ekki séð sjónvarpið, standi undir stofnkostnaði ásamt með tekjum af aðflutningsgjöldum. Þetta mundi hjálpa til. En ef við reiknum aftur með 8 þús. kr. tekjum, væru tekjurnar á ári af þessu 16 millj., ef afnotagjald sjónvarps væru 2 þús., en ef það væri 3 þús., þá 24 millj. En þetta leysir ekki heldur málið. Auk þess hygg ég, að í framkvæmd verði það mjög erfitt að verja miklu af þeim tekjum, sem upphaflega var gert ráð fyrir að færu í reksturinn sjálfan, til stofnkostnaðar, vegna þess að það mun sýna sig, að það mun líklega ekki veita af því, að þessu sé varið til rekstrarins. Og við skulum gera okkur grein fyrir því, að aðalátakið fyrir okkur í þessu litla þjóðfélagi að halda sjónvarpsrekstri uppi liggur ekki í stofnkostnaðinum, heldur liggur það í rekstrarkostnaðinum.

Mér sýnist því, að ef við viljum vera raunhæf í tali okkar um það að flýta dreifingu sjónvarpsins, verðum við að vera viðbúin því að þurfa að fá lán, þurfa að taka sérstakt lán til þess. Og þetta er líka þeim mun sjálfsagðara, þegar uppbyggingin er hugsuð þannig, að aðflutningsgjöldin standi undir stofnkostnaði. Við höldum því ekki nægilegum hraða á framkvæmdinni nema með því að skapa grundvöllinn fyrir því, að sjónvarpstækin séu keypt inn, og við sköpum ekki grundvöllinn nema með því að dreifa sjónvarpinu fyrst. Því láni, sem hér er um að ræða, mætti líkja við nokkurs konar útgerðarlán, eins og bátur þarf að taka til þess að fá aðstöðu til þess að skapa sér tekjugrundvöllinn með veiðunum á ver. tíðinni. Það er hliðstætt, sem við þurfum að gera í þessu efni. Nú vil ég ekki fullyrða, hvað þetta lán þarf að vera mikið né til hve langs tíma. Í áætlun sjónvarpsnefndarinnar með því verðlagi og þeirri viðmiðun, sem þar var, var gert ráð fyrir, að þyrfti 30 millj. kr. lán miðað við 5 ára áætlunina. Ég held, að við verðum að vera viðbúnir því, að það geti komið til þess, að við þurfum að taka verulega hærra lán. Með tilliti til þessa hef ég lagt fram till. á þskj. 114, brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir. Og sú till. er á þá leið, að ríkisstj. sé heimilað fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán allt að 100 millj. kr. eða tilsvarandi fjárhæð í erlendum gjaldeyri og endurlána þau lán ríkisútvarpinu til að koma upp sendistöðvum sjónvarps og ef hentara þykir geti útvarpsstjóri fyrir hönd ríkisútvarpsins tekið lán þau, sem hér um ræðir, og er þá ríkisstj. heimilað að ábyrgjast lánið fyrir hönd ríkissjóðs.

Ég tel, að ég hafi nú þegar fært nokkur rök fyrir því, að það sé þörf á því að fá þessa heimild inn í l. og það sé rétt að gera það einmitt nú í sambandi við þessa breytingu, sem fyrirhuguð er á l. Ég vil ekki fullyrða um, hvað það þarf að nota þessa heimild mikið. Það verður að ráðast. .Ég hygg, að miðað við þær hugmyndir, sem hafa verið uppi um, hvað það á að ske á stuttum tíma, að sjónvarpið nái til allrar landsbyggðarinnar, geti a.m.k. á næstu missirum verið hætta á því, að málið tefjist nokkuð af tæknilegum ástæðum. Það er ekki hægt að bjóða allar sendistöðvar sjónvarps út í einu. Sendingarkerfið er þannig byggt upp, að það þarf í framkvæmd að þreifa sig áfram með framkvæmdirnar, og það verður að ganga úr skugga um það, að hver hlekkur í keðjunni sé í lagi. En ef okkur tekst að dreifa sjónvarpinu eitthvað í líkingu við það, sem flestir, sem ég hef heyrt ræða um þetta, virðast hugsa sér, á örfáum árum, verðum við samt að vera viðbúnir því, að við getum leyst þessa tækniörðugleika, þannig að framkvæmdirnar gangi það fljótt, að við þurfum á lánsfé að halda.

Nú geri ég mér grein fyrir því, að þegar svona till. er borin fram, getur komið fram það sjónarmið, að það sé í mörg horn að líta með fjárútveganir fyrir það opinbera, og það skil ég vei. Auðvitað er í mörg horn að líta. Ég geri mér líka grein fyrir því, að það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að taka mikil lán, hvað hægt er að fá mikil lán. Ég geri mér alveg grein fyrir þessu. Og ég geri mér líka grein fyrir því eða tel mig gera mér nokkra grein fyrir því, hvað rétt sé að taka mikil lán, þó að þau væru fáanleg. Þegar svona mál sem þetta og svona till. er borin fram, viðurkenni ég réttmæti slíkra sjónarmiða sem þessara. Ég viðurkenni réttmæti þess, að þetta þarf að leggja niður fyrir sér. Við þurfum að leggja þetta mál niður fyrir okkur. Það er einu sinni svo, eins og einhver vitur maður hefur sagt, að að stjórna er að velja og hafna. Og þetta mál er þess eðlis, að mér finnst ekki koma til mála að útiloka það fyrir fram, þegar við athugum málið frá þessu sjónarmiði gaumgæfilega. Til þess er sjónvarpið allt of stór þáttur og verður allt of stór þáttur í menningar- og skemmtanalífi þjóðarinnar, að það sé bægt að ganga fram hjá því, þegar við viljum velja og hafna með tilliti til þess, hvað við höfum efni á.

Ég ætla ekki hér að fara að þreyta hv. þdm. á því að fara að lýsa þýðingu sjónvarpsins. Um hana vitum við allir jafnvel. En áður en ég lýk máli mínu, vil ég líta á þetta mál ekki einungis frá sanngirnissjónarmiði, sem oft er haldið fram í þessu efni. Og ég tek undir það, mér finnst það sanngirni, að við leitumst við og það verði okkar stefna, að allir landsmenn geti notið þessa menningartækis eins fljótt og auðið er. En ég vil líta á þetta mál líka út frá öðru sjónarmiði, og það er sjónarmið, sem kemur harla oft til athugunar hér á hv. Alþ. Það er spurningin um jafnvægi í byggð landsins. Nú er það, að allir eru sammála um, að það eigi að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Menn greinir kannske eitthvað á um framkvæmdina í því efni og greinir kannske eitthvað á, hverjir hafi gert mest í því efni, þó að ég sé hins vegar sannfærður um það og ég hygg flestir sanngjarnir menn, að það hefur aldrei verið gert meira í því efni en á síðustu árum. Á ég bæði við þá nýjung að taka upp sérstakar framkvæmdaáætlanir fyrir heila landshluta, eins og Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun, og hina stórkostlegu eflingu atvinnujöfnunarsjóðs. Það verður ekki annað sagt og það verður ekki á móti mælt, að það hefur verið stefnan á undanförnum árum að gera stórátök til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. En hvers vegna minnist ég á þetta mál í sambandi við sjónvarpið? Það er vegna þess, sem ég hygg, að öllum sé augljóst, að meðan sjónvarpið er einungis fyrir þéttbýlið eða þau byggðarlög, sem eiga ekki í vök að verjast vegna fólksflutninga, verkar þessi menningarstarfsemi íslenzka ríkisins á móti þessari stefnu, sem við höfum leitazt við að framkvæma. En um leið og við höfum komið dreifingu sjónvarpsins til þeirra byggðarlaga, sem fyrst og fremst hafa átt í vök að verjast vegna fólksflutninga, er þetta að mínu viti í bráð ein sterkasta ráðstöfunin, sem við getum gert til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Nú eru gerðar margs konar ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð íandsins. Einna mest ber á ráðstöfunum til þess að efla atvinnuvegina, styðja við atvinnufyrirtæki eða stofnun nýrra atvinnufyrirtækja, bæta samgöngur, eins og í Vestfjarðaáætluninni og öðru þess háttar. Þetta er allt ákaflega þýðingarmikið. En það er komið í ljós, sem menn hafa að sjálfsögðu alla tíð vitað, og það hefur orðið verulega áþreifanlegt í meðferð þessara mála á undanförnum missirum, að það er fleira en atvinnumálin, sem skiptir máli til þess að rétta hlut þessara byggðarlaga. Og það er meira að segja þannig, að í sumum byggðarlögum, sem hafa átt í vök að verjast vegna fólksflutninga, hefur atvinna verið kappnóg og jafnvel tekjurnar jafnháar og í sumum tilfellum hærri en á þeim stöðum, sem fólkið fer til. Hvað er það þá, sem veldur? Það er ekki það í þessu tilfelli, að fólkið þurfi á auknum tekjum að halda? Það er, að það telur sig ekki hafa aðstöðu eins og það vill hafa til þess að eyða tekjunum. Og hvaða aðstaða er það, sem fólkið vill hafa? Það vill fyrst og fremst hafa aðstöðu til þess að geta notið þess menningarlífs, sem sérstaklega er bundið við þéttbýlið. Og það leggur svo mikið kapp á þetta, að það flyzt búferlum til þess að geta notið þessa.

Það hefur komið í ljós, eins og ég sagði áðan, að það er mjög erfitt að ráða við þetta. Það getur haft þýðingu að byggja félagsheimili, byggja skóla og fleira þess háttar. En það er eins og það hafi stundum ekki nein úrslitaáhrif. Og manni verður þá í sumum tilvikum að halda, að fólkið leggi áherzlu á að geta notið þess menningarlífs, sem er þess eðlis, að það er ákaflega erfitt að halda því uppi nema í þéttbýlinu. Ef fólkið á að geta notið þess og ef það kemur ekki í þéttbýlið, verðum við að koma þessu til fólksins. Erfiðleikarnir hafa verið þeir, að við höfum ekki getað komið þessu til fólksins og getum aldrei komið því til þess að öllu leyti eftir venjulegum leiðum. En þá kemur þetta tæki, þetta mikla menningartæki, sjónvarpið, mér liggur við að segja upp í hendurnar á okkur til þess að aðstoða okkur í þessu mikilvæga máli. Og ég tel, að þetta verði þýðingarmeiri hjálp og ódýrari hjálp, ódýrari aðstoð, ódýrari aðgerðir en flest annað, sem völ er á í bili og þýðingu hefur. Ég vænti þess því, að það þyki rétt að taka upp í þetta frv. heimild til lántöku til að dreifa sjónvarpinu um landið.