17.04.1967
Sameinað þing: 31. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2200)

177. mál, ellefu hundruð ára afmæli byggðar á Íslandi

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, var á s.l. vori kosinn til þess að íhuga og gera till. um, með hverjum hætti minnzt skuli ellefu hundruð ára afmælis byggðar á Íslandi, og hefur hún starfað rösklega og skilað áliti, sem daga. er hina 17. man. Mér þótti rétt, að þetta álit ásamt þeim till., sem í því eru, kæmi til athugunar hjá hv. Alþ. nú þegar, vegna þess að ljóst er, að allur undirbúningur og aðdragandi þessa máls hlýtur að taka langan tíma og hér eru vissulega mörg vafaatriði, sem þarf að skera úr.

N. hreyfir í sínu áliti ýmsum hugmyndum og þá sérstaklega, að byggt skuli þjóðarhús á Þingvöllum, sem ætlað sé til samkomuhalds þar. M.a. er því hreyft, að rétt gæti verið að setja Alþingi í því húsi, þar færu fram ýmis fundarhöld, sem mikilvæg þykja, þar yrðu t.d. Norðurlandaráðsfundir haldnir, ef þá ætti að hafa á Íslandi, og ýmislegt fleira kæmi til álita. Það er vafalaust, að mikil þörf er á betri byggingum á Þingvöllum en nú eru þar. Valhöll er orðin gömul og úrelt, og þarna þarf að reisa gististað. Það er nokkuð annað en hér er hreyft, enda hygg ég út af fyrir sig, að ekki ætti að vera vonlaust um, að hægt væri á Þingvöllum að byggja hótel, sem gæti borið sig. Hvort það þyrfti að fá einhvern styrk eða ekki, skal ég ekki um segja, en nú, eftir að rafmagn er komið til Þingvalla og þar væri á sumrum hægt að hita upp sundlaug t.d., ætti að vera þar mjög ákjósanlegur sumardvalarstaður, ef viðhlítandi hótel er. Þar ætti einnig að vera gott að vera að vetri til við skautasvell og aðrar slíkar iðkanir. Þetta mál út af fyrir sig felst ekki í till. n., heldur að byggja þetta svokallaða þjóðarhús, en um það skortir allar nánari hugmyndir, hversu stórt það ætti að vera og þar með hver kostnaður yrði af því. Það er ómögulegt að taka ákvörðun um slíkt, fyrr en þessi hugmynd er betur unnin en kemur fram í nál. Eðlilegast mundi vera að láta fara fram hugmyndasamkeppni eftir tilvísum n. og síðan reikna út kostnað við þær hugmyndir, sem mönnum litist bezt á.

En þá kemur einnig til álita, hvort menn telja ráðlegt að byggja slíkt hús á Þingvöllum með takmörkuðum notum, sem þar yrðu af því, eða leggja áherzlu á byggingu nýs þinghúss hér í Reykjavík og/eða stjórnarráðsbyggingar. Það er ekki von, að n. út af fyrir sig taki ákvörðun um þetta. Þetta verða rétt stjórnarvöld ríkisins að taka ákvörðun um, þegar öll gögn eru fyrir hendi. Það er þegar búið að vinna mjög mikið að undirbúningi stjórnarráðsbyggingar og safna nokkru fé til hennar. Þinghúsbyggingin er hins vegar ekkert á veg komin og menn ekki einu sinni búnir að koma sér saman um lóð. En þessar tvær byggingar, stjórnarráð nýtt og þinghús, eru byggingar, sem verða að koma upp á allra næstu tímum. Hvort menn til viðbótar treysta sér til að ráðast í þetta þjóðarhús, sem við út af fyrir sig verðum að játa, að er mjög góð og æskileg hugmynd, úr því treysti ég mér ekki til að skera og gera upp minn hug, fyrr en ég sé nánar unnið úr hugmyndinni og kostnaðaráætlanir liggja fyrir.

Náskyld þessu er svo hugmynd, sem einnig kemur fram hjá n. um listamannabúðir á Þingvöllum. Þar vaknar að vísu sú spurning, hvort þær mættu þá vera þannig, að þær sæjust frá hinum forna þingstað, hvort þær yrðu ekki að vera bak við Skjaldbreið eða önnur fjöll, svo að þær trufluðu ekki útsýn frá Þingvöllum. Ég skal ekki um það segja. Menn eru nú orðnir mjög strangir um friðun staðarins, og allra sízt mundu listamenn kjósa að brjóta þá friðhelgi. Þetta er sagt meira til gamans, en vissulega er þetta hugmynd, sem einnig er athugunar og athygli verð, en er auðvitað smáræði miðað við sjálft þjóðarhúsið, sem er sú þýðingarmikla hugmynd.

En hvað sem líður byggingu á Þingvöllum, hygg ég, að allir hljóti að verða sammála um, að þjóðhátíð á ellefu hundruð ára afmæli Íslands byggðar getur hvergi farið fram nema á Þingvöllum. Að vísu má segja, að Íslandsbyggð hafi hafizt hér í Reykjavík, en allar okkar miklu þjóðhátíðir eru svo tengdar við Þingvelli, að þar verður slík hátíð að fara fram, og n. bendir réttilega á, að til þess að svo geti orðið, þarf að bæta mjög vegasambandið austur. Ég skil ekki till. svo, eins og ég sá í einhverju blaði, að það sé beinlínis lagt til, að allur vegurinn til Þingvalla og í kringum Þingvallavatn og aftur til baka sunnanvert yrði malbikaður, en það er ljóst, að það þarf mjög að bæta veginn, ef hann á að geta annað nútímaumferð, sem ætla má að verði enn þá meiri að vísu eftir 7 ár en jafnvel nú.

Þetta er um byggingarnar, og við sjáum, að þar koma ýmis vafaatriði til greina, sem þarf að skera úr og þarf að undirbúa nánar, áður en hægt er að taka fullnaðarákvörðun.

Varðandi útgáfustarfsemi bendir n. á þá hugmynd, að gert sé úrval úr íslenzkum bókmenntum, og er það vissulega mjög freistandi og fyllilega takandi til athugunar. En það þarf einnig að athuga það nánar, hver kostnaður verði af því og hvernig þessu yrði hrundið í framkvæmd í einstökum atriðum og þá hvort þetta gæti orðið samtímis því, sem samin yrði sæmileg Íslandssaga, og ef menn telja hvort tveggja, ef svo má segja, ofrausn, hvort menn kjósa þá fremur. Um þetta þarf einnig nánari grg. og kostnaðaráætlanir, áður en ákvörðun er tekin.

Hitt hygg ég, að allir hljóti að verða sammála um nærri því athugunarlaust, að sjálfsagt sé að reyna að koma upp sögusýningu svipaðri og hér var höfð 1944 og í heild tókst mjög vel og er okkur í fersku minni, sem hana sáum, og rifjaði upp fyrir okkur ýmiss konar atburði.

Ýmiss konar listahátíðir eru auðvitað einnig sjálfsagður hluti þvílíkrar þjóðhátíðar, sem við hyggjumst efna til.

Ég verð aftur á móti að segja, að mér finnst vafasamara hvort eigi að láta smíða víkingaskip og fara að sigla um höfin að Norðurlöndum og kannske alla leið til Vínlands hins góða. Mér finnst sú hugmynd kannske heldur ameríkanaleg, til þess að hún eigi við í þessu sambandi, en segi það ekki í neinu niðrunarskyni. En það er meiri auglýsingabragur á því út á við heldur en það hafi þýðingu fyrir okkur sjálfa.

Aftur á móti lízt mér ágætlega á hina hugmyndina, að það verði byggð eftirlíking af bæjum, sveitabústöðum, eins og þeir voru á söguöld. Það er mjög fróðlegt fyrir okkur alla t.d. að koma í Þjórsárdal og sjá þá byggð, sem þar hefur verið grafin upp, og það ætti að vera auðvelt, miðað við þær rústir, sem menn hafa þar, og aðrar upplýsingar, að gera sannsögulega eftirlíkingu, sem yrði til þess að færa alla þessa atburði okkur nær.

Eins og ég segi, eru mörg atriði í þessu nál., sem öll eru athyglisverð, en flest þannig, að það þarf að íhuga þau nokkru nánar. N. hefur ekki talið sig að svo stöddu hafa aðstöðu til þess að láta þá íhugun fara fram. Ég skal geta þess, að n. óskaði þess sjálf að starfa launalaust að því verki, sem hún hefur hingað til unnið, og enginn kostnaður hefur orðið af n. annar en lítils háttar ferðakostnaður, vélritunarkostnaður og annað, sem sjálfsagt er að greiða, en að svo miklu leyti sem hér yrði melri háttar undirbúningsstörf að vinna, er eðlilegt, að bæði nm. sjálfir fái einhverja greiðslu, en einkanlega er ekki hægt að ætlast til, að sú mikla undirbúningsvinna, sem verður að leysa af hendi, áður en ákvörðun er tekin, verði gerð, nema til þess sé ætlað fé, til þess að n. geti fengið nauðsynlega aðstoð og greitt fyrir, eftir því sem atvik standa til

Til þess að halda þeirri athugun áfram, sem þegar er hafin, og til þess að hafa nauðsynlegt fé, var ákveðið að flytja þá þáltill., sem nú liggur fyrir til umr. Ég tók upp í hana þau helztu atriði, sem ég taldi rétt að athuguð yrðu nánar. Með því kveð ég engan dóm um það, að hin atriðin komi ekki einnig til álita. Það er einungis sagt, að þetta sé það, sem einkanlega þurfi að rannsaka nánar. Þegar þær athuganir liggja fyrir, kemur það svo til kasta ríkisstj. og Alþ. að taka ákvörðun um það í einstökum atriðum, í hvaða meiri háttar mannvirki skuli ráðizt. Minni háttar atriði hljóta að verða í höndum þeirra, sem fyrir hátíðinni standa. Það er ekki ætlan mín á þessu stigi, að n. verði breytt í beina framkvæmdanefnd hátíðarinnar. Um það verði tekin ákvörðun síðar, hvort það verði þessi n. eða önnur n., ein eða fleiri, sem framkvæmd hátíðarhaldanna hafi með höndum. Ég get trúað því, að það þurfi nokkuð að sundurgreinast, þegar menn eru búnir að koma sér niður á, í hvaða mannvirki eigi að ráðast, en þangað til ákvörðun um slíkt verður tímabær, tel ég rétt, að starfsumboð núverandi n. verði framlengt og þá verði ákvörðun tekin um það.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál, en legg til, að því verði vísað til síðari umr. að þessari umr. lokinni og til fjvn., vegna þess að hér er efnt til á fyrsta stigi nokkurra útgjalda og á seinni stigum til mjög verulegra útgjalda. Við skulum ekki minnka það í okkar huga, að af þessu hlýtur að verða verulegur kostnaður. Ég hygg hins vegar, að allir muni verða sammála um, að það sé töluvert leggjandi á sig til þess að gera þennan atburð eftirminnilegan. Það er enginn vafi á því, að þjóðhátíðin 1874 hafði mjög vekjandi áhrif á hug Íslendinga. Við, sem vorum ungir 1930, höfðum þá hátíð stöðugt í huga sem einn af merkustu atburðum, sem við höfðum lifað, og við vonumst til þess, að sú hátíð, sem við nú ræðum um, muni í framtíðinni standa í sams konar ljóma fyrir seinni tíma mönnum og þessar tvær hátíðir standa í okkar huga.