17.04.1967
Sameinað þing: 31. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (2203)

177. mál, ellefu hundruð ára afmæli byggðar á Íslandi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja hér nokkur orð til íhugunar fyrir þá hv. n., sem væntanlega fær þessa till. til meðferðar:

Þegar Alþingi kom saman í fyrra, þ.e.a.s. Alþingi 1965, lágu á borðum okkar þm. á meðal fyrstu þskj. till. frá hæstv. forsrh. um það. hvernig minnst skuli ellefu hundruð ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1974. Hæstv. forsrh. mælti fyrir þessari till., að ég ætla hinn 20. okt. 1985, og hóf mál sitt á því, að hér væri um að ræða merkisafmæli og að í sambandi við merkisafmæli í sögu landsins hefði verið siður að efna til stórhátíða í landinu. Í því sambandi nefndi hann Þjóðhátíðina 1874 og Alþingishátíðina 1930. Nú erum við þm. og fleiri í þessu landi alltaf nokkuð veikir fyrir stórhátíðum, og þetta mál hlaut afgreiðslu óbreytt, eins og það var lagt fram hér í þinginu. Því var vísað til hv. allshn. Hún lagði til, að till. yrði samþ., og var ég raunar einn þeirra, sem voru þá í þeirri n., og féllst á það, að till. yrði samþykkt. En hún var um það að kjósa 7 manna n. til að íhuga og gera till. um, með hverjum hætti minnzt skuli á árinu 1974 ellefu hundruð ára afmælis byggðar á Íslandi, og að forsrh. skyldi skipa formann n. N, var síðan kjörin, eftir að Alþingi hafði samþykkt till. með 33 shlj. atkv. Nú hefur þessi n. starfað um hríð og skilað bráðabirgðaáliti til hæstv. ríkisstj., og liggur það hér fyrir á þskj. 177 ásamt nýrri till. til þál.

Ýmislegt hata menn að sjálfsögðu hugsað um þetta mál, síðan við afgreiddum það hér á þingi í fyrra, og mér hefur m.a. komið það í hug síðan, sem ég hafði ekki íhugað þá, að það standa fleiri afmæli fyrir dyrum á þessari öld, sem nú er að líða, og sum þeirra gætu sennilega gefið nokkurt tilefni til hátíðarhalds hér í landinu, bæði afmæli mikilla viðburða og afmæli mikilla manna frá þjóðveldistíma, svo að ekki að lengra haldið. Ég vil minna á það t.d., að á þessari öld er, að ég ætla, 900 ára afmæli þess manns, sem kallaður hefur verið faðir íslenzkrar sagnaritunar, þ.e.a.s. Ara prests hins fróða Þorgilssonar, sem lagði grundvöllinn að hinni fyrstu Íslandssögu. Einnig á þessari öld og áður en mjög langt líður er 800 ára afmæli, að ég ætla, annars mikils manns frá þjóðveldistíma, sem nýtur nú kannske meiri frægðar í veröldinni, sem er Snorri Sturluson, og þar sem þess var minnzt með nokkurri viðhöfn hér á landi árið 1941, sem Árni beiskur gerði í Reykholti, ætla ég, að ekki muni þykja annað tilhlýðilegt en að sjálfs fæðingarafmælis Snorra verði minnzt, þegar þar að kemur.

Ég nefni þetta og nefni þá það um leið, að einnig á þessari öld, eftir svo sem eitthvað á annan áratug, ef ég man rétt, er ellefu hundruð ára afmæli byggðar á Grænlandi, sem Íslendingar voru nokkuð mikið við riðnir, og sumir kynnu að álíta, að það stæði okkur nærri að minnast þess. Og á síðaata ári þessarar aldar verða tvenn þúsund ára afmæli, þúsund ára afmæli kristnitökunnar á Þingvöllum við Öxará og þúsund ára afmæli þess, er Íslendingar fundu Vínland, sem er heimssögulegur viðburður, auk þess sem það er mikill viðburður í okkar sögu. Nú er ég að nefna þetta vegna þess, að n. situr á rökstólum, og vera má, að hún verði látin halda áfram störfum, og þá væri e.t.v. rétt að benda henni á það eða nefna það sérstaklega við hana, að ástæða gæti verið til þess að hafa þessi merkilegu afmæli síðar á öldinni í huga, um leið og rætt væri um afmælið 1974, vegna þess m.a., að sum þeirra verkefna, sem menn eru að orða í sambandi við ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar, kynnu að eiga fullt svo vel við í sambandi við þau afmæli, þegar þar að kemur, það væri mjög til athugunar, og svo annað til hátíðabrigðis.

Í þessari till., sem nú liggur fyrir, felst það, að þjóðhátíðarnefndinni fyrir 1974 er falið að halda áfram störfum og gera nánari grein fyrir till. sínum, og jafnframt er því bætt við, að n. heimilist að afla sér nauðsynlegrar aðstoðar í þessu skyni, en greiða skuli allan kostnað af þessu úr ríkissjóði. Ekki er það nema eðlilegt, að ríkissjóður greiði kostnað við slíka n., en þó vil ég beina því til hv. n., sem þarf sjálfsagt ekki að orða við fjvn þingsins, að vel fer á því í sambandi við slíkan undirbúning og t.d. hugsanleg ferðalög og öflun sérfræðiþekkingar í því sambandi, að öll aðgát sé höfð um notkun fjármuna, og mun það þá ekki síður eiga við, þegar að því kemur að halda sjálfa hátíðina og framkvæma það, sem gera skal til hátíðabrigðis. Þessar hátíðir hafa stundum kostað nokkuð mikið fé, og er mér það m.a. minnisstætt, vegna þess að ég hef verið að lesa merkilega bók, sem kom út núna í lok ársins sem leið, eftir Þorstein Thorarensen blaðamann, um það, sem hann kallar gullöldina á árunum 1901—1910, en þar ræðir hann um þau miklu hátíðarhöld, sem áttu sér stað þá, voru undanfari uppkastsins, sem hann segir, að hafi þá orðið nokkuð dýr og mælzt misjafnlega fyrir í landinu. Þetta er nú aðeins til þess að minna á. að einnig þessa hlið þarf að hafa í huga, þegar við efnum til stórhátíðar.

Í áliti n. er minnzt á eitt og annað, sem n. hefur komið til hugar, að gera mætti til hátíðabrigðis. T.d. vill hún stuðla að því, að gefið verði út sýnishorn íslenzkra bókmennta í 58 bindum, og nánar til tekið, hve mörg bindi eigi að vera af hverri grein bókmenntanna: 12 bindi af fornritum, 10 bindi af ljóðum, 12 bindi af skáldsögum o.s.frv., og loks ræður og ritgerðir, alls 6 bindi. Þá er hér rætt um ýmislegt fleira, eins og víkingaskipið, sem var minnzt á áðan og sem ég er sammála höfundum till. um, að við eigum ekki að láta smíða. Ég held, að við Íslendingar eigum margs annars frekar að minnast frá uppruna þessarar þjóðar en þess, að við séum komnir af víkingum. Og ekki ætla ég, af því að Írar eru nefndir sérstaklega í þessari grg., að við gætum ætlazt til þess, að Írar færu sérstaklega að fagna þessu víkingaskipi, þegar það kæmi þar að ströndum, því að hinir fornu norrænu víkingar gerðu mikið að því að fremja þar sams konar verknað og hér var framinn á 17. öld snemma og ekki hefur mælzt vel fyrir meðal Íslendinga.

Það er minnzt hér á margt fleira, og í till., sem hér liggur fyrir, er ætlazt til þess, að n. geri nánari till. um þetta og sérstaklega um hugsanlegt þjóðarhús á Þingvöllum og kostnað við byggingu þess, byggingu eftirlíkingar á sögualdarbæ o.s.frv. Mér finnst þessar hugmyndir um byggingu þjóðarhúss á Þingvöllum og byggingu sögaaldarbæjar vera mjög athyglisverðar.

Í grg. frá n. er þess getið, að þegar 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar var minnzt árið 1874, hafi það verið gert víða um land. Þjóðhátíðirnar voru margar 1874, þær voru víða. Og það hafa menn sjálfsagt fundið, að var mjög tilhlýðilegt, því að hvers var verið að minnast og hvers á að fara að minnast nú? Það á að fara að minnast byggðarinnar í landinu, íslenzkrar landsbyggðar. Og mér finnst, að við ættum að hafa það fyrst og fremst í huga, þegar við erum að ákveða, hvað eigi að gera í ellefu hundruð ára minningu landsbyggðarinnar, hvort ekki er hægt að hafa eitthvað það til hátíðabrigðis, sem tryggir það, að þessi landsbyggð haldi áfram, að landið haldi áfram að vera byggt, að það verði t.d. byggt, þegar aðra stórhátíð þarf að halda árið 2074 í minningu landsbyggðar. Í sambandi við það held ég, að það ætti að leggja fyrir n., ef hún starfar áfram, að hafa samband við héruðin í landinu. 1874 voru, ef ég man rétt, héraðsnefndir starfandi í hverju héraði, og slíkum n. þyrfti að koma upp, og þær n. í héruðunum, héraðsnefndir eða byggðanefndir, ættu að hafa sitt að segja um það, hvernig þessi hátíð fer fram. Það á að leita þeirra till. um þetta og hvað gert verður til hátíðabrigðis. Þá ætla ég, að þær muni ekki gleyma því, sem ég nefndi áðan.

Ég hefði álitið, þar sem langt er liðið á þing, að það gerði ekki til, þó að þessi þáltill. yrði ekki afgreidd fyrr en t.d. á næsta hausti, þegar þing kemur aftur saman. Það bendi ég aðeins á til íhugunar, en þá væri ráðrúm til þess að fela kannske n. eða hlutast til um það við n., að hún kanni hugi manna í þessu efni víðs vegar um landið, og það gætu einnig þm. gert. Þeir munu flestir, sem hér eru, eiga erindi út um landið á næsta sumri, og gætu þeir þá í leiðinni e.t.v. kannað hugi manna í þessu máli, þó að það eigi auðvitað ekki að koma sérstaklega inn í þær almennu viðræður, sem verða af því tilefni.

Þetta tvennt vildi ég þá láta fram koma, eða kannske þrennt: Í fyrsta lagi, að gætt sé eðlilegrar varúðar í sambandi við fjárútlát í þessum efnum. Í öðru lagi, sem er meira um vert, að við séum þess minnugir, hvers við erum að minnast, að við erum að minnast ellefu hundruð ára landsbyggðar á Íslandi. Við verðum þar af leiðandi að miða undirbúning hátíðarinnar og hátíðina sjálfa að verulegu leyti við það, og þá er eðlilegt, að hér fái fleiri um að fjalla heldur en nefnd, sem kosin er af Alþ. Í því sambandi mundi það ekki skaða, að afgreiðslu till. væri frestað til haustsins. Þetta nefni ég til íhugunar fyrir þá hv. n., sem fær málið til meðferðar.