17.04.1967
Sameinað þing: 31. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (2204)

177. mál, ellefu hundruð ára afmæli byggðar á Íslandi

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það var einungis út af síðustu orðum hv. síðasta ræðumanns, að það skaðaði ekki, þó að afgreiðslu till. yrði frestað. Um það má auðvitað lengi deila, og út af fyrir sig eru hans aths., sem ég heyrði, íhugunarverðar. Ég þurfti þó að skreppa frá, svo að ég heyrði ekki alveg alla ræðu hans, en ég held, að ég hafi fylgzt með meginefni hennar. En sérstaklega vil ég benda á það út af aths. hv.3. þm. Norðurl. e., að hér þarf ýmiss konar samanburð að gera og tíminn flýgur frá okkur, þannig að áður en hægt er að taka ákvarðanir, þarf að undirbúa þetta mál mun betur en enn hefur verið gert.

Ég ítreka það, sem ég sagði áður, að n. hefur unnið gott starf á stuttum tíma og þetta eru mjög merkar till., sem frá henni koma. En ég tek undir það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að það er hæpið, að við getum ráðizt í öll þessi mannvirki í einu, eins og raunar kemur fram hjá n. og hv. 5. þm. Reykn. lagði einnig áherzlu á sem nm., að þarna þarf að velja og hafna. Til þess að réttir aðilar geti gert það, þarf að vinna ósleitilega að málinu, þannig að það verði hægt fljótlega, helzt á næsta hausti, hverjir sem þá hafa hér ákvörðunarvald, að gera upp sinn hug, hvað af þessum mannvirkjum menn vilja ráðast í. Nú bendi ég þó á, að ef við eigum að hafa hugmyndasamkeppni og í alvöru að velta fyrir okkur hugmyndinni um þjóðarhús á Þingvöllum, þá tekur það lengri tíma en bara sumarið. Það getur legið ljósara fyrir næsta haust, en það tekur lengri tíma. Alveg eins tek ég undir það með hv. 3. þm. Norðurl, v., að það er auðvitað brýn nauðsyn að gera upp sinn hug um þinghúsbyggingu og það má ekki dragast öllu lengur. Það má ræða um það, hverjum það sé að kenna. Það er eins og fleira engum sérstökum um að kenna, menn hafa hliðrað sér eða skotið sér undan vandasömum ákvörðunum, af því að menn eru ekki sammála um, hvernig vandann elgi að leysa. Þetta má ekki dragast öllu lengur.

Það, sem liggur fyrir í þessu máli, er: Vilja menn ráðast í þjóðarhúsið á Þingvöllum alveg án tillits til annarra framkvæmda, eða vilja menn t.d. ráðast í þinghúsbyggingu samtímis eða láta þinghúsbygginguna ganga fyrir? Á þessu má ekki vera neinn dráttur í undirbúningi, vegna þess að sjálf framkvæmdin hlýtur að taka svo langan tíma. Þess vegna held ég, að menn eigi nú þegar að samþykkja þessa till. Það má breyta orðalagi og bæta inn í athugun á fleiri atriðum, en n. þarf að fá umboð til þess að starfa áfram. Samkv. sínu nál. telur hún, að umboð sitt sé nú fallið niður. Hún þarf að fá heimild til þess að verja töluverðu fé til athugunar málsins. Án þess að fá þá heimild stendur málið fast nú um nokkurra mánaða skeið. Ég er ekki að binda mig við neina ákveðna hugmynd á þessu stigi, en segi: Við eigum að hraða málinu héðan af Hv. 3. þm. Norðurl. e. vakti athygli á því, að málið hefur sannast að segja dregizt töluvert, vegna þess að fyrst var till. flutt um þetta snemma þings 1985, en það var ekki kosið í n. fyrr en í þinglok. Það var engum sérstökum um að kenna. Menn voru ekki reiðubúnir til þess að kjósa n. Þeir hafa haft samráð við alla þingflokka um það og menn á víxl skorazt undan að nefna mennina fyrr en undir þinglokin. Þannig leið sá vetur. Sumarið í fyrra leið eins og sumrin oft vilja líða, að menn höfðu öðru að sinna, fóru ekki að starfa fyrr en í vetur. Nú hefur n. lokið starfl, En ég legg áherzlu á að þetta sumar þarf að nota til þess að hrinda af stað tæknilegri athugun, sem fé þarf til að unnið verði.