06.12.1966
Efri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Eins og ég tók fram við 1. umr. þessa máls, tel ég afar óráðlegt að taka inn í þetta frv. ákveðin fyrirmæli til ríkisvaldsins um að koma upp endurvarpsstöðvum um landið og setja því verkefni ákveðin tímatakmörk. Ég benti þá þegar á, að það er ekki regla í íslenzkri löggjöf, að framkvæmdavaldinu séu lagðar slíkar framkvæmdaskyldur á herðar. Það er ekki algengt, að í löggjöf séu gerðar framkvæmdaáætlanir um, hvernig haga skuli einstökum framkvæmdum og með hvaða hraða að því skuli unnið. Allra sízt væri það skynsamlegt hér, eða ég gæti kannske orðað það þannig, að það er sérstaklega óskynsamlegt á þessu sviði vegna þess, hve mörg tækniatriði eru enn þá órannsökuð og alveg óljós í sambandi við dreifingu sjónvarps um landið. Nákvæm fyrirmæli Alþingis um þetta efni gætu, eins og ég lét þar getið, beinlínis orðið til þess að tefja þær framkvæmdir í málinu, sem reynslan mundi sýna, að skynsamlegastar væru. Ég er því mjög mótfallinn, að ákvæði til bráðabirgða í brtt. á þskj. 115 verði samþykkt og tel það alls ekki mundi verða til framdráttar því máli, sem ég auðvitað veit, að vakir fyrir hv. flm. að styrkja, heldur jafnvel að það gæti orðið skynsamlegum framkvæmdum í málinu til trafala. Ég get fullyrt við flm. og raunar alla hv. dm., að ríkisstj. og ríkisútvarpið hafa fullan hug á því að hraða dreifingu sjónvarpsins um landið svo sem mest má verða og tækniaðstæður og fjárhagsskilyrði frekast leyfa.

Í þessu sambandi er rétt að benda á og undirstrika það alveg sérstaklega, að ef það hefði ekki verið vilji ríkisvaldsins að tryggja landsmönnum yfirleitt sjónvarp eins fljótt og auðið er og með eins litlum fresti og frekast verður talinn hugsanlegur, þá væri sjónvarp fyrir löngu komið upp hér í Reykjavík. Það hefur aldrei verið neinn verulegur vandi að koma upp lítilli sjónvarpsstöð hér í Reykjavík. Það er tæknilega séð mjög auðleyst verkefni og alls ekki dýrt. Ástæðan til þess, að sjónvarp hófst ekki hér fyrir 5–10 árum, var beinlínis sú, að við, sem fjölluðum um þessi mál, vildum ekki láta við það sitja, að eingöngu Reykvíkingar fengju sjónvarpsstöð hjá sér. Við vildum undirbúa málið sem landssjónvarp. Við vildum undirbúa þetta fyrirtæki sem landssjónvarp og ekki hefja framkvæmdir hér í Reykjavík, fyrr en það gæti orðið upphaf á landskerfi fyrir sjónvarpið, og einmitt þess vegna hefur undirbúningi málsins og framkvæmd núna verið hagað eins og þeim hefur í raun og veru verið hagað. Það, sem fyrir okkur hefur vakað á undanförnum árum, er landssjónvarp, en ekki Reykjavíkursjónvarp. Það hefði verið unnt að framkvæma með auðveldum hætti fyrir 5 eða 10 árum.

Ég lét í té þær upplýsingar við 1. umr. þessa máls, að athugun, nákvæm athugun, sem rétt áður hafði farið fram á fjárhagsgrundvelli sjónvarpsins, leiddi í ljós, að fjárhagslega séð væri hægt ekki aðeins að ljúka framkvæmdum hér við Reykjavíkurstöðina, sem gera má ráð fyrir, eins og ég tók þá fram, að kosti fullgerð um 80 millj. kr., heldur jafnvel að koma á fót tveimur aðalstöðvum dreifingarkerfisins um landið, þ.e.a.s. hornsteini alls landskerfisins, stöðinni á Skálafelli, og aðalendurvarpsstöðinni fyrir Norðurland, sem er mesta þéttbýlissvæðið utan Suðurlandsundirlendisins. Þessar tvær framkvæmdir virtust framkvæmanlegar á þeim fjárhagsgrundvelli, sem alltaf hefur verið gert ráð fyrir að byggja á, þ.e.a.s. fyrir tekjur af aðflutningsgjöldum af innfluttum sjónvarpstækjum. Og þess vegna sagði ég, að um leið og það var ljóst, að þetta var fært, þá hafi ríkisstj. ákveðið að hefjast handa um þessar framkvæmdir og ákveðið, að Skálafellsstöðin og Vaðlaheiðarstöðin skyldu byggðar samtímis, en með því væri því stóra takmarki náð, með því væri raunar því stórvirki hrundið fram að koma sjónvarpsmyndinni norður yfir jökla til Norðurlands, þ.e.a.s. til næststærsta þéttbýlissvæðis landsins. Mér fundust þetta sjálfum vera mjög ánægjuleg tíðindi, og ég varð þess var, að þetta vakti mikla ánægju á Norðurlandi, á Ákureyri, næststærsta bæ landsins, og í nærliggjandi héruðum.

Það leið ekki heldur á löngu þangað til ríkisstj. og ríkisútvarpið og aðrir urðu þess mjög glögglega varir, að geysilegur áhugi er fyrir því, að sjónvarpsmyndin nái einnig sem allra fyrst bæði til Vestfjarða og til Austfjarða. En eins og fjárhagsgrundvöllur sjálfs sjónvarpsins virðist vera núna, virðast ekki vera tök á því að koma upp aðalendurvarpsstöðvunum fyrir Vesturland, sem á að vera á Stykkishólmi, og fyrir Austurland, sem á að vera á Fjarðarheiði, af tekjum af aðflutningsgjöldum. Ef þetta ætti að vera hægt, yrði því ekki um annað að ræða en ríkisstj. fengi heimild til þess að taka lán til þess að greiða kostnaðinn við þessar tvær seinni stöðvar dreifingarkerfisins, stöðina. fyrir Vesturland og stöðina fyrir Austurland. Vegna þess sérstaklega mikla áhuga, sem við höfum orðið varir á Vesturlandi og Austurlandi fyrir þessum aðalstöðvum endurvarpskerfisins í þessum tveimur landshlutum, finnst mér mjög koma til álita, að ríkisstj. fái lánsheimild til þess að byggja þessar stöðvar.

Ég tók það fram við 1. umr. málsins og hef raunar tekið það fram áður, að ég tel vegna þess, hvers eðlis sjónvarpið er í sjálfu sér, það eiga að standa á eigin fótum, kostnaður þess eigi að greiðast af innlendum tekjum, af tekjum, sem innlendir menn greiða sjálfir, og það sé í sjálfu sér óeðlilegt að greiða stofnkostnað fyrirtækis eins og útvarps og sjónvarps með erlendu lánsfé. Hér hefur þó verið um svo sérstakar aðstæður að ræða og um svo einstæðan áhuga í þessum landshlutum báðum fyrir því að fá aðalstöðvarnar sem fyrst reistar, að ég vildi mæla með því við hv. n., að hún tæki þetta mál til athugunar, og ríkisstj. mundi styðja tillöguflutning um lánsheimild. til þess að hægt væri að koma þessum stöðvum á fót. En gert er ráð fyrir, að hvor um sig muni kosta um 12 millj. kr. samkv. þeim áætlunum, sem núna liggja fyrir.

Hins vegar tel ég ástæðulaust á þessu stigi að ákveða nánar um framkvæmdir en gert mundi vera með þessu móti. Það er þegar búið að ákveða byggingu aðalstöðvarinnar og aðalstöðvarinnar fyrir Norðurland. Aðalstöðvar alls kerfisins eru 4. til viðbótar þessum 2 Stykkishólmsstöðin og svo Fjarðarheiðarstöðin, og ég tel á þessu stigi ekki ráðlegt að taka nánari ákvarðanir en þær að byggja þessar 4 stöðvar. Mér er nokkuð til efs, að hægt verði að byggja þær allar samtímis, vegna þess að gera þarf margvíslegar prófanir, margvíslegar mælingar á flutningi sjónvarpsgeislans við íslenzkar aðstæður í íslenzku landslagi, eins og raunar hv. 4. þm. Vestf. tók fram í ræðu sinni áðan. Og skilyrðislaust verður fyrst að byggja þessar 4 aðalstöðvar, áður en hægt er að taka til við að byggja þær litlu endurvarpsstöðvar, þær litlu sendistöðvar, sem eiga að senda sinn aðalgeisla frá þessum 4 meginstöðvum. En ef hægt verður að koma þessum 4 aðalstöðvum, þessum 4 hornsteinum dreifikerfisins um landið, upp á næstu 2 árum, á fyrstu 2 árum íslenzks sjónvarps, tel ég í raun og veru, að um stórvirki sé að ræða, svo mikið stórvirki, að enginn hefði fyrir fáum árum látið sér detta í hug, að annar eins hraði í framkvæmdum, að svo stórtækar framkvæmdir væru mögulegar. Ég vildi því leyfa mér að mælast til þess við hv. 4. þm. Vestf., sem hefur flutt til1. um mjög háa lánsheimild, og raunar einnig við flm, till. á þskj. 115, að þeir taki báðir þessar till. aftur til 3. umr., og beini hér með þeim tilmælum til hv. menntmn., að hún taki til athugunar flutning brtt. í staðinn fyrir þessar till. tvær, þar sem ríkisstj. sé gefin heimild til allt að 25 millj. kr. lántöku til þess að reisa þær tvær aðalstöðvar dreifikerfisins, sem þegar hefur ekki verið tekin ákvörðun um að reisa, þ.e.a.s. stöðvarnar í Stykkishólmi og á Fjarðarheiði.