18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2210)

177. mál, ellefu hundruð ára afmæli byggðar á Íslandi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú tekið til máls um þessa till. og lýst nokkuð sínum sjónarmiðum. Út af því, sem hann sagði síðast, þar sem hann spurði um það, hvort meiri hl. fjvn. hefði ætlað að mæla með víkingaskipinu, á ég náttúrlega ekki að svara fyrir þá, sem í n. eru, en ég hafði ekki skilið málið á. þann veg, að n. vildi mæla með víkingaskipinu, heldur hefði hún hreinlega gleymt þessu, og mér sýndist ýmislegt í þessu nál og í brtt. bera þess vott, að n. hefði kannske gleymt þessu. Það er heldur ekkert óeðlilegt í því mikla annríki, sem hefur verið hér síðustu daga þingsins.

Ég er, eins og ég sagði áður, alveg sammála hæstv. forsrh. um, að þessar ábendingar n. í nál, á þskj. 555 eru náttúrlega eins og hverjar aðrar hugleiðingar þessara hv. þm. í þessu máli. Hæstv. forsrh. gerði þjóðarhúsið nokkuð að umræðuefni, og mér finnst ekki úr vegi, af því að hann ræddi það og af því að hv. nm. hafa einnig vikið að því, að rifja það upp, hvað þjóðhátíðarnefndin sjálf hefur sagt um þetta atriði. Það stendur hér í grg. þáltill. á þskj. 177. N. segir svo um þetta:

„Sú hugmynd, sem n. leggur höfuðáherzlu á að framkvæmd verði á vegum ríkisins vegna hátíðarársins, er bygging þjóðarhúss á Þingvöllum.“ Það er hennar till. „Um notkun slíkrar byggingar hefur nokkuð verið rætt í n., og hefur við þær umr. m.a. komið fram, að þar mundi vera hægt að setja Alþ. hverju sinni. Þá hefur verið rætt um, að þar gæti verið kjörinn staður fyrir þinghald ýmiss konar, bæði erlendra stofnana, sem við erum þátttakendur í, s.s. Norðurlandaráðs, og innlendra fjöldasamtaka. Yrði þjóðarhúsið jafnframt sýningarsalur og leikhús og tengt útileikvangi, svo að það mætti gegna sem bezt hlutverki sínu.“

Þarna er í skýrum dráttum mörkuð hugmynd n. um þjóðarhúsið á Þingvöllum, og eins og ég sagði áðan, finnst mér þessi hugmynd að ýmsu leyti aðlaðandi. Þó vil ég þar taka undan sumt, sem þarna er tilgreint. En þar sem talað er um notkun slíkrar byggingar, til þess að hægt sé að setja þar Alþ. hverju sinni, sýnist mér þar vera á ferðinni hugmynd, sem Helgi heitinn Hjörvar setti fram fyrir nokkrum árum um það, að komið yrði upp sal á Þingvöllum, þar sem Alþ. yrði sett hverju sinni. Hann lagði reyndar til, ef ég man rétt, að sá salur yrði á lögbergi hinu forna, en þess er ekki getið hér. Helgi Hjörvar ritaði um þessa hugmynd sína í framhaldi af umr., sem hér urðu nm Alþingi á Þingvöllum, og var ekki reiðubúinn til þess, a.m.k. ekki að svo stöddu, að mæla með þeirri hugmynd, en setti fram þessa í staðinn. Vel mætti hugsa sér það, ef byggt yrði þjóðarhús á Þingvöllum, sem sérstaklega væri við það miðað m.a., að Alþ. yrði sett þar hverju sinni, að það yrði, ef mönnum sýndist svo, upphaf að alþingishúsi framtíðarinnar á Þingvöllum, sem ég fyrir mitt leyti hef sterka trú á að muni verða reist, þó að það verði kannske ekki í okkar tíð, sem hér eigum nú sæti í þessum sal. En ýmislegt annað, sem hér er tilgreint í áliti hátíðanefndarinnar um notkun þessa þjóðarhúss, finnst mér kannske minna til um, en það er engin ástæða til þess að vera að ræða það nú.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri óþarft að breyta eða fella niður 2. mgr. brtt. frá hv. fjvn., og færði það fram, að hann mundi gæta að því, meðan hann hefði forustu ríkisstj., að ekki yrði farið að veita fé til mikilla framkvæmda, sem n. kynni að ákveða, og dreg ég það ekkert í efa, að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. mundu hafa auga á slíku. En mér finnst þetta óviðkunnanlegt, að fela n. þetta vald, og geri eiginlega ekki ráð fyrir því, að hún óski eftir því. Mér sýnist, miðað við þetta orðalag, að í þessu geti falizt það, ef n. kæmist að þeirri niðurstöðu, að það ætti að reisa einhverja stórbyggingu, að hún gæti farið að tryggja sér lóð fyrir hana og grafa fyrir henni samkv. þessari till., eða ef hún ákvæði að leggja til, að það yrði ráðizt í einhverja mikla útgáfu, gæti hún byrjað á byrjuninni, að semja við menn um slíkt, og annað þess háttar. Mér finnst fara betur á því að fella þetta niður. En ef hv. þm. vilja hafa þetta svona, eins og það er, getur náttúrlega vel verið, að það komi ekki að sök, eins og hæstv. forsrh. sagði. En ég hef litið þannig á, að þessu máli lægi ekkert á núna næstu mánuðina, það þyrfti ekki að gera annað í því en fela n. að halda áfram störfum og gera ákveðnari till. en hún hefur gert, það sé ekki ástæða til að hún sé að gera meira í sumar, hefja neinar undirbúningsframkvæmdir tillagna, og Alþ muni þá með haustinu taka þetta mál til nýrrar athugunar og þá verði ákveðið, hvað gert verði.