12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2219)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. samgmrh., sem hann flutti hér í dag, þegar hann talaði fyrir vegáætluninni, að vegáætlunin væri seint tilbúin og seint á ferð hér í hv. Alþ. Engan skal nú undra, þótt hæstv. ráðh. sæi ástæðu til að taka þetta fram, því að vegáætlunin, till. til þál. um vegáætlun, var lögð fram nú þann 10. apríl s.l. eða fyrir tveimur dögum, og það er gert ráð fyrir, að Alþ. ljúki störfum eftir viku, svo að hér skýtur nokkuð skökku við. Í 14. gr. vegal., sem ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa, þar segir svo:

„Leggja skal fyrir sameinað Alþingi till. til þál. um vegáætlun samkv. 10. gr. samtímis frv. til fjárl. Sama gildir um till. til þál. um endurskoðun vegáætlunar.“

Það átti að leggja þessa þáltill. fyrir, um leið og fjárlagafrv. var lagt fyrir þann 10. okt. s.l. Það munar nú æðimiklu, eina og hv. þm. geta séð, og var kannske ekki að undra, þótt hæstv. ráðh. kæmi þar aðeins að. Nú hefur ekki verið gert mikið veður út af því hér á hv. Alþ., þó að það hafi ekki verið farið eftir laganna bókstaf um það að leggja vegáætlunina fram jafnhliða fjárlagafrv. En að ætla Alþ. vikutíma til þess að fjalla um endurskoðun vegáætlunarinnar má nú heita að sé sama, hvort gert er eða hvort endurskoðunin er nokkuð lögð fyrir .þingið. Það, sem hér er verið að gera, er það, að það er verið að sýna hv. Alþ. eins mikla lítilsvirðingu í sambandi við þetta lagafrv. og frekast er hægt að sýna hv. Alþ. Og ég vil leyfa mér að mótmæla slíkum vinnubrögðum, að Alþ. sé ætlað að hafa eina viku til þess að fjalla um jafnmikið stórmál og vegáætlunin er, jafnvel þótt um endurskoðun sé að ræða, og ekki sízt þegar lagafyrirmæli eru um það, að slíka till. eigi að leggja fyrir jafnhliða fjárlagafrv. að haustinu til.

Annars er þetta ekki einsdæmi um vinnubrögð hæstv. ríkisstj., bæði á þessu þingi og á þingum undanfarandi ára. En þó fer það nú svo, að það versnar með hverju þinginu sem líður. Nú þessa síðustu dagana hefur verið haugað hér inn á hv. Alþ hverju stórmálinu á fætur öðru, án þess að Alþ. geti haft nokkurn tíma til þess að sinna málunum. Þar vil ég nefna frv. um skólakostnað, endurskoðun skólakostnaðar, og hafnarlög og fleiri stóra lagabálka, lagabálka, sem koma við hvert einasta heimili í landinu, eins og skólamálin. En ég er undrandi yfir því, að slík vinnubrögð skuli geta átt sér stað, að hv. Alþ. sé boðið upp á það að hafa eina viku til þess að fjalla um vegáætlunina. Það er ekki enn þá farið að afgreiða hana til fjvn., og Alþ. á að ljúka eftir viku. Hér eru furðuleg vinnubrögð á ferðinni og furðuleg lítilsvirðing við hv. Alþ., sem ég vona að hæstv. ríkisstjórnir, hverjar sem verða, endurtaki ekki.

Út af vegáætluninni vil ég svo segja það, að það vakti hjá mér nokkra undrun, að hæstv. ráðh. virtist vera hinn ánægðasti með vegáætlunina og framkvæmdina á vegamálunum yfirleitt. Það verður að segjast eins og er, að það getur stundum verið gott að vera nægjusamur, en hins vegar sýniat mér, að hér sé nægjusemin gengin úr hófi fram. Í þessari vegáætlun eða við endurskoðun vegáætlunarinnar er gert ráð fyrir að auka framkvæmdafé í landsbrautum um 800 þús. á öllu landinu frá gildandi vegáætlun. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, hve mikið kann að vinnast fyrir þetta í vegum, eins og nú er komið. Og það á að auka framkvæmdaféð í þjóðbrautum um 6.2 millj. kr. Það á sem sagt að auka framkvæmdafé í þjóðbrautum og landsbrautum lítið eitt meira en kostnaðurinn hefur aukizt, síðan vegáætlunin var gerð fyrir tveimur árum. Það mun vera rúm millj. kr. til raunverulegrar framkvæmdaaukningar í þjóðbrautum og landsbrautum frá því, sem þá var. Þannig er búið að landsbyggðinni, og er sem sagt lögð fyrir hér endurskoðun á vegáætlun, sem inniheldur þetta. Það sjá nú allir, hvaða reisn er yfir þessum vinnubrögðum og yfir vegáætlun, till. til vegáætlunar, sem hefur inni að halda slíkan boðskap.

Það hefur að vísu oft verið gert hér áður að rifja það upp, hve samstaða hv. þm. var mikil, þegar var verið að afgreiða vegal., og það var almennt skoðun manna, að þau mundu leiða til þess, að stórt átak yrði gert í vegamálum. Það hefur hins vegar sýnt sig, að stórátakið hefur ekki verið gert. Það er búið að hækka benzín- og þungaskattinn síðan 1965 um hátt í 200 millj. kr. með því að hækka tekjustofninn, og árangurinn er eins og okkur er öllum kunnugt. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því, að á þessum tíma hefur umferðin í landinu aukizt verulega. Það munu hafa verið fluttar inn í landið á tveim síðustu árum um 7—8 þús. bifreiðar og allar bifreiðar, sem nú er verið að flytja inn, sérstaklega til vöruflutninga og langferðabílar, eru miklu stærri en áður hefur verið.

Þrátt fyrir þessa þróun, sem orðið hefur í vegamálunum, er að vísu vegaviðhaldsféð hækkað nokkuð í krónutölu, en samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja á bls. 15 í þáltill. um vegáætlunina, er gert ráð fyrir því, að hækkunin til vegaviðhaldsins frá því, sem var, þegar áætlunin var gerð, sé um 17.2 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir, að hækkun vegna kostnaðar við snjómokstur frá því, sem gert var ráð fyrir í vegáætlun fyrir tveim árum, sé 7.2 millj. kr., hækkun vegna breytinga á reglum um snjómokstur 1 millj. kr. á árinu 1987, hækkun vegna náttúruhamfara sé 4 millj. kr., og svo kemur síðasti liðurinn, sem er greiðsla vegna bráðabirgðalána, 1.8 millj. kr. Með þessum hætti kemur út sú tala, sem á að vera til þess að auka viðhaldsféð á yfirstandandi ári. Það sýnir okkur það, að hér er ekki tekið tillit til umferðaraukningarinnar eða ástands veganna, eins og það nú er orðið. Það sýnir betur en margt annað, hvernig vegamálum er komið, og vil ég í því sambandi geta þess, að hæstv. samgmrh. var að tala um það, að sumir töluðu um, að vegasjóðurinn væri gjaldþrota. Það má vel vera, að einhverjir hafi um það rætt, að vegasjóðurinn væri gjaldþrota, ég minnist þess þó ekki. Hinu hef ég haldið fram, að með því fjármagni, sem vegasjóðurinn hefði yfir að ráða núna, geti hann ekki valdið þeim verkefnum, sem hann ætti að sinna, og það er allt annað en gjaldþrot, og þess vegna væri það, sem viðhald þjóðvega drabbaðist niður. Þetta get ég endurtekið, því að þetta er deginum ljósara, og ég vil í þessu sambandi minna á það, sem stóð í skýrslu hæstv. samgmrh., sem lögð var fyrir Alþ. fyrir jólin í vetur, þar sem talað var um þetta, og þar segir svo m.a., — þetta er á bls. 4, — með leyfi hæstv. forseta:

„Ástand fjölförnustu malarveganna hefur í ár verið mun lakara en á s.l. ári, og það er orðið vonlaust verk að halda þessum vegum sæmilega akfærum með malarslitlagi.“

Ég hef áður sýnt fram á það, að þarna er um stórt verkefni að ræða, verkefni, sem við komumst ekki h já að taka tillit til og leysa. Í þessari vegáætlun er ekki gerð nein tilraun til þess að leysa þetta verkefni. Hæstv. vegamálarh. kom ekki heldur að því í dag, hvernig ætti að leysa það. Hann var hins vegar með vangaveltur í sambandi við áætlunargerð um hraðbrautirnar, en í till. þeirri til þál., sem hér er til meðferðar, er ekki stefnt að því að gera neitt átak í hraðbrautum. Það er aðeins ræða hæstv. ráðh. þar um, ræða um það, að nauðsyn beri til að fá erlenda verkfræðinga og annað því um líkt, en jafnframt lýst yfir, að fjármálahliðin sé með öllu óleyst. Og þegar ég tala um það, að vegasjóður valdi ekki verkefnum, miða ég m.a. við veginn hér upp í Mosfellssveitina. Ég tel ekki, að sá vegur sé orðinn fær, eins og hann er orðinn núna og hefur verið oftast nær í vetur. Ég álit, að það sé ekki fær vegur á aðalleið landsins, þegar hann er þannig, að á góðum bílum er ekki hægt að aka nema á 5—10 km hraða. Það gerir enginn á vegi, sem hann telur færan. Þetta er þó tengiliðurinn milli Vestur- og Norðurlandsins, Austurlands og Vestfjarða. Hér er verkefni, sem er ekki hægt að komast fram hjá að leysa og vegasjóðurinn veldur ekki. Þetta er staðreynd, og því verður ekki breytt, þó að hæstv. ráðh. fari að tala um gjaldþrot eða eitthvað því um líkt. Það er ekki það, sem um er að ræða, heldur hitt, að vegasjóður veldur ekki verkefninu. verkefni, sem er þó knýjandi nauðsyn og ekki er hægt að komast hjá að leysa.

Það má nú öllum ljóst vera líka, hvernig það verður í þjóðbrautunum á árinu 1967. Ég held, að það muni verða æðimargir, sem verði fyrir miklum vonbrigðum, þegar þeir fá þá frétt, að það eru aðeins fjórir vegir, sem á að leggja þjóðbrautarfé í til viðbótar því, sem fyrir var, og í heild eru þetta 8.2 millj. um allt landið. Það er hærri upphæð en er í landsbrautunum, sem er 800 þús. yfir landið í heild, en það sjá líka allir, að það er ekki fé til skipta. Föst lán í þjóðbrautum voru í árslok 1966 um 60 millj. kr., og afborganir og vextir af þessum lánum verða 9.9 millj. kr. á árinu 1967. Þetta þarf að taka af þjóðbrautarfénu í heild nú, þegar dæmið er gert upp, og fjárveiting til þjóðbrauta er samkv. till. hér á bls. 2 28.4 millj. kr. Af því fara 10 millj. í vexti og afborganir. Út af fyrir sig getur það verið skiljanlegt, að fjármagn sé ekki til að leysa þessi verkefni. En það er ekki skiljanlegt, að hæstv. ráðh. skuli standa hér á hv. Alþ. og tala um ágæti vegamálanna og tala um, hve vegasjóðurinn standi sig vel og hvað hann hafi leyst verkefnin vel. Það er það, sem ekki á við, og það er það, sem ég deili á hæstv. ráðh. fyrir.

Ég vil líka segja það, að það er með öllu óhugsandi að standa þannig að verkum eins og gert er hjá núv. hæstv. ríkisstj. í sambandi við vegamálin. Það er rokið til og lagður vegur að kísilgúrverksmiðjunni í Mývatnssveit fyrir 50 millj. kr. á þessu ári. Þó að það sé ekki hægt að leysa úr brýnustu verkefnum hjá vegagerðinni í landinu yfirleitt, þá var hægt að ná í peninga og það fljótlega og láta framkvæma verkið strax. Nú vil ég ekkert um það segja út af fyrir sig, það má vel vera, ég þekki það ekki, að fleiri hafi gott af þessum vegi en kísilgúrverksmiðjan ein. En ég segi það, að það þarf að taka þannig á fleiri verkefnum en þeim verkefnum, sem útlendingar hafa mest um að segja, eins og virðist vera stefna hæstv. ríkisstj., að þá sé til fjármagn til þess að leysa verkefnin, ef útlendir aðilar eiga að hafa þar eitthvað um að segja.

Ég verð að segja það, að eins og til er ætlazt með vinnubrögðunum í sambandi við vegáætlunina, er hv. alþm. ekki ætlað að hafa þar mikil áhrif, enda augljóst, þegar ein vika á að vera til að fjalla um málið. Enda verður fullkomlega ljóst við lestur þessarar till., að það er ekki mikið fé til skipta, því að það hefur ekkert nýtt fé komið hér til. Það, sem hefur gerzt, er það, að tekjustofnar þeir, sem búið er að sameinast um, gefa meiri tekjur en gert var ráð fyrir í áætluninni, enda búið að hækka stofninn nokkuð, og það var eina féð til að mæta verðbólguvexti síðustu ára. Hitt get ég ekki stillt mig um að minna hæstv. ráðh. á, að ekki hefði það verið nein ofrausn með 842 millj. kr. umframtekjunum á s.l. ári, þó að hefði verið skilað aftur að fullu 47 millj., sem ranglega voru af vegagerðinni teknar. Og ég hef ekki enn þá áttað mig á því, að þessi hæstv. ráðh. skyldi í fyrsta lagi láta kúga sig til þess að láta þetta af hendi, eins og hann hefur gert, og í öðru lagi sætta sig við að láta rétta sér aftur 27 millj. kr. nú, en taka ekki með alla fjárhæðina. Það hefði haft ósköp lítið að segja í sambandi við viðskiptin við Seðlabankann, þó að það dæmi hefði verið gert upp. Og það var ekkert réttminna en viðskiptaskuldin hjá Seðlabankanum. Og fyrst þeir notuðu nú í mesta góðæri 100 millj. kr. varasjóðinn, sem átti að vera til hörðu áranna, til þess að gera upp viðskipti sín við Seðlabankann, hefði ekki verið nein ofrausn, þó að vegasjóði hefði verið skilað fullkomlega aftur sínu fé. Og það er enn fráleitara að hugsa sér það, að þannig skuli vera að þessum málum staðið, þegar ástand vegamálanna í landinu er svo sem raun ber vitni um. Og þegar við leggjum fram hér á hv. Alþ. till. til endurskoðunar á vegáætlun, sem felur í sér 7 millj. kr. hækkanir til þjóðbrauta, hraðbrauta og landsbrauta, þá hefði sannarlega ekki veitt af því að fá framlag ríkissjóðs að fullu.

Það verður að segjast eins og er, að því miður er í sambandi við framkvæmd á fjármálum vegal. orðin sorgarsaga allan tímann nema fyrsta árið. Það er eina árið, sem vegasjóður fékk þær tekjur, sem hann átti að fá. Það hefur líka sýnt sig í vegamálunum, hvernig þessi stefna hæstv. ríkisstj. gagnvart vegasjóði hefur leikið vegagerðina í landinu og mun leika áfram, ef hún nær að vera ríkjandi. Og ég vil endurtaka það, sem ég hef sagt hér áður, að ef ekki verður aukið fé til vegagerðarinnar í landinu, mun vegakerfið bresta undan ört vaxandi fjölda bifreiða, undan stærri bifreiðum ár frá ári, undan meiri vöruflutningum ár frá ári. Allt þetta gerir það að verkum, að vegakerfið mun bresta, ef ekki verður neitt að gert. Það eru þegar farnar að hrynja brýr undan umferðinni, og það eru fleiri brýr, sem hrynja á næstu árum vegna aukinnar umferðar, ef þær verða ekki teknar úr umferð áður. Vegamálin í landinu verða eftir sem áður, þegar búið er að afgreiða þessa vegáætlun hér á hv. Alþ., í jafnmiklu vandræðaástandi og þau voru, áður en vegáætlunin var lögð fram. En hinu ættu hv. alþm. að fara að gera sér grein fyrir, að þeir eiga ekki að þola slík vinnubrögð, að þáltill., sem á samkv. lögum að leggja fram í byrjun þings, skuli vera lögð fyrir Alþ. 10 dögum áður en á að slíta því, eins og nú er gert.