12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2220)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Óskar Jónsson:

Herra forseti. Vega og brúakerfið hér á landi sem annars staðar er einn af aðalhornsteinum atvinnuþróunarar og lífæð viðskipta og þjónustu við fólkið í landinu. Það er því eðlilegt, að fulltrúar fólksins hér á hv. Alþ., alþm., einkum þeir, er einvörðungu verða að nota vegina og bifreiðarnar sem samgöngutæki, láti sig miklu varða, hvernig löggjafinn og þeir, sem kjörnir hafa verið til að undirbúa og framkvæma aðgerðir í vega- og brúamálum, haga sínum vinnubrögðum. Þetta er svo stórt og mikið mál, að fjöldi byggðarlaga á svo að segja alla tilveru sína og búsetu undir því, að vel og djarflega sé unnið að samgöngubótum í vega- og brúamálum. Það vita allir og viðurkenna, að landið er stórt, víðáttur miklar, auk erfiðra vatnsfalla og hárra heiðavega. Þess vegna er örðugt fyrir fámenna þjóð að koma upp öflugu vegakerfi um þetta land. En þótt svo sé, má ekki í það horfa að leggja fram ýtrustu getu til að framkvæma það verk, vegna þess að hér er um grundvallarframkvæmd að ræða, sem skiptir meginmáll fyrir atvinnu- og framleiðslumöguleika fjölda landsmanna. Og það verður aldrei of vel undirstrikað, að framleiðslan er höfuð atvinnuveganna, er það, sem allt annað hvílir á í landinu.

Ég vil nota þetta tækifæri til að minna á nokkur atriði, sem ég tel miklu varða fyrir samgöngur Sunnlendinga í sambandi við þá vegáætlun, sem hér liggur fyrir.

Fyrst vil ég minna á, að brýna nauðsyn ber til, að tekin verði i vegáætlunina sem allra fyrst brúargerð yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi. Þetta er grundvallarframkvæmd, sem vart þolir bið, til að tengja saman þorpin Stokkseyri—Eyrarbakka við höfnina í Þorlákshöfn. Þetta mál var ofarlega á baugi fyrir nokkrum árum, og ég ætla, að þm. Suðurlandskjördæmis hafi á sínum tíma verið búnir að heita íbúum þessara staða sínu fulltingi til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd, en af hvaða orsökum það hefur dregizt úr hömlu, er mér óskiljanlegt. En þetta er óbætanlegt tjón fyrir þessi þorp og suðurhluta Flóans, einnig Ölfusið, að ekki er unnið að þessu þarfaverki.

Þá er á það að benda, að með vegagerðinni yfir Þrengslin er það augljóst mál, að það hlýtur að vera mikið hagsmunamál, að vegagerðinni verði haldið áfram, komið austur að Ölfusárósum og brú sett þar á, vegna þess að það mundi auðvelda og bæta samgöngur við Suðurlandsundirlendið stórkostlega og ekki sízt á vetrum. Má á það minna, að aðalþjóðvegurinn, sem nú liggur undir Ingólfsfjalli, er ákaflega erfiður oft og tíðum á vetrum vegna snjóþyngsla. Þetta vita þeir, sem búa þarna. En hitt er svo annað mál, að væri Þrengslavegurinn lagður með sjónum austur í þorpin þarna austur frá, væri þetta allt annað, auk þess sem svo kemur annað til greina, sem er ekki sízt þýðingarmikið. Það liggur í augum uppi, að á bökkum Ölfusár eða í sunnanverðum Flóa verður í framtíðinni, ef nokkurt líf á að verða á Suðurlandi, að rísa upp stórfelldur iðnaður, og ég get ekki annað séð en þar eigi að rísa upp stóriðja í matvælagerð. Enginn staður á landinu hefur meiri möguleika til þess að framleiða mikla og góða matvöru, og á að ganga frá henni á þessum stað til fullrar neyzlu í hinum dreifðu byggðum. Brú á Ölfusá við Áseyrarnes er undirstöðuframkvæmd, til þess að þetta verði hægt. En um leið og þetta er komið, er líka komin aðstaða til ekki einungis að hagnýta landbúnaðarafurðirnar til þessara hluta, heldur og allan sjávaraflann. Og það sýnir bezt, hvaða grundvallarþýðingu þetta hefur, auk þess sem þorpin Stokkseyri og Eyrarbakki eru mjög illa sett hafnarlega, eins og dæmi sýna ljósast vitni og kom fram í vetur, hvílíkt tjón það er, að bátarnir verða að sækja heimahafnir í erfiðleikum á vetrum í staðinn fyrir að geta öruggir farið til Þorlákshafnar og geta haft ekki nema 10—15 mín. leið til að skreppa heim. Það er dálítið önnur aðstaða.

Ég ætla ekki að tala meira um þetta atriði. Ég vil bara minna á þetta hér, vegna þess að það er í mínum huga og það er í huga fólksins þarna austur frá eitt grundvallaratriði, sem vinna ber að á næstu tímum. En í sambandi við vegáætlun er það engin goðgá, að við minnumst á einstaka staði, vegna þess að fólkið ætlast fyrst og fremst til þess, að þm. sjái einmitt fyrir þessum brýnustu nauðsynjaþörfum, sem fólkið þarf við að búa í landinu, en það eru vegir og aftur vegir.

Næsta atriði, sem ég vildi minna á, — það eru ekki mörg atriði, sem ég ætla að minnast á í þessu sambandi, — er það, að fyrir 1958 mun það hafa verið ákveðin áætlun, að vegurinn yfir Mýrdalssand yrði lagður, sem við köllum þar austur frá, hið syðra eða um lága sandinn beint úr Vík austur í Álftaver. Þegar flóðin komu á sandinn, hin miklu 1958 og reyndar vorið 1959 líka, var að því ráði horfið að leggja þennan veg hið efra, sem kallað er, uppundir Hafursey upp á hásandinn, þar sem hann vitanlega lá áður. En hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að á öllum vetrum, þegar nokkur snjór kemur að ráði, er þessi vegur svo að segja ófær yfirferðar og kostar of fjár að halda honum opnum. Þar á ofan bætist það við, að hann er í gífurlegri hættu af vatnavöxtum, hvenær sem eitthvað vex í jökulvötnunum á Mýrdalssandi, og er skemmst á að minnast, að núna seinast í sumar og í haust lá við, að vegurinn færi allur undir vatn, og hefði svo farið, hefði ekki sézt af honum tangur né tetur meir. Þess vegna vil ég beina því til hv. þm. og þeirra, sem fást við þessi vegamál, og ekki sízt samgmrh., að það verði hið þráðasta sett á vegáætlun að leggja, eins og fyrirhugað var, veg yfir Mýrdalssand beint norðan við Hjörleifshöfða og austur í Álftaver. Með því móti mundi vegurinn verða nokkurn veginn öruggur á vetrum sem opin leið, og svo kemur fleira til, að með því að færa veginn þangað, er hann úr allri vatnshættunni um 1eið. En snjórinn, sem hleðst á Mýrdalssand, sem oft hleðst upp þar og hlánar oft á mjög skömmum tíma, brýtur þennan veg iðulega, en væri hann suður frá og þetta vatnsmagn komið ofan í Blautukvísl, mundi það ekki skaða veginn hið minnsta, ef hann væri suður á sandinum. Ég vil aðeins minna á þetta hér, úr því að ég hafði tækifæri til þess.

Þá er þriðja atriðið í sambandi við vegamálin, sem ég vildi minna á, að ég sakna þess mjög, að ekki eru nú settir inn á vegáætlunina einhverjir fjármunir til þess að kanna og byrja á að leggja veg yfir Skeiðarársand. Það er vitað, að á. næsta sumri lýkur brúargerð yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi og um leið opnast þá vegurinn úr Hornafirði og alla leið vestur að Skeiðarársandi, og þess vegna hefur mér sýnzt, að á árinu 1968 hefði verið eðlilegt, að einhverjir fjármunir hefðu verið settir á vegáætlunina til þess að byrja á þessu þarfa verki. En ég þarf ekki að endurtaka það hér, það hefur oft verið gert í þessum sal, hvílík nauðsyn og hvílík samgöngubót og hvílíkt hagræði það yrði fólkinu á austanverðu Suðausturlandi og reyndar í Skaftafellssýslum báðum, ef þar kæmi hringvegur, sem næði yfir Skeiðarársand. Það mundi verði lyftistöng þessum héruðum, sem við getum engan veginn séð fyrir í dag, hversu miklu mundi orka og gera byggðina betri. En leggja ber áherzlu á, að það fólk, sem býr jafnlangt frá sjó og hefur yfir jafnlangar vegalengdir að fara og þetta fólk, það á, eins og ég var búinn að segja, í upphafi, alla sína tilveru undir því, að vegirnir séu sem beztir. Ég get ekki annað en lýst óánægju minni yfir því, að ekki skuli enn örla fyrir því, að það verði hafið að byggja hraðbrautir fjölförnustu leiðirnar hér frá Reykjavík, t.d. austur yfir fjall. Ég veit, að þetta kostar mikið fé. En ég vil segja: Er það síður nauðsynlegt átak að koma upp hraðbrautum hér um fjölfarnasta kerfið frá Reykjavík og út í byggðirnar, — er það síður nauðsynlegt framtak heldur en t.d. sjónvarpið? Það er talað um, að það hafi kostað um 1500 millj. að koma því í gang, eitthvað nálægt því, og vegamálaráðh. segir, að það muni kosta um 1500 millj. að koma þeim hraðbrautum upp með slitlagi, sem hér er gert ráð fyrir. Ég er alveg viss um, að það mundi skila þjóðinni meiri arði og hag að verja svona lagaðri upphæð í það að koma þessum hraðbrautum í traust horf. Ég þori að fullyrða það.

Í sambandi við vegamálin langar mig að minnast hér á eitt mál, enda þótt segja megi, að það sé búið og gert, en það eru lög um hægri handar aksturinn. Þessi lög voru samþ. hér, að ég ætla, á síðasta þingi, og mátti heita furðu hljótt um það, hvernig þau náðu fram að ganga. En nú vil ég segja frá því, að almennt líta menn nú með ugg og ótta til þess, að horfið verði að hægri handar akstrinum. Og ég vil geta þess, að t.d. í Suðurlandskjördæmi hafa bílstjórar gengizt fyrir undirskriftum þar til þess að mótmæla þessum lögum og krefjast þess a.m.k., að þau verði ekki látin koma til framkvæmda nema að undangenginni þjóðaratkvgr., og undir þessa áskorun hafa skrifað þar, bara í þessu eina kjördæmi, 860 manna, menn, ,sem eru mest atvinnubílstjórar, og fólk, sem ekur og hefur ráð á bifreiðum. Þetta er athyglisvert, og það sem meira er, að atvinnubílstjórar hér í Reykjavík hafa nú hafizt handa um mikla herferð til að mótmæla þessu, og þeir fullyrða, að 80—90% af ökumönnum landsins séu á móti lögunum. Og það er þeirra krafa, að lögin verði látin ganga til þjóðaratkvgr., og ef það fæst ekki fram, þá er númer 2, að lögunum verði frestað a.m.k. um 3—4 eða jafnvel 5 ár, meðan verið er að umþótta fólkið til þess að vita, hvað þetta er, sem í vændum er. Þeir segja sem svo: Meðan enn er kenndur í barnaskólum, unglingum og öllum, vinstri handar akstur og vinstri handar umferð, verður lítill tími til að umþótta þetta á einu missiri, svo að ekki stafi af veruleg hætta.

Ég get þess arna hér, að ég hefði álitið fyrir mína parta, — það er mitt sjónarmið, að það hefði verið skynsamlegra í því vegaöngþveiti, sem við búum við í dag, að verja þeim fjármunum, sem verja á til þess að gera þessa breytingu mögulega, að verja henni til vega núna fyrst um sinn. Þetta er mín skoðun. Og ég verð að segja það, að þó að við alþm. séum kannske valdamiklir menn hér, er það dálítið erfitt að ganga með löggjöf beint framan að og gegn vilja fjölda manna, sem eiga að búa við þá löggjöf. Það er töluvert ábyrgðarmál. Og ég held, að fulltrúar þessara manna verði stundum að gera svo vel að hlusta á þær raddir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta öllu meira. En ég vil þó taka fram í sambandi við hægri handar aksturinn, að í umsögninni, sem fylgdi þeim lögum eða því frv. á sínum tíma, var sagt berum orðum, að það skipti í rauninni engu máli og ekki hægt að gera upp á milli, hvort væri hagkvæmara, hægri eða vinstri akstur. Ef það er nú meiningin, að það skipti eiginlega engu máli upp á hagkvæmni til að gera og öryggiskennd, til hvers þá að fara að verja öllum þessum fjármunum, þegar það skiptir engu máli að þeirra dómi, sem hafa gengið frá þessum lögum? Til hvers að gera það?

Ég get ekki farið svo héðan, að ég minnist ekki aðeins á eitt atriði hér í vegáætluninni, sem ég er mjög ánægður með, og það er brúargerðin væntanlega yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Það var sannarlega þörf á því og tími til kaminn, að sú brú yrði endurbyggð, vegna þess að þarna er um líf eða dauða fyrir fólkið fyrir austan Jökulsá að ræða, því að ef þetta brúarsamband rofnar, eru þeir algerlega allslausir. Þeir þurfa að koma vörum frá sér daglega á markað, og ef þessi elna brú bilar, er leiðin lokuð. Þess vegna er ég mjög ánægður yfir því, að nú skuli hafa verið tekið til ákvörðunar að gera þessa hluti.

Mér er það vel ljóst, að það eru mörg aðkallandi verkefni, sem kalla að í vegamálum, og erfitt að eiga við þetta vegna víðáttunnar. En með þeim tröllauknu tækjum, sem nú er hægt að nota til þess að koma þessu í framkvæmd, er þetta allt annað, og ef við berum saman í huganum það gífurlega átak, sem þjóðin var búin að gera með handverkfærum og hestvögnum hér áður fyrr, berum það saman við þá tækni, sem nú er í landinu, getum við ekki vorkennt þeim, sem með þessi mál fara, að sýna margfaldan dugnað í því að koma þessum málum betur áfram. En ég undirstrika það, að ég álít það miklu meiri nauðsyn að verja 1500 millj. til þess að koma hraðbrautunum í betra horf, heldur en að hraða svo sem gert var sjónvarpsmálunum hér hjá okkur.

[Björn Fr. Björnsson er skráður fyrir ræðunni í Alþingistíðindum en hann tók Óskar Jónsson inn sem varamann 6. apríl og getur ekki hafa flutt ræðuna.]