18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2226)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. okkar minni hl. fjvn. á þskj. 587, varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins að því leyti, að við vildum með nál. gera sérstaka grein fyrir afstöðu okkar til vegáætlunarinnar. Og ég vil með örfáum orðum undirstrika það, sem við leggjum áherzlu á í þessu nál.

Í fyrsta lagi er það, að tími sá, sem Alþ. hafði til þess að endurskoða vegáætlunina, er ekki í samræmi við gildandi vegalög, og er með öllu óhæft að ætla Alþ. vikutíma til þess að fjalla um mál eins og vegáætlunin er. Ég vil undirstrika það og leggja á það áherzlu, að ég treysti því, að framvegis verði slík vinnubrögð ekki endurtekin. Þau eru með öllu óhæf og Alþ ekki sæmandi.

Við vekjum í öðru lagi athygli á því, hvað framkvæmdaféð er litið aukið frá því, sem það var, þegar vegáætlunin var samin fyrir tveimur árum, og eins og vegáætlunin var lögð fyrir Alþ., hefur Alþ. í raun og veru ekkert til ráðstöfunar, því að þar hafði vegamálsstjóri gert till. um að skipta því litla, sem var að skipta í sambandi við framkvæmdaféð, og á einskis mann færi að leggja út í það að reyna að þoka þar nokkru um. Smávegis var gengið í þá átt að heimila lántöku til þess að bæta úr sárustu neyð í sambandi við vegamálin heima í héruðunum, og eru þær brtt. frá fjvn. á þskj. 588, og stendur öll n. að þeim brtt., eins og fram kom í ræðu frsm. meiri hl. Hér er um litla fjárhæð að ræða og ekki heldur séð, hvernig framkvæmdin tekst um útvegun lánsfjárins. En ef það tekst, er þó aðeins bætt úr því, sem erfiðast er, frá því, sem horfði við, þegar áætlunin var lögð fyrir.

Við í minni hl. fjvn. höfum ekki lagt fram neinar sérstakar brtt. við vegáætlun þessa, og er það í raun og veru í samræmi við afstöðu okkar Framsfl.-mannanna til fjárlagaafgreiðslu undanfarandi ára. Við stöndum hins vegar, eins og ég sagði, bæði að brtt. á þskj. 588 um lánsfjárheimildirnar og einnig þeirri brtt., sem hv. 4. þm. Vesturl. skýrði frá í sambandi við breytingu, sem gerð var um texta í sambandi við tvær brýr, en ekki hefur áhrif á niðurstöðutölur vegáætlunarinnar.

Ég hef áður lýst hér og við framsóknarmenn afstöðu okkar til vegamálanna, og mun ég ekki endurtaka það og ekki gera frekari aths. við málið, þótt á því væri þörf, heldur en þegar hefur verið gert í nál, okkar og í þessum orðum, sem ég nú þegar hef sagt.