06.12.1966
Efri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, er ég meðflm. að brtt. á þskj. 115, sem hefur inni að halda tvö meginatriði, og hið fyrra og aðalatriði brtt. er það, eins og hv. 4. þm. Austf. hefur lagt áherzlu á, að það verði ákveðið með löggjöf, það verði lögfest áætlun um framkvæmdir í þessu máli, en jafnframt verði séð fyrir fjárveitingum, til þess að hægt verði að standa við slíka áætlun. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa brtt., þar sem það hefur verið gert rækilega af hv. 1. flm. hennar. En vegna þeirra umr., sem hér hafa orðið um þetta mál, bæði hjá hv. 4. þm. Vestf. og hæstv. menntmrh., vildi ég fara um það nokkrum orðum frá mínu sjónarmiði og gera þá m.a. nokkra grein fyrir því, hvers vegna ég taldi eðlilegt og sjálfsagt að vera meðflm. að brtt. okkar á þskj. 115.

Það er nú þannig með mig, að afstaða mín til sjónvarpsmála hefur mótazt eins og kannske fleiri manna af ýmsum atriðum, m.a. því algerlega óeðlilega ástandi, sem hér hafði þróazt og verið í allmörg ár, að erlent ríki, meira að segja herstjórn erlends ríkis, hafði komið sér upp sjónvarpsstöð, sem náði til verulegs hluta landsmanna, án þess að Íslendingar gætu haft þar eða hefðu þar hin minnstu áhrif á. Ég skal ekkert um það segja, hvort ég hefði verið tilbúinn að greiða því atkv. nú eða fyrir 1–2 árum, að við ættum að láta íslenzkt sjónvarp ganga fyrir ýmsum mjög mikilvægum og aðkallandi nauðsynjamálum, menningarmálum, sem liða stórlega við það, að fjárveitingar skortir til þeirra. Ég veit ekki, hvort ég hefði verið tilbúinn til þess að taka sjónvarp þá fram yfir það marga og mikilvæga í okkar menningarmálum, sem skortir stórlega fjárveitingar. En með tilliti til þessa sérstaka og óeðlilega ástands, sem hér var ríkjandi, sannfærðist ég um, að það mundi vera skynsamleg stefna að fylgja íslenzku sjónvarpi, þó að það yrði dýrt, þó að það kostaði mikið og þó að ég, eins og ég sagði, hefði ekki verið viss um, að ég hefði tekið það fram yfir allt annað, sem fé vantar til í menningarmálum, ef um það hefði verið að velja á eðlilegum grundvelli, hvað ætti að styrkja og hvað ætti að ganga fyrir. En vegna þessara sérstöku aðstæðna hef ég fylgt því, að íslenzkt sjónvarp kæmist upp og það gæti orðið sem myndarlegast.

Nú er það orðin staðreynd, íslenzka sjónvarpið. Tilraunasjónvarpið er þegar tekið til starfa fyrir nokkru og hefur yfirleitt fengið góða dóma, að því er mér skilst. Stuðningur minn við þetta mál er ekki enn þá orðinn sá í verki, að ég hafi eignazt sjónvarp sjálfur, en að því rekur nú brátt sennilega, en mér skilst, að þetta tilraunasjónvarp fái yfirleitt góða dóma og sé talið vonum betra. Nú blasir það við, og raunar viðurkenna það allir, að þegar svo er komið, að um það bil helmingur landsmanna hér á þéttbýlissvæðinu nýtur þessa íslenzka sjónvarps, sé það orðið bæði sanngirnis- og fyllsta réttlætismál, að útbreiðslu sjónvarpsins verði hraðað svo sem föng eru á. Og það hefur verið margsinnis á það bent, að þetta tæki verði að ýmsu leyti mikilvægara og eigi meira erindi út í fámennið, þar sem lítið af skemmtunum og öðru til dægrastyttingar er um að ræða fyrir fólkið, það eigi meira erindi út á landsbyggðina en á þéttbýlissvæðin. Þess vegna er það óumdeilanlegt og hefur í rauninni enginn mælt gegn því, að það sé bæði sanngirnis- og réttlætismál, að útbreiðslu sjónvarpsins sé hraðað svo sem kostur er. Það liggur líka í augum uppi, að þetta er hagkvæmt.

Annað sjónarmið er, að það er hagkvæmt að því er snertir allan sjónvarpsrekstur. Á það hefur verið bent í fyrsta lagi, að auknir tollar af sjónvarpstækjum mundu koma fyrr en ella með því móti að hraða útbreiðslu sjónvarpsins um landið. Það mundu fleiri aðilar og fyrr en ella greiða sín afnotagjöld, og það hlyti vitanlega að auðvelda allan rekstur sjónvarpsins.

Í þriðja lagi, og á það vil ég benda sérstaklega, því að ég held, að það hafi ekki áður komið fram, mundi það auka tvímælalaust möguleika sjónvarpsins til þess að fá verulegt fjármagn með auknum auglýsingatekjum. Ég hygg, að það hafi enn sem komið er gengið heldur erfiðlega að fá auglýsingar í sjónvarp, og mér er fullkunnugt um, að það stafar vitanlega af því, að margir eru ekki tilbúnir að borga há gjöld til þess að auglýsa í sjónvarpi, meðan það nær aðeins til lítils hluta landsins og ekki nema til helmings landsbúa. Auglýsingatekjur sjónvarps mundu tvímælalaust stóraukast, strax og það væri komið eitthvað að ráði í flesta eða alla landshluta.

Þá tel ég ástæðu til þess í fjórða lagi að benda á, að útbreiðsla sjónvarpsins um landið og það að gera áætlun og taka ákvörðun byggða á þeim upplýsingum, sem fyrir liggja í dag um það, hvaða framkvæmdahraði á að vera á dreifingu sjónvarpskerfisins, það mundi tvímælalaust gera mögulegt að ná miklu hagkvæmari samningum og betri kjörum um kaup á þeim endurvarpsstöðvum og þeim tækjum, sem við þurfum að kaupa til þessa dreifingarkerfis á næstu árum, hvort sem þau verða 3 eða 4 eða 5 eða fleiri. Það er enginn efi á því, að með því að gera sér grein fyrir því, hvaða framkvæmdahraði á að vera á þessum hlutum, og að gera heildarsamning um þessi efni, bjóða þau út sem sagt, fá tilboð um endurvarpsstöðvarnar sem allra flestar eða mjög margar í senn og afhentar á tilteknum tímum, mundi gera innkaupin hagkvæmari og sennilega mundi þá vera hægt að fá mjög hagkvæm lánskjör. Fyrirtækin mundu lána allverulega í þessu efni, sem síður væri fyrir hendi, ef ætlunin væri að kaupa eina eða fáar af þessum stöðvum í senn eða festa kaup á einni eða tveimur aðalstöðvum og kannske eingöngu litlum stöðvum nú til að byrja með og ákvarðanir um allt hitt eigi svo að bíða seinni tíma. Á þetta vildi ég benda.

En það virðist nú svo, að allir telji sig vera sammála um þetta, allir, sem hér hafa talað, að það eigi að hafa, eins og hæstv. menntmrh. sagði, þann framkvæmdahraða, sem tæknilegir möguleikar og fjárhagsgeta framast leyfa. En sé þetta í rauninni ætlunin, hvers vegna er þá ekki ástæða til þess að taka undir till. okkar á þskj. 115, sem í fyrsta lagi vill byggja á þeirri áætlun, sem fyrir liggur um hina tæknilegu möguleika, að það sé mögulegt að koma upp, ef fjárhagsgeta leyfir, öllum aðalsendistöðvum og millistöðvum á næstu 3 árum, ef þegar er hafizt handa og gerð heildaráætlun um þetta verk, og í öðru lagi, að með lánsheimild hæfilega og nægilega hárri verði það tryggt, að hægt sé að standa við þessa áætlun? Ég skal ekkert fullyrða um, að þessi áætlun sé svo nákvæm, að það geti ekki eitthvað komið upp í sambandi við framkvæmdina, sem torveldi það, að hægt sé að standa við hana í hverju einstöku atriði. En það er ekki óvenjulegt, þó að það verði að endurskoða slíka hluti, og það verður vitanlega að beygja sig fyrir staðreyndum í þeim efnum, að því er varðar hin tæknilegu atriði. En ég tel það algerlega óviðunandi, ef menn á annað borð eru fylgjandi þeirri meginhugsun, að það eigi að dreifa sjónvarpi eins fljótt og tæknilegir möguleikar og fjárhagsleg geta framast leyfa, að hafa ekki um þetta áætlun, þannig að fólkið úti á landsbyggðinni hafi hugmynd um, hvað sé talið mögulegt og að hverju sé stefnt, hvort megi búast við á þessum stað að fá sjónvarpið eftir 1 ár, 2 ár, 3 ár, eða hvort það verði að bíða í 5 ár eða 10 ár, þar sem erfiðast er. Að sjálfsögðu verður ekki hægt að fullyrða um það í dag, þar sem þetta er mikið tæknilegt vandamál, að það sé hægt að tryggja fólki á tilteknum stað sjónvarp eftir ákveðinn mánaðafjölda eða 2–3 ár. Það kann að koma eitthvað tæknilegt fyrir, sem breytir öllum áætlunum og tefur. En mér sýnist, að það sé hægt og það sé sjálfsagt að gera slíka fasta áætlun og Alþ. hafi möguleika á því að taka slíka ákvörðun byggða á þeirri vitneskju, sem nú er bezt fyrir hendi, þannig að þetta svífi ekki allt of mikið í lausu lofti og það byggist ekki eingöngu á frómum óskum um það og yfirlýsingum, skulum við segja, að þetta skuli koma eins fljótt og fjárhagsgetan leyfir og þar fram eftir götunum, það eigi að gera hér um áætlun, vitanlega byggða á þeirri vitneskju um möguleika, sem nú er fyrir hendi.

Mér þótti vænt um það, að hæstv. menntmrh. tekur nú jákvætt undir þá hugsun, sem bæði liggur að baki brtt. okkar á þskj. 115 og brtt. hv. 4. þm. Vestf., undir þá hugsun að flýta þessu máli með því að taka nokkurt fé að láni. Mér skildist á honum, þegar þessi mál voru til umr. hér í haust, að hann teldi nokkur tormerki á þessu eða a.m.k. sæi ekki sérstaka ástæðu til þess þá. Nú ræðir hann hins vegar um það og mælir raunar með því, að Alþ. veiti allt að 25 millj. kr. lánsheimild í þessu skyni, og ég fagna því og tel það gott, svo langt sem það nær. Mér skilst nú, að það dugi hins vegar ekki nema til þess að tryggja kaup og uppsetningu þessara tveggja aðalstöðva, sem þegar er búið að taka ákvörðun um, en ég vildi leggja áherzlu á, að það er engan veginn nóg. Það þarf að gera um þessi mál alveg ákveðna áætlun. Ég hygg, að þessi áætlun, þótt lausleg sé, sem við höfum sett í okkar brtt., að aðalstöðvar og millistöðvar geti komizt upp á næstu 3 árum, sé ekki alveg óraunhæf, það séu tæknilegir möguleikar á því, ef ekki strandar á fjárhagsgetunni, og ég legg á það mikla áherzlu, að áætlun um þetta verði gerð og Alþ. lýsi yfir vilja sínum ákveðnum um það, að framkvæmd sé hraðað svo mikið sem tæknilegir möguleikar leyfa.