18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (2231)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég tala hér ekki fyrir neinum. brtt., því að þær flyt ég engar. En hér er um að ræða vegáætlun, sem gildir til tveggja ára og hefur þar af leiðandi mikla þýðingu fyrir þá, sem landið byggja. En því miður verður það tæpast sagt um vegamálin almennt, að fyrir þeim hafi verið vel séð, því að oft og einatt, þegar maður ferðast um landið, fer maður yfir mjög slæma vegi, illa við haldið og illa gerða Þetta hefur komið einna bezt í ljós síðustu árin, eftir að bifreiðafjöldinn varð svo mikill í landinu sem raun er á orðin og eftir að þungaflutningar urðu eins miklir og orðið er, og hafa þeir flutningar aukizt allmikið á síðustu árum, samhliða því að flutningar á sjó hafa farið minnkandi.

Fólkið í landinu greiðir allt sín gjöld til vegagerðar, og þar af leiðandi á það á sinn hátt rétt á því, að vegum sé vel við haldið og nýbyggingu vega og brúa hraðað, eftir því sem auðið er. Vetrarsamgöngur eru allmisjafnar, og sömuleiðis er misjöfn fyrirgreiðsla, sem veitt er í því sambandi. Í nágrenni Reykjavíkur held ég, að það sé alltaf haldið opnum vegum, þegar þess er nokkur kostur. Ef við viljum fara lengra út á land, þ.e.a.s. vestur eða norður á land, þá er þessu öðruvísi háttað. Þegar snjóar eru, er fyrirgreiðsla veitt í mesta lagi efnu sinni í viku yfir Holtavörðuheiði og yfir Bröttubrekku. Fari maður lengra vestur, t.d. vestur fyrir Gilsfjörð, þá er snjómoksturinn háður því, hvort heimamenn á tilheyrandi stöðum vilja taka þátt í þeim kostnaði, sem þar af leiðir, eða ekki. Það er því ekki sama, hvar á landinu fólkið býr. Það verður að borga kostnaðinn eftir staðsetningu, og það fær fyrirgreiðslu líka eftir því, hvar það á heima á landinu.

Ég er því fylgjandi, að vegasjóður taki á sig auknar greiðslur, þegar um snjómokstur er að ræða, og geri það í mun ríkara mæli en tíðkazt hefur til þessa. Það er að vísu látið í það skína f þessari vegáætlun, að það muni breytingar eiga sér stað í þessum efnum, og vænti ég, að þær megi verða til mikilla bóta fyrir þá, sem hafa orðið að leggja á sig þungar fjárhagsbyrðar í þessu sambandi á undanförnum árum. Og ég treysti því, að þegar athuguð eru þau ákvæði og þær reglur, sem um þessa hluti gilda, að þá verði því þannig fyrir komið, að vegaþjónustan verð! alls staðar svipuð og fyllsta samræmis og réttlætis gætt í þeim efnum, því að það er lágmarkskrafa okkar allra að sitja við sama borð í þessum efnum. Úr því að ég minnist á þessa þjónustustarfsemi í sambandi við snjómokstur og það sem því fylgir, vil ég minna á, að það er stundum hægt að komast hjá því að eyða miklu fjármagni í snjómokstur, og það er hægt með því að hraða meira nýbyggingu vega og endurbæta vissa vegakafla, sem snjóþyngstir eru. Ég vil minna á það, að Brattabrekka og Svínadalur í Dalasýslu eru snjóþungir fjallvegir í snjóavetrum. En það er hægt að fara aðrar snjóléttari leiðir, t.d. Heydal í staðinn fyrir Bröttubrekku og svokallaðar Strandir í staðinn fyrir Svínadal. Þegar ég minnist á Heydal og veginn fram Hnappadal, þá er hann að vegalengd 28 km frá Stykkishólmsvegi að sunnan og á Skógarstrandarveg að vestan. Heydalur sjálfur er um 13 km langur, en Hnappadalurinn 15 km, og Hnappadalurinn er að mestu leyti í byggð. Eftir er að leggja nú um 9 km veg yfir Heydal og endurbæta og byggja nýjan veg í Hnappadalnum, og er sú áætlun talin vera 2.5 millj. kr., en vegagerðin yfir Heydal er áætluð 6.3 millj. kr., það sem eftir er. Auk þess þarf að byggja 5 smábrýr, og kosta þær atlar nálægt 1.8 millj. kr. Ég vænti þess, að þessar ár verði allar brúaðat í ár og næsta ár, því að þetta eru allt smábrýr og kostnaður við gerð þeirra tiltölulega lítill.

Fjármagn það, sem til er skv. vegáætlun, eins og hún liggur fyrir hér á hv. Alþ., varðandi Heydal og Hnappadal, er 5 millj. kr. Þá vantar til þess að fullgera Heydalsveg og Hnappadal rúmar 3 millj. kr., sem ég vona að verði útvegaðar á einhvern hátt, svo að vegasamband komist á eigi síðar en á næsta ári. Það er ekki meira verk en svo, að það ætti að vera mögulegt, ef vilji er fyrir hendi, og þetta sparar líka útgjöld á öðrum sviðum hjá vegagerðinni, t.d. snjómokstur, og tryggir auk þess samgöngur við Breiðafjörð og vestur um firði.

Þá vil ég í þessu sambandi minna á vegasambandið milli Vestur- og Norðurlands yfir Laxárdalsheiði. Þessi leið er snjólétt og færir Vestfirði nær Norður- og Austurlandi, þegar þar kemur góður akfær vegur, en akfært er þar nú aðeins yfir sumartímann.

Ég minntist hér áðan á Svínadal og leiðina tii Vestfjarða. Svínadalur er snjóþungur, en vegurinn kringum Strandir, þ.e. út með Hvammsfirði að vestan og inn með Gilsfirði að sunnan, en snjóléttur, og ef sá vegur væri orðinn góður og fullgerður, þá væri þessi leið nokkurn veginn fær allan vetrartímann. En þessi leið er öll í byggð og nálægt sjó, svo að fannir eru þar allajafna litlar. Það þykir því mjög áríðandi að hraða vegalagningu þarna, þar sem þá eru allar horfur á því, að vetrarsamgöngur verði bæði öruggari og hagkvæmari en þær hafa verið til þessa.

Fjvn. hefur fullan skilning á máli þessu, og er ég henni þakklátur fyrir þær breytingar, sem hún leggur til varðandi þennan veg. Ég tel, að með þeim lánum, sem til þessa eru ætluð í vegáætluninni í ár og á næsta ári, megi bæta til muna þá kafla á þessari leið, sem erfiðastir hafa reynzt á veturna.

Þótt ég minnist hér aðeins á örfáa vegi, þá er það ekki vegna þess, að það sé ekki víðar í Vestfjarðakjördæmi þörf á endurbótum í vegamálum. Ég hef haldið mig eingöngu við aðkallandi og stór verkefni, en minni á það í leiðinni, að brýr vantar bæði á Borgarfjörð og Álftafjörð hjá Narfeyri.

Þá tel ég og vil minna á í þessu sambandi, að nauðsynlegt er að auka til muna það fjármagn, sem veitt er til fjallvega, ekki einungis fyrir það fólk, sem er að skemmta sér um hábyggðir þessa lands, heldur og ekki síður fyrir þá, sem stunda landbúnað og þurfa að ferðast um heiðalöndin og smala búfé sínu. En víða háttar þannig til í landi voru, að það kostar ekki ýkjamikið að gera akfært á fjöllum uppi.

Trú mín og von er sú, að þess verði ekki langt að bíða, að það komi sú ríkisstjórn í landi voru, sem hefur bæði reisn og ráð undir rifi hverju til að horfast í augu við vandamálin og leysa þau. Þá munu þau verkefni, sem ég hef hér minnzt á, verða leyst. Í trausti þess sé ég ekki ástæðu til að flytja brtt. að þessu sinni við þá vegáætlun, sem hér liggur fyrir.