06.12.1966
Efri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala langt mál, til þess að gera aths. við síðari ræðu hv. 4. þm. Vestf., þó að hann minntist nokkuð á þau rök, sem ég hafði flutt fram í sambandi við brtt. þá, sem ég mælti fyrir. Ég þarf þess þeim mun síður, þar sem hv. 5. þm. Reykn. hefur nú gert grein fyrir sínum sjónarmiðum., en hann er meðflm. að till., sem ég mælti fyrir, og hefur tekið ýmislegt fram þessu máli í heild til skýringar.

Aðalatriðið, sem vakir fyrir okkur, sem stöndum að till. á þskj. 115, er það, eins og ég hef áður tekið fram, að fyllsti hraði sé hafður á um að dreifa sjónvarpinu um landið, eftir því sem tækni gerir það kleift. Og við teljum, að það sé vel tæknilega kleift að koma upp þeim framkvæmdum, sem í okkar till. greinir frá, eigi síðar en á árinu 1969. Nú segir hv. 4. þm. Vestf., að fyrir sér vaki að miða við 5 ára áætlun sjónvarpsnefndar, og þá skilst mér, að það, sem fyrir honum vaki, sé það, að sjónvarpið verði komið til allra landshluta 1970, þannig að í þessu efni vill hann ganga nokkru skemmra eða hafa dálítið minni hraða á en við leggjum til, að miðað sé við. En ég tók það fram í ræðu minni, á hvaða sjónarmiðum sú till. um lánsheimild er byggð, sem við berum fram. Ég tók það jafnframt fram, að í þessu dæmi eru vissulega ýmsar óþekktar stærðir, svo að það er erfitt og jafnvel ókleift nú í dag að segja nákvæmlega til um, hvaða þörf kann að verða fyrir hendi í þessu efni. Sjónvarpsnefndin miðar við 30 millj. kr. lántöku. Við höfum stungið upp á 50 millj. kr., en hv. 4. þm. Vestf. stingur upp á 100 millj. kr. Ég tók eftir því, að í fyrri ræðu hans, hv. 4. þm. Vestf., þegar hann mælti fyrir þessari till., sagði hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ég vil ekki fullyrða, hve þetta lán þarf að vera hátt eða til hve langs tíma.“ Þetta skrifaði ég, og ég vænti, að hv. þm. sjái, ef hann les handrit sitt síðar, að þannig tók hann til orða. Síðar í sömu ræðu segir þessi hv. þm.: „Ég vil ekki fullyrða, hvað þarf að nota þessa heimild mikið, sem hér er farið fram á.“ Þetta verður ekki misskilið, en þetta bendir ótvírætt til þess, að jafnvel hann, sem á sæti í útvarpsráði, hann, sem stóð meðal annarra að áliti sjónvarpsnefndar, sé ekki öruggur um, að það sé nákvæmlega það rétta, sem hann leggur til. Það er alger misskilningur hjá hv. 4. þm. Vestf., að ég vilji gera lítið úr till. hans. Ég skýri aðeins frá efni hennar, eins og hún liggur fyrir. Hún fjallar aðeins um lánsheimild, þar er ekkert tímatakmark sett, hvorki um hraða framkvæmda né á hve mörgum árum þessa lánsheimild á að nota. Og ég hef meira að segja gengið svo langt, að ég hef sagt, að ég mundi greiða þessari till. atkv., og bendir það ekki til þess, að út af fyrir sig sé ég að gera lítið úr henni.

Út af orðum hæstv. menntmrh. vil ég segja það, að ég fagna því, að hann tekur að nokkru leyti undir það sjónarmið, sem fram kemur í till. okkar, þ.e.a.s. það sjónarmið, að þörf sé á að koma inn í þetta frv. lánsheimild hæstv. ríkisstj. til handa. Ég vil fyrir mitt leyti fagna því, að þetta kemur fram hjá hæstv. ráðh. Á hinn bóginn harma ég það, að hæstv. ráðh. skuli láta þau orð falla, að hann telji ekki þörf á eða jafnvel miður farið, að löggjafinn tiltaki tímamark framkvæmdanna, þ.e.a.s. mæli fyrir um, hve mikinn hraða skuli hafa á í þeim efnum. Þetta tel ég mjög miður farið, og ég vil vænta þess, ef þessi mál verða nánar athuguð í hv. menntmn. í samvinnu við hæstv. menntmrh., að hann endurskoði þessa afstöðu sína og gangi einnig í þessu efni til móts við okkur, sem flytjum till. á þskj. 115.