13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2244)

140. mál, rannsóknarnefnd á ásökunum um trúnaðarbrot utanríkismálanefndarmanna

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Í grg. þeirri, sem fylgir þessari till., er það rakið í stórum dráttum, hvert sé tilefni til þess, að hún er flutt. En í stuttu máli sagt er það þannig: Í umr., sem fóru fram í sameinuðu þingi 30. nóv. s.l., bar störf utanrmn. á góma, og fórust þá hæstv. utanrrh. orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er alveg rétt, að það eru miklu færri mál borin undir utanrmn. en vert væri og sennilega rétt væri, en það er af því, að fyrrv. utanrrh. taldi, að hann hefði orðið þannig fyrir barðinu á utanrmn., að hann gæti ekki trúað henni fyrir málum. Ég held, að mér sé óhætt að segja það eftir honum, að það hafi trúnaðarmál, sem n. hafi verið sagt frá, verið borin út og komið í blöðum, og þess vegna vildi hann ekki fyrir sitt leyti, að henni væru fengnar allar upplýsingar, sem annars hefði verið rétt að nefndin fengi. Ég skal ekkert segja um þetta, ég þekki það ekki svo vel.“

Þetta voru ummæli hæstv. utanrrh. Í sjónvarpsviðtali, sem ráðh. átti við nokkra blaðamenn 10. febr. s.l., barst talið að þessu efni. Morgunblaðið sagði frá viðtalinu daginn eftir, og hófst frásögn blaðsins á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á blaðamannafundi í sjónvarpinu í gærkvöld sagði Emil Jónsson utanrrh., formaður Alþfl., að á árunum 1960—1961 hefðu trúnaðarmál, sem lögð voru fyrir utanrmn. Alþ., lekið út og birzt aðallega í Þjóðviljanum og einnig í Tímanum. Utanrrh. sagði einnig, að meðan svo væri, mundi hann ekki leggja trúnaðarmál fyrir nefndina.“

Það gerðist svo næst í þessu máli, að á fundi í Sþ., sem haldinn var 15. febr. s.l., vék utanrrh. enn að þessu máli og taldi sig eingöngu hafa haft ummæli Guðmundar Í. Guðmundssonar fyrrv. utanrrh. fyrir því, að ekki væri hægt að treysta utanrmn. fyrir trúnaðarmálum. Þessu til áréttingar vitnaði ráðh. í ummæli, sem fyrrv. utanrrh. lét falla á fundi utanrmn. 4. febr. 1964, en þeim ummælum fyrrv. utanrrh. var strax mótmælt þá í n. og þess farið á leit, að hann nefndi dæmi máli sínu til sönnunar, en það gerði hann ekki. Var þess vegna álitið, að ráðh. hefði séð við nánari athugun, að ásakanir hans hefðu ekki við rök að styðjast, og því ekki hreyft málinu meira. En þar sem það hefur nú gerzt, að núv. utanrrh. virðist hafa tekið þessar órökstuddu fullyrðingar fyrirrennara síns alvarlega og fært þær fram sem afsökun fyrir því, að hann hefur ekki haft samstarf við utanrmn., svo sem lög gera ráð fyrir, og þar sem jafnframt í vissum stjórnmálablöðum er farið að byggja á þessum fullyrðingum árásir á utanrmn. eða a.m.k. suma þá menn, sem þar hafa átt sæti, hefur mér og samnm. mínum í utanrmn. þótt rétt, að það væri rannsakað alveg sérstaklega, hvað hæft er í þessum ásökunum, því að hér er um mikilvægt brot að ræða, ef rétt væri, og þess vegna er það, sem ég flyt hér í þessari hv. d. till, um það, að samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar verði skipuð sérstök rannsóknarnefnd til rannsóknar á þessum ásökunum um trúnaðarbrot utanrmn.-manna.

Mér finnst rétt að geta þess, að síðan þessi till. var lögð inn til skrifstofu Alþ., hafa orðið nokkrar umr. um þetta efni hér á Alþ. í sambandi við frv., sem nokkrir þm. flytja um breytingar á I. um utanrrn. Íslands. Í þeim umr. var nokkuð vikið að þessu sérstaka máli, og í því sambandi gat utanrrh. þess, að það hefði verið misminni hjá honum, að umrædd trúnaðarbrot hefðu átt sér stað á árunum 1960 og 1961, heldur hefðu þessi brot átt sér stað á árunum 1958 og 1959.

Mér finnst rétt að ræða aðeins nokkru nánar um þetta, en á fundi hér í hv. d., sem haldinn var 15. febr. s.l.. rakti ég nokkuð þær ásakanir, að trúnaðarbrot kynnu að hafa átt sér stað í utanrmn. á árunum 1960—1961, og gerði það með þeim hætti að rifja upp þau mál, sem höfðu verið lögð fyrir n. eða hún rætt á þessum tíma. Og mér var ekki sjáanlegt, að á nokkrum þeim fundi n., sem haldinn var á þessum árum, árunum 1960–1961, hefði nokkurt það mál, sem væri hægt að kalla trúnaðarmál, verið lagt fyrir n., og enn síður, að nokkuð hafi verið óskað eftir því af viðkomandi aðilum, að um þau mál væri fjallað sem trúnaðarmál.

Ég hef í framhaldi af þessum síðari ummælum hæstv. ráðh., að trúnaðarbrotin hafi átt sér stað á árunum 1958 og 1959, nokkuð kynnt mér þetta mál. Að vísu er ég ekki nema að litlu leyti þar til vitnis, því að ég var fyrst kosinn í utanrmn. á miðju sumri 1959, og á þeim tíma, sem ég sat í n. á því ári, voru ekki haldnir í henni nema tveir fundir, annar á sumarþinginu 1959 eingöngu til þess að kjósa formann n. og svo annar fundur á haustþinginu 1959, einnig til þess að kjósa eingöngu formann n., svo að það liggur í augum uppi, að á þeim fundum hafa ekki nein trúnaðarbrot getað átt sér stað í sambandi við störf n. Ég hef einnig fengið aðstöðu til þess að kynna mér fundargerðir utanrmn. að öðru leyti frá árunum 1958 og 1959. Og mér sýnist, að samkv. þessum fundargerðum n. hafi á þessum fundum ekki verið rædd nema tvö mál.

Haustið 1958 voru haldnir nokkrir fundir til að ræða um afstöðu Íslands til landhelgismálsins, sem þá var til meðferðar á þingi Sameinuðu þjóðanna, en þá lá fyrir þinginu að ákveða það, hvort landhelgismálið, þ.e.a.s. víðátta landhelginnar, yrði tekið til meðferðar á nýrri, sérstakri landhelgisráðstefnu eða hvort um það mál yrði fjallað á þingi Sameinuðu þjóðanna sjálfu. Þetta mál var þannig vaxið, að það var rætt um það bæði í íslenzkum blöðum og erlendum blöðum á þessum tíma mjög opinskátt, og það var ekki farið með það sem neitt trúnaðarmál, hvorki á þingi Sameinuðu þjóðanna né annars staðar, hver væri afstaða einstakra ríkja í þessum efnum, og ég sé ekki, að það hafi komið fram á fundum utanrmn. haustið 1958 neinar þær upplýsingar, sem þá voru ekki birtar samtímis í fréttum blaðanna, svo að ég get ekki séð, að það hafi verið í n. um nein trúnaðarmál að ræða.

Hitt málið, sem rætt var í n. á þessum tíma, eða vorið 1959, var um það, hvort Alþ. skyldi gera sérstaka ályktun um landhelgismálið. Framsfl. lagði það til í n. nokkuð snemma um veturinn, eða í marzmánuði, að áður en til kosninga yrði gengið þá um sumarið, lýsti Alþ. yfir afstöðu sinni til landhelgismálsins eins og hún væri þá, og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst í tilefni af þeirri deilu, sem þá stóð yfir við Breta um þessi efni. Um þetta var svo fjallað á nokkrum fundum. Það kom fram, sem ekki fór dult þá á Alþ. og í blöðum, að það var mikil tregða hjá þáv. stjórnarflokkum, sem voru í raun og veru Alþfl. og Sjálfstfl., að Alþ gerði nokkra yfirlýsingu um landhelgismálið þá um vorið. Og manni virtist, að það væri alveg sérstök tregða hjá þáv. utanrrh., að nokkur slík yfirlýsing yrði gefin út. Niðurstaðan varð samt sú, eftir að um þetta hafði verið allmikið þóf í utanrmn., að núv. hæstv. forsrh. lagði þar fram sérstaka till. af hálfu Sjálfstfl., sem var svo að verulegu leyti grundvöllur þeirrar samkomulagstill., sem Alþ. gerði um landhelgismálið vorið 1958, snemma í maímánuði, og oft hefur verið vitnað til síðar. Ég get ekki séð, að það hafi verið neitt trúnaðarmál í n., þó að fjallað væri um mál eins og þetta, hvort Alþ. skyldi gefa þá yfirlýsingu, að það héldi fast við reglugerðina um 12 mílna landhelgina og mundi ekki að neinu leyti víkja frá henni og mundi halda áfram að vinna að fullri viðurkenningu á henni. Hér var ekki verið að ræða um neitt trúnaðarmál, sem snerti erlend ríki, heldur afstöðu sjálfs Alþ, og um þetta mál var fjallað í utanrmn. eins og er fjallað um hvert annað þingmál í öðrum n. Ég held þess vegna, að það hljóti að vera á einhverjum misskilningi byggt, að trúnaðarbrot hafi átt sér stað í utanrmn. á þessum árum.

Mér finnst svo rétt að rifja það upp í stuttu máli, hvernig störfum utanrmn. er í raun og veru háttað, og þá með því að rekja í stórum dráttum sögu nefndarinnar.

Utanrmn. var sett á laggirnar á Alþ. 1928. Það var Héðinn Valdimarsson, sem flutti till. um það, að kosin yrði sérstök þn., fastanefnd í Alþ., sem fjallaði um þau þingmál, sem snertu afstöðu þjóðarinnar út á við, og yrði einnig til ráðuneytis við hlið ríkisstj. á milli þinga. Það var eiginlega fullt samkomulag um það milli þm. þá, að slík þn. yrði sett á laggirnar, en þó var Sjálfstfl., — eða sennilega hefur það verið Íhaldsflokkurinn, hann hafi borið það nafn þá, — þeirrar skoðunar, að það væri e.t.v. eðlilegra form, að nefndirnar yrðu tvær, sín í hvorri d., í staðinn fyrir að kjósa n. í Sþ. Og þess vegna varð það samkomulagsatriði og var í ákvæðum um utanrmn. nokkuð lengi á eftir, að bæði Sþ. og þd. gátu vísað þingmálum þangað til meðferðar. Það kemur mjög greinilega fram í þessum umr., að utanrmn. er ætlað að starfa á sama hátt og öðrum þn. Það atriði, sem getur sætt deilum í þessu sambandi, er, hvað eigi að teljast trúnaðarmál í n. og hvað ekki. Héðinn Valdimarsson minntist á það í umr., eða það kemur fram í ræðu hans, að þessi till. hans um utanrmn. var að mjög verulegu leyti sniðin eftir danskri fyrirmynd, og hann minntist á það í einni af sínum ræðum, að í dönskum lögum um þessi efni væri svo ákveðið, að ef ráðh. eða formaður n. óskaði eftir því, að farið væri með mál eins og trúnaðarmál, skyldi það gert. Hann taldi hins vegar ekki ástæðu til þess að taka upp að þessu sinni þetta ákvæði í lögin um n. eða fleiri svipuð ákvæði, sem voru í dönskum l. um störf utanrmn. Sigurður Eggerz minntist á það í umr., að það væri kannske ástæða til að taka þetta ákvæði um trúnaðarskylduna upp í l., en það virðist ekki hafa hlotið neinar sérstakar undirtektir og eigi heldur verið talið nauðsynlegt, vegna þess að sú hefð hafði þá ríkt í Alþ. um langt skeið, bæði í þn. og raunar i sambandi við störf þingsins sjálfs eða þingfunda, að þau mál, sem væru merkt sem trúnaðarmál eða óskað væri eftir, að væri farið með sem trúnaðarmál, yrðu það, án þess að nokkrar sérstakar lagaheimildir væru fyrir hendi í þeim efnum, en að því undanskildu hefðu bæði Alþ. sjálft starfað með opnum fundum og þn. einnig starfað sam opnar n., nema þegar einhver sérstök mál hafa verið lögð fyrir þær, sem hefur verið óskað eftir að væri farið með sem trúnaðarmál. Og þó að ekkert sérstakt ákvæði hafi verið um þetta s l., hefur alltaf verið gengið út frá því í utanrmn., eða svo hafa mér sagt menn, sem hafa starfað í henni, að ef ráðh. eða einhver sérstakur aðili óskaði eftir því, að með mál væri farið sem trúnaðarmál, þá skyldi það gert, en að öðru leyti væri utanrmn. opin n. eins og aðrar þn.

Með því frv., sem nýlega var samið af sérstakri mþn., sem var kjörin til þess að endurskoða þingsköp Alþ., og með till., sem hún hefur gert, hefur þetta sjónarmið verið alveg staðfest. En samkv. hennar till. er verksvið utanrmn. ákveðið á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:

Utanrmn. starfar einnig milli þinga og er ríkisstj. til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, enda skal stjórnin ávallt bera undir hana þau mál, jafnt milli þinga sem á þingtíma Nm. eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju, sem þeir fá í n., ef formaður eða ráðh. kveður svo á.“

Hér kemur alveg greinilega fram staðfesting á þeim skilningi, sem alltaf hefur ríkt um utanrmn., að n. væri opin n., nema þegar ráðh. eða formaður n. óskar eftir, að með mál sé farið sem trúnaðarmál. Það er eðlilegt að n. starfi þannig, vegna þess að að verulegu leyti er hún aðeins venjuleg þn., sem fjallar um frv. eða till., sem koma fram hér í þinginu og til hennar er vísað, en að svo miklu leyti sem hún er ríkisstj. til ráðuneytis um utanríkismál, vinnur hún að sjálfsögðu þannig, að ef um mál er að ræða, sem eru talin snerta þannig skipti þjóða, að heppilegt sé, að þeim sé haldið leyndum, er farið með þau sem trúnaðarmál, og þá áskar að sjálfsögðu viðkomandi ráðh. eftir því. En ef það er ekki gert, hvílir engin þagnarskylda á utanrmn.

Mér finnst rétt að láta þetta koma hér strax fram, því að vegna þess að síðan farið var að ræða um þetta mál, hefur aðeins bryddað á þeim misskilningi, að utanrmn. væri lokuð n., en það hefur hún aldrei verið, og það eru slíkar n. ekki heldur annars staðar, nema óskað sé eftir af viðkomandi ráðh. eða formanni n., þegar um einhver sérstök mál er að ræða, að farið sé með þau sem trúnaðarmál.

Ég hef spurt ýmsa þá menn, sem hafa starfað í utanrmn. áður fyrr, um skilning þeirra á þessu, og þeim ber öllum undantekningarlaust saman um það, að þannig hafi starfsháttum utanrmn. verið háttað. Og ég vil í þeim efnum alveg sérstaklega vitna til flokksbróður míns, sem á sæti í utanrmn. og var forsrh. um nokkuð langt skeið, þegar utanríkismál heyrðu undir forsrn., og hann segir, að á hans tíma og jafnan, þegar hann átti sæti í n., hafi þessi skilningur verið ríkjandi, að n. væri opin n., nema, ef ráðh. eða þá einhver aðili annar óskaði sérstaklega eftir því, að farið væri með mál í n. sem trúnaðarmál. Og ég get til enn frekari áréttingar í þessum efnum vitnað til fyrrv. formanns utanrmn., Gísla Jónssonar, sem var, eins og hv. þm. er kunnugt, ákaflega formfastur maður. Hann skýrði fyrir nokkrum árum, einmitt á þeim árum, þegar hann var formaður n., frá till., sem einn utanrmn.- maður hafði flutt í n. og áður hafði ekki verið gerð opinber. Og þetta gerði hann að sjálfsögðu vegna þess, að viðkomandi nm. hafði ekki óskað eftir því, að með þessa till. hans væri farið sem nokkurt trúnaðarmál.

Til þess að þær ásakanir hæstv. fyrrv. utanrrh. á hendur einstökum utanrmn: mönnum geti við nokkur rök stuðzt, yrði hann í fyrsta lagi að greina þau mál, sem hafi verið óskað eftir í n., að farið yrði með sem trúnaðarmál, og frá þeim hafi verið sagt. Ef hann getur ekki greint frá neinu slíku, hljóta ummæli hans að falla dauð og ómerk.

Ég skal ekki á þessu stigi hafa fleiri orð um þetta. Ég vil vænta þess, að það fái góðar undirtektir hér í hv. d., að þessi n. verði skipuð, og það verði leitt til fulls í ljós, hvað rétt er í þessum ásökunum fyrrv. utanrrh. Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.