19.10.1966
Sameinað þing: 5. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (2255)

13. mál, hlutverk Seðlabankans að tryggja atvinnuvegunum lánsfé

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Því miður verð ég að byrja á því að segja, að allur málflutningur hv. þm. í ræðu hans hér áðan er einn meiri háttar misskilningur. Í fyrsta lagi fer hann algerlega rangt með, segir algerlega rangt frá staðreyndum varðandi útlán bankakerfisins. Í öðru lagi rangtúlkar hann algerlega stefnu ríkisstj. í peningamálum og í bankamálum. Og í þriðja lagi misskilur hann eða rangtúlkar algerlega verkefni Seðlabankans á þessu sviði. Og það er mjög auðvelt að sýna fram á, að þessar staðhæfingar mínar hafi við fyllstu rök að styðjast, og skal ég gera það og þarf ekki til þess mörg orð.

Í ræðu sinni áðan og raunar í grg. fyrir þeirri till., sem hann var að mæla fyrir, er látið í veðri vaka, að atvinnuvegir landsins búi við, eins og segir orðrétt í grg., með leyfi hæstv. forseta, „búi við stórfelldasta lánsfjárskort og standi hann framar öðru í vegi þess, að framleiðslugeta þeirra“ — atvinnuveganna — „sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.“ Hann hélt því einnig fram, að bankakerfið byggi mun verr að íslenzkum atvinnufyrirtækjum nú en áður hafi átt sér stað. Þessu verður langbezt svarað með því að gefa stutt, en ég vona glöggt heildaryfirlit yfir útlán bankakerfisins á þeim síðustu 12 mánuðum, sem skýrslur eru til um, og bera þær saman við jafnlangt tímabil á undan.

Ég hef hér fyrir framan mig tölur um aukningu útlána og raunar innlána líka á tímabilinu frá 1. sept. 1966 — 1. sept. 1966, en á þessu 12 mánaða tímabili, frá septemberbyrjun 1965 til septemberbyrjunar 1966, jukust útlán viðskiptabanka og sparisjóða um hvorki meira né minna en 1716 millj. kr., en það er 23% útlánaaukning. Ef þetta er haft í huga, má geta nærri, hversu sanngjarn eða skynsamlegur dómur það er, að það, að haldið hafi verið í við atvinnuvegina um lánsfé, eigi einhvern alvarlegan þátt í þeim vandamálum, sem á vissum sviðum er þar við að etja. Ef við tökum 12 mánaða tímabilið á undan, frá 1. sept. 1964 til 1. sept. 1965, var heildarútlánaaukning viðskiptabanka og sparisjóða 812 millj. eða 12%. Á því síðasta 12 mánaða tímabili, sem endanlegar skýrslur liggja fyrir um, er útlánaaukning banka og sparisjóða m.ö.o. í krónum reiknað helmingi meiri en hún hafði verið á 12 mánaða tímabilinu á undan. Hún er yfir 1700 millj. kr., en hafði verið liðlega 800 millj. kr. Og hlutfallslega séð er hún líka næstum helmingi meiri, hún er 23% á móti 12%. Þessi útlánaaukning bankakerfisins á undanförnum 12 mánuðum er þeim mun athyglisverðari vegna þess, að hún er mun meiri en innlánaaukningin á sama tíma. Heildarinnlán jukust frá 1. sept. 1965 til 1. sept. 1966 í þessum sömu stofnunum um 1245 millj. kr., eða um 17%. Útlánaaukning banka og sparisjóða er m.ö.o. meira en 500 millj. kr. meiri en innlánaaukningin.

Um þetta kann mönnum auðvitað að sýnast sitt hvað, og því er ekki að leyna, á þessu eru skýringar, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér, og bankarnir bera fyrir sig í þessum efnum. Venjulega þykir það ekki kunna góðri lukku að stýra, þegar útlánaaukning bankakerfisins fer mjög verulega fram yfir aukningu þess fjár, sem bankarnir fá í hendur til útlána. Ég vil ekki deila á bankakerfið í þessu sambandi, vegna þess að mér er kunnugt um þær skýringar, sem þeir hafa á því, að þróunin hefur orðið svona, en hitt er auðvitað fjarri öllu lagi, að deila á bankakerfið eða yfirstjórn bankamálanna fyrir það að hafa svelt atvinnuvegina og valdið vandræðum vegna lánsfjárskorts, þegar bankarnir þó lána út meira en 500 millj. kr. meira en sparifjáreigendur landsins láta bönkunum í té til þess að lána út. Á 12 mánuðum áður, 1. sept. 1964—1965, hafði heildarinnlánaaukningin numið 1190 millj. kr., eða um 19%. Má því sjá, að tiltölulega lítil aukning varð á sparifénu, sparlinnlánum og veltiinnlánum, eða aðeins um 50 millj. kr. Það var þó, sem betur fer, nokkur aukning, en þó ekki nema um 50 millj. kr., en útlánaaukningin er tíföld á við sparifjáraukninguna.

Það gefur auga leið, hversu gersamlega það er út í bláinn að kvarta undan því, að bankakerfið hafi hér verið sérstakur svíðingur og haldið fyrir atvinnuvegunum fé, sem þeir hefðu átt að geta fengið. Ef eitthvað almennt á um þetta að segja, þá er það , að bankarnir hafi frekar lánað meira út en samrýmzt gat heilbrigðri stefnu í þankamálum og efnahagsmálum yfirleitt, frekar en hitt, að þeir hafi, væntanlega þá af illvilja eða skammsýni, haldið fé fyrir atvinnuvegunum, sem þeir hefðu átt réttmæta kröfu á að hafa til sinna afnota.

Nú er mjög eðlilegt, að hv. þm. detti í hug, að fróðlegt væri að vita, hvernig þessi útlánar aukning skiptist. Og auðvitað geri ég mér þessa fulla grein, að það segir ekki nema hálfa söguna að nefna heildartölur um útlánaaukninguna. Það gæti verið, að þessi útlán dreifðust með einhverjum þeim hætti, að augljóst væri, að vandræðum hefði valdið, a.m.k. á aumum sviðum. Þó að heildaraukningin væri mikil, gæti hún skipzt svo ranglega á atvinnugreinar, að ástæða væri til að álasa yfirstjórn bankamála fyrir ranga ráðstöfun á sparifé landsmanna. Þess vegna tel ég rétt að gera líka grein fyrir því, hvernig þessi útlánaaukning hefur skipzt á atvinnuvegi og aðra þá, sem lánsfé landsmanna nota.

Á tímabilinu 1. sept. 1965 til 1. sept. 1966 jukust útlán til landbúnaðar um 131 millj. kr. eða 17.6%. Útlán til sjávarútvegs jukust um 451 millj. kr. eða 27.5%. Útlán til verzlunar jukust um 379 millj. kr. eða 24.5%. Útlán til iðnaðar jukust um 212 millj. kr. eða 22.7%. Útlán til bygginga jukust um 82 millj. kr. eða 13.5%. Útlán til samgöngufyrirtækja jukust um 28 millj. kr. eða 16.9%. Útlán til raforkufyrirtækja, raforkumála, jukust um 16 millj. kr. eða 16.7%. Útlán til ríkissjóðs og ríkisstofnana jukust um 67 millj. kr. eða um 67.8%, en þá skýringu þarf að gefa á þeirri mjög háu hlutfallstölu, að hér er um að ræða nýjung í starfsemi bankakerfisins, að lána til ríkissjóðs og ríkisstofnana, lána til opinberra framkvæmda innan ramma framkvæmda- og fjárfestingaráætlunar ríkisins. Þau útlán tíðkuðust svo að segja ekki til skamms tíma, og þess vegna er grunntalan, sem við er miðað, mjög lág, svo að tiltölulega lítil útlánaaukning þýðir mjög mikla prósentutöluhækkun. Útlánaaukningin til bæjar- og sveitarfélaga nam 57 millj. kr. eða 21.3%. Útlánaaukning til peningastofnana og fjárfestingalánasjóða nam 23 millj. kr. eða 12.6%. Og svo að síðustu ýmislegt 95 millj. kr. eða 17.4%.

Á þessum tölum sést, að útlánaaukning bankanna dreifist með mjög svipuðum hætti á allt atvinnulíf landsmanna, til allra atvinnugreina. Að undanskilinni tölunni um ríkissjóð, sem er ekki sambærileg við hinar, vegna þess að þar er um nýjung í starfsemi að ræða, er útlánaaukningin til sjávraútvegsins langhæst hlutfallslega séð, hún er 27.5%, útlánaaukning til verzlunar er 24.5% og til iðnaðar 22.7%, en þessar tölur eru stærstu tölurnar, sem um er að ræða. Langmestur hluti útlánaaukningarinnar gengur til sjávarútvegs, verzlunar og iðnaðar og svo til landbúnaðar eða til þessara fjögurra höfuðatvinnugreina. Þessar tölur leiða ótvírætt í ljós, að það er á algjörlega röngum forsendum byggt, ekki aðeins þegar hv. þm. heldur því fram, að í heild sé atvinnulífið svelt af bankakerfinu, heldur einnig að einstakar atvinnugreinar séu sveltar af bankakerfinu.

Hv. þm. sagði enn fremur í ræðu sinni, að aðstoð bankakerfisins við atvinnulifið væri mun minni nú en áður hefði tíðkast og svaraði engan veginn til þeirrar aukningar, sem yrði á framleiðslukostnaðinum í landinu. Ég athugaði snöggvast, hver hækkun hefur orðið á vísitölu framfærslukostnaðar á þessu sama tímabili, 1. sept. 1965 til sama dags 1966. Útlánaaukningin til allra höfuðatvinnuveganna er mun hærri en sem nemur þessari hækkun framfærslukostnaðarvísitölunnar: til landbúnaðar 17.6, til sjávarútvegs 27.5, til verzlunar 24.5 og til iðnaðar 22.7. M.ö.o.: aukning þess fjár, sem þessar atvinnugreinar hafa fengið til umráða úr bankakerfinu á síðustu 12 mánuðum, sem skýrslur eru til um, er hlutfallslega mun meiri en hækkun vísitölunnar á sama tíma.

Þá gerði hv, þm. nokkuð að umtalsefni hina svonefndu frystingu lánsfjár í Seðlabankanum og taldi hana mjög misráðna og valda miklu tjóni. Ég hef oft áður á hinu háa Alþingi og einnig í almennum umræðum og í blaðaskrifum gert hlutverk sparifjárbindingarinnar að umtalsefni, tilgang hennar annars vegar og þann árangur, sem af henni hefur hlotizt, hins vegar. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta mjög mörgum orðum nú. Ég held, að a.m.k. meginþorra þm. hljóti að vera farið að skiljast, hver er megintilgangur sparifjárbindingarinnar og hvað gott hefur af henni leitt. Þó skal ég freista þess með mjög einföldum hætti, í mjög fáum orðum að gera enn einu sinni grein fyrir kjarna þess máls, sem hér er um að ræða.

Seðlabankinn notar fé sitt aðallega með tvennum hætti. Eignir Seðlabankans eru rúmt reiknaðar 3000 millj. kr., og eignir Seðlabankans eru fólgnar í tveim eignaliðum fyrst og fremst, — ég geri málið einfalt með því að horfa fram hjá því, sem ekki skiptir máll, í þessu sambandi a.m.k. Þessar eignir sínar á Seðlabankinn bundnar annars vegar í erlendum gjaldeyri. 30. júní s.l., í lok fyrri helmings ársins, lágu reikningar Seðlabankans fyrir, og þá nam erlenda gjaldeyriseignin um 2000 millj. kr. Að öðru leyti notar Seðlabankinn fé sitt til endurkaupa afurðavíxla af viðskiptabönkunum, afurðavíxla sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar; og þessir endurkeyptu víxlar námu við lok . fyrra árshelmings um 1000 millj. kr. 3000 millj. kr. Og Seðlabankans skiptist þannig, að um 2000 millj. kr. eru bundnar í erlenda gjaldeyrinum og um 1000 millj. kr. í atvinnulífinu, þ.e. endurkaupum á framleiðsluvíxlum frá viðskiptabönkunum.

Nú dregur víst enginn í efa, að einhvers staðar þarf Seðlabankinn að fá það fjármagn, sem hann bindur í eignum sínum. Ekkert fyrirtæki getur átt eignir, nema það hafi fengið það fjármagn einhvers staðar að, sem í eignunum er bundið. Þetta sama gildir um Seðlabankann eins og sérhvert viðskiptafyrirtæki og raunar sérhvern einatakling. Sá maður, sem á hús, hefur einhvers staðar fengið fé, sem hann hefur lagt í húsið; annaðhvort af tekjum sínum eða tekið það að láni. Og fyrirtæki; sem á togara eða hraðfrystihús eða hvort tveggja; hefur auðvitað einhvers staðar fengið féð, sem í togaranum og frystihúsinu er bundið. Annaðhvort er það eigið fé eða það er lánsfé. Í lok s.l. árshelmings, lok júní s.l., hafði Seðlabankinn fengið þessar 3000 millj: fyrst og fremst með þrennum hætti. Eigið fé hans er aðeins 400 millj. kr. Svo hefur Seðlabankinn seðlaútgáfurétt, eins og við allir vitum. Hann gefur út þá seðla, sem við almennt notum í okkar greiðsluviðskiptum. Seðlavelta var þá um 1000 millj. kr., svo að með eigin fé og seðlaveltu hafði hann aflað sér 1400 millj. kr. En hvaðan skyldi hann hafa fengið hinar 1600 millj. kr., sem hann þarf á að halda til að geta átt 3000 millj. kr. eign? Þær hefur hann fengið sem bundna innstæðu frá viðskiptabönkunum, og bundna féð nam einmitt 1600 millj. kr. 30. júní s.l. Fjármögnun Seðlabankans er því þannig, að 400 millj. kr. eru hans eigið fé; 1000 millj. eru seðlaveita og 1600 millj. bundið fé. Ef við förum nokkur ár aftur í tímann, átti Seðlabankinn engan erlendan gjaldeyrisvarasjóð. En það var yfirlýst stefna af hálfu ríkisstj., stefna, sem í raun og veru hefur aldrei verið gagnrýnd, aldrei verið véfengt að væri rétt; að það væri nauðsynlegt að koma upp gjaldeyrisvarasjóði. Á um það bil 6 árum tókst. að koma upp um það bil 2000 millj. kr. gjaldeyrisvarasjóði. En dettur nokkrum manni í hug, að Seðlabankinn hafi getað eignazt 2000 millj. kr. gjaldeyrisvarasjóð, eign í erlendum gjaldeyri, án þess að verða að greiða hann með einhverjum hætti? Á móti þessari erlendu eign Seðlabankans hlýtur að standa einhver fjáröflun af hálfu Seðlabankans, rétt eins og maður getur ekki átt hús, án þess að hann hafi hlotið að afla sér fjár til þess, og fyrirtæki getur ekki átt togara eða frystihús, án þess að afla sér fjár til þess. Hvernig átti nú Seðlabankinn að afla sér fjár til þess smám saman að koma sér upp gjaldeyrisvarasjóði? Ekki getur hann aukið eigið fé sitt sjálfkrafa. Það er hlutur, sem smám saman vex með tekjuafgangi Seðlabankans og ekki með öðrum hætti. Ég trúi því ekki, að hv. 5. þm. Reykv. láti sér detta í hug, að það hefði verið rétt leið eða fær að auka seðlaútgáfuna, til að geta eignazt gjaldeyrisvarasjóð. Ég læt mér ekki detta í hug, að honum detti það í hug, svo að ég færi ekki fram þau augljósu rök, sem fyrir því eru, að slíkt er auðvitað út í bláinn.

Þá er ekki um aðra leið að ræða en aðra af tveim leiðum, sem annars staðar eru farnar um víða veröld, þar sem menn búa við svipað hagkerfi og menn gera hér. Það hefði verið hægt fyrir Seðlabankann að gefa, út skuldabréf eða ríkissjóður gæfi út skuldabréf og léti andvirðið inn í Seðlabankann til þess að útvega honum fé til að gera honum kleift að eiga gjaldeyrisvarasjóð, eða hitt að beita heimild, sem tekin var í lög 1958, meðan stjórn Hermanns Jónassonar sat að völdum, til að skylda viðskiptabankana til að leggja vissan hluta af innlánsaukningunni inn í Seðlabankann. hað, sem hér er að gerast; er í raun og veru ekkert annað en það, að Seðlabankinn er að nota lagaheimild, sem við hv. 5. þm. Reykv. stóðum saman um að veita Seðlabankanum, að nota þessa lagaheimild til þess að láta vissan hluta af sparifjáraukningu landamanna genga til þess að fjármagna erlendan gjaldeyrisvarasjóð. Þetta var sú leið, sem farin var, og enginn vafi er á því; að hún var margfalt skynsamlegri en það; að ríkissjóður eða Seðlabankinn sjálfur efndi til stórfelldrar verðbréfaútgáfu til þess að afla þess fjár, sem auðvitað þarf að standa innanlands á móti erlenda gjaldeyrisvarasjóðnum: Það er svo einfaldur hlutur, að það ætti ekki að þurfa að segja það jafnoft og maður þarf að segja það, að auðvitað þarf Seðlabankinn að fá fé til að geta átt varasjóð. Það var bara spurningin, með hvaða hætti ætti að fá féð. Það var um þessa tvo möguleika að ræða, og sá miklu, miklu skynsamlegri var tekinn.

Ef efnt hefði verið til verðbréfaútgáfu af hálfu Seðlabankans eða ríkissjóðs til að geyma andvirðið í Seðlabankanum, hefði það verið bein samkeppni við sparisjóðsstarfsemi viðskiptabankanna og enginn vitað, hvaða afleiðingar það hefði haft. Þess vegna var talið miklu skynsamlegra að láta viðskiptabankana halda áfram sínum eðlilegu sparifjárviðskiptum og láta viðskiptabankana og sparisjóðina vera áfram þá aðila, sem tækju á móti sparnaði landsmanna, en segja við þá: Ef við eigum að eignast gjaldeyrisvarasjóð, verður hluti af þessum sparnaði að ganga til þess að fjármagna hann. — Þetta er það, sem hefur verið gert, þó ekki að öllu leyti, sem sést á því, að 30. júní var erlendi gjaldeyrissjóðurinn 2000 millj. kr., en bundna féð þó ekki nema 1600 millj. kr. M.ö.o.: Seðlabankinn hefur látið hluta af sínu eigin fé og þeirri eðlilegu og heilbrigðu seðlaveltuaukningu, sem getur átt sér stað í vaxandi þjóðfélagi, ganga til að fjármagna erlenda gjaldeyrisvarasjóðinn. Seðlabankinn hefur verið svo varkár í þessum efnum, að hann hefur ekki einu sinni látið bundna féð standa undir öllum gjaldeyrisvarasjóðnum, heldur hefur einnig lagt nokkuð af mörkum af eigin fé. 400 millj. hefur hann látið af sínu eigin fé til að fjármagna erlenda gjaldeyrisvarasjóðinn.

Með hliðajón af þessu er það auðvitað enn ósanngjarnara, enn fráleitara að bregða Seðlabankanum um nízku, svíðingshátt, að ég ekki tali um illvilja í garð atvinnuveganna eða þröngsýni, þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga.

Ef hv. stjórnarandstaða vill veita bundna fénu út í atvinnulífið, vill láta Seðlabankann skila viðskiptabönkunum þessum 1600 millj. kr. aftur og láta viðskiptabankana lána þetta út til atvinnuveganna, er það auðvitað hægt. Það er ekkert auðveldara en gera það. En Seðlabankinn verður þá auðvitað um leið að afsala sér einhverjum af sínum eignum. Seðlabankinn getur ekki strikað yfir bundna féð skuldamegin í sínum efnahagsreikningi, sem hann skuldar viðskiptabönkunum, án þess að strika út einhverjar af sínum eignum eignamegin. Hélt ég, að menn þyrftu ekki einu sinni að kunna tvöfalt bókhald til að skilja þetta. En þeir, sem kunna tvöfalt bókhald, skilja það auðvitað á andartaki. Hver þriðjabekkingur í gagnfræðaskóla skilur þetta.

Ef menn vil ja endilega losna við bundna féð, telja það vera rót alls ills, að það skuli vera þarna í Seðlabankanum, hlýt og að spyrja: Hvaða eign á Seðlabankinn að láta af hendi? Ef hann á að láta af hendi endurkeyptu víxlana. er þetta eins og þegar hundurinn átti að lifa á skottinu á sér, því að þá mundu viðskiptabankarnir missa jafnmikið í endurkaupum í Seðlabankanum og þeir fá gegnum frysta féð, svo að þetta er auðvitað engin lausn, það sér hver maður. Þess vegna er botninn í tunnunni sá, að það er ekki hægt, það er ekki hægt að veita bundna fénu út í atvinnulifið gegnum viðskiptabankana, nema því aðeins að eyða gjaldeyrisvarasjóðnum. Þetta er mergurinn málsins. Svona er hann til kominn, og bundna fénu verður ekki veitt aftur út í atvinnuvegina nema með því að eyða honum. Þess vegna er spurningin þessi: Er það þetta, sem hv. þm. er raunverulega að meina? Er hann að meina það, að við eigum að eyða gjaldeyrisvarasjóðnum og lána hann hér út í íslenzkum krónum? Þetta verða menn að segja, ef þeir meina þetta. Þetta er hægt. Ég vil ekki bera ábyrgð á, að þetta sé gert, og mun ekki gera En þetta er vissulega hægt. En hitt er ekki hægt, að tala um það, að rétt, sé og sjálfsagt að losa bundna féð og lána það atvinnuvegunum, og segja, að það hafi engar afleiðingar, og segja, að til þess þurfi ekki neitt. Það er að kunna ekki tvöfalt bókhald.

Þess vegna, ef hv. Framsfl. segði alveg skýrt, segði bæði A og B, ef hann segði það, að stefna Framsfl. væri að nota gjaldeyrisvarasjóðinn til útlána innanlands, þá skulum við tala saman um það, hvaða afleiðingar það hefði. Þetta hafa þeir bara aldrei sagt. Þeir hafa aldrei sagt þetta. Þeir hafa bara sagt: Það á að losa bundna féð og lána það út, en taka enga afstöðu til hins. Ég tel, að ég hafi sýnt alveg nægilega fram á fjarstæðuna í þessum málflutningi, til þess að ég þurfi ekki að ræða þetta frekar. Ef þeir aftur á móti væru sjálfum sér samkvæmir og segðu líka B, við erum reiðubúnir til að fórna gjaldeyrisvarasjóðnum, þá er sá málflutningur sjálfum sér samkvæmur, og þá skulum við tala saman um það. En ég né ekki ástæðu til að vera að rökræða um það. sem þeir hafa aldrei þorað að segja, hvort sem þeir meina það eða ekki.

Að síðustu vil ég svo benda á í sambandi við það, sem ég sagði í upphafi, að hv. þm. misskilur algerlega löggjöfina um Seðlabankann, ef hann heldur, að ekkert standi í löggjöfinni um markmið Seðlabankans annað en það, sem vitnað er í tillgr. sjálfri, með leyfi hæstv. forseta: „Að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og skynsamlegastan hátt.“ Þetta stendur þar auðvitað. Ég tel, að starfsemi Seðlabankans fram að þessu hafi sannarlega miðað í þá átt og stuðli að því. Það er ekki hægt að segja, að framleiðslugeta íslenzkra atvinnuvega hafi ekki verið á undanförnum árum og sé ekki hagnýtt á hagkvæman og skynsamlegan hátt. Hér hefur verið skortur á vinnuafli. Eitt okkar aðalvandamál undanfarin 5—6 ár hefur verið skortur á vinnuafli. Er hægt að halda því fram í alvöru, að á þeim tíma, sem vinnuaflsskortur er alvarlegt vandamál í þjóðfélaginu, sé framleiðslugeta atvinnuveganna ekki hagnýtt? Á það má líka minna, að Seðlabankinn hefur fleira í lögum sínum skýrt og skorinort. Honum ber að stuðla að því, að verðlag sé sem stöðugast, og enginn vafi er á því, að ef farið væri eftir þeim hugmyndum hv. þm. að veita bundna fénu aftur til viðskiptabankanna og þeir láni það aftur til atvinnuveganna, væri það eins augljóst ósamræmi til að halda verðlagi stöðugu og hugsazt gæti. Það mundi verða gífurlegur verðbólguvaldur, meiri verðbólguvaldur en nokkur önnur einstök ráðstöfun í peningamálum Íslendinga um áratugabil, svo að þar væri sannarlega brotið harkalega gegn löggjöf Seðlabankans og öllum heilbrigðum og skynsamlegum meginreglum í fjármálum.

Þetta læt ég nægja til að leiða rök að því, sem ég sagði í upphafi, að því miður er allur málflutningur hv. þm. um það efni, sem hann gerði að umtalsefni, á meiri háttar misskilningi byggður.