19.10.1966
Sameinað þing: 5. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (2256)

13. mál, hlutverk Seðlabankans að tryggja atvinnuvegunum lánsfé

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér er til umr., er nú orðin gamall kunningi hv. þm., því að hún hefur verið flutt á undanförnum þingum, og vegna þess, að ég hef að undanförnu átt sæti í stjórn Seðlabankans, hef ég einnig við fyrri tækifæri gert athugasemdir við till. þessa og framsögu fyrir henni, svo að vera má, að hv. þm. séu orðnir leiðir á þessum langhundi okkar hv. 5. þm. Reykv. En þar sem hæstv. viðskmrh. hefur nú í skörulegri ræðu borið nokkurt blak af okkur, sem eigum sæti í bankaráði Seðlabankans, og leiðrétt ýmsar villandi upplýsingar, sem fram komu í framsöguræðu hv. 5. þm. Reykv., gat ég stytt þennan langhund verulega, en örfáum orðum vildi ég þó bæta við það, sem sagt hefur verið, og er það meðfram með hliðsjón af því, að hvað sem öðru líður, álit ég, að það beri þó að virða, sem í þessari till. felst, að hv. stjórnarandstæðingar gera þó till. um ákveðnar leiðir í efnahagsmálum, en það hefur verið mjög sjaldgæft. Þeir hafa látið nægja málflutning eins og þann, þegar talað hefur verið um hina dularfullu „hina leið“, sem svo hefur verið nefnd, og það eru ekki nema fáir dagar síðan hv. þm. hlustuðu á hv. 1. þm. Austf, formann Framsfl., lýsa þessari hinni leið. En það var bara gert í svo almennum orðum, að ég hugsa, að fáir hari orðið nokkru nær um það, hvað feldist í þessari svokölluðu „hinni leið“. Hv. 1. þm. Austf. talaði um, að það þyrfti að samhæfa fjárfestingarfyrirætlanir hinna ýmsu aðila í þjóðfélaginu, opinberra aðila og einkaaðila, að það þyrfti að leggja á það áherzlu að auka framleiðni og framleiðsluafköst í þjóðfélaginu og að það þyrfti að raða þeim ýmsu verkefnum, sem fyrir lægju, á skynsamlegan hátt, þannig að hið þýðingarmesta sæti fyrir. Þetta eru allt mjög skynsamlegar hugleiðingar, og ég hugsa, að allir hv. þm., sem sæti eiga hér á Alþ., séu þessu í sjálfu sér sammála, svo langt sem það nær. En það var ekki um það að ræða, að bent væri á neitt ákveðið, sem gera þyrfti til lausnar þeim vandamálum, sem fyrir liggja, svo að þess vegna varð maður í rauninni engu nær um það, í hverju „hin leiðin“ væri fólgin. Má þó ekki skilja þetta þannig, að ég sé að lasta það, að forustumenn stjórnmálanna, eins og hv. 1. þm. Austf., noti hátíðlegt tækifæri eins og það, þegar birt er stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstj., til þess að árna landslýðnum allra heilla.

En í þeirri till., sem hér liggur fyrir, er þó bent á ákveðnar aðgerðir, sem að dómi hv. flm. þessarar till. beri að gera í efnahagsmálum. Að vísu er það nú þannig að mínu áliti, og það drap raunar hæstv. viðskmrh. á, a.m.k. óbeint, að til grundvallar þessari till. liggur misskilningur á því, sem felst í þeirri grein laganna um Seðlabankann, sem ákveður um hlutverk hans. Og má það e.t.v. út af fyrir sig virða hv. flm. til vorkunnar, að orðalag á þessu er ekki heppilegt. En þannig stendur í 1. málsl. 2. gr. l. um Seðlabankann, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk Seðlabanka Íslands er: 1. Að annast seðlaútgáfu og vinna að því, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við það, að verðlag haldist stöðugt“, o.s.frv.

Ég álít, að í rauninni hefði betur farið á því að sleppa orðunum „framboð lánsfjár“ úr þessari setningu, því að í því getur í rauninni ekki falizt neitt umfram það, að gert er ráð fyrir því, að eitt af meginhlutverkum Seðlabankans sé að ákveða peningamagn í umferð. Þetta stafar af því, að orðið „lánsfé“ hefur tvíræða merkingu. Annars vegar merkir það gjaldmiðil og hins vegar raunverulegt fjármagn eða sparnað. En nú er það einu sinni þannig, að í Seðlabankanum myndast ekkert fjármagn. Á fjármagnsmyndunina í þjóðfélaginu getur Seðlabankinn aðeins haft óbein áhrif. Höfuðhlutverk hans er einvörðungu að stjórna peningamagninu í umferð, þannig að þessi orð eru í rauninni að mínu áliti óþörf og geta valdið m.a. þeim misskilningi, sem í rauninni liggur að baki flutningi þessarar till., sem hér er um að ræða.

Hv. 5. þm. Reykv. fullyrti það, og það er í rauninni ekki neitt nýtt, að hömlur þær, sem framkvæmdar hafa verið í peningamálum, m.a. með hinni svonefndu sparifjárbindingu, hefðu ekki komið að neinu gagni til þess að stöðva verðbólguna. En rökin, sem fyrir því voru færð, eru að mínu áliti algerlega óframbærileg fyrir fólk, sem hugsa vill þessi mái af skynsemi. En þau voru þessi: Verðbólgan hefur vaxið svo og svo mikið að undanförnu, og það er sönnun þess, að þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar í peningamálum, hafa ekki komið að neinu gagni. Svona röksemdafærslur finnst mér, að sé í rauninni ekki hægt að bjóða fólki, sem vill hugsa þessi mái af skynsemi. Það mætti alveg með sama rétti segja: Að undanförnu hefur verið lagt í svo og svo mikinn kostnað við að fyrirbyggja umferðslys. Það er komið upp umferðarljósum, umferðarlögregla hefur verið efld og ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar aðrar. Samt sýnir reynslan það, að umferðarslys eru tíðari en góðu hófi gegnir og jafnvel tíðari en þau voru, áður en þessar ráðstafanir voru gerðar. Af því ber að draga þá ályktun, að allar þessar ráðstafanir séu óþarfar og beri að spara almenningi kostnað við þær. — Mér finnst, að hér sé um alveg hliðstæða röksemdafærslu að ræða.

Það, sem skiptir máli í þessu sambandi, er það, að vissulega hefur verðbólga hér á landi verið meiri en æskilegt er, og við skulum láta það deilumál liggja milli hluta hér, hverjar orsakir verðbólgunnar séu, hverjum það sé öðrum fremur að kenna, að þessi verðbólguþróun hefur átt sér stað. Á s.l. 8 árum, eða frá áramótum 1958—1959, þann tíma, sem núv. stjórnarflokkar hafa borið ábyrgð á stjórn landsins, hefur verðlagið nær því tvöfaldazt, þannig að láta mun nærri, að verðbólguvöxturinn hafi að jafnaði numið milli 8 og 9% á ári. Vissulega væri æskilegt, að verðbólgan hefði verið minni. Þær upplýsingar voru gefnar fyrir fáum dögum hér á hv. Alþ., að í Vestur-Evrópulöndum hefði verðbólgan að jafnaði ekki aukizt meira en 4%, og það hefði vissulega verið æskilegt, að verðbólguvöxturinn hefði ekki verið meiri hér. En það er ekki mjög langt síðan, — það var, að mig minnir, í einhverri skýrslu frá Efnarhagssamvinnustofnuninni, — að gefnar voru upplýsingar um verðbólguvöxt í sumum Suður-Ameríkuríkjunum. Í Brasilíu hafði verðbólgan þá um nokkur ár aukizt um 50% á ári, svo að vissulega er hægt að hugsa sér meiri vöxt verðbólgunnar en hefur átt sér stað hér á landi. Spurningin er ekki sú, hvort algerlega hafi tekizt að fyrirbyggja áframhaldandi vöxt verðbólgunnar með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í peningamálum, heldur hitt, hvort ekki megi færa líkur að því, að vöxtur verðbólgunnar hefði orðið meiri, ef þessar ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar, en því hefur hæstv. viðskmrh. þegar leitt ýtarleg rök að, svo að ég sé ekki ástæðu til að ræða það frekar út af fyrir sig.

Því hefur mjög verið haldið fram s.l. ár af hv. 1. flm. þessarar till. og fleiri skoðanabræðrum hans, að svo og svo mikið af því sparifé, sem myndazt hefur hér á landi, hafi ekki verið notað. Hæstv. viðskmrh. gerði því máli einnig skil og sýndi fram á, að þetta stenzt engan veginn. Allt spariféð, sem hér hefur myndazt, hefur verið notað, og ég sé ekki ástæðu til þess að eyða fleiri orðum um það, en vil aðeins bæta því við, að ef hv. stjórnarandstæðingar tækju þetta sjálfir alvarlega, væri mikið ósamræmi í þeirri afstöðu þeirra, sem þó hefur komið fram að undanförnu, þegar hvað eftir annað hafa verið lögð fram hér á hv. Alþ. frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka erlend lán. Að því er ég bezt veit, hafa þessar heimildir yfirleitt verið samþ. einróma. Ef það væri hins vegar þannig, að Íslendingar notuðu ekki nema að takmörkuðu leyti það sparifé, sem myndast í landinu, væri það auðvitað algerlega fráleitt og nánast ábyrgðarleysi að vera að taka erlend lán, jafnhliða því sem innlent sparifé væri ekki notað.

En í þessu efni hafa hv. stjórnarandstæðingar yfirleitt ekkí verið sjálfum sér samkvæmir. Það er ekki efi á því, að ef farið hefði verið að ráðum hv. stjórnarandstæðinga um það að afnema hömlur í peningamálum, sem hafa verið settar, hefði enginn vandi verið með því leystur, heldur þvert á móti hefði verðbólgan hlotið að aukast mjög verulega, því að það verður að hafa hugfast i þessu sambandi, þó að einstaklingar kvarti að vísu um lánsfjárskort, að það er ekki lánsfjárskortur, sem hindrar það, að framkvæmdir hér á landi eru e.t.v. ekki eins miklar og æskilegt væri. Það er annað, sem þar strandar á, nefnilega vinnuaflsskorturinn, og svo lengi sem því er haldið fram og vissulega að nokkru með réttu, að vinnudagur almennings hér á landi sé of langur, gefur það auga leið, að áhrif þess að auka framboð lánsfjár eða réttara sagt auka framboð gjaldmiðils, mundu eingöngu verða örari verðbólguþróun, en ekki akapa skilyrði fyrir neinum auknum framkvæmdum.

Að síðustu vildi ég aðeins minnast á þessi margumtöluðu lánsfjárhöft. Ég hef víst einhvern tíma áður sagt það við svipað tækifæri, að „lánsfjárhöft“ er orð, sem ég álít að ætti að hverfa úr íslenzku máli, því að ég hef aldrei getað skilið það, að nein skynsamleg hugsun liggi því orði að baki. Það er út af fyrir sig rétt, að eftirspurn eftir lánsfé er meiri en framboð. En þannig hlýtur bara alltaf að verða, svo lengi sem um verðbólguþróun er að ræða. Ef menn búast við síhækkandi verðlagi, leiðir af því, að allir vilja taka lán. Þeir sjá fram á það, að rýrnandi gildi höfuðstólsins leiði til þess, að jafnvel þó að nafnvextir séu háir, hagnast menn á slíkum lántökum, en að sama skapi verða menn ófúsir á að lána. En meðan þetta ástand helzt, mundi það aðeins verða til þess að hella olíu í eld að auka gjaldmiðilsframboðið. Það mundi leiða til enn meira misræmis milli eftirspurnar og framboðs eftir lánum. Ef leggja á þá merkingu í orðið höft, sem venjulega er gert, eins og þegar við tölum t.d. um innflutningshöft, fjárfestingarhöft o.s.frv., þá eigum við að jafnaði við það, að það þurfi að skammta þau gæði, sem um er að ræða. Innflutningshöft þýða það, að það verður að skammta gjaldeyri. Nú er það einnig svo um útlánin, að ef eftirspurn er meiri en framboð, verður auðvitað að skammta lánin, og það hefur verið gert. En ef það er þessi merking, sem liggur í orðinu lánsfjárhöft, mundu þau úrræði, sem hér er um að ræða, skapa nauðsyn á því, að þessi höft yrðu að vera strangari en þau áður voru. Ef það á að auka peningaveltuna og jafnhliða lækka vexti, sem virðist ein helzta hugmynd hv. stjórnarandstæðinga um úrræði í efnahagsmálum, sem þurfi að grípa til, gefur það auga leið, að aukin verðbólga, sem af því leiddi, mundi auðvitað auka eftirspurnina eftir lánum, og ekki er líklegt, að menn yrðu fúsari til að spara, ef menn fengju lægri vexti af sparifé sínu en þeir áður hafa fengið. Það gefur því að mínu áliti auga leið, að það misræmi milli framboðs og eftirspurnar eftir lánsfé, sem er orsök lánsfjárhaftanna, ef leggja á venjulega merkingu í það orð, mundi aukast, en ekki minnka, svo að þá yrði að herða á lánsfjárhöftunum, hvað þá að hægt væri að slaka á þeim.