19.10.1966
Sameinað þing: 5. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2259)

13. mál, hlutverk Seðlabankans að tryggja atvinnuvegunum lánsfé

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur hv. 1. flm. þessarar till. við sína hálærðu andmælendur. Mér sýnist, að hann hafi í fullu tré við þá, og sé ekki ástæðu til að skipta mér af því. En það eru nokkur atriði, sem fram komu í fyrri ræðu hæstv. viðskmrh. og nokkuð var vikið að í ræðu hv. 8. þm. Reykv., Ólafs Björnssonar, sem mig langaði til að gera aths. við.

Hæstv. viðskmrh. tók sér fyrir hendur að skýra fyrir okkur efnahagsreikninga Seðlabankans með ákaflega einföldum hætti. Ég er honum í rauninni ákaflega þakklátur fyrir þetta, vegna þess að fram til þessa hefur mér oft fundizt, að hann og kollegar hans töluðu um þessi mál með þeim hætti og því orðbragði, sem hæfði helzt prófessorum í hagfræði. Nú ræddi hæstv. viðskmrh. þetta með nokkuð einfaldara hætti, og ég vona, að það mætti verða framhald á því, að menn ræddu um þessa hluti, eins og þeir eru, með orðalagi, sem fólk getur skilið. En gallinn er bara sá, að hæstv. viðskmrh. gekk elnum of langt í að gera hlutina einfalda, og það, sem hann sagði, var þess vegna ekki alveg rétt.

Ef litið er á efnahagsreikninga Seðlabankans, sem birtast í Fjármálatíðindum núna, síðasta hefti, á bls. 78—79, og ná yfir árslokin 1964—1965 og mánaðalokin á þessu ári, sjá menn, að tveir stærstu liðirnir af ráðstöfunarfé Seðlabankans eru, eins og hæstv. ráðh. gat um, andvirði seðlaveltunnar, sem er um 1000 millj. kr., og bundna spariféð eða innistæður lánastofnana, sem að mestu leyti eða um 90% er bundið fé. Af eignaliðum eru helztir afurðavíxlarnir, sem nema um það bil 1000 millj., og gjaldeyrisstaðan, sem er ekki yfir 2000 millj., heldur um 1800 millj. í lok júnímánaðar, vegna þess að í því að einfalda dæmi sitt gekk hæstv. ráðh. svo langt að draga ekki erlendar skuldir frá erlendum eignum bankanna og var þess vegna ekki að tala um hreina gjaldeyriseign. Ef við hins vegar dítum á hreina gjaldeyriseign og blöðum í þessu sama hefti Fjármálatíðinda aftur á bls. 63—64, sjáum við, hvernig gjaldeyrisstaðan hefur þróazt frá árslokum 1956, og við sjáum á bls. 76, hvernig staða bankanna hefur þróazt, og við sjáum líka, hvernig seðlaveltan hefur þróazt og hvernig endurkeyptir víxlar hafa þróazt á þessu tímabili. Við komumst þá að þeirri niðurstöðu, að það er engin tilviljun, að seðlaveltan annars vegar og endurkeyptu víxlarnir hins vegar standast á, og í öðru lagi, að bundna féð og gjaldeyrisforðinn standast einnig á. Þetta hefur gerzt með sáralitlum sveiflum allan þann tíma, sem þessar skýrslur ná yfir. Það eru að vísu á þeim svolitlar sveiflur, vegna þess að aðrir eigna- og skuldaliðir Seðlabankans hreyfast litið eitt, og er þar aðallega um að ræða stöðu ríkissjóðs, sem á sumum tímabilum seinustu ára hefur dregið á Seðlabankann með þeim hætti, að hann hefur ruglað eðlilega stöðu í þessu efni.

Ég vildi vekja athygli á þessu, vegna þess að mér finnst þetta vera atriði, sem menn eigi að taka eftir, og ég vil leiðrétta það, sem hæstv. ráðh. sagði, að ef þetta er sett upp á þann hátt, sem hann gerði, er ekki hægt að segja, að 400 millj. af eigin fé Seðlabankans standi á móti gjaldeyrissjóðnum, heldur eingöngu 100—200 millj. kr. núna og yfirleitt minna á því tímabili, sem þessir reikningar ná yfir.

Það kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv., sem talaði hér áðan, að við héldum því fram, framsóknarmenn, að sparifé landsmanna væri ekki nota. Auðvitað er það notað, ég veit ekki til þess, að neinn hafi haldið öðru fram. En fjórðungur af spariinnlánum bankanna, sem samkv. þessu sama blaði Fjármálatíðinda nema um 6500 millj. kr., fjórðungur þess fjár er ávaxtaður í útlöndum og kallaður gjaldeyrisforði. Engum hefur dottið í hug, að þetta fé væri ekki einhvern veginn ávaxtað. Nú skal ég ekki leggja neinn dóm á það, hvort það er eðlilegt að ávaxta svona mikið fé í útlöndum til þess að hafa gjaldeyrissjóð. Það er vissulega, þegar efnahagslífið er svo ótryggt og atvinnulífið eins og það er nú um þessar mundir, sízt ástæða til þess að draga úr því, að það þurfi að hafa nokkurn gjaldeyrissjóð. En hitt vil ég fullyrða, að það muni vera næsta sjaldgæft, að nær ekkert sé standi að baki gjaldeyrisajóðnum annað en bundið sparifé. Og ég vil líka láta í ljós þá skoðun mína, að þó að nauðsyn á gjaldeyrissjóði kunni að vera mikil, sé það mikið álag á þjóðina að hafa fjórðung af sparifé hennar í útlánum erlendis. Það kostar líka mikla peninga í vaxtamun, þegar á það er litið, að við erum á sama tíma að taka mikið af erlendum lánum.

Mergurinn málsins hér sýnist mér vera sá, að það skortir í rauninni í efnahagskerfi okkar eðlilegan fjárhagsgrundvöll fyrir gjaldeyrissjóðinn. Og þess vegna er talið, að ekki sé hægt að hafa hann öðruvísi en að binda spariféð á móti honum. Á þessu verður að mínum dómi að verða breyting. En sú breyting hefur ekki orðið, m.a. vegna þess, hvernig viðskiptum ríkissjóðs við Seðlabankann hefur verið háttað mörg undanfarin ár.

Ég ætlaði að ljúka þessum orðum með því að beina nokkrum spurningum til hæstv. viðskmrh., en ég sá, að hann skauzt einmitt í burtu, — ég veit ekki, hvort forseti mundi liða mér það, að ég biði andartak í von um, að hann kæmi til baka, eða léti athuga, hvort hann væri að koma aftur. — Ég hef haldið því fram í umr. um þessi efni, að það sé hin mesta nauðsyn fyrir okkur að geta með sérstökum útlánum stuðlað að því, að atvinnuvegirnir yrðu byggðir upp með betri tækjum, framleiðni þeirra aukin með bættri tækni og bættu skipulagi og bættri hagræðingu. Mikið af þeim lánum, sem veitt væru í þessu skyni, mundu að sjálfsögðu fara til gjaldeyriskaupa, og það er því alveg ljóst, að slík útlánaaukning mundi vera nokkur áraun á gjaldeyrissjóðinn. Ég hef gert ráð fyrir því, að slík lán yrðu að mestu nýtt til kaupa á vélum og tækjum, sem kæmu erlendis frá. Ráðh. sagði hér áðan, að minnkun gjaldeyrissjóðsins, ef í það yrði farið að minnka gjaldeyrissjóðinn, mundi verða mesti verðbólguvaldur, sem hér hefði sézt um áratugi, ef ég tók ekki mjög rangt eftir. (Gripið fram í.) Já, ég skal vera sammála ráðh. um það, að ég hef ekki lagt það til og mundi ekki leggja það til. En ég vildi gjarnan, að ráðh., sem virðist nú í dag svo fús til þess að halda yfir okkur kennslustundir, sýndi mér og öðrum hv. þm. fram á, hvað mikill verðbólguvaldur það yrði að auka útlán, sem aðallega kæmu fram sem eftirspurn eftir erlendri framleiðslu, og hann vildi kannske um leið bera það saman við þann verðbólguvald, sem við höfum fyrir augunum þessi árin, þegar tekin eru erlend lán, ekki eytt okkar eigin peningum, heldur tekin erlend lán til þess að setja inn á innlendan framkvæmdamarkað, samtímis því, eins og stundum hefur verið, að ríkissjóður er rekinn með hundruð millj. kr. greiðsluhalla. Það væri fróðlegt að fá líka einhverjar kennslustundir um þetta efni.