08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2262)

13. mál, hlutverk Seðlabankans að tryggja atvinnuvegunum lánsfé

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Um þáltill. þá, sem hér er til umr., á þskj. 13, hafa þegar farið fram talsverðar umr. hér á hv. Alþ. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka það í löngu máli, sem hér hefur verið sagt þessari till. til réttlætingar. Ég hygg, að þess gerist ekki þörf, það sé hv. þm. í fersku minni. Ég vil hins vegar með örfáum orðum gera grein fyrir gangi málsins í allshn. og afstöðu okkar, sem myndum minni hl. í þessu máli, og e.t.v. segja nokkur orð í tilefni af þeirri ræðu, sem hv. 1. landsk., frsm. meiri hl., hélt hér áðan.

Efni þessarar þáltill. er, eins og kom fram í hans máli, það, að skorað sé á ríkisstj. að hlutazt til um, að Seðlabankinn kappkosti að fullnægja því hlutverki, sem honum er ætlað í l., að vinna að því, að framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við það, eins og þar segir, „að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt“. Um þetta gátum við ekki orðið sammála í hv. allshn. Meiri hl. hennar sá ekki ástæðu til að álykta neitt um það, að atvinnuvegunum yrði tryggt hæfilegt lánsfjármagn, til þess að framleiðslugeta þeirra yrði hagnýtt eina og bezt yrði á kosið, en við, sem myndum minni hl., töldum fulla þörf á því og lögðum þess vegna til, að till. yrði samþ.

Ástæðurnar til þess, að við í minni hl. erum samþykkir þessari till., eru aðallega tvær, og er sú fyrri vissulega veigameiri, en hún er sú, að atvinnuvegirnir búa við mjög mikinn lánsfjárskort, bæði að því er snertir rekstrarlán og ekki sízt að því er snertir fjárfestingarlán til þess að byggja upp sína starfsemi og koma við frekari hagnýtingu í sínum rekstri en til þessa hefur verið mögulegt. Ég hygg, að enginn, sem þekkir til atvinnurekstrar í íslenzku þjóðfélagi nú í dag, treysti sér til að bera á móti því, að lánsfjárskorturinn sé þar fyrir hendi. Ég held, að hv. meiri hl. sé mjög liðfár í þeirri fullyrðingu sinni að halda því fram, að aukið fjármagn til atvinnuveganna sé fallið til þess frekar að auka vanda þeirra heldur en leysa. Ég hygg a.m.k., að meiri hl. eigi mjög fáa samherja í hópi atvinnurekenda um þessa fullyrðingu. Ef ástæða þætti til, væri vafalaust hægt að leiða vitni því til sönnunar, að svona sé ástatt. Það hefur oft verið gert hér úr þessum ræðustóli, og ég ætla, með því að liðið er á fundartímann, að leiða það hjá mér að þessu sinni. En það þarf áreiðanlega ekki langt að leita. Ég hygg, að það þurfi ekki að leita út fyrir þennan sal til þess að finna forvígismenn atvinnuveganna, sem hafa haldið þessu sama fram.

Ef horft er til atvinnuveganna og þeir nefndir í örstuttu máli hver fyrir sig, hygg ég, að það sé alls staðar það sama, sem fyrst og fremst er haft uppi, þegar rekstrarvandamál atvinnuveganna eru rædd. Það er fjármagnsskorturinn. Ég held, að útvegsmenn hafi látið í það skína. Ég hygg, að forstöðumenn hraðfrystiðnaðarins muni hafa sömu sögu að segja. Ég held, að iðnaðarmenn og forsvarsmenn þeirrar atvinnugreinar hafi þráfaldlega bent á þessa staðreynd. Og ég hygg, að forustumenn landbúnaðarins hafi líka látið það uppi sem eina af aðalástæðunum fyrir rekstrarörðugleikunum, það né rekstrarfjár og lánsfjárskorturinn. Þess vegna tel ég, að það sé fyllilega réttmætt, sem segir í þessari till., að það sé þörf á því að gera ráðstafanir til þess að tryggja atvinnuvegunum meira fjármagn. Það má vel vera, að einhver segi, að það sé ekki hægt. En á hverju höfum við þá ráð, Íslendingar, ef við höfum ekki ráð á því að reka undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar? Á hverju ætla Íslendingar þá að lifa, þegar búið er að slá því föstu, að það sé ekki til meira fjármagn handa atvinnuvegunum, vegna þess að það þurfi að nota það í annað? Ég held, að það væri hyggilegt og ráðlegt fyrir þá, sem vilja ýta þessu vandamáli frá sér með einhvers konar rökstuddum dagskrám, að íhuga þessa spurningu.

Það eru fleiri ráðstafanir en sparifjárbindingin ein, sem torvelda viðskiptabönkunum að láta í té þá þjónustu, sem viðskiptamennirnir þurfa á að halda Það hefur oft verið rakið hér, og ég skal ekki eyða löngum tíma í það. En það er alveg áreiðanlegt, að einhverju af því, sem gert er, verður fyrr að hætta heldur en að neita undirstöðuatvinnuvegunum um nauðsynlegt fjármagn.

Það er sagt, að verðbólgunni sé haldið niðri með þessu margnefnda hagstjórnartæki, sparifjárbindingunni. En hvernig hefur það tekizt? Er þörf á því í þessum umr. að fara að rekja þróun verðbólgunnar á Íslandi undanfarin ár? Það hefur oft verið gert, og ég held, að það sé óþarft að gera það einu sinni enn. En það er eitt, sem er áreiðanlega víst, að hafi það verið megintilgangurinn með þessari ráðstöfun, þá hefur hann mistekizt.

Hv. frsm. meiri hl. velti því fyrir sér hér áðan, hvað væri raunverulega lánsfjárskortur, og mér fannst, að hann vildi skilgreina það hugtak nánast þannig, að lánsfjárskortur væri í öllum tilfellum, þegar ekki væri hægt að fullnægja eftirspurn eftir fjármagni. Ég get vel fallizt á það með honum, að það verði seint, sem sálin prestanna fyllist að þessu leyti, og það muni lengi verða meiri eftirspurn eftir fjármagni en framboðið hér. En á þessu er náttúrlega reginmunur frá því, sem ástandið er hjá okkur í dag. Það er reginmunur á því, hvort fólk getur fengið lánsfé til allra þeirra hluta, sem því dettur í hug, og fólki mun lengi detta eitthvað í hug til þess að kaupa sér, ef það getur fengið fjármagn að láni, á því er reginmunur frá því ástandi, sem nú er, þegar það er oft og einatt meginverkefni þeirra, sem reka atvinnureksturinn og veita honum forstöðu, að bíða í bönkum og lánastofnunum eftir einhverri úrlausn. Á þessu er svo mikill munur, að ég tel algerlega ástæðulaust að eyða fleiri orðum að því að sanna það. Ég held því, að það sé ekki með neinu skynsamlegu móti hægt að halda því fram, að það sé ekki lánsfjárskortur í okkar þjóðfélagi í dag í þeirri merkingu, sem við báðir hljótum að leggja í það orð.

Það er alveg rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að útlánastarfsemi væri vandasöm. En ég tel, að það sé of langt gengið í því að létta þeim vanda af viðskiptabönkunum að taka það fjármagn, sem þeir ættu að geta haft til ráðstöfunar. Ef á annað borð er hægt að trúa mönnum til að reka banka, verður einnig að trúa þeim til að framkvæma sjálfum þetta val, sem þarna verður alltaf að fara fram, þegar fjármagnið er minna en eftirspurnin. Ef því, eins og ég vil segja, svo er ástatt, að framboð lánsfjár sé ekki nægilegt eða ekki hæfilegt, miðað við það, að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt, sem ég hef nú í eins stuttu máli og ég frekast treysti mér til reynt að leiða rök að, kemur hin spurningin, sem þessi till. vekur: Hvert á þá að snúa sér með óskir, — ekki ásakanir eða umvandanir, heldur óskir um það, að hægt sé að bæta úr þessu? Samkv. l. er það hlutverk Seðlabankans að vinna að því, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt, miðað við það, að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllsta og hagkvæmastan hátt. Ég vil því segja, ef hv. alþm. í fyrsta lagi fallast á það, að rekstrarfjárskortur og lánsfjárskortur sé fyrir hendi í atvinnuvegum þjóðarinnar og þeir í öðru lagi vilja láta sig það einhverju skipta, hljóti þeir í þriðja lagi að draga þá ályktun, að það sé réttmætt að beina þessari ósk til Seðlabankans, að hann geri það, sem hann getur, til þess að bæta úr þessu ástandi.

Ég verð því að segja, að ég get ekki séð, að þessi till. sé óþörf eða ósanngjörn eða hún sé ranglát gagnvart Seðlabankanum. Þannig hef ég aldrei litið á hana, að hér væri um nokkra ásökun á hendur Seðlabankanum að ræða. Ég hef litið svo á, að það væri ríkisstj., sem réði stjórnarfarinu á Íslandi, en ekki starfsmenn Seðlabankans. Ef það er misskilningur hjá mér, mætti kannske fara að tala um einhverja ásökun á hendur Seðlabankanum. En frá minni hendi er þetta ekki þannig, heldur lít ég svo á, að hæstv. ríkisstj. sé húsbóndi á þjóðarheimilinu og það sé þess vegna hennar stefna, sem þurfi að endurskoða, og með hliðsjón af því hef ég lagt það til ásamt tveimur öðrum hv. þm., að þessi þáltill. verði samþykkt.