02.11.1966
Sameinað þing: 7. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (2272)

12. mál, endurkaup Seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja mjög þessar umr., enda sízt ástæða til þess af mér, þar sem ég er einn af flm. þessarar till. og hef að sjálfsögðu áhuga á, að hún komist sem fyrst til n. og fái afgreiðslu hér á. þingi. Ég kemst hins vegar ekki hjá því, að svara nokkrum atriðum, sem komu fram á seinasta fundi í ræðum tveggja hæstv. ráðh. og þykir mér leitt, að annar þeirra skuli ekki vera hér viðstaddur til þess að heyra þau svör, sem ég hef fram að flytja við því, sem hann sagði.

Hæstv. iðnmrh. lét þau orð falla um þessa till., sem hér liggur fyrir, að hún væri sýndarmennska. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki íhugað það fyllilega, að hverjum hann beindi þessum orðum fyrst og fremst, því að eins og ég hef ekki farið leynt með, hef ég margoft bent á, að það var einn af hv. þm. Sjálfstfl., sem upphaflega gerðist flm. þessarar till. hér á Alþ., og án þess að ég sjái nokkra ástæðu til þess að vera sérstaklega að bera blak af honum, held ég, að honum hafi ekki gengið nein sýndarmennska til með því að flytja þessa till. Síðan þessi till. var samþ. hér á Alþ. og ekki hefur verið gert neitt til að framfylgja henni af hálfu hæstv. stjórnarvalda, hefur það hvað eftir annað gerzt, ekki einu sinni á ári, heldur oft á hverju ári, að samtök iðnaðarmanna, bæði Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna, hafa krafizt þess, að Seðlabankinn endurkeypti framleiðsluvíxla iðnaðarins eftir sömu reglum og hann kaupir af landbúnaði og sjávarútvegi, og það er alveg víst, að þessum mönnum gengur ekki nein sýndarmennska til með því að gera kröfu um þetta. Þessi till. er borin fram hér á Alþingi bæði af þeim manni, sem upphaflega flutti hana, af mér og öðrum og af iðnaðarmönnum í landinu, vegna þess að það er fyllsta þörf fyrir þá úrlausn, sem hún gerir ráð fyrir.

Iðnmrh. var ákaflega upp með sér af því, sem ríkisstj. hefði gert fyrir iðnaðinn, og vildi, að því er mér heyrðist, halda því fram, að allt væri þar í fyllsta lagi, nóg lán, sem iðnaðurinn fengi, og annað þar fram eftir götunum. Ég held, að verkin sýni bezt merkin í þessum efnum og vitnisburði iðnaðarfyrirtækjanna sjálfra sé meira að marka í þessum efnum heldur en það, sem hæstv. iðnmrh. var að bera hér á borð. En sá vitnisburður er á þá leið, að mörg iðnaðarfyrirtæki hafa orðið að draga stórlega saman starfrækslu sína á undanförnum árum og undanförnum mánuðum. Sum hafa alveg orðið að hætta. Og m.a. eitt stórt iðnaðarfyrirtæki, sem einn af hv. alþm. rekur, hefur orðið að draga verulega saman starfsemi sína síðustu mánuðina, eins og kunnugt er. Þetta stafar einfaldlega af því, hvað sem ráðh. segir, að ríkisstj. hefur ekki nægan skilning á málum iðnaðarins og vill ekki leysa úr þörfum hans á þann hátt, sem nauðsynlegt er.

Ég gaf líka skýringu á því á seinasta fundi, af hverju þetta skilningsleysi ríkisstj. stafar. Það er að finna í mjög svo merkilegri ræðu, sem hæstv. forsrh. flutti, að því er mig minnir, á flokksráðsfundi hjá Sjálfstfl. fyrir nokkru, þar sem hann tekur það beint fram og það oftar en einu sinni, að íslenzkur iðnaður sé alls ekki samkeppnisfær við erlenda iðnaðarframleiðslu, og vegna þess að hæstv. iðnmrh. var að halda því fram, að ég hefði skýrt rangt frá ummælum hæstv. forsrh., finnst mér rétt að rifja þau hér upp, því að þau staðfesta fullkomlega það, sem ég hélt fram um þetta efni, og ég var ekki á neinn hátt að snúa út úr ummælum hæstv. forsrh. Í þessari ræðu kemst ráðh. þannig að orði um iðnaðinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Við skulum einnig horfa á iðnaðinn. Það gefur auga leið, að hinn íslenzki smáiðnaður á mjög erfitt með að standast samkeppni við erlenda fjöldaframleiðslu.“

Er þetta ekki alveg skýrt, sem hann segir þarna? Það gefur auga leið, að hinn íslenzki smáiðnaður á mjög erfitt með að standast samkeppni við erlenda fjöldaframleiðslu. Svo heldur hann áfram:

„Menn verða að gera upp hug sinn um, hvort þeir styðji hinn íslenzka smáiðnað til þess að halda lífi gegn þessari erlendu fjöldaframleiðslu. En þá verður í fyrsta lagi að gæta þess, að jafnt iðnaður sem aðrir hafa gott af vissu aðhaldi. Hætt er við of miklum kostnaði, ef aðili verður aðhalds- eða samkeppnislaus. En ef við viljum, eins og gert hefur verið, veita innlendum iðnaði vernd, þá kostar sú vernd það, að við verðum að borga meira verð heldur en ella fyrir vöruna Sumir, sem býsnast yfir verðbólgunni, segja, að verðbólgan sé að drepa iðnaðinn. En einmitt iðnaðurinn á sinn þátt í okkar háa verðlagi.“

Er nú hægt að segja það öllu skýrar en þetta, að iðnaðurinn sé ekki samkeppnisfær við erlenda framleiðslu, og þess vegna, ef við viljum halda þessum iðnaði við í landinu eða vernda hann, eins og þarna er komizt að orði, getum við ekki gert það á annan hátt en þann, að við verðum að búa við meiri dýrtíð og hærra verðlag en ella? En það er ekki allt búið hjá hæstv. ráðh. Hann segir enn fremur í þessari ræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég segi það enn og aftur, að sjálfsagt er og eðlilegt að halda iðnaðinum við, en það kostar, að við hljótum að hafa hærra verðlag en ella. Við verðum að leggja á útflutningsframleiðslu okkar meiri byrðar hlutfallslega en aðrir, til þess að þetta verði gert.“

Er þetta ekki alveg skýrt? Er þetta ekki fullkomlega staðfesting á því, sem ég sagði, að hæstv. forsrh. hefði haldið því fram, að íslenzkur iðnaður væri ekki samkeppnisfær við erlenda framleiðslu? Þess vegna getur hæstv. iðnmrh. ekki með neinu móti haldið því fram, að ég hafi verið að snúa eitthvað út úr orðum hæstv. forsrh. Ég vitnaði í þau eins og þau voru sögð, en því til staðfestingar hef ég lesið þessi ummæli forsrh. upp.

En ég vil í tilefni af þessu láta það koma enn fram til viðbótar því, sem ég hef áður sagt, að ég álít þessi ummæli ráðh. fullkomlega röng, vera hreinan sleggjudóm, byggðan á röngum forsendum. Forsrh. byggir þessi ummæli sín á því ástandi, sem er í dag, á því ástandi í efnahagsmálum, sem stjórnarstefnan er búin að skapa. En það er náttúrlega ekki sá rétti grundvöllur til að miða við í þessum efnum. Ástandið er þannig í dag vegna stefnu og aðgerða hæstv. ríkisstj., að innlend framleiðsla býr við mjög óhagstæða gengisskráningu. Innlendir atvinnuvegir búa einnig við stórfelldan lánsfjárskort, sem þekkist ekki í þeim löndum, sem við þurfum að keppa við, búa við miklu hærri vexti en í þeim löndum, sem við þurfum að keppa við, og til viðbótar þessu kemur svo sjálf verðbólgan. Undir þessu efnahagsástandi, sem núv. ríkisstj. hefur skapað, er algerlega rangt að gera samanburð á framleiðsluhæfni íslenzkra atvinnuvega og erlendra atvinnuvega. Ef hér væri hins vegar eðlilegt ástand og svipað efnahagsástand og í þeim löndum, sem við þurfum að keppa við, bæði hvað snertir verðbólguþróunina, hvað snertir lánsfjármöguleikana og hvað snertir vextina, er ég alveg sannfærður um það, að íslenzkur iðnaður í fjölmörgum greinum er fullkomlega samkeppnisfær, enda hefur hann sýnt það á margan hátt, þrátt fyrir þá aðstöðu, sem hann býr við núna, að hann er samkeppnisfær. En undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, er ekki hægt að ætlast til þess, að hann sé samkeppnisfær, enda er hann það ekki heldur nema að mjög takmörkuðu leyti. En ríkisstj. gerir sér ekki grein fyrir þessu. Hún er búin að lofa því að beita sér fyrir aðgerðum til þess að létta eitthvað aðstöðu báta. útvegsins, hraðfrystihúsanna og togaraútgerðarinnar, en hún hreyfir ekki legg né lið til að bæta neitt aðstöðu iðnaðarins í landinu, nema þá ef vera skyldi veiðarfæraiðnaðarins, en hyggst þó hins vegar gera það með þeim hætti, að það vekur hreina furðu, hverjar fyrirætlanir ríkisstj. eru í þeim efnum, því að það á að gera það með því að leggja skatta á atvinnugreinar, sem ekki eru betur komnar en veiðarfæraiðnaðurinn, og sjá allir, að í þess háttar skattlagningu er ekki fólgin nein lausn.

Nei, þeirri staðreynd verður ekki á móti mælt, hversu oft sem hæstv. iðnmrh. kemur hingað upp og hælir sér af gerðum sínum í því starfi, að íslenzkur iðnaður býr í dag við mjög óhagstæða rekstraraðstöðu og hallarekstur á mörgum sviðum. Og það stafar fyrst og fremst af því, hvernig ríkisstj. hefur hagað efnahagsmálastefnu sinni.

Hæstv. iðnmrh. reyndi að blása það talsvert út, að Seðlabankinn hefði fyrir nokkru gefið út einhverja reglugerð um endurkaup á víxlum iðnaðarins. Ég held, að það sé alveg ástæðulaust fyrir hæstv. iðnmrh. að vera nokkuð að státa af þessu, vegna þess að það liggja fyrir alveg skýrar og ótvíræðar yfirlýsingar iðnaðarmanna sjálfra um, að þannig sé frá þessum reglum gengið, að þær komi iðnaðinum að sáralitlum eða engum notum.

Þá vildi hæstv. iðnmrh. halda því fra.m, að það væri ekki framkvæmanlegt nema í mjög litlum mæli að kaupa slíka víxla af iðnaðinum á sama hátt og landbúnaði og sjávarútvegi. Þetta er náttúrlega fullkomin fjarstæða. Ef vilji væri fyrir hendi, á ekki að vera neitt erfiðara að kaupa slíka víxla af iðnaðinum heldur en af landbúnaði og sjávarútvegi. Það er alveg hægt að setja fullgildar reglur um það eins og um endurkaupin af landbúnaðinum og sjávarútveginum (Dómsmrh.: Vill ekki þm. nefna einhver dæmi?) Ég þarf ekki að nefna nein dæmi, vegna þess að þetta gildir svo að segja um allar tegundir iðnaðar, að það er alveg eins hægt að kaupa hráefnisvíxla og framleiðsluvíxla af þeim atvinnugreinum eins og af sjávarútvegi og landbúnaði. Ég held hins vegar, að það væri fróðlegt að heyra hæstv. ráðh. nefna einhver dæmi um, að það sé ekki hægt að kaupa slíka víxla af iðngreinum, sem á annað borð eru taldar nauðsynlegar og rétt sé að halda uppi í landinu.

Ég segi það enn og aftur, svo að ég noti setningu, sem annar merkur maður notar nokkuð oft, — ég segi það enn og aftur, að ríkisstj. hefur búið illa að iðnaðinum, búið þannig að honum, að hann býr nú við stórfellda rekstrarerfiðleika og hallarekstur, og þetta stafar af því, eins og ég áðan sagði, að ríkisstj. hefur ekki næga trú á þessari atvinnugrein.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri í tilefni af því, sem hæstv. iðnmrh. sagði, þó að það væri ástæða til þess að gera fleiri atriði, sem komu fram í ræðu hans, að umtalsefni.

Ég vil þá snúa mér að hæstv. viðskmrh. Hann kom hér upp og þóttist nú heldur betur geta sagt, að ég hefði farið með falskar tölur í sambandi við þann lánsfjárskort, sem sparifjárfrystingin hefur skapað. Ég ætla nú að rifja það upp, sem ég sagði í þeim efnum, að vísu í ræðu um annað mál heldur en þetta.

Ég sagði, að ef borin væru saman endurkaup Seðlabankans á afurðavíxlum, í árslok 1959 og 1965, væri aukningin ekki nema 36%, þrátt fyrir það að rekstrarkostnaður fyrirtækja á þessum tíma hefði aukizt frá 150—170%. Þessar tölur voru að mínum dómi alveg nægar til þess að sýna, hversu stórfelldlega hefur dregið úr þjónustu Seðlabankans við atvinnuvegina á þessum tíma. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri alls ekki rétt að miða við árið 1959, og það þótti mér satt að segja skrýtið, því að ég hélt, að hann vildi ekki gera neitt litið úr því, sem gerðist á því ári, því að það var árið, sem Alþfl. sat hér að völdum. En ástæðan til þess, að ég tók árið 1959, var sú, að það var líka árið, sem núv. ríkisstj. kom til valda, og þess vegna var ekki fjarri lagi að miða einmitt við þann tíma, sem ríkisstj. kom til valda, og svo aftur ástandið í dag. En hæstv. ráðh. vildi nú halda því fram, að það væri betra að miða við árið 1958 í þessum efnum. Og ég skal ganga að því við hæstv. ráðh., að það sé gert, þó að það sé að vísu nokkru hagstæðara fyrir Seðlabankann. Mér skilst, að eftir því sem hæstv. ráðh. reiknaði út, væri aukningin á endurkaupum Seðlabankans frá þeim tíma eitthvað í kringum 80%, en eins og ég áðan sagði, hefur rekstrarkostnaður atvinnufyrirtækjanna alltaf aukizt um 150—170% á þessum tíma og raunar meira, ef tekið er meðaltal af árinu 1968, og sjá þá allir, að þrátt fyrir það að þessi tala sé tekin, er hér um stórfelldan samdrátt að ræða. En hæstv. ráðh. hefði einnig átt að taka árið 1960, vegna þess að það var síðasta árið, áður en þær reglur komu í gildi um endurkaup Seðlabankans, sem nú eru í gildi. Og ef við tökum það ár, verður niðurstaðan sú, að endurkaup Seðlabankans á árinu 1965 voru minni en á árinu 1960. En það er alveg sama hvaða talnaleik sem við hæstv. viðskmrh. höfum frammi í þessum efnum, verður niðurstaðan alltaf sú sama, og það verður ekki hægt að hagga henni, að það hefur dregið stórkostlega á þessu tímabili úr þeirri þjónustu, sem Seðlabankinn veitir framleiðsluatvinnuvegunum. Og Seðlabankinn hefur gert meira en þetta. Hann hefur gert meira en að draga úr sinni eigin þjónustu við atvinnuvegina. Hann hefur líka með sparifjárfrystingunni þrengt stórkostlega að viðskiptabönkunum, að þeir geti veitt atvinnuvegunum eðlilega þjónustu. Og nú ætla ég að koma að þeim tölum, sem hæstv, ráðh. nefndi og sérstaklega áttu að sýna það, að ég hefði farið með rangt mál í þessum efnum.

Ég hélt því fram, og þær tölur styðjast við Fjármálatíðindin, að frá því í árslok 1959 og þangað til í árslok 1965 hefðu heildarútlán viðskiptabanka og sparisjóða aukizt um 111%. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri réttara af mér í þessum efnum eins og fleiru að miða við 1958, og það gerði hann líka. En hver var svo niðurstaðan, sem hann kom með? Niðurstaða hans var sú, að frá því í árslok 1958 og þangað til í árslok 1965 hefðu heildarlán bankakerfisins til landbúnaðar og sjávarútvegs aukizt um 99% eða talsvert minna en þá tölu, sem ég greindi og ég nefndi hér áðan, þannig að þessi samdráttur í útlánum til atvinnuveganna hefur, eftir því sem sjálfur ráðherrann upplýsir, orðið enn meiri en ég hafði þó haldið fram. Og það gefur auga leið, hvaða þýðingu þetta hefur haft fyrir atvinnuvegina og atvinnureksturinn í landinu, þegar heildarlánin til undirstöðu-framleiðsluatvinnuveganna hafa ekki aukizt nema um 99%, á meðan sannanlegt er, að rekstrarkostnaður þeirra hefur alltaf aukizt um 150—170%. Svona stórfelldur samdráttur hlýtur einhvers staðar að koma niður, og hann sýnir sig líka glöggt um þessar mundir í hinum stórfelldu rekstrarfjárerfiðleikum, sem svo að segja allar atvinnugreinar í landinu þurfa að glíma við.

Ég tel, að með þessari frystingarstefnu eða samdráttarstefnu, sem ríkisstj. hefur látið Seðlabankann halda uppi, eigi hún stóran þátt í þeim erfiðleikum, sem atvinnuvegirnir eiga nú við að búa, og þetta sé stærsta ástæðan til þeirra vandræða, sem við er glímt, ásamt sjálfri verðbólgunni. Og í raun og veru á þetta líka sinn þátt í verðbólgunni, vegna þess að lánsfjárskortur verður þannig, að bæði verður rekstur fyrirtækjanna miklu óhagkvæmari en ella og auk þess eru skertir svo að segja allir möguleikar þeirra til þess að auka framleiðnina og gera reksturinn ódýrari á þann hátt, enda er það greinilega játað í því, sem Efnahagsstofnunin hefur sagt um þessi mál í skýrslu sinni til Hagráðs.

Mér finnst rétt að víkja enn einu sinni að þeirri afsökun, sem hæstv. ráðh. hafa stundum verið að reyna að færa fyrir sparifjárfrystingunni, en hún er sú, að hún hafi verið notuð til þess að koma upp gjaldeyrisvarasjóði. Þetta mál er samt þannig vaxið, að þegar hæstv. ráðh. voru á sínum tíma að mæla með Seðlabankal. hér á Alþ og sérstaklega með ákvæðum Seðlabankal. um sparifjárfrystinguna, minntust þeir aldrei á það einu orði, að það ætti að taka sparifjárfrystinguna upp til þess að koma upp gjaldeyrisvarasjóði. Það var hins vegar sagt, og það má vitna í bæði ummæli hæstv. viðskmrh. í þeim efnum, ummæli Birgis Kjarans, ummæli Ólafs Björnssonar um það, að þetta væri eingöngu gert til þess að tryggja, að Seðlabankinn gæti haft taumhald á útlánastarfsemi í landinu, og það til þess að tryggja innistæður viðskiptabankanna, — aldrei einu orði minnzt á það þá, að sparifjárfrystingin væri gerð til þess að koma upp gjaldeyrisvarasjóði. Hins vegar var tekið fram í grg. fyrir frv., að það væri ætlunin að koma upp gjaldeyrisvarasjóði á allt annan hátt eða með því að nota, eins og það er orðað þar, þá eðlilegu aukningu, sem verði á seðlaútgáfunni, — vegna þess að verðmætaaukningin vaxi í landinu, eigi að nota hana til þess að koma upp gjaldeyrisvarasjóði. Ég verð líka að segja það og vík ekki frá því, að hversu nauðsynlegur sem gjaldeyrisvarasjóður kann að vera, álít ég enn þá nauðsynlegra og enn þá þýðingarmeira fyrir gjaldeyrisstöðu landsins, að það sé komið fótum undir atvinnuvegina á þann veg, að þeir geti borið sig og tekið framleiðslu í sina þjónustu í sívaxandi mæli.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að þessu sinni að hafa þessi orð mín öllu fleiri, vegna þess að ég vil líka flýta fyrir því, að málið komist í n. En ég vil að lokum segja það, að ég vænti þess, að þegar hæstv. ráðh. og fylgismenn þeirra hafa athugað þessi mál betur að nýju, sjái þeir, að það eru réttmætar kröfur, sem bæði Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna bera fram, þegar þessi samtök æskja þess, að iðnaðurinn fái að búa við sama borð í þessum efnum og sjávarútvegur og landbúnaður. En ég vil jafnframt taka fram, að ég álít þetta ekki fullnægjandi, vegna þess að ég álít, að bæði landbúnaður og sjávarútvegur búi við lánsfjárskort, sem eigi að bæta úr, og það eigi að bæta þeim það, jafnframt því sem iðnaðurinn fær bæði þessa lausn og enn betri í sambandi við lánamálin.