02.11.1966
Sameinað þing: 7. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (2273)

12. mál, endurkaup Seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður gerði að umræðuefni orð, sem hann las upp úr ræðu, sem ég hélt á flokksráðsfundi sjálfstæðismanna ekki alls fyrir löngu. Af þessu tilefni þykir mér rétt, að sá kafli ræðunnar, sem hann las einstakar setningar úr, sé lesinn hér upp í heild, og geri ég það, með leyfi hæstv. forseta:

„Við skulum einnig horfa á iðnaðinn. Það gefur auga leið, að hinn íslenzki smáiðnaður á mjög erfitt með að standast samkeppni við erlenda fjöldaframleiðslu. Menn verða að gera upp sinn hug um, hvort þeir styðji íslenzkan smáiðnað til þess að halda lifi gegn þessari erlendu fjöldaframleiðslu. En þá verður í fyrsta lagi að gæta þess, að jafnt iðnaður sem aðrir hafa gott af vissu aðhaldi. Hætt er við of miklum kostnaði, ef aðili verður aðhalds- eða samkeppnislaus. En ef við viljum, eins og gert hefur verið, veita innlendum iðnaði vernd, þá kostar sú vernd það, að við verðum að borga meira verð heldur en ella fyrir vöruna. Sumir, sem býsnast yfir verðbólgunni, segja, að verðbólgan sé að drepa iðnaðinn. En einmitt iðnaðurinn á sinn þátt í okkar verðlagi.

Lítið samræmi er í því að segja, að erlend samkeppni sé að drepa iðnaðinn og þess vegna verði að gera ráðstafanir til þess að halda iðnaðinum við með því að halda verndartollum eða hækka þá, þ.e. veita honum sérréttindaaðstöðu til verðákvörðunar, og heimta jafnframt, að verðlagið lækki. Þeir menn, sem með þessu móti þykjast vera málsvarar iðnaðarins, eru í raun og veru að berjast fyrir háu og hækkandi verðlagi í landinu, að berjast fyrir verðbólgu, ef svo má segja. Jafnframt segi ég alveg hiklaust: Reynslan er búin að kenna okkur, að við verðum að hafa margs konar iðnað í landinu. Við lærðum það á millistríðsárunum, að atvinnuöryggi krefst þess, að hér sé margbreytilegur iðnaður. Þess vegna er mikið á sig leggjandi til þess að hafa iðnað. Við lærðum það líka á stríðsárunum, að það getur verið okkur lífsnauðsyn að hafa eigin iðnað. Við sjáum það einnig af tilteknum dæmum, að ef íslenzkur iðnaður fellur í rústir, hækka erlendir framleiðendur sína vöru, þannig að við verðum að borga meira en eila. Þess vegna er íslenzkur iðnaður einn þáttur í því að halda hér uppi sérstöku og sjálfstæðu þjóðfélagi En hann kostar það, að við verðum að hafa hærra verðlag en ella. Mennirnir, sem annars vegar skamma ríkisstj. fyrir verðbólgu og segja hins vegar, að það sé verið að drepa iðnaðinn með erlendri samkeppni, heimta meiri verðbólgu, þeir heimta meiri verðhækkanir heldur en ríkisstj. hefur talið verjanlegar. Menn verða að gera sér grein fyrir afleiðingum þess, sem þeir halda fram. Ég segi það enn og aftur, að sjálfsagt er og eðlilegt að halda iðnaðinum við, en það kostar, að við hljótum að hafa hærra verðlag en ella. Við verðum að leggja á útflutningsframleiðslu okkar meiri byrðar hlutfallslega heldur en aðrir, til þess að þetta verði.

Þetta er sá kafli í minni ræðu, sem fjallaði um iðnaðinn. Nú skora ég á hv. þm. að sanna með rökum, að eitt einasta atriði í þessu sé rangt, og ég skora einnig á hann að sýna fram á, að þetta sé merki þess, að stjórnin sé iðnaðinum fjandsamleg eða vilji hann feigan. Ég segi þvert á móti, að ég telji íslenzkan iðnað vera þjóðinni lífsnauðsyn. Ég tel hann vera einn meginþátt sjálfstæðis þjóðarinnar.

En veit nú ekki hv. þm. jafnvel svo mikið um þau efni, sem hann stöðugt er að skrafa um, að það er ein meginástæðan fyrir þessum efnahagsbandalögum, bæði EFTA og Efnahagsbandalagi Evrópu, fyrir velgengni Bandaríkjanna og Sovét-Rússlands umfram ýmis smærri lönd, að þar hafa skapazt stórir markaðir, sem gera fjöldaframleiðslu tolliausa mögulega og gera þar með kleift að hafa verð á framleiðslunni miklu lægra en þar sem smár markaður er? Veit hv. þm. ekki t.d., að það hefur verið munur á löndum, ekki ólíkari en t.d. Danmörku og Svíþjóð, að ýmsar vörur hafa verið ódýrari í Svíþjóð, vegna þess að þar hefur verið hægt að koma við meiri fjöldaframleiðslu heldur en í Danmörku? Veit ekki hv. þm., að ein af ástæðunum til þess, að Bretar vilja ýmsir nú komast inn á Evrópumarkaðinn, inn í Efnahagsbandalagið, er sú, að þeir segja, að ef þeir gætu fengið þann stærri markað, sem þeim skapaðist þar með, gætu þeir framleitt vöruna ódýrari en þeir gera fyrir hinn brezka markað, og er þó brezki markaðurinn töluvert stærri t.d. en hinn íslenzki markaður?

Allt þetta eru svo augljós sannindi, að það sýnir gersamlega fávizku og blindu á eðli vandamálanna, sem við er að glíma fyrir litla þjóð með ríkar sjálfstæðishugmyndir, að hv. þm. skuli dirfast hér að reyna að fara að snúa út úr orðum mínum á þann veg, að þau sýni fjandskap ríkisstj. í garð iðnaðarins. Auðvitað er það því miður svo, að það er erfiðara og dýrara að framleiða fyrir smáan markað en stóran. Þess vegna er það sízt ofsögum sagt, að íslenzkur iðnaður á erfitt með að standast samkeppni við vörur, sem fluttar eru erlendis frá og hafa verið framleiddar í fjöldaframleiðslu. Íslenzkur iðnaður varð ekki svo mjög var við þetta, meðan innflutningshöft giltu og meðan mjög háir verndartollar eru. En eftir að innflutningshöftin eru úr sögunni og treyst er á verndartolla eina, verður þetta mun erfiðara fyrir iðnaðinn. Þetta gera allir menn sér ljóst. En þetta merkir ekki það, að við eigum að leggja niður íslenzkan iðnað. Þetta merkir einungis það, að við eigum að skilja, í hverju vandamálin eru fólgin, ekki að fjasa alltaf út í bláinn, tyggja ætíð upp sömu, tuggu dag eftir dag, eins og þessi hv. þm. gerir, skilningslaust, eins og tæki, sem kennt hefur verið að segja nokkur orð, eða páfagaukur, sem hefur ekki nema tíu orða forða og heldur, að í honum sé öll lífsins vizka fólgin, heldur að menn reyni að nota þær gáfur, sem guð hefur gefið þeim og þessi hv. þm. hefur vissulega á borð við aðra, ef hann innsiglaði ekki fyrir og léti tunguna tala án þess að beita sínu góða viti. Þetta er öllum mönnum ljóst nema þessum hv, þm.

Því miður er það svo, og það er engin nýjung, að íslenzk tollalöggjöf er ekki fullkomin. Í mörgum efnum er efnivara óhagstætt tolluð miðuð við fullunna vöru. Úr þessu er sjálfsagt að reyna að bæta og gera þar með hag iðnaðarins betri en ella. Þetta eru gamlar syndir, sem ég skal ekkert segja, hverjum eru að kenna. Núv. ríkisstj. er að reyna að láta leiðrétta þetta. Ég efast ekki um það, að hv. þm. mundi vilja leiðrétta þetta líka, ef hann fengi einhverju um það ráðið. Þetta getur létt fyrir iðnaðinum og orðið til þess að gera honum auðveldara að standast samkeppnina. Það er sjálfsagt, að þetta sé gert.

Samkeppnin verður auðvitað einnig auðveldari vegna fjarlægðarinnar. Það getur verið mörg vara þess eðlis, að fjarlægðin geri mögulegt, að það borgi sig eins vel eða betur að framleiða hana á Íslandi eins og flytja hana að. Þetta fer eftir aðstæðum hverju sinni. Þetta fer eftir okkar tækniþekkingu og dugnaði, eftir því, hvort komið verður við fullkominni fjöldaframleiðslu eða ekki, og það er fjöldaframleiðslan, sem ég er að tala um í þessum orðum.

En það hefur gengið svona illa að ráða við verðbólguna hér á landi, ekki einungis þessi síðustu ár, heldur allt frá 1940, — það hefur gengið svona illa að ráða við hana vegna þess, að menn hafa ekki fengizt til þess að skoða hvert vandamál út af fyrir sig og átta sig á því, í hverju sá vandi er fólginn, heldur haldið, eins og haft er eftir hv. þm., — töluröðin er horfin héðan af borðinu eða hefur ekki verið sett að þessu sinni, svo að ég bið afsökunar á því, að ég hef hana ekki í huga, — hv. 6. þm. Sunnl., ég sá haft eftir honum í einhverju blaði, að það væri í raun og veru ekkert annað en reikningsdæmi að leysa mikið af okkar þjóðfélagsvandamálum. Nú veit ég ekki, hvort þetta er rétt eftir haft. (Gripið fram í.) Nei, ekki alveg nákvæmt. En hann hefur gaman af því að leika sér með tölur, þessi hv. þm. Ég tek það fram, að ef hann er á þeirri skoðun, að þetta sé ekki reikningsdæmi, er ég honum sammála eða hann sammála mér, vegna þess að þessi mál eru miklu flóknari en svo, að þau verði leyst með einu reikningsdæmi. Það getur vel verið, að með því að reikna hvert dæmi út af fyrir sig sé hægt að komast nokkuð langt, en þetta eru bara ekki eingöngu fjármál.

Það eru ekki eingöngu fjármál, hvort við viljum láta íslenzkan iðnað lifa eða ekki. Og það er miklu hreinskilnara að gera sér alveg grein fyrir því, að þó að það borgaði sig betur að hleypa takmarkalaust inn erlendri vöru, viljum við ekki gera það. Við viljum taka á okkur kostnaðinn af því að hafa sjálfstæðan, allsterkan iðnað hér á Íslandi. En ef menn segja, að það sé hægt að gera þetta án meiri kostnaðar, án þess að þjóðin verði af því að taka á sig þá byrði, sem það raunverulega kostar, eru menn í fyrsta lagi að blekkja sjálfa sig og í öðru lagi að blekkja þjóðina og almenning, alla, sem eiga hlut að máli, að magna fyrir sér vandamálið, gera það erfiðara úrlausnar en það er í raun og veru. Þetta er kjarni málsins og það, sem öllu máll skiptir, að menn skilji. Það tjáir ekki, eins og kemur svo oft fram hjá hv. framsóknarmönnum núna, svo að segja í hverju einasta máli, að segja: Jú, víst viljum við, að öllum líði vel. Þeir vilja láta veiðarfæragerðina dafna, en það má bara ekki sá, sem á að hafa gagn af henni, sjávarútvegurinn, hann má ekki taka á sig neinn kostnað af því eða fyrirhöfn. Það á bara einhver annar að gera það, í þessu tilfelli sennilega ríkissjóður eða almenningur með almennum tollum. En svo á bara að greiða atkv. á móti því, þegar þar að kemur, að hækka skattana, sem þarf til þess að borga niður kostnaðinn við, að ríkissjóður hjálpi veiðarfæraiðnaðinum. Þá segja þeir: Það á að minnka ríkisbáknið. — Hæstv. landbrh. sýndi fram á alvöruna í því tali hér áðan, þegar hann benti á, að á þessum eina fundi leggja þessir hv. herrar til, að það séu skipaðir 38—39 menn í nýjar nefndir, bara á einum fundi. Hver verður þá arðurinn eftir allan veturinn, ef allar þær till. væru samþykktar? Nei, það er betra að hafa eitthvað örlítið samhengi í því, sem verið er að segja. Það er sjálfsagt að kanna til hlítar, eins og verið er að gera, hvað er hægt að leiðrétta í tollalöggjöf, þannig að hún bitni ekki á iðnaðinum, svo að hann verði fyrir harðari tollum en sá innflutningur, sem á sér stað. Hans örðugleikar eru ærnir, þó að þessar gömlu syndir frá Framsóknartímabilinu og öðrum fyrri tímum séu leiðréttar. Það er alveg rétt.

En það tjáir ekki heldur, eins og hv. þm. segir: hann segist vera á móti verðbólgu. En hver eru ráðin til þess að stöðva verðbólguna? Hann segir í sínu blaði og öðru hverju hér á þingi: Það á að hækka kaupið, það á að hækka landbúnaðarvörurnar! Hvað segja hinar opinberu skýrslur, að séu aðalorsakir verðhækkana síðustu árin, svo að við höldum okkur aðeins við tvö síðustu árin? Það eru fyrst og fremst kauphækkanir, og það eru hækkanir á landbúnaðarvörum. Hv. þm. telur, að hvorugt hafi verið nóg, þetta hefði átt að hækka enn þá meira. En, sem sagt, hann vill enn þá meiri verðbólgu, enn þá meiri verðhækkanir en ríkisstj. hefur þolað að yrðu. Svo hefur þessi hv. þm. geð í sér að koma hingað og þykjast vera sérstakur andstöðumaður verðbólgunnar.

Hann talar eins og það sé til þess að auka verðbólguna, að spariféð sé fryst, vextir séu hækkaðir. Getur hv. þm. nefnt mér eitt einasta land, þar sem barizt hafi verið á móti verðbólgu og annað hvoru þessara ráða eða báðum hafi ekki verið beitt? Getur hann bent mér á eitt einasta land? Og þegar hann talar um, að vextir séu hér hærri en í öðrum löndum og verið sé að sliga iðnaðinn með vöxtum, hefur hv. þm. þá kynnt sér í raun og veru, hverjir vextir það eru, sem iðnrekendur annars staðar verða að búa við? Hefur hann nokkra hugmynd um, hvað hann er að tala um? Hann vill berjast á móti verðbólgu með því að standa á móti öllum þeim ráðum, sem viðurkennd eru í baráttu gegn verðbólgu, og ýta undir allt, sem hækkar verðbólgu!

Hv. þm. ætti miklu frekar að segja, og það er alveg verjanleg afstaða að segja: Ég vil hafa innlendan iðnað, en þá skulum við leggja fram frá okkur það, sem þarf til þess að hafa innlendan iðnað. — Nei, hv. þm. segir þvert á móti: Það á að hafa innlendan iðnað, en það má ekki gera iðnrekendum sjálfum, þjóðinni og almenningi grein fyrir því, að Ísland á erfitt með að standast samkeppni við fjöldaframleiðslu. Þó viðurkennir hv. þm. þetta í öðru orðinu í verki. Þegar hann berst hatrammlega á móti inngöngu t.d. í Efnahagsbandalagið, þá gerir hann það vegna þess, að hann veit, að ef við kæmum þar og hefðum jafna aðstöðu við aðra aðila, mundi það verða til þess að drepa innlendan iðnað, og það er einmitt ein af ástæðunum til þess, að við hinir viljum ekki heldur ganga í Efnahagsbandalagið. En menn verða að átta sig á, hvað felst í því, sem þeir eru að segja, og hvað leiðir af þeirra fullyrðingum. Hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, hefur stundum sagt eitthvað á þessa leið, — og það er alveg rétt hjá honum: Það getur vel verið, ef menn litu eingöngu á efnahaginn, að þá væri hægt að freista sumra með því að ganga í Efnahagsbandalagið. En þetta er miklu víðtækara mál og verður að skoðast frá öðrum sjónarmiðum. Eins verður að skoða iðnaðinn. Það verður að skoða hann frá öðrum sjónarmiðum en því að telja mönnum trú um, að við hér með okkar mjög þrönga markað getum yfirleitt keppt við fjöldaframleiðsluna, þótt það geti, eins og ég segi, verið sérstök atvik, sem gera það mögulegt. Og auðvitað þar sem fjöldaframleiðsla kemur ekki til og þar sem hægt er að hafa gagn, ef svo má segja, af þeirri fjarlægð, sem við erum i frá öðrum, fyrir iðnrekendur, er mjög eðlilegt, að þeir séu samkeppnisfærir, og þá á að vera hægt að halda þannig á málum og greiða fyrir þeim, að þeir geti keppt við aðra.

Nú tala hv. þm., þessi og hans félagar, um það, að hér sé allt að falla í rúst í samdrætti og öðru slíku. Frá móðuharðindahjalinu hér fyrir rúmum 6 árum allt þangað til nú í haust hefur verið talað um það, að það væri allt of mikil atvinna, allt of mikill þrýstingur á öllu, óendanleg samkeppni um vinnuafi og þetta væri allt ríkisstj. að kenna. Nú, þegar nokkru meira jafnvægi er að komast á, að því er allir viðurkenna, er þetta aukna jafnvægi að kenna ríkisstj., og þá er um að gera að gera nú gagnráðstafanir, þannig að sú mikla spenna, sú mikla hætta, sem þessir hv. þm. í vor gátu aldrei nógsamlega talað um í sambandi við virkjun Þjórsár og byggingu álvers, sú hætta verði raunveruleg enn á ný. Sannleikurinn er sá, að í tali þeirra um verðbólguna, — og það er rétt, að við gerum það alveg upp, að í þeirra tali um verðbólguna eru svo mikil óheilindi, svo mikið ósamræmi, svo gagnstæðar fullyrðingar, að þeir hljóta að tapa á öllum umr. um þetta efni, enda skulu þeir ekki sleppa undan þeim á þessu þingi.