02.11.1966
Sameinað þing: 7. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í D-deild Alþingistíðinda. (2298)

16. mál, jarðakaup ríkisins

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 2. þm. Sunnl. flyt ég á þskj. 16 till. til þál. um endurskoðun laga um jarðakaup ríkisins o. fl. Till. gerir ráð fyrir því, að Alþ. kjósi hlutfallskosningu 7 manna n. til þess að endurskoða lög nr. 92 frá 23. júní 1936, um jarðakaup ríkisins, og önnur gildandi lagaákvæði, sem varða kaup, meðferð og sölu ríkisjarða, og gera svo fljótt sem verða má till. um lagabreytingar og ný lagaákvæði, sem miði að því: Í fyrsta lagi að auðvelda þeim, sem hætta verða búskap vegna aldurs eða annarra orsaka, að koma eignum sínum í verð, og skapa jafnframt skilyrði fyrir betri skipulagningu, með því að ríkið kaupi eyðijarðir og jarðir, sem ella færu í eyði, svo og aðrar jarðir, sem ekki eru nytjaðar með eðlilegum hætti. Í öðru lagi að efla þá starfsemi Landnáms ríkisins, sem lýtur að því að gera heildarskipulag fyrir landbúnaðarbyggðirnar samkv. l. nr. 75 frá 1962, um stofnlánadeild landbúnaðarins, Landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Í þriðja lagi að tryggja sem bezt umráðarétt og eignarrétt bænda á jörðum og opinber aðstoð við eigendaskipti, m.a. með stórauknu lánsfé til jarðakaupa, svo að þeim, sem vilja leggja stund á búskap, sé gert sem auðveldast að eignast jörð eða fá hana til erfðaábúðar, og jafnframt séu athugaðir á því möguleikar, að ríkisjarðir, sem felldar hafa verið inn í heildarskipulag byggðarinnar, séu seldar með hagkvæmum kjörum þeim, sem vilja þær til ábúðar í samræmi við staðfest skipulag. Í fjórða lagi að tryggja sjálfseignarbændum eðlilegt öryggi um verðgildi eigna sinna og jafna aðstöðu þeirra og leiguliða í þeim efnum. Og í fimmta lagi, að um leið verði settar reglur um mat á jarðeignum til kaups og sölu í því skyni að skapa meiri festu í verðlagningu slíkra verðmæta. Það er gert ráð fyrir því, að n. leiti aðstoðar þeirra embættismanna og sérfræðinga, sem um þessi mál fjalla, og einnig Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda og kostnaður, sem verður af störfum n., sé greiddur úr ríkissjóði.

Till. gerir sem sagt ráð fyrir því, að gildandi löggjöf um þessi efni verði endurskoðuð með hliðsjón af því að auðvelda þeim, sem vilja hætta búskap, að koma eignum sínum í verð, og auðvelda þeim, sem vilja hefja búskap, að geta fengið jarðnæði og aðstöðu með sem hagkvæmustum hætti, og í þriðja lagi að efla skipulagsstarfsemina á vegum Landnámsins mjög frá því, sem verið hefur. Það eru, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, mikil brögð að því, að jarðir fari í eyði, og hefur verið um skeið svo.

Með grg. frv. er prentaður sem fskj. útdráttur úr skýrslu Landnámsins um lögbýlisjarðir í landinu, ábúð þeirra og eyðijarðir í fardögum 1964. Þessi skýrsla er þannig orðin tveggja ára gömul, og nýjustu tölur kunna að vera eitthvað lítið eitt aðrar en þær, sem hér koma fram. En það mun ekki vera meira en svo, að þetta, sem hér kemur fram, gefur rétta hugmynd af því, hvernig þessum hlutum er háttað. Það kemur þar fram, að lögbýli í landinu, að meðtöldum kauptúnum og kaupstöðum, en að undanskilinni Reykjavík, eru 7242, eða voru það í fardögum fyrir tveimur árum. Af þeim eru 5438 jarðir í ábúð, en eyðijarðir 1804 eða réttur fjórðungur lögbýlisjarða samkv. þessum tölum. Það kemur enn fremur fram í þessari skýrslu, að af 1686 eyðijörðum, sem könnuð hafa verið eignarumráð yfir, eru langflestar í einkaeign eða 1097, hreppseignir eru 81, ríkiseignir 201 og liðlega 300, þar sem eignarumráð eru óviss. Það kemur einnig fram í þessari skýrslu, að mikið af eyðijörðunum í landinu eru ekki taldar hæfar til endurbyggingar af Landnáminu. Af þessum 1686 jörðum telur Landnámið, að 853 eða rúmlega helmingurinn séu ekki hæfar til endurbyggingar, á hinn bóginn eru 451 eða rétt rúmur fjórðungur taldar endurbyggilegar, en ófullnægjandi upplýsingar eru um tæpan fjórðung.

Þessi þróun, sem verið hefur að eiga sér stað um alllangt árabil, á að öðrum þræði rót sína að rekja til þeirrar atvinnubyltingar, sem hér hefur átt sér stað og á sér stað eins og annars staðar. Þetta er öðrum þræði afleiðing aukinnar tækni og þá um leið forsenda vaxandi velmegunar. En þegar að því er gáð, að það eru ekki bara afskekktar jarðir og kotjarðir, sem fara í eyði, heldur eru þess einnig dæmi um kostajarðir í miðjum búsældarsveitum, má það verða okkur áminning um það, að hér er á ferðinni þróun, sem æskilegt er, að þjóðfélagið láti ekki afskiptalausa og stýri á þann hátt, að sem minnstum slysum valdi, bæði þjóðfélaginu og einstaklingum, og að þessi þróun gerist á þann hátt, sem þjóðfélagsheildinni er til minnst tjóns og hagkvæmast. Það er í rauninni ekki sæmilegt heldur fyrir okkur að haga málum þannig, að fullorðnir bændur, sem hafa unnið á jörðum sínum langa ævi, verði að lokum að ganga frá þeim og skilja eignir sínar og ævistarf eftir. Og það er á þessu máli einnig önnur hlið. Það eru vafalaust ýmsir, sem stunda búskap einmitt af því, að það eru ekki tök á því fyrir þá að losna við eignir sínar með eðlilegum hætti. Slíkur búskapur er að sjálfsögðu tæpast hagkvæmur eða æskilegur. Bæði þyrftu þessir menn að geta verið frjálsir menn eins og aðrir, og einnig frá sjónarmiði þjóðfélagsins er það ekki eðlilegt, að menn telji sig vera í hálfgerðri þvingunaraðstöðu að þessu leyti.

Það er af þessum ástæðum, sem gert er ráð fyrir því í 1. lið till., að endurskoðun löggjafarinnar miði að því, að ríkið kaupi eyðijarðir og jarðir, sem þannig er ástatt um, að þær eru að fara í eyði. Það er þó rétt að geta þess, að samkv. ákvæðum í ábúðarlögum hafa sveitarfélögin nokkurn rétt í þessu efni, en möguleikar þeirra munu þó vera takmarkaðir. Það er eðlilegt, að það komi til athugunar, að hve miklu leyti væri hægt að ná svipuðum tilgangi með því að styrkja sveitarfélögin til þess að neyta þessa réttar. Sjálfur er ég nokkuð vantrúaður á, að sveitarfélögin valdi þessum verkefnum. En það er líka æskilegt af öðrum ástæðum, að ríkið nái fullum umráðarétti yfir ónotuðu landi, nefnilega til þess að geta tryggt hagkvæmt skipulag landsins og sem bezta nýtingu þess í framtíðinni.

2. tölul. till. lýtur að þessu og gerir ráð fyrir að efla skipulagsstarf Landnáms ríkisins. Samkv. 28. gr. l. um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum skal landnámsstjóri, eftir því sem við verður komið, láta gera heildaruppdrætti að byggð landsins og á grundvelli þeirra í samráði við hreppsnefndir og félagsstjórnir gera till. um skipulag byggðarinnar, hvernig hagkvæmast sé að þétta byggðina með skiptingu jarða og hvaða lönd séu hentug til afnota fyrir byggðahverfi. Á þessu sviði hefur Landnámið að undanförnu unnið allmikið starf, sem þó hefur einkum beinzt að takmörkuðum hluta þess vandamáls, sem hér er um að ræða, nefnilega því, sem hér er sérstaklega talað í lagagreininni um byggðahverfi. Að vísu mun Landnámið hafa unnið nokkuð meira starf á þessu sviði, m.a. kortagerð á ýmsum svæðum, en þessi viðleitni hefur að sjálfsögðu takmarkazt nokkuð af öðrum aðkallandi verkefnum þessarar stofnunar. Það er enginn vafi á því, að á þessu sviði er mikið og vandasamt verk fyrir höndum, og þá er að sjálfsögðu hagkvæm nýting landsins til landbúnaðar aðalatriðið, þó að fleira komi til athugunar. Nýting landsins í framtíðinni til landbúnaðarframleiðslu þarf að mótast í samræmi við mótaða framleiðslustefnu, sem gerð yrði í samráði við stéttasamtök bænda og yrði grundvöllur þess skipulagsstarfs, sem unnið væri. En það er fleira, sem hafa þarf í huga í þessu sambandi. Það þarf sífellt meira land til ýmissa annarra nota þjóðfélagsins, fyrir vaxandi þéttbýlismyndun, fyrir iðnað, og einnig þarf að hafa í huga þarfir vaxandi fjölda bæjarfólks fyrir eðlilega og heilbrigða útivist o.fl. Útivistarþörf þéttbýlisfólksins má ekki verða til þess, eins og ýmis dæmi eru um, að hlunnindajarðir hafa verið keyptar og notaðar í öðrum tilgangi en eðlilegast væri talið, og þarf að hafa þau vandamál í huga einnig í sambandi við þessi skipulagsstörf.

Nú er það í sjálfu sér ekki keppikefli, að ríkið haldi áfram að eiga jarðir. En þegar kæmi að því að ráðstafa þeim aftur, eftir að ríkið hefði eignazt þær samkv. því, sem um ræðir í 1. tölulið þessarar till., og þær hefðu verið til meðferðar hjá Landnáminu með tilliti til skipulags, kemur að því að ráðstafa þeim á nýjan leik, og þá er að sjálfsögðu nokkur vandi á höndum. Margir óttast þá hættu, sem fólgin er í því, ef slik jörð yrði seld, að kaupandi mundi ekki nýta hana með eðlilegum hætti, heldur færi hún að ganga kaupum og sölum í gróðaskyni, og gildandi löggjöf ber nokkurn svip af þessum ótta, sem á að sjálfsögðu nokkurn rétt á sér, a.m.k. meðan sveitirnar eru skipulagslausar. En með skipulagningu sveitanna mundi að sjálfsögðu draga nokkuð úr þessari hættu, því að þá fylgdu að sjálfsögðu ákveðnar kvaðir um nýtingu jarðar, sem seld yrði eða seld kynni að vera.

Í bæjunum fer fram skipulagsstarf, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt. Það er ákveðið af skipulagsyfirvöldum og bæjaryfirvöldum, hvað megi gera við hverja ákveðna lóð og landssvæði, og eigendur þessara lóða og landssvæða verða að sætta sig við þær ákvarðanir, sem þessi yfirvöld taka. Það er ekki hugmynd okkar flm. að svo stöddu að gera ráð fyrir því, að slíkar kvaðir verði lagðar á jarðir úti um landsbyggðina, sem eru í einkaeign og nýttar af þeim aðilum, sem þær eiga, heldur aðeins að ríkið skipuleggi og leggi eðlilegar kvaðir á þær jarðir og þau lönd, sem það sjálft eignast. Nú verður að gera ráð fyrir því, að í ýmsum tilvikum geri skipulagið ekki ráð fyrir því, að jörð verði byggð að nýju í fyrirsjáanlegri framtíð, og þá mundi það að sjálfsögðu gera ráð fyrir, að hún yrði notuð í einhverjum öðrum tilgangi, og þá væri eðlilegt, að henni yrði ráðstafað í samræmi við þann tilgang með einhverjum hætti, lögð nágrannajörðum til eða undir þáttbýli eða undir afrétt, undir skógrækt, undir útivistarsvæði, eftir því sem við á. Og í slíkum tilfellum yrði slík jörð eða jarðarhluti aðeins seld nágrannabónda til nýtingar, væri ella í opinberri eign, annaðhvort sveitarfélags eða ríkisins áfram.

4. liður till. gerir ráð fyrir því, að haft verði í huga við þessa endurskoðun að tryggja sjálfseignarbændum eðlilegt öryggi á verðgildi eigna sinna og jafna aðstöðu þeirra og leiguliða um þau efni. Það er ekki æskilegt, að það sé eftirsóknarverðara að vera leiguliði en sjálfseignarbóndi. Leiguliðar hafa æðimikið öryggi um eignir sínar. Réttur þeirra til bóta fyrir þær endurbætur og eignaaukningar, sem þeir gera á ábúðarjörð sinni, er allvel tryggður, og er það í sjálfu sér eðlilegt, einkum og sér í lagi ef þær endurbætur eru gerðar með vilja og vitund landsdrottins, og í sambandi við þetta kemur í rauninni til athugunar staða ríkisins sem landsdrottins.

Loks gerir till. ráð fyrir því, að settar verði reglur um það, hvernig jarðir skuli metnar til kaups og sölu, enda talin á því nauðsyn, að feta sé sköpuð um það efni í sambandi við löggjafarstarf af þessu tagi. Nú er að vísu að koma nýtt fasteignamat innan skamms, og má vera, að í sambandi við það skapist lausn á þessum vanda.

Það upplýstist í haust, að bændasamtökin hafa náð samkomulagi við ríkisstj. um ráðstafanir, sem að einhverju leyti hníga í svipaða átt og 1. liður þeirrar till., sem hér liggur fyrir, og vonandi má vænta um það frv. frá hæstv. ríkisstj. innan skamms. Mér er að sjálfsögðu ókunnugt í einstökum atriðum um, hvað gera megi ráð fyrir að verði efni þess frv., en skv. þeim fréttum, sem dagblöð hafa flutt, virðist sem þær nái til eins þáttar þessa máls, sem hér liggur fyrir, en þessi till. gerir ráð fyrir athugun, sem sé allmiklu víðtækari, og teljum við flm. því eftir sem áður ástæðu til að taka þetta mál til skoðunar á þeim víðtæka grundvelli, sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir.

Ég skal svo ekki að svo stöddu hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, en leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til síðari umr. og hv. fjvn.