13.12.1966
Efri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fagna því hér undir þessum umr., hversu röggsamlega hefur tekizt til og skjótt að koma upp íslenzku sjónvarpi á stuttum tíma. Tilkoma sjónvarpsútsendinga nú á að geta þokað úr sessi því erlenda sjónvarpi, sem þyrnir hefur verið í augum margra Íslendinga og ekki að ástæðulausu. En um leið og ég segi þetta vil ég þó láta þess getið, að ég tel sjónvarpið ekki eins aðkallandi mál og sum önnur á landi hér, eins og t.d. að taka rafmagnsmál og skólabyggingamál, svo að eitthvað sé nefnt. Þar af leiðandi held ég, að lántökur til að hraða dreifingu sjónvarps um landið eigi ekki endilega að sitja fyrir lántökum til annarra enn þarfari framkvæmda. Þegar á málið er litið í heild, finnst mér einnig, að allt of mikilsverðir hlutir í sambandi við það liggi enn óljóst fyrir og að almenningur hafi því ekki áttað sig á því fremur en ýmsu öðru, sem kemur mjög snögglega og menn hafa raunar ekki búizt við svo snemma.

Það er jafnvel talað um sjónvarpsdagskrá á hverjum degi strax nú í vetur. Mér finnst, að okkur muni nægja annað hvort kvöld fyrst um sinn og viðráðanlega langur tími hvert kvöld og fremur þurfi að hugsa til þess, að sjónvarpið verði ekki þunnt og leiðinlegt, en að hafa dagskrána svo og svo langa. Svo er einnig kostnaðarhliðin í þessu sambandi mikið atriði og ekki upplýst enn, hversu kostnaðarsamt verði um öflun efnis, ef sjónvarpsdagskrá er mjög löng.

Hér liggja fyrir nokkrar breytingar frá menntmn., sem ég geri ekki að umtalsefni, því að formaður n. hefur gert rækilega grein fyrir þeim. Ég skal ekki heldur ræða allsherjarbreytingar á útvarpsl., sem munu vera nauðsynlegar, því að hæstv. menntmrh. hefur lýst því yfir hér við umr. áður, að það mál sé nú í athugun og allsherjarbreytingar muni koma fram innan tíðar. En þar sem fram hafa komið nokkrar brtt. um lántökuheimildir, fyrst á þskj. 114 og síðan á þskj. 115 og loks á þskj. 134, frá meiri hl. menntmn., tel ég nauðsynlegt að fara um þær nokkrum orðum, þar sem nú liggur fyrir að greiða atkv. um þessar till. Að vísu hefur till. frá minni hl. n. verið tekin aftur eða henni breytt, en að efni til er hún þó enn hin sama.

Þegar málið var rætt í n., kom það fram, að mjög æskilegt væri að hraða sem allra mest dreifingu sjónvarps út um landsbyggðina, og um það var enginn ágreiningur, að þetta væri æskilegt. Ég held, að yfirleitt sé ekki mikill ágreiningur um þetta. En þó að ýmsar yfirlýsingar hafi komið fram í umr. um dreifingarmöguleika á sjónvarpi og sumar mjög athyglisverðar, verður þó að segja, að í þessu efni eru margir hlutir enn mjög í þoku fyrir almenningi og einnig fyrir þeim, sem reynt hafa að kynna sér þetta mál rækilega, því að engar fullnægjandi skýrslur eða áætlanir hafa verið lagðar fram um það og n., sem hafði þetta mál með höndum, hafði ekkert slíkt í höndum og aðeins fáa daga til að athuga málið. Þetta snertir bæði kostnað við endurvarpsstöðvar og dreifingu um allt land og þá einnig tæknilegu hliðina, sem mun ekki vera enn fullrannsökuð, að því er varðar okkar fjöllótta og strjálbýla land. Umr. um þetta mál og sumar yfirlýsingar, sem þó eru athyglisverðar, hafa vakið miklar vonir úti um land hjá fólki um það, að sjónvarpið væri senn að koma til þess út um alla landsbyggð. Því miður er ég hræddur um, að fleiri örðugleikar séu þarna á vegi en skýrðir hafa verið enn fyrir fólki og þetta muni reynast snuð eitt næstu árin á sumum stöðum. Samt efa ég ekki, að það muni takast mjög bráðlega að koma sjónvarpinu til þéttbýlli svæða landsins, eins og hér suðvestanlands og sunnanlands og um Eyjafjarðarsvæðið og eitthvað til Austurlands og Vesturlands. En er ekki ákaflega hætt við, að það reynist miklir örðugleikar á því að koma því mjög hratt og kostnaðarlítið yfir allstóra skika landsbyggðarinnar? Og meðan málið er ekki meira undirbúið en er í hendur þn., sem fékk aðeins fáa daga til að athuga það, finnst mér helzt til bráðráðið að kasta fram till. um stórar heimildir til lántöku til að hraða þessu áfram, a.m.k. örðugt fyrir þn. að átta sig á því að taka afstöðu til þeirra till. jákvætt á svo stuttum tíma sem um var að gera. Þar á ég bæði við það, hvað snertir upphæðir, sem nefndar hafa verið í þessu efni, og einnig þá tímalengd, sem um er talað í till. á þskj. 114, sem er aðeins 3 ár, og mér þykir ákaflega mikil bjartsýni að láta sér til hugar koma, að það takist að reisa endurvarpsstöðvar og allar þær smærri stöðvar, sem til þurfa, fyrir einar 50 millj., sem hér er talað um, og er mjög hræddur um, að þetta geti ekki staðizt. Þess vegna vil ég ekki ljá því lið að vekja vonir hjá fólki um svona auðvelda framkvæmd á þessu máli, sem það mundi binda við till. eins og þessa. Nær væri að hugsa sér, að þær framkvæmdir, sem hér er talað um, kynnu að vinnast með 100 millj. kr. lántöku, eins og hv. 4. þm. Vestf. hefur flutt. till. um, en þó ætla ég, að það muni vera alls fjarri, að einnig hún nái tilgangi sínum. Þar af leiðandi hef ég ekki áhuga fyrir að styðja hana á þessu stigi málsins.

Við viljum sjálfsagt öll að því stuðla, að sjónvarpsdreifingu verði hraðað sem mest út um land, og það ætti sízt að sitja á mér að vera með úrtölur í því efni, þar sem í hlut á sá hluti landsbyggðar, sem ég tel verst settan og hafa einna mesta þörf fyrir þetta menningartæki, sem svo er nefnt, vegna þess að það fólk, sem þar er, er í meiri fjarlægð við tinnur menningartæki, sem þéttbýlisfólkið hefur aðgang að. En ég held, að málið sé bara ekki svona einfalt, eins og sumir virðast halda, eða a.m.k. liggja ekki enn fyrir rök, sem styðja það, hvað þá sannanir. Þessar eru ástæður fyrir því, að ég tel ekki tímabært að samþykkja þær till., sem hér um ræðir til lántökuheimildar. Þær eru ófullnægjandi, þótt samþykktar væru, og mundu þar af leiðandi aðeins vekja vonir, sem ekki rættust hjá landsfólkinu. Aftur á móti er sú till., sem meiri hl. n. leggur hér til, að verði tekin upp, raunhæf um 25 millj. kr. lánsheimild. Hún er undirbyggð þeim rökum, eftir því sem fram kom í ræðu hæstv. menntmrh., að það má ætla, að hún verði að því gagni, sem ráð var fyrir gert. Þar af leiðandi hefur n. fundið ástæðu til þess að taka hana upp og styðja þannig að því, að þau byggðarlög, sem mundu njóta þeirra endurvarpsstöðva, sem gert er ráð fyrir að byggja fyrir þetta fé, mundu ná sambandi við sjónvarpið fyrr en ella, og þó að maður geti ekki sinnt öllum, er æskilegt að geta sinnt einhverjum, sem möguleikar helzt leyfa að sinnt verði.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. En ég vil aftur víkja að því, sem ég byrjaði á, að þó að sjónvarpið sé stórt mál og mikilsvert, tel ég það þó ekki í fyrstu röð stórmála og stórframkvæmda, sem þörf er á, og þess vegna eigi að athuga málið vel, hversu lántökumöguleikar eru miklir og hversu miklir möguleikar eru til að standa undir lánum, áður en því er raðað upp, hvaða lántökur eigi að sitja fyrir. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að þó að sjónvarpið sé mikils háttar mál og sjálfsagt mjög þráð af öllum íbúum landsbyggðarinnar, eru þó önnur mál þar í fyrirrúmi, eins og t.d. raforkumál, bæði dreifiveitur og virkjanir, og einnig skólabyggingamál, og þar af leiðandi eru þau miklu meiri undirstöðumál, og ég vil segja, að þeir, sem hafa áhuga á miklum framkvæmdum og hröðum, ættu öllu heldur að snúa öllu sínu afli að því að hrinda þeim málum fram með lántökum en þó þessu, því að ég geri ekki ráð fyrir, að við höfum svo mikla lántökumöguleika og mikla getu til að standa undir lánum, að við getum tekið lán til allra hluta, sem við viljum viðurkenna að nauðsynlegir séu. Þó að ég segi þetta, vil ég ekki, að það sé skoðað svo, að ég sé að lasta sjónvarp, þvert á móti. En það er bara mál, sem ekki er fremsta mál í mínum augum nú, eins og sakir standa, að því er snertir framkvæmdir úti um landsbyggðina.