30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (2340)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þau orð, sem hæstv. utanrrh. sagði, gefa mér ekki tilefni til langrar ræðu. Ég verð þó að harma, hve daufar mér þóttu undirtektir hans við málið. Það var eitt megininntak hans ræðu, að mér skildist, að það væri svo skammt síðan um þetta mál hefði hér verið fjallað og í utanrmn., þar sem skoðanir hennar hefðu komið fram, sem voru á þá lund, að meiri hl. n. vildi vísa málinu til ríkisstj., en minni hl. vildi samþykkja till., og hann taldi, að því er mér virtist, hvorki líklegt, að utanrmn. hefði skipt um skoðun síðan í vor, né heldur að það væri þörf á því að brydda upp á málinu nú eftir svo skamman tíma. Nú er það svo, að alltaf geta menn skipt um skoðun, og stundum skipta menn um skoðun til hins betra, og það verður oft að reyna að hafa áhrif á menn í þá átt. Og í annan stað er það, að hv. utanrmn. er ekki meðal þeirra nefnda, sem eru skjótastar til afgreiðslu mála, og því má vera, ef svo fer, sem ég veit að muni verða, að þessu máli verði til hennar vísað, að enn líði nokkur tími, þangað til hún skilar áliti um þessa þáltill., svo að ég býst við, að henni gefist enn nokkurt ráðrúm til þess að endurskoða sína afstöðu og athuga það með nokkurri gaumgæfni, hvort það hafi verið skynsamleg afstaða, sem hún tók á s.l. vori, en ég fæ nefnilega ekki séð, að svo hafi verið, og ég fæ ekki séð, að það komi heim við þær skoðanir, sem hæstv. utanrrh. var að leggja hér áherzlu á áðan og hann vildi telja sínar, því að hann féllst alveg á það og undirstrikaði það rækilega, að hann teldi það mikilsvert í þessu máli, að samvinna um það væri sem bezt milli allra stjórnmálaflokka og að sem mestur einhugur næðist milli þeirra um það. En þá spyr ég: Er það leiðin til að skapa þann einhug að vísa málinu til ríkisstj.? Er það tryggt með þeim hætti, að samráð sé haft við aðra flokka? Eru þeir starfshættir tíðkanlegir hjá hæstv. ríkisstj.? Ég held ekki. Og að vissu leyti var það ánægjuleg upplýsing, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan, að sérstökum, ágætum manni hefði verið fengið erindisbréf upp á það að vinna að þessu máli. En ég spyr: Var haft samráð við aðra stjórnmálaflokka um þá aðgerð, um þá einu aðgerð í þessu máli, sem hér hefur verið gerð? Það hefði verið eðlilegt. Ég er ekki að segja, að aðrir stjórnmálaflokkar hafi neitt að athuga við þessa aðgerð. Ég er ekki að segja, að þeir mundu hafa haft neitt við hana að athuga. En ef að þessu máli á að vinna í þeim anda, sem hæstv. ráðh. taldi þó út af fyrir sig rétt vera, hefði einmitt átt að hafa samráð við aðra stjórnmálaflokka, og ríkisstj. hefði með þeim hætti átt að sýna í verki þann vilja, sem hæstv. ráðh. segir að sé hennar.

Það er vissulega, eins og ég sagði, út af fyrir sig ánægjulegt, að hæstv. ríkisstj. hefur nokkuð vaknað í þessu máli og hafizt handa um það að skipa þennan ágæta mann til þess að afla upplýsinga í málinu. En hingað til hefur ekki, að því er virðist, mikið verið annað jákvætt í því aðhafzt. Hæstv. utanrrh. lýsti því hér við umr. um málið í fyrra, að hans forveri, fyrrv. utanrrh., hefði á sínum tíma mætt hjá utanrmn., þegar fjallað var um þáltill. um útfærslu landhelgi fyrir Vestfj., og þá hefði hann lýst því, hæstv. fyrrv. utanrrh., að á meðan landhelgissamningurinn við Breta var í gildi, þá hefði lítið verið hægt að gera, en ríkisstj. hefði samt notað tækifærið til þess að kynna stefnu Íslands og skoðanir á erlendum vettvangi, eftir því sem tækifæri hefðu gefizt til, og í því sambandi var minnt á ráðstefnu um fiskveiðimál, sem haldin hefði verið þá nokkru áður í London, en þar hefðu fulltrúar Íslands skýrt og skilmerkilega skýrt frá því, að 12 mílna landhelgi væri ekki lokatakmark Íslendinga og þeir mundu halda áfram að vinna að landhelgismálinu á þeim grundvelli, að Ísland fengi yfirráðarétt yfir öllu landgrunninu.

Ekki hefði þó gefizt tækifæri til þess að koma þessum skoðunum á framfæri á öðrum alþjóðaráðstefnum en þessari. Þetta var nú þá.

Nú er nokkur tími liðinn, síðan samningurinn við Breta var úr gildi genginn, og síðan hafa gefizt einhver tækifæri á alþjóðaráðstefnum til þess að koma þessu sjónarmiði Íslendinga á framfæri, og það er ekki úr vegi að minna á það hér, að nokkur gagnrýni hefur komið fram um það, t.d. í íslenzkum blöðum, að hæstv. utanrrh skyldi ekki í þeirri ræðu, sem hann hélt á þingi Sameinuðu þjóðanna, vekja athygli á þessu sjónarmiði Íslendinga í þessu máli. Nú efast ég ekkert um, að hæstv. utanrrh. hefur sjálfsagt einhverjar sérstakar ástæður fyrir því, að hann hefur ekki talið það heppilegt, eins og á stóð. En þá verð ég að segja það, að það er ekki til mikils ætlazt, að hann geri Alþ grein fyrir því, hverjar þær ástæður hafi verið. Það væri mjög æskilegt að fá þær ástæður hér fram.

Ég get ekki verið hæstv. ráðh. sammála um þá starfshætti, sem á að viðhafa í þessu máli. Hann telur, að eigi að fara þessa leið, sem ríkisstj. hefur nú horfið að, að fela einum manni, ágætum manni, sem ætla mætti, að væri störfum hlaðinn, því að satt að segja fer maður nú að efast um nauðsyn þess að hafa sendiherra á þeim stað, sem hann situr, ef hægt er að fela honum svona mál, sem er náttúrlega langsamlega stærsta mál, sem íslenzka þjóðin á við að fást, og fela honum það sem eitthvert hjáverkastarf frá annasömu sendiherraembætti, ekki i einu landi, heldur fleiri. Ég hefði satt að segja haldið, að það veitti ekki af einum manni, sem gæti gefið sig alveg að svona máli. Ég hefði haldið, að það væri lágmarkskrafa, og það verð ég að segja, að það er kostað til ýmislegs, sem síður skyldi, heldur en þess, þó að ráðinn væri einn maður, sem ekki væri ætlað neitt annað starf, til þess að sinna þessu máli.

Hæstv. ráðh. taldi, að það væri þýðingarlitið eða þýðingarlaust að vera að skipa nefnd stjórnmálaflokkanna. Fyrst yrði að kanna málið og afla upplýsinga, því að nm. hefðu ekki til þess möguleika, eins og sakir stæðu, að hafa skoðun á þessu, að hafa skoðun og mynda sér skoðun í málinu, fyrr en upplýsingar lægju fyrir. Ekki get ég á þetta fallizt. Það hafa vissulega allir Íslendingar skoðun í þessu máli. Við vitum, að hverju við viljum vinna í þessu máli. Við ætlum að vinna að ákveðnu marki, og það, sem um er að ræða, er bara, hvaða starfsháttum og starfsaðferðum á að beita og er heppilegast að beita til þess að komast að því marki. Um hitt, að hvaða marki við ætlum að stefna, erum við allir sammála.. Engar upplýsingar, sem fram kunna að koma, munu hafa áhrif á þá stefnu okkar. Og ég held satt að segja, að einmitt þessir starfshættir ríkisstj., sem þegar eru hafnir í málinu, að fela þannig einum manni án samráðs við aðra stjórnmálaflokka að vinna að málinu, bendi til þess, að ríkisstj. ætli sér ekki og óski ekki eftir, þrátt fyrir fögur orð hæstv. ráðh., að hafa samráð við aðra flokka um þetta. Það er ekki hægt að taka mark á orðum einum, þegar athafnirnar eru ekki í samræmi við orðin, en það eru athafnirnar, sem hér gilda. Hæstv. utanrrh. hefði getað sagt, að það væri lítil þörf á skipun þessarar nefndar, vegna þess að það væri fyrir hendi nefnd, sem ætlað væri að fylgjast með störfum ríkisstj. í utanríkismálum. Hann hefði getað vísað til þess, að hér er utanrmn. til, en það gerði hann ekki, og það er af því, að hæstv. ráðh. er mjög skynsamur maður og hefur séð, að það mundi ekki vera hyggilegt, þar sem öllum er kunnugt um það, að utanrmn. er haldið utan við svo að segja öll utanríkismál, sem máli skipta. Það er nú ekki einasta hneyksli, heldur er það skýlaust lögbrot, því að samkv. þingskapalögunum á að bera undir utanrmn. ekki aðeins lagafrv., sem snerta utanríkismál og til meðferðar eru hér í þinginu, heldur á að bera undir hana utanríkismál almennt, jafnt um þingtímann og milli þinga. Hvenær er það gert?

Það var verið að skýra frá því í fréttum núna í dag, tók ég eftir, að það hafi farið fram á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna athyglisverðar atkvgr., atkvgr., sem veitt er athygli um allan heim. Og þar hefur það m.a. vakið athygli, á hvern veg Ísland greiddi atkv. Ég ætla ekkert hér að fara að segja neitt um það, hvað sé rétt í því efni eða ekki. Ég ætla ekkert að fara að segja mína skoðun á því. En atkvgr. Íslands í þessu efni vekur athygli af því, að það skar sig úr og fylgdi ekki Norðurlöndunum í þessum atkvgr. En Norðurlöndin hafa einmitt haft sérstaka samvinnu og samstöðu um afstöðu til mála á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Og áður en hvert allsherjarþing er haldið, koma utanrrh. Norðurlandanna saman og fjalla um þau málefni, sem þar eiga að vera tekin fyrir, og leitast eftir að ná sem mestri samstöðu um afgreiðslu þeirra mála. Hefði nú ekki verið eðlilegt, að mál sem þetta hefði verið borið undir utanrmn., áður en atkv. væru greidd, og væri það t.d. ekki lámarkskrafa, að utanrrh. kæmi á fund utanrmn., áður en haldinn er þessi sameiginlegi utanríkisráðherrafundur Norðurlandanna, þar sem tekin er ákvörðun um það, hvern veg Norðurlöndin skuli snúast við þeim málefnum, sem upp kunna að koma og vitað er að upp muni koma á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, — væri það ekki lágmarkskrafa, að utanrrh. kæmi þá áður á fund utanrmn. og gerði henni grein fyrir þeim málum? Nei, það gerir hann ekki. Utanrmn. er algerlega — ja, það má eiginlega segja það, algerlega óstarfhæf n. hér, og það er að mínum dómi ákaflega illa. farið og ákaflega illa fallið til þess að skapa þá stöðu í utanríkismálum, sem æskilegt er að sem mest sé. Og af þessari staðreynd, að svona er nú þessu háttað með utanrmn., var það auðvitað ljóst, að hæstv. ráðh. gat ekki vísað til þess, að þessi nefndarskipun, sem um er fjallað í þessari þáltill., væri óþörf af þeirri ástæðu, að fyrir hendi væri utanrmn. Ég tel nú sem sagt, að það eigi að vinna að málinu á þann veg, að allir stjórnmálaflokkarnir eigi að hafa þegar í upphafi aðstöðu til þess að koma á framfæri sínum sjónarmiðum um starfshættina og slík n. sem þessi eigi í samráði við ríkisstj. að leggja línurnar um þau efni. Undir hennar yfirstjórn og yfirstjórn ríkisstj. eiga svo auðvitað starfsmenn — sérfræðingar — að starfa og afla þeirra upplýsinga, sem unnt er að fá, gefa þau ráð, sem þeir geta, og vinna að því eftir þeim línum, sem slík n. leggur, að afla málstað Íslendinga fylgis hjá öðrum þjóðum. Þetta er ekkert feimnismál. Það þarf ekki að vera nein sérstök leynd yfir þessu máli. Aðrar þjóðir eiga og mega vita um það, hvert við Íslendingar ætlum að stefna í þessu máli. Það þarf ekki að vera að skipa neinn einstakan mann með neinni sérstakri leynd til þess að vinna að þessum málum eða senda hann eitthvað þannig, að það megi helzt enginn vita um það, að hann er sendur. Það mundi einmitt vekja athygli, ef Alþingi Íslendinga undirstrikaði sínar fyrri viljayfirlýsingar í þessu efni með því að kjósa slíka n. sem hér er lagt til. Það mundi undirstrika það, að í þessu máli eru allir stjórnmálaflokkarnir sammála og þeir ætla að standa saman í þessu máli. Hitt, að fara þá leið, sem meiri hl. utanrmn. lagði til og hæstv. utanrrh. var hér enn á, — að fara tvær götur í málinu, að stjórnarflokkarnir vilji bara vísa málinu til ríkisstj., treysti henni einni til að fjalla um það, afþakki, að svo komnu máli a m. k., aðild stjórnarandstæðinga í málinu, það er að mínum dómi ekki fallið til þess að undirstrika með öðrum þjóðum, hvílíka áherzlu við viljum allir í raun og veru leggja á þetta mál, heldur er það miklu fremur fallið til þess að vekja efasemdir og tortryggni hjá öðrum þjóðum um, að það sé ekki alveg 100% einhugur í þessu máli.

Ég vil þess vegna vænta, að þegar hæstv. utanrrh. gefst nú nokkur viðbótartími við þá 6 mánuði, sem hann hefur haft frá því í vor, að fjallað var um þetta á fundi utanrmn., muni hann nú komast að þeirri niðurstöðu, að það sé réttara að fara þá leið, sem lagt er til í þessari þáltill., og ég vænti þess, að hann muni að athuguðu máli geta skipt um skoðun í þessu efni, og það er vissulega engin goðgá að breyta um skoðun. Og ekki væri það ólíklegt, að t.d. þessi útsendi sendiherra hefði einhverja skoðun á þessu máli um það, hvernig ætti að vinna að því. Það væri ekki ófróðlegt að fá að heyra álit Hans G. Andersens, sem ég tel alveg ágætan mann og efalaust eins og stendur Íslendinga fróðastan um málið, fá álit hans á því, hvort hann telur heppilegra, að hann vinni að þessu máli eingöngu á vegum ríkisstj. eða hann vinni í umboði n., sem allir stjórnmálaflokkar standi að. Það væri fróðlegt að fá hans álit á því. En hitt vil ég svo enn undirstrika, að þó að hann sé manna fróðastur um þetta mál, finnst mér það ekki stórmannlegt hjá ríkisstj. að ætla honum að hafa þetta lífshagsmunamál þjóðarinnar í hjáverkum.