30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (2342)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. sagði í þeirri ræðu, sem hann var að ljúka við, að fyrrv. utanrrh. hefði sagt, að hann hefði ekki getað haft samband við utanrmn. á eðlilegan máta, vegna þess að hann hefði einhvern tíma trúað henni fyrir einhverjum málum, sem ættu að vera trúnaðarmál og hefðu lekið út. Þar sem ég hef nú verið nokkurn tíma í utanrmn., minnist ég þess ekki, að slíkt hafi komið fyrir, og það væri bezt að fá það nánar upplýst, hvað fyrrv. utanrrh. hefur átt við með þessu. Það, sem maður gæti trúað, að helzt lægi næst að álíta, að utanrrh. hefði fundizt og þeir, sem verið hafa nú um nokkurn tíma, um 15 ára skeið, að ekki væri hægt að trúa utanrmn. fyrir, eru mál viðvíkjandi því, sem snertir Ísland sem hernaðaraðila, eftir að Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið. En eins og kunnugt er, var eftir að það gerðist gerð sú breyting á l. um þingsköp, að það var sett sérstök undirnefnd, leyninefndin svokallaða, 3 manna n., undirnefnd í utanrmn., sem átti að fjalla um þau mál, sem þættu þess eðlis, að það væri ekki hægt að trúa allri utanrmn. fyrir þeim. Og menn skilja auðvitað, af hvaða orsökum það var. Þeir utanrrh., sem hafa starfað, meðan þessi ákvæði voru, — mig minnir, að það sé búið að afnema þau nú, — sem hafa starfað meðan þessi ákvæði voru í l. um þingsköp, höfðu þess vegna aðgang að þessari leyninefnd, og ef ég veit rétt, ég a.m.k. hef staðhæft það áður hér á Alþ. og því hefur ekki verið mótmælt, var þessi leyninefnd aldrei kölluð saman. Ég held, að ég fari þar með rétt mál. A.m.k. hef ég spurt að því hér á Alþ. og þá menn, sem hafa verið í henni, og spurt hér úr þessum ræðustól, og enginn hefur viljað kannast við það, að hún hafi nokkurn tíma verið kölluð saman. Og ef hæstv. fyrrv. utanrrh. hefur þess vegna haft einhver sérstök trúnaðarmál, sem snertu t.d. Ísland sem voldugan hernaðaraðila, býst ég við, að hann hlyti þó að hafa kallað slíka leyninefnd fyrir sig. Það væri þess vegna mjög gott að fá upplýsingar um, hvað það er, sem átt er við með þessu.

Ég er alveg sammála hæstv. utanrrh. um það og vil eiginlega mega taka hans síðustu orð. sem hann sagði hér í ræðustólnum áðan, þannig, að hann vilji taka upp nýja hætti í þessum efnum, sem væri ákaflega heilbrigt fyrir okkur. Við vitum það, sem starfað höfum lengi hér á Alþ.,utanrmn. var ein þýðingarmesta n. Alþingis, og t.d. öll stríðsárin voru mjög tíðir fundir í utanrmn. og utanrmn. tók mjög veigamiklar ákvarðanir á þessum tíma, bæði hafði sjálf framtak um slíkt, og fjallaði um slíkt, og það voru haldnir stöðugir fundir í utanrmn. uppi í stjórnarráði. Í því herbergi, sem forsrh. og utanrrh. hvað lengst höfðu til umráða, þ.e. því herbergi, þar sem ríkisstjórnarfundir eru venjulega haldnir, þar voru fundir haldnir í utanrmn. og það mjög tíðir og um mjög þýðingarmikil mál. Það er raunverulega einn þáttur í því, hvernig er verið að lítillækka Alþ., hvernig er verið að taka meira og meira af þess verksviði og þess valdi yfir til ríkisstjórnarapparatsins, ríkisstjórnartækisins, hvernig búið er að fara með utanrmn. nú um langt skeið, og þar hefur ágreiningurinn í Alþ. um Atlantshafsbandalagið verið notaður sem átylla, því að sannleikurinn er sá, að líka öll önnur mál, sem alls ekki snerta okkar ágreining margra flokka hér á þinginu í sambandi við Atlantshafsbandalag og annað slíkt, hernámið og þess háttar, ótal önnur mál eru ekki heldur rædd í utanrmn., þar sem ekki væri hætta á neinu, sem snerti mismunandi skoðanir sérstaklega í sambandi við mál, sem væru eins þýðingarmikil og valda eins miklum átökum eins og við skulum segja afstaðan til hernaðarbandalagsins.

Við skulum segja t.d. danska þingið, utanrmn. þess fjallar um öll þau mál, sem snerta Sameinuðu þjóðirnar. Flokkarnir í danska þinginu útnefna sjálfir menn til þess að vera í sendinefnd Danmerkur hjá Sameinuðu þjóðunum. Alveg eftir þeirra styrkleikahlutfalli kjósa þeir menn til þess. Svo náttúrlega í viðbót við það ákveður utanrrh., eins og eðlilegt er, að sérfræðingar og aðrir slíkir skuli vera þarna með. Hér er það þannig með sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, að þetta er notað meira og minna til þess eiginlega að skiptast á í sendiferðum og skemmtiferðum jafnvel stundum og heilir flokkar á þinginu eru algerlega skildir þar hjá, rétt eins og væri verið að senda á fund Atlantshafsbandalagsins, þar sem ekki er hins vegar af minni hálfu verið að finna að því þó að einstakir flokkar séu settir hjá. Ég held þess vegna, að þarna þyrftum við að gera verulegar breytingar á. Það væri það eðlilega, að þarna tækjum við upp alveg nýja starfshætti, einmitt í samræmi við það, sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert.

Ég held þess vegna, að það væri mjög heppilegt, að það kæmi fram, hvað það er, bara sögunnar vegna, sem fyrrv. utanrrh. hefur fundizt hann verða fyrir trúnaðarbroti af hálfu alþm. Yfirleitt var það mín skoðun, meðan sá hæstv. utanrrh. var, að Alþ. yrði frekar fyrir trúnaðarbroti frá hans hálfu en hann frá hálfu alþm. En látum það vera. Sagan verður að dæma hans afstöðu jafnt sem annarra, þegar þar að kemur. En hitt aftur á móti vil ég undirstrika, og þykir mér vænt um, að hæstv. núv. utanrrh. er sammála um, að á þessu þarf að verða breyting. Við komum bókstaflega ekki fram sem fullvalda ríki, á meðan við ekki í utanríkismálum okkar förum að hafa betri hátt á en við nú höfum. Við höfðum þetta um tíma, og við eigum að taka þetta upp aftur.