15.02.1967
Sameinað þing: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (2347)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er nú orðið svo langt síðan umr. fóru fram um þetta mál, að það er varla, að maður muni, hvar endað var. En mig minnir þó, að það, sem síðast gerðist og var rætt um málið, væri það, að ég skýrði frá því, að fyrrv. hæstv. utanrrh. hefði tjáð mér, að hann hefði ekki getað sýnt utanrmn. fullan trúnað og þess vegna ekki getað gefið henni þær upplýsingar, sem óskað hafði verið eftir. Þetta var, ef ég man rétt, dregið nokkuð í efa, að rétt væri með farið, svo að ég hef leitað í fundargerðum utanrmn., hvernig þetta hefur borið að, og mér þykir rétt, til þess að ekkert fari á milli mála, að ég lesi upp það, sem bókað er. En það er frá fundi, sem haldinn var þriðjudaginn 4, febr. 1964. Þar er til umr. fiskimálaráðstefnan í London. Bókað er þannig:

„Þórarinn Þórarinsson óskaði upplýsinga um tvær till., sem komið hefðu fram á fundum þeim, sem nýverið hefðu verið haldnir í London, til þess að ræða um fiskimál. Guðmundur Í. Guðmundsson svarar þessu nokkuð fyrst, en segir síðan: Frekari upplýsingar um þetta kvaðst ráðh. ekki geta gefið. Í upphafi ráðstefnunnar hefði verið ákveðið, að hún skyldi haldin fyrir lokuðum dyrum og farið með það, sem þar gerðist, sem trúnaðarmál. Þeim trúnaði kvaðst ráðh. bregðast, ef hann skýrði utanrmn. frekar frá því, sem fram hafði farið á ráðstefnunni. Það hefði að vísu verið venja áður fyrr að skýra utanrmn. í trúnaði frá málum sem þessum, en á tímum landhelgismálsins hafi stjórnarandstaðan tekið upp þau vinnubrögð að birta viðstöðulaust í blöðum sínum allt, sem fram fór í n., og kveðst ráðh. áður hafa vakið athygli n. á því, að slík trúnaðarbrot leiddu til þess, að ekki væri unnt að ræða trúnaðarmál í n. Þessa afstöðu sína kvað ráðh. óbreytta og vildi hann ekki taka áhættuna af því, að birt yrði í blöðum frásögn af málefnum þeim, sem fara ætti með sem trúnaðarmál.“

Næstur tók til máls í n. Þórarinn Þórarinsson, sem andmælti þessari fullyrðingu ráðh. og sagðist ekki kannast við, að rofinn hefði verið sá trúnaður, sem ætti að gilda um mál, sem utanrmn. ræddi, a.m.k. hefði hann og flokkur sá, sem hann væri fyrir, ekki gerzt sekur um trúnaðarbrot.

Þá tekur utanrrh. aftur til máls og sagði, að Þórarinn Þórarinsson hefði vitnað til þess, að á Norðurlöndum mundi það tíðkast, að utanrmn. fái ýtarlega skýrslu um sömu málefni og það, sem hér er til umr. Hann sagði, að það mætti vel vera, að það væri rétt, en menn yrðu að hafa í huga, að á Norðurlöndum væri farið með þau málefni, sem utanrmn. fengi upplýsingar um í trúnaði, sem trúnaðarmál og nm. hlypu ekki með þær í blöð sín. Hér væri reynslan allt önnur. Fyrir nokkrum árum hefði stjórnarandstaðan tekið upp þau vinnubrögð í utanrmn. að bregðast trúnaði og birt í blöðum nákvæmar fundargerðir utanrmn., þar sem trúnaðarmál væru rædd. Þetta gilti fyrst og fremst um Þjóðviljann, en flokkur Þórarins Þórarinssonar væri ekki eins saklaus og hann vildi vera láta.

Það er svo eftirtakanlegt, hvernig Einar Olgeirsson svarar þessu í n. Einar Olgeirsson sagði, að öll blöð reyndu að fá fréttir eftir þeim aðferðum, sem þeim væri mögulegt, og diplómatíið hefði þá ekki aðrar aðferðir en að dementera, en slíkt væri í rauninni oft staðfesting á því, að fréttirnar í blöðunum væru réttar. Þetta segir Einar Olgeirsson og þó nokkuð fleira.

Um þetta spunnust svo nokkrar umr., en ég vildi bara koma þessu hér á framfæri, til þess að það stæði, sem ég sagði við fyrri umr. um málið, að utanrrh. fyrrv. hefði fullyrt þetta og haft til síns máls sjálfsagt þau rök, sem hann taldi gild, og nú hefur útskrift úr fundargerðarbók utanrmn. staðfest þetta.