15.02.1967
Sameinað þing: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (2350)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að því atriði, sem varð þess sérstaklega valdandi, að ég kvaddi mér hljóðs, finnst mér rétt að segja örfá orð um það mál, sem hér liggur fyrir, en þó ekki beint um það. En það, sem ég vildi um það segja, er í stuttu máli, að ég dreg í efa, að við fáum nokkru um þokað í landhelgismálinu, fyrr en við erum búnir að losa okkur undan því oki, sem á okkur var lagt með brezka landhelgissamningnum 1961. Alveg eins og við þurftum að segja upp brezka landhelgissamningnum frá 1901 til þess að gera þær útfærslur, sem farið var í 1954 og 1958, óttast ég, að það verði reyndin, að nýjar útfærslur á fiskveiðilandhelgi Íslands geti ekki átt sér stað, fyrr en við erum búnir að leysa okkur undan oki þessa nýja samnings. Að vísu er svo háttað um þann samning, ólíkt öllum öðrum samningum, sem Ísland hefur gert, að í honum er ekkert uppsagnarákvæði. Hins vegar má mikið vera, hvort það getur ekki verið okkur til stuðnings í þeim efnum, að í sambandi við stofnun Sameinuðu þjóðanna var sú hefð sköpuð, að ef í samningi er ekkert, sem bannar uppsögn hans, eða leyfir uppsögn hans, sé hún eigi að síður leyfileg. Í sáttmála Sam. þj. eru engin ákvæði um það, sem leyfa ríki að ganga úr Sameinuðu þj., en hins vegar var sú lagaskýring veitt á þessu ákvæði í sérstakri n., sem um málið fjallaði, að úrganga úr Sameinuðu þjóðunum ætti að teljast heimil undir vissum kringumstæðum, vegna þess að það væri ekkert ákvæði í sáttmálanum, sem bannaði úrgöngu úr Sameinuðu þjóðunum, þó að hún væri ekki heldur leyfð. Og það má mikið vera, hvort þetta ákvæði eða það fordæmi, sem hér var skapað, getur ekki síðar orðið okkur að gagni til þess að losa okkur undan oki brezka landhelgissamningsins. En það er atriði, sem ég álít, að mjög eigi að koma til greina í sambandi við meðferð þessara mála, hvernig við getum losnað við brezka landhelgissamninginn frá 1961, því að ég óttast það, eins og ég áðan sagði, að hann reynist það helst á okkur, að það verði lítið um aðgerðir í landhelgismálunum, fyrr en við höfum losnað við hann.

Ég ætla þá að víkja sérstaklega að því atriði, sem gaf mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs, en það var sú ásökun fyrrv. utanrrh., að utanrmn. hafi í tíð hans gert sig seka um trúnaðarbrot.

Mér þótti vænt um það, að hæstv. núv. utanrrh. vildi ekki á neinn hátt gera þessi ummæli fyrrv. utanrrh. að sínum orðum, heldur vitnaði eingöngu í það, sem hann hafði sagt í utanrmn. fyrir nokkrum árum og þá var mótmælt af mér og fleiri nm.

Það er vitanlega mesti misskilningur, að það sé bannað að segja frá öllu því, sem gerist í utanrmn. Sú regla hefur aldrei gilt og sú regla gildir ekki heldur um slíkar n., sem ég þekki til. Það gerist fjöldamargt í störfum utanrmn. sem er þannig vaxið, að það er ekkert óeðlilegt og ekkert, sem bannar það, að frá því sé sagt. Það eitt, sem óeðlilegt og rangt er að sagt sé frá í störfum utanrmn., er það, sem ráðh. eða einhver einstakur nm. kann að óska eftir að farið sé með sérstaklega sem trúnaðarmál. Og ég vil fullyrða það, að a.m.k. á þeim tíma, sem ég átti sæti í utanrmn. í tíð fyrrv. utanrrh., hafi nm. ekki gert sig brotlega um það atriði að segja frá einhverju því, sem ráðh. eða einhver annar í n. hefur óskað eftir að væri farið með sem trúnaðarmál. Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt um þetta atriði, að ég álit það rangt og ósatt hjá fyrrv. utanrrh., að þetta hafi átt sér stað.

Í sjónvarpsviðtali, sem blaðamenn áttu við núv. hæstv. utanrrh. fyrir nokkrum kvöldum, vék hann að því, að því er mér heyrðist, að það mundi hafa verið sérstaklega á árunum 1960 og 1961, sem trúnaðarbrot hefðu átt sér stað í utanrmn. skv. frásögn fyrrv. utanrrh. Mér finnst rétt í tilefni af því að rifja upp í örstuttu máli það, sem gerðist á fundum utanrmn, á þessum starfstíma hennar. Þetta er á árunum 1960 og 1961, — var það ekki rétt? — það, sem ráðh. sagði í sjónvarpsviðtalinu, var 1960 og 1961. Ég vil þá fyrst skýra frá þeim fundum, sem haldnir voru í utanrmn. á árinu 1960.

Fyrsti fundurinn í utanrmn. á því ári er haldinn 14. marz 1960. Hann er haldinn í tilefni af því, að hér er þá stödd n. frá þjóðfrelsishreyfingu Nýasalands, sem sneri sér til ríkisstj. og stjórnmálaflokkanna með tilmælum um það, að Ísland kærði Breta fyrir brot á mannréttindasáttmála Evrópu, vegna þess að dr. Banda og fleiri forustumenn þessara samtaka hefðu verið hnepptir í fangelsi, að því er þeir töldu alveg ranglega. Í mínum flokki var samþykkt að verða við þessari beiðni frá. þjóðfrelsishreyfingu Nýasalands, og þess vegna óskuðum við, fulltrúar flokksins í utanrmn., eftir því, að það yrði haldinn sérstakur fundur um málið. Og það gerðist ekki annað en það, að utanrrh. taldi, að nauðsynlegt væri að afla frekari gagna um málið, áður en nokkuð frekara væri gert, og fundinum lauk með þeirri niðurstöðu. Ég get ekki séð, að hér hafi verið neitt trúnaðarmál á ferðinni, og áreiðanlegt, að utanrrh. þáv. óskaði ekki neitt eftir því, að það, sem hann sagði um þetta mál, væri meðhöndlað eins og um trúnaðarmál væri að ræða.

Annar fundur í utanrmn. á árinu 1960 er svo haldinn 8. apríl að ósk fulltrúa Alþb. í n., Finnboga R. Valdimarssonar. Og tilefnið var það, að hann er að óska eftir upplýsingum um ýmsa málsmeðferð af Íslands hálfu í sambandi við fiskveiðiráðstefnuna, sem þá stóð fyrir dyrum að halda í Genf eða kannske verið hafin þá. Sá ráðh., sem mætti á þessum fundi og varð fyrir svörum af hálfu ríkisstj., var hæstv. núv. utanrrh., vegna þess að Guðmundur Í. Guðmundsson var þá staddur erlendis. Og ég minnist þess ekki, — og ráðh. getur þá gert grein fyrir því, ef svo er, — ég minnist þess ekki, að það hafi á þeim fundi verið gefnar neinar þær upplýsingar, sem hægt hafi verið að telja beinlínis trúnaðarmái eða ráðh. hafi óskað eftir að væri farið með sem trúnaðarmál.

Næsti fundur í n., sá þriðji á árinu, er haldinn 22. apríl í tilefni af því, að ég hafði borið fram ósk um það, að hann yrði haldinn. Tilefnið var það, að forsrh. hafði þá farið snögglega til London. Þetta var á þeim tíma, þegar Genfarráðstefnan stóð yfir, og mönnum þótti þetta ferðalag hans kannske grunsamlegt og gæti staðið í sambandi við það, að hann ætti í sérstökum samningum við brezku stjórnina, og það var það, sem ég apurði um á þessum fundi. Á þeim fundi varð hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason. fyrir svörum og kvað sig geta upplýst það, að forsrh. hefði farið í þetta ferðalag eingöngu í einkaerindum. Frá þessu var að sjálfsögðu sagt á eftir, en ég held, að enginn hafi þá litið svo á, að það væri neitt sérstakt trúnaðarmál eða trúnaðarbrot, þó að það væri upplýst, sem hafði komið fram á þessum fundi, að ríkisstj. teldi, að forsrh. hefði farið til London í einkaerindum.

Fjórði fundur í n. á þessu ári er haldinn 25. apríl til þess að ræða um þróun framvindu mála á Genfarráðstefnunni, og það var hæstv. núv. utanrrh., sem gaf þá skýrslu af hálfu ríkisstj. vegna fjarveru Guðmundar Í. Guðmundssonar. Reyndar tók hann það strax fram, að það væru engar nýjar upplýsingar, sem hann gæti gefið á þessum fundi, því að áður en hann var haldinn, sama dag, hafi verið gefin skýrsla af ríkisstj. hálfu um málið á opnum fundi í Sþ., og þar taldi hann að hefðu komið fram allar þær upplýsingar, sem einhverju máli skiptu.

Fimmti fundurinn í utanrmn. á þessu ári er haldinn 18. maí, en það er til þess að ræða um þingmál, eða þáltill., sem ég og nokkrir aðrir þm. höfðum flutt um endurskoðun á skipan utanríkisþjónustunnar. Að sjálfsögðu kom ekki neitt fram í sambandi við það efni, sem ætti að telja til trúnaðarmála.

Sjötti fundur n. á þessu ári er haldinn 13. júlí um sumarið að beiðni Hermanns Jónassonar, og er tilefnið það, að brezkir togarar höfðu gert sig seka um margvíslegan yfirgang á fiskimiðunum, m.a. oft og tíðum innan fiskveiðimarkanna nýju, og mörgum þótti, að stjórnin stæði sig allslælega í þessum viðskiptum við brezku togarana og gerði lítið að því að halds uppi rétti landhelgisgæzlunnar í skiptum sínum við þessa landhelgisbrjóta. Fundurinn var haldinn til þess að krefjast þess, að ríkisstj. gengi röggsamlegar fram í þessum málum en átt hefði sér stað að undanförnu. Ég held, að hæstv. dómsmrh. þáv., núv. forsrh., hann mætti líka á þessum fundi, og ég held, að í svörum þeirra við þessum ásökunum hafi lítið eða ekkert komið fram, sem hægt er að kalla trúnaðarmál, og áreiðanlega óskuðu þeir ekki heldur eftir því, að það væri farið með það á þann veg. Það bar á góma á þessum fundi fsp. um það, hvort ríkisstj. hugsaði sér að hefja nokkra samninga við Breta um landhelgismálið, vegna þess að þá gekk orðrómur um það. Þáv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, gaf um þetta mjög ákveðna yfirlýsingu, sem hann óskaði ekki á neinn hátt eftir að væri farið með sem trúnaðarmál, en mér finnst rétt sögulega séð að greina frá henni hér, vegna þess að það var líka sagt opinberlega frá henni þá, en kannske ekki eins ýtarlega, en samkv. bókun utanrmn. fórust ráðh. orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá tók ráðh. fram, að engar samningaviðræður hefðu farið fram milli ríkisstj. Bretlands og Íslands um þessi mál. Hins vegar hefði það oft komið fram hjá Bretum, að þeir legðu áherzlu á að taka upp viðræður við Íslendinga um málið. Afstaða ríkisstj. væri sú sama og fyrri ríkisstj., að hafna tilmælum Breta um samningaviðræður, þar eð ekkert væri við Breta að semja um viðáttu fiskveiðilandhelgi við Ísland.“

Sem sagt, á þessum fundi var þarna af hálfu utanrrh. gefin sú skelegga yfirlýsing, að öllum samningaviðræðum við Breta hefði verið hafnað og mundi að sjálfsögðu verða hafnað, því að það væri ekkert við Breta að tala af Íslands hálfu um viðáttu fiskveiðilandhelgi við Ísland. Það gerðist svo tæpum mánuði síðar, eða 10. ágúst, að haldinn er 7. fundurinn í utanrmn., og þá var til hans boðað af utanrrh. og tilefnið að tilkynna það, að íslenzka ríkisstj. hefði fallizt á að hefja samningaviðræður við Breta um landhelgismálið. Það var ekki óskað eftir því, að með þessa tilkynningu væri farið sem neitt trúnaðarmál, enda voru blöðin búin að fá tilkynningu um, að þessar viðræður ættu að hefjast, voru búin að fá tilkynningu um það, áður en fundurinn var haldinn í utanrmn. Þetta eru allir fundirnir, sem haldnir voru í n, á þessu ári. Og þá vík ég að þeim fundum, sem haldnir voru í n. árið 1961. Fyrsti fundurinn í n. það ár er haldinn 27. jan., og hann er eingöngu haldinn til þess að kjósa n. formann, og það var vitanlega ekki neitt trúnaðarmál.

3. marz er svo haldinn annar fundur í n. á árinu, og hann er haldinn eingöngu til þess að fjalla um brezka landhelgissamninginn, sem þá lá fyrir Alþ. til samþykktar, og að sjálfsögðu var fjallað um hann í n. eins og hverja aðra þáltill. eða lagafrv., sem fyrir liggja á Alþ., og ekkert kom fram í þeim umr., sem hægt er að telja trúnaðarmál eða óskað var eftir, að væri farið með sem trúnaðarmál.

3. fundurinn í n. á þessu ári, 1961, er haldinn 26. apríl, og er efni hans að ræða um handritamálið við Dani, og þar er það menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, sem skýrir frá gangi þess af hálfu ríkisstj., og hefur engin ádeila komið frá honum um það, að trúnaðarbrot hafi átt sér stað í sambandi við þann fund.

4. fundur n. á þessu ári haldinn 2. júní og er haldinn að frumkvæði viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, til að gefa skýrslu um markaðsbandalögin, Efnahagsbandalagið og EFTA, og hefur ekkert komið fram um það, að í sambandi við þann fund hafi neitt trúnaðarbrot átt sér stað, enda hygg ég, að ekki hafi verið þar skýrt frá neinu, sem hægt hafi verið að færa undir sérstök trúnaðarmál.

5. fundur í n. á þessu ári er svo haldinn 15. júlí að ósk utanrrh. til þess að gera grein fyrir því, að hafnar séu viðræður við Vestur-Þjóðverja um svipaðan landhelgissamning og búið sé að gera við Breta og það séu einnig hafnar viðræður eða hugsanlegt, að hafnar verði viðræður við Færeyinga í tilefni af ósk þeirra að mega stunda handfæraveiðar innan íslenzku fiskveiðilandhelginnar.

6. fundur n. á þessu ári er svo haldinn fáum dögum seinna, eða 25. júlí, og hann er eingöngu haldinn til þess að ræða um þessi tilmæli. Færeyinga um handfæraveiðar innan fiskveiðilandhelginnar. Ég var að vísu ekki á þessum tveimur fundum, en mér sýnist það á fundargerðum utanrmn., að ótrúlegt sé, að nokkuð hafi komið fram á þeim, sem ætti að færa undir trúnaðarmál.

7. fundurinn á árinu í n. er svo haldinn 27. okt., eingöngu til þess að kjósa n. formann. Síðasti fundurinn er svo haldinn 30. nóv. þetta ár og er haldinn til þess að ræða um þál. um staðfestingu á þýzka landhelgissamningnum, sem ríkisstj. hafði þá undirritað við Vestur-Þjóðverja, og þar kom að sjálfsögðu ekkert fram, sem hægt var að færa undir trúnaðarmál, því að það var fjallað um þessa till. eins og venjulegt þingmál.

Þetta er allt það, sem hefur gerzt í utanrmn. á þessum tveimur árum, og ég fullyrði það alveg hiklaust, a.m.k. á öllum þeim fundum sem ég var staddur á, að það hafi ekki verið óskað eftir af hálfu ríkisstj., að farið væri með nokkurt atriði, sem hún bar fram, eða upplýsingar, sem hún gaf, sem neitt sérstakt trúnaðarmál. Og ég held ekki, a.m.k. kemur ekki annað fram í fundargerðabókum utanrmn., að nokkurt atriði eða nokkrar upplýsingar hafi þar verið gefnar, sem megi færa undir það, að um trúnaðarmál sé að ræða Ég tel samkv. þessu og öðru, sem ég hef sagt um þetta mál, að sú fullyrðing hæstv. fyrrv. utanrrh., að nm. í utanrmn. hafi gert sig seka um trúnaðarbrot í hans stjórnartíð, sé með öllu röng og það sé ósatt hjá honum, sem hann segir um þessi efni. En mér finnst hins vegar rétt, að hér sé ekki látin standa fullyrðing á móti fullyrðingu, vegna þess að hér er um alvarlega ásökun að ræða, og þess vegna hef ég ákveðið það í samráði við flokksbróður minn, sem á sæti í utanrmn., að það verði óskað eftir því, að samkv. stjórnarskránni verði skipuð sérstök rannsóknarnefnd til þess að rannsaka þá ákæru á hendur nm. í utanrmn., sem fyrrv. utanrrh. hefur borið fram. Og ég vil vænta þess, að sú till. fái góðar undirtektir, þegar hún kemur fram, því að það hljóta allir að sjá að hér er um svo stóra ásökun að ræða á hendur þeim, sem fyrir henni verða, að það er sjálfsagt, að þetta mál verði upplýst til hlítar.