08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (2366)

39. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna í dagvinnu

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð til leiðréttingar á ýmsu því, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ). og verð ég þar þó að stikla aðeins á þeim atriðum, sem mér finnst nauðsynlegast, að andmæli komi gegn, og þá, er það í fyrsta lagi fullyrðingar hans í garð Efnahagsstofnunarinnar, sem ég verð að telja algerlega ómaklegar, eða þær, að í grg. Efnahagsstofnunarinnar gæti hlutdrægni, þannig að niðurstöður hennar verði alltaf að vera í samræmi við það, sem ríkisstj. er hagkvæmast hverju sinni. Ég vil mótmæla þessu algerlega, enda tel ég, að hv. 5. þm. Reykv. hafi ekki fært fram fyrir þessu nein frambærileg rök, og ég vil leyfa mér að upplýsa það hér, vegna þess að ég hef átt sæti í Hagráði, sem er stofnun, sem allir hv. alþm. kannast við og skipuð er fulltrúum bæði stjórnmálaflakka, ríkisstj., hinna ýmsu stéttarsamtaka o.s.frv., að þó að ýmis atriði í þeim skýrslum, sem Efnahagsstofnunin hefur lagt fyrir Hagráð, hafi að vísu verið gagnrýnd, eins og eðlilegt er, af því að svo mörg matsatriði koma til greina við samningu slíkrar skýrslu, þá minnist ég þess ekki að hafa heyrt nokkurn, sem þar hafi átt sæti, — og eiga þar þó sæti jöfnum höndum stjórnarandstæðingar og stjórnarstuðningsmenn, halda því fram, að skýrslur Efnahagsstofnunarinnar væru yfirleitt hlutdrægar, þó að hitt og annað í þeim, eins og ég sagði, hljóti að vera álitamál.

Hv. 5. þm. Reykv. vitnaði í samkomulag, sem orðið hefði í kjararannsóknarnefnd um það, hvaða aðferðum skyldi beita við útreikning á kaupmætti launa. Mér er kunnugt um, að þetta samkomulag hefur orðið, en ég tel, að sú viðmiðun, sem þessir aðilar hafa komið sér saman um í kjararannsóknarnefnd, skeri engan veginn úr um það, að þær tölur, sem nefndar eru í grg. fyrir þessari þáltill., gefi ekki villandi mynd af þróun kjaranna, vegna þess að það er hægt að skilgreina kaupmátt launa á marga vegu, og má segja, að aðalatriðið sé þar að finna einhverjar reglur til þess að fara eftir. En sé þeirri reglu fylgt, sem samkomulag hefur orðið um í kjararannsóknarnefnd, gefur það auga leið, að þróun kaupmáttar launa getur ekki orðið neinn mælikvarði á þá breytingu, sem verður á lífskjörunum frá einum tíma til annars. Þar er ekki teikið nema að mjög litlu leyti tillit t.d. til beinna skatta, en það er augljóst mál, að auðvitað er það þýðingarmikið atriði fyrir kjör launþeganna, hve mikið þeir koma til með að greiða í beina skatta af því, sem þeir vinna sér inn, þó að það sé ekki látið hafa áhrif á kaupmátt launanna samkv. þessari reglu.

Svo vil ég að síðustu aðeins minnast á það, sem vakti furðu mína, að hv. 5. þm. Reykv. túlkaði ummæli mín þannig, að ég teldi, að verkamönnum væri ekki af gott að lifa af þeirri fjárhæð, sem vísitölugrundvöllurinn gerir ráð fyrir. Ég hef aldrei sagt neitt í þá átt. Ég benti aðeins á það sem staðreynd, að í fyrsta lagi væri tilgangurinn með vísitölugrundvellinum alls ekki sá að gefa til kynna, hvað verkamenn þurfi minnst til þess að lifa á. Hann er byggður á athugunum, sem gerðar hafa verið á neyzluútgjöldum fólks, en í honum felst ekki neitt mat á því, hvað fólk þurfi minnst til að lifa. Ég sagði, að um það mætti lengi deila. Ég viðhafði einmitt þau orð, að ef stofnað væri til skoðanakönnunar um slíkt hér á hv. Alþ., mundu niðurstöðurnar vafalaust verða jafnmargar og þm. Slíkt verður ávallt mikið álitamál. Hitt benti ég aðeins á sem staðreynd, að vegna þess að þarna er um að ræða hópa með allmismunandi tekjur, hlýtur að leiða af því, að þeir, sem lægstar tekjurnar hafa og þar af leiðandi lægst neyzluútgjöldin, hljóta alltaf að verða undir þessu meðaltali. Það væri auðvitað hægt að taka upp þá reglu, að vísitölugrundvöllurinn væri eingöngu byggður á útgjöldum verkamannafjölskyldna, og þá kæmi þetta auðvitað til þess að fylgjast að. En ég hugsa, að öllum hv. þm. sé það ljóst, að með því mundu kjör verkamanna ekki verða bætt, þó að ákveðið væri, að vísitölugrundvöllurinn ætti eingöngu að miðast við útgjöld þeirra.

Það var margt fleira í ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem í sjálfu sér mundi gefa tilefni til aths., en ég verð að sinni að láta þetta nægja.