13.12.1966
Neðri deild: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mál þetta er komið frá hv. Ed., sem samþykkti það á fundi síðdegis í dag. Efni frv. er að taka af um það öll tvímæli, að sjónvarpsrekstur heyri undir íslenzka ríkisútvarpið, en í gildandi l. um útvarpsrekstur ríkisins eru engin sérstök ákvæði um sjónvarp. Hins vegar hefur verið talið, að sjónvarp væri einn þáttur útvarps. 1957 tilkynnti menntmrn. ríkisútvarpinu, að það teldi sjónvarpsmál falla undir ríkisútvarpið, og hafa þær þrjár ríkisstj., sem síðan hafa setið, hagað sér samkv. þessu eða talið þennan skilning gildan. Hið sama gildir og um ýmsar ákvarðanir Alþ., þar sem sami skilningur kemur fram í ýmsum ákvörðunum Alþ., svo sem þegar það var samþ. á sínum tíma, að viss hluti af tekjum Viðtækjaverzlunar ríkisins skyldi ganga til ríkisútvarpsins til þess að annast undirbúning sjónvarps.

Ríkisútvarpið hefur haft þennan undirbúning með höndum og fengið til þess sérstakar fjárveitingar á Alþ. Það var ákveðið fyrir 3 árum, að aðflutningsgjöld af innfluttum sjónvarpstækjum skyldu ganga til stofnunar sjónvarpsstöðvar eða til greiðslu á stofnkostnaði íslenzks sjónvarps. Þegar þessi samþykkt var gerð, var það vitað, að ríkisútvarpinu hafði verið falið að annast þennan undirbúning, og má því segja, að Alþ. hafi með þessari samþykkt staðfest þann skilning þriggja undanfarandi ríkisstj., að útvarpslögin tækju í raun og veru til íslenzks sjónvarps. Þessi skilningur kemur einnig fram í alþjóðasamningum, sem Ísland er aðili að, en í alþjóðafjarskiptasamningnum, sem gerður var í Genf 1959 og Ísland fullgilti 1960 og hefur raunar lagagildi hér á landi, er tekið svo til orða, að orðið „útvarp eða radíó“ sé almennt hugtak, sem tekur til notkunar útvarpsbylgna, en sjónvarp byggist, eins og kunnugt er, á notkun útvarpsbylgna.

Þrátt fyrir allt þetta, sem ég hef nú rakið lauslega, hefur það verið dregið í efa, að útvarpsl. taki til sjónvarpsrekstrar, og er því sjálfsagt að taka af um það öll tvímæli. Er þetta þeim mun nauðsynlegra einmitt nú, vegna þess að fyrir dyrum stendur að taka ákvörðun um afnotagjald fyrir íslenzka sjónvarpið, en tilraunasendingar þess hófust 30. sept. s.l. Ég tel ekki rétt, að afnotagjaldið sé ákveðið, nema tekin hafi verið ótvíræð ákvæði í lög um útvarpsrekstur ríkisins um, að sjónvarp sé hluti af útvarpi og að ríkisútvarpið eigi að annast sjónvarpsrekstur. En einmitt af þessum sökum er nauðsynlegt, að þetta frv. hljóti afgreiðslu nú á þessu þingi. Afnotagjaldið verður að ákvarðast fyrir áramót.

Hv. Ed. gerði eina allmikilvæga breytingu á frv. Efnislega séð var það að öðru leyti samþ. óbreytt. En Ed. tók inn í frv. heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka allt að 25 millj. kr. lán og endurlána það ríkisútvarpinu til þess að koma upp aðalendurvarpsstöðvum. Eins og ég hef þegar skýrt hinu háa Alþ. frá, hefur ríkisstj. þegar ákveðið að byggja aðalendurvarpsstöð dreifikerfisins á landi, stöðina á Skálafelli, og enn fremur aðalstöðina fyrir Norðurland, þ.e.a.s. stöðina á Vaðlaheiði, og hefur sjónvarpið sjálft eða ríkisútvarpið sjálft nægileg fjárráð til þess að standa straum af stofnkostnaði þessara tveggja stöðva.

Þegar þessi ákvörðun ríkisstj, hafði verið kunngerð, kom í ljós alveg sérstakur og ég vil segja einstakur áhugi fyrir því, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum, að aðalstöðvarnar fyrir Vestfirði og Austfirði yrðu líka byggðar í þessum fyrsta áfanga, þ.e. á næstu 2 árum. En fjárhagur sjónvarpsins, eins og horfur eru í dag, leyfir ekki að greiða stofnkostnað þessara hinna tveggja aðalstöðva dreifikerfisins af þeim tekjum, sem Alþ. hefur séð sjónvarpinu fyrir til þess að greiða stofnkostnað sjónvarpsins. Þess vegna varð það að ráði og ríkisstj. féllst á það fyrir sitt leyti, að menntmn. Ed. flytti brtt. við frv. um að heimila ríkisstj. lántöku, allt að 25 millj. kr., en sú fjárhæð á að duga miðað við þær kostnaðarupplýsingar, sem nú liggja fyrir, til þess að koma upp bæði Vestfjarðastöðinni og Austfjarðastöðinni. Ef frv. verður afgreitt þannig, ef ríkisstj. fær þessar heimildir, eins og frv. gerir nú ráð fyrir eins og það liggur fyrir frá hv. Ed., mun ríkisstj. nota þessar heimildir og hefjast handa um byggingu Vestfjarða- og Austfjarðastöðvanna nokkurn veginn samtímis Skálafellsstöðinni og Vaðlaheiðarstöðinni.

Þetta vona ég, að nægi, herra forseti, til þess að gera grein fyrir efni frv., og ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari 1. umr, vísað til 2, umr. og hv. menntmn., og leggja á það áherzlu, að d. afgreiði málið, áður en jólahlé hefst.