15.03.1967
Sameinað þing: 29. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (2397)

43. mál, tillögur U Þants til lausnar á styrjöldinni í Víetnam

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur hér, hv. 3. þm. Reykn., 5. landsk. og ég, að flytja till. til þál. um samþykki Alþ. við till. U Þants til lausnar á styrjöldinni í Víetnam. Ég mun hér ræða þetta mál á þann hátt, að ég mun fyrst reyna að gera nokkra grein fyrir því, hvað ég álít í rauninni, að væri söguleg skylda Alþ. Íslendinga að gera hvað snertir Víetnam, ef við vildum breyta í samræmi við okkar sögulegu erfð og reynast trúir þeirri stefnu, sem við Íslendingar mörkuðum í okkar eigin sjálfstæðisbaráttu. Síðan mun ég ræða þá till., sem við hér flytjum, og hún gengur hins vegar alls ekki eins langt og eðlilegt væri, að við Íslendingar treystum okkur til þess að ganga í þessu máli, en hún er hins vegar raunsæ miðað við það, sem hugsanlegt er að fá í gegn eins og Alþ. Íslendinga er skipað.

Það væri eðlilegt, að við Íslendingar stæðum með Víetnamþjóðinni í þeirri baráttu, sem hún nú heyr, og ég vil minna á það, að þó að oft sé deilt á ýmislegt, sem okkur þykir miður fara í utanríkispólitík Íslands, hefur það komið fyrir áður, að Ísland hefur og stundum meira að segja eitt sér af þeim þjóðum, sem eru í Atlantshafsbandalaginu, staðið með frelsisbaráttu nýlenduþjóðar á móti bandalagsríki Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Svo var það t.d. í sambandi við Alsír. Þar var um að ræða nýlendu Frakka, sem stóð í 7 ára nýlendustríði við þá og allan þann tíma tók Ísland afstöðu með Alsír, aleitt af öllum þeim ríkjum, sem í Atlantshafsbandalaginu voru. Ég veit, að frönsku stjórninni þótti þetta þá löngum eins konar samningsrof. Þeim þótti það hart, að íslenzki fulltrúinn skyldi taka slíka afstöðu. En ég efast ekki um, að nú sjái menn það, að Ísland var að gera þar með það, sem var Frakklandi líka fyrir beztu, og það kom að því, að slík frönsk stjórn tók við, að hún veitti Alsír það frelsi, sem það hafði barizt fyrir í 7 ár, og Frakkland varð í krafti þeirrar breyttu stefnu, sem það þá tók upp, eitt af virtustu stórveldunum í augum þróunarþjóðanna.

Það er þess vegna engum efa bundið, að forsaga okkar í þessum efnum gefur okkur vissulega tilefni til þess að athuga, hvort það væri ekki fyllilega rétt, að Ísland nú tæki beinlínis afstöðu með frelsisbaráttu Víetnambúa. Hins vegar er það svo hér, að það eru Bandaríkin, sem eiga hlut að máli, og ég býst við, að okkar hæstv. ríkisstj. og mörgum hennar fylgjendum finnist máske viðurhlutameira að taka harða afstöðu gegn Bandaríkjunum en mönnum þótti hér áður að taka afstöðu gegn Frakklandi. En það er rétt fyrir okkur að athuga það, að raunverulega höfum við sömu skyldu nú að taka alveg drengilega afstöðu með Víetnamþjóðinni og þora að segja Bandaríkjunum til syndanna, þegar þau eru nú tekin við því hlutverki, sem Frakkland einu sinni hafði gagnvart þeirri nýlenduþjóð. Og seinna meir býst ég við, að sú stjórn í Bandaríkjunum, sem mundi leysa þetta mál, mundi kunna að meta það við okkur, hvort sem núverandi stjórn mundi gera það eða ekki. Það er þess vegna rétt, að við rifjum rétt upp fyrir okkur sögu þessarar kúguðu þjóðar, sem nú er að berjast fyrir frelsi sínu við voldugasta stórveldi heimsins.

Víetnamþjóðin er gömul þjóð, sem lengi hefur haldið sínu þjóðerni og löngum barizt fyrir sínu sjálfstæði. Hún var frá því á 1. öld fyrir Krist og þar til um það leyti, að við stofnuðum Alþingi hér úti á Íslandi, alveg þangað til í byrjun 10. aldar, hins vegar kínverskt skattland, en hélt allan tímann sínu þjóðerni og sinni þjóðmenningu. Hún hefur þurft að heyja samsvarandi baráttu og við, vera öldum saman nýlenduþjóð, þar sem reyndi á það, hvort hún gæti virkilega haldið sér við sem þjóð og haldið sinni þjóðmenningu, sinu þjóðerni þrátt fyrir alla kúgunina. Um 938 varð þessi þjóð sjálfstæð, hratt af sér því kínverska oki þá og hefur alltaf síðan verið ein þjóð, allan tímann bændaþjóð, þar sem hefur verið landsdrottnayfirstétt og mandarínaembættismannastétt og konungsvald, en þar sem bændurnir samt sem áður allan tímann hafa haldið mjög miklu lýðræði, mjög miklu sjálfstjórnarvaldi, en verið fátækir, verið undirokuð stétt. Það er 1884, sem franska nýlenduveldinu tekst að ná tökum á þessari þjóð. Það er konungurinn þar, sem biðst verndar franska nýlenduveldisins, og það er hann, sem notar mandarinastéttina, embættismannastéttina, sem eins konar umboðsmann sinn og nær tengslum við landsdrottnana og gerir við þá bandalag um blóðuga kúgun bændastéttarinnar. Og á árabilinu frá því að Frakkland náði þarna tökum og þangað til 1910 gekk á sífelldum bændauppreisnum í þessu landi, vegna þess að þjóðin vildi ekki sætta sig við þá kúgun. sem hún þar með var orðin undirorpin. Eftir að Kína verður lýðveldi og eftir að rússneska byltingin gerist, taka þarna eins og viðar í Asíu að rísa upp alþýðuflokkar, sem berjast um leið fyrir þjóðfrelsi þessara landa, og í Víetnam, sem er eitt ríkasta landið í því gamla Indó-Kína, í þeirri gömlu, stóru, frönsku nýlendu, var þessi barátta alveg sérstaklega hörð. Og þar myndast samstarf í þeirri sjálfstæðisbaráttu, þar sem standa saman kommúnistar, sósíalistar, þjóðernissinnar í einni sameiginlegri fylkingu, sem ber nafnið, sem við oft heyrum nú, Víetminh. Og þetta sjálfstæðisbandalag í Víetnam er það, sem nær fylgi yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar og heyr frelsisbaráttuna gegn Frökkum á sínum tíma og síðar gegn Japönum, þegar þeir leggja landið undir sig. Japanir settu þarna, eins og kunnugt er, þann 9. marz 1945 keisara, og þegar þeir svo falla þarna, verður Víetnam sjálfstætt í ágúst 1945. Það fara fram kosningar í Víetnam 6. jan. 1946, og þar verður þetta sjálfstæðisbandalag, Víetminh, í yfirgnæfandi meiri hluta hjá þjóðinni, og í marz 1946 er gerður samningur á milli þessara sjálfstæðishreyfinga, sem hefur yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig, í frjálsum kosningum, þá er gerður samningur milli Víetminh og frönsku stjórnarinnar, þar sem Víetnam er viðurkennt sem sjálfstætt lýðveldi. Það, sem síðar gerist, er, að franska herveldið svíkur þennan samning, og í nóv. 1946 ráðast Frakkar á þessa þjóð. Í Hanjong eru drepnir um 6 þús. manns með því, að frönsk herskip skjóta á borgina, og þar með byrjar það stríð, sem verður frelsisstríð Víetnams á móti Frökkum. Sá maður, sem nú er aðalforinginn fyrir þjóðfrelsisher Víetnams, er sá sami sem þá hafói forustuna á hendi, í þeim her, sem þá var myndaður í Víetnam til þess að heyja frelsisbaráttuna á móti Frökkum, maður, sem er kennari og doktor í lögfræði.

Þetta stríð var frá sjónarmiði Frakka raunverulega tapað 1950. En það var haldið áfram af þrjózku enn þá í 4 ár í því trausti að geta murkað lífið úr þessari þjóð. En endanlega biðu Frakkar þarna ósigur þann 7. maí 1954 við Dien Bien Phu, eins og kunnugt er í sögunni. Og daginn eftir tekur Genfarráðstefnan að ræða einmitt þessi mál, hvernig leysa skuli vandamálin í Víetnam. Allan þennan tíma, sem Frakkar standa þarna í 7 ára svívirðilegri styrjöld til þess að reyna að kúga þessa þjóð eftir að hafa rofið við hana samninga, eru það Bandaríkin, sem veita þeim fé, og það eru þau, sem bera um 70% af hernaðarútgjöldum Frakka á þessum tíma. Og ég hef, ef á þyrfti að halda, hér alveg upplýsingar um þennan herkostnað, sem Bandaríkin þá lögðu í. Það var talað um það á þessum tíma, að það væri jafnvel rétt, að Bandaríkjamenn ættu að senda eitthvað af hermönnum líka til Víetnams til að hjálpa Frökkum, þegar verst stóð. Því var harðlega mótmælt, og meðal þeirra manna, sem mótmæltu því, var einn öldungadeildarþm., Lyndon B. Johnson, sem nú er forseti Bandaríkjanna. Hann sagði þá í bandaríska þinginu:

„Ég mótmæli því, að bandarískir hermenn séu sendir til Indó-Kína til að skríða þar í aur og fórna lífi sínu til að viðhalda nýlendustefnunni og arðráni hvíta mannsins í Asíu.“

Þetta voru orð núverandi forseta Bandaríkjanna, á meðan einhver tilfinning var til hjá valdamönnum Bandaríkjanna fyrir sóma þeirrar þjóðar, fyrir erfð þeirrar þjóðar, sem einu sinni átti George Washington og einu sinni háði sjálf samsvarandi frelsisstyrjöld eins og þá, sem nú er háð í Víetnam. Það var þess vegna þá látið sitja við það, að Bandaríkjamenn kostuðu styrjöld Frakkanna þar, og Frakkar biðu síðan ósigur. Í Genf var síðan samið um þetta land. Til bráðabirgða var ákveðið að skipta því, en það var greinilega tekið fram í Genfarsamningnum, að sú skipting skyldi aðeins vera til bráðabirgða og innan tveggja ára skyldu fara fram kosningar í öllu landinu, vegna þess að Víetnam væri aðeins eitt land, og það var bannað í þessum samningi að flytja inn nokkurn her til þessa lands. Og Bandaríkin, sem að vísu undirskrifuðu ekki sjálf þennan samning, lofuðu því hátíðlega, og þá yfirlýsingu hef ég hér, ef á þarf að halds, að þau skyldu ekki beita valdi í sambandi við Víetnam á þessum tíma.

Það má líka minna á það í þessu sambandi, að þeir menn, sem bezt hafa skilið þetta allt saman og bezt hafa staðið þar á verði fyrir því, sem bezt er í erfð Bandaríkjanna, hafa lagt alveg sérstaka áherzlu á þetta. Ef utanrmn. eða hæstv. utanrrh. vill kynna sér það, sem Fulbright segir í sinni bók, The arrogance of power, þegar hann talar um þetta á bls. 116, þá tekur hann alveg sérstaklega fram, að 17. breiddargráðan hafi verið skoðuð aðeins sem bráðabirgðalandamæri og mætti á engan hátt skýra það sem sérstök pólitísk landamæri, og minnir á, að þessu gái þeir menn ekki að, sem segi, að Norður-Víetnam sé gripið í árás á erlent land frekar en í því að styðja uppreisnartilhneigingu innanlands. Þetta er eitt og sama ríkið, og það var viðurkennt líka af Bandaríkjamönnum þá þegar Genfarsamningurinn var gerður.

Það, sem síðan gerðist strax á eftir, er, að Bandaríkin beita sér fyrir því að koma þarna upp leppstjórn í Suður-Víetnam og láta þá stjórn brjóta alla þá samninga, sem átti að gera, láta hana byrja á að kúga þjóðina þar, koma upp fangabúðum, beita pyntingum og starfa á annan hátt eins og fasistískar stjórnir gera, bregðast síðan því að láta fram fara þær kosningar, sem þarna áttu fram að fara, og síðan gengur á því, að hverjum leppnum er steypt á fætur öðrum. Sá sem lengst sat og Bandaríkjamenn fyrst tóku, var myrtur 1. nóv. 1963, og Bandaríkjamenn verða síðan að taka að sér að beita hverjum leppnum á fætur öðrum fyrir sig í þessu landi og að lokum nú þeim manni, sem talinn er þar forsrh., Ky hershöfðingja, sem hefur dýst því yfir, að hann eigi sér aðeins eina hetju, sem sé Hitler, þ.e. hrein fasistísk stjórn með Hitler sem fyrirmynd.

Bandaríkin hafa síðan sokkið meira og meira á kaf í því feni, pólitíska feni, sem þau eru lent þarna í, og það, sem liggur fyrir okkur að athuga, þegar við íhugum, hvernig þarna er komið, er, hvernig stendur á þessu. Hver er ástæðan til þess, að Bandaríkin eru að skipta sér af svona fjarlægu landi, þar sem manni virðist, að þau ættu ekki sjálf að hafa neinna beinna hagsmuna. að gæta? Það er rétt, þegar við reynum að grafast fyrir um þessar ástæður Bandaríkjamanna, að athuga, hvað þeir hafa sjálfir sagt um þessi mál. Eisenhower Bandaríkjaforseti segir, þegar hann ræðir um þessi mál 1953, 4. ágúst, með leyfi hæstv. forseta:

„Segjum, að við missum Indó-Kína. Þá mundi margt gerast samtímis. Skaginn, eins og hann er, mundi þá vart vara verjanlegur. Þetta svæði gæti ekki lengur látið okkur fá tin og wolfram, sem við metum mjög mikils. Þegar Bandaríkin þess vegna veita 400 millj. dollara styrk til þessa stríðs, er það ekki neitt, sem við erum að gefa burtu. Það er ódýrasti mátinn, sem við getum gert til þess að hindra ástand, sem væri mjög hættulegt fyrir Bandaríkin og fyrir okkar öryggi og fyrir okkar vald og fyrir okkar aðstöðu til þess að útvega okkur þá hluti frá hinum ríku landsvæðum Víetnams og Suðaustur-Asíu, sem við þurfum að fá.“

M.ö.o.: Eisenhower þáv. forseti viðurkennir í þessari ræðu sinni 4. ágúst 1953, að Bandaríkin séu beinlínis að viðhalda þarna her, fyrst að kosta franskan her og seinna meir viðhalda þar her til þess að ná sér í auðæfi þessarar þjóðar, auðæfi, sem þarna eru í landinu, og til þess að skapa sér hernaðarlega aðstöðu þar. M.ö.o.: það er enginn réttur, sem þau hafa þarna, heldur aðeins hitt, að þau vilja sölsa undir sig auðæfi, sem aðrar þjóðir eiga. Hvernig stóð á, svo fremi sem frjálsar kosningar hefðu verið látnar fara fram á þessum tíma? Hvert var álit manna um, hvernig þær mundu fara? Eisenhower Bandaríkjaforseti segir þar í endurminningum sínum, sem út komu 1964, þegar hann er að ræða um, hvernig farið mundi hafa, svo fremi sem frjálsar kosningar hefðu farið fram í Indó-Kína, — Eisenhower segir, með leyfi hæstv. forseta:

Ég hef ekki hitt neina persónu með neinn skilning á indó-kínverskum málum, sem ekki var á þeirri skoðun, að ef kosningar væru látnar fara fram á þeim tíma, sem enn þá var barizt, mundu líklega 80% af þjóðinni hafa greitt atkv. með Ho-Chi-Minh, þ.e. núv. forseta Norður-Víetnams, sem var talinn aðalleiðtogi þjóðfrelsishreyfingarinnar. Og John F. Kennedy, hinn látni forseti Bandaríkjanna, sagði nokkrum mánuðum eftir að Eisenhower sagði þetta:

„Þrátt fyrir alla óskhyggju í aðra átt, var það greinilegt, að þær vinsældir og þau áhrif, sem Ho-Chi-Minh hefur í öllu Indó-Kína, mundu leiða annaðhvort til skiptingar eða samstjórnar í ríkinu, sem kommúnistarnir mundu ráða yfir.“

Það var alveg greinilegt, að allir þeir, sem þekktu eitthvað inn á ástandið á þessum tíma, voru á því, að svo framarlega sem þessi þjóð fengi sjálf að kjósa sína forustumenn, mundi hún kjósa, þessa, sem forustu höfðu haft í hennar þjóðfrelsisbaráttu, og þá, sem þá stóðu saman, kommúnista, sósíalista og þjóðfrelsissinna aðra. Það var þess vegna greinilegt, að þarna var um tvennt að ræða fyrir Bandaríkin, annars vegar að sölsa undir sig viss auðæfi í þessum löndum og að skapa sér hernaðaraðstöðu og hins vegar að hindra, að þessi þjóð fengi á lýðræðislegan hátt að kjósa sér þá stjórn, sem hún helzt vildi hafa. Þegar Bandaríkin fara að blanda sér inn í þessa styrjöld eða blanda sér inn í þróun málanna þarna, gera þau sér vafalaust upphaflega hugmynd um það, að þau með sínu mikla valdi muni fljótt geta skakkað þarna leikinn. Hermálaráðherra Bandaríkjanna lofaði því t.d. fyrir 4 árum, að það yrði hægt að kalla alla ameríska hermenn heim 1965, en það, sem þeir reka sig á, er, að þegar þeir eru komir út í að skipta sér svona mikið af þessu, sjá þeir, að það eru þeir og þeir svo að segja einir, sem eru að berjast gegn allri þjóðinni og verða þess vegna í sífellu að bæta fleiri og fleiri við af hermönnum, þannig að þeir eru nú brátt komnir upp í ½ milljón manna þar. Enda er það álit flestra þeirra, sem yfirleitt ræða um þessi mál, að í árslok 1962 hafi þjóðfrelsisherinn ráðið yfir 80% af Deltasvæðinu þar syðra, sem svo er kallað, þar sem um 10 millj. manna búa, og um 90% af sveitalandssvæðunum, þannig að þetta var ekki nema Saigon og hringurinn þar í kring og borgirnar, sem Bandaríkjaherinn og fasistastjórnin, sem þeir studdu, gátu raunverulega þá ráðið yfir. Það sem svo síðan hefur gerzt og sérataklega á þessum síðustu tveimur árum, er að Bandaríkin eru lent þarna í einni hræðilegustu styrjöld, sem háð hefur verið. Þessi styrjöld er verri en flestar aðrar styrjaldir hvað það snertir, að af sumum er talið, að fyrir hvern hermann, sem þar er drepinn, séu drepnir um 10 óbreyttir borgarar. Hún er ægi1egri fyrir þjóðina. sjálfa en flestallar aðrar styrjaldir. Og núna eru Bandaríkjamenn farnir að beita í þessari styrjöld hernaðaraðferðum, sem eru bannaðar í öl1um þeim sáttmálum, sem til eru um stríð. Það er beitt þessum hræðilegu napalmaprengjum gagnvart alþýðu manna, fólkið bókstaflega brennt upp. Það er beitt eiturgasi til þess að eyðileggja gróðurinn, og það, sem nú þegar er búið að beita at slíkum vopnum í þessari styrjöld, getum við e.t.v. gert okkur nokkra hugmynd um af eftirfarandi tölum. Washington Post segir frá því 11. febr. 1966, og Business week segir frá því 5. marz 1965, að það sé búið að beita 85 mi11j. samstæðna af skotfærum, sem sé léttum vopnum, mánaðarlega í styrjöldinni, þar sem þá er komið, að það sé beitt um 10 millj. samstæðum af skotfærum í fallbyssur á ári, að það sé beitt 2 millj. flugvélasprengjum á ári, að eldflaugarnar séu tæpar 5 millj., að sprengikúlurnar séu tæpar 7 mi1lj. Þetta er sem sé í árabyrjun 1966, sem þessi útreikningur er.

New York Times skýrir frá því eftir Mac Namara hermálaráðh. 21. apríl 1966, að þá, hefði sprengjumagnið verið komið upp í 50 þús. tonn á mánuði. Sprengjumagnið í Kóreustyrjöldinni var 17 þús. tonn á mánuði. Sprengjumagnið í síðari heimsstyrjöldinni í Evrópu og Afríku samanlagt var 48 þúa. tonn á mánuði. Sem sé, á þessa einu litlu, fátæku þjóð, sem er að berjaet fyrir frelsi sínu, er hent mánaðarlega núna, meira sprengjumagni en hent var á alla Evrópu og Afríku á mánuði í heimsstyrjöldinni síðari. Það rignir þannig bókstaflega frá voldugasta herveldi heims yfir þessa litlu þjóð meira sprengjumagni en allar þær þjóðir urðu fyrir, sem köstuðu sprengjum hver á aðra í síðustu heimsstyrjöld á mánuði hverjum. Það er þess vegna ljóst, að það, sem þarna er um að ræða, er ekki einu sinni neitt venjulegt stríð. Menn treysta sér ekki til þess, sem hafa ráðizt á þessa þjóð, að berjast maður við mann um, hvor eigi að ráða í landinu. Það, sem verið er að gera, er, að það er sagt við þessa þjóð með verkunum: Þú skalt verða drepin, ef þú ætlar að ráða landi þínu sjálf. — Það, sem Bandaríkjamenn eru að framkvæma þarna, er þjóðarmorð. Það er það, sem þýzku nazistaforingjarnir voru dæmdir fyrir til dauða eftir síðustu styrjöld, að útrýma heilli þjóð í krafti þess, að menn hafi slík tök með vopnum sínum, að þeir geti gert það. Enda er svo komið, að ýmsir fremstu menntamenn veraldarinnar beita sér nú þegar fyrir því samkvæmt þeim lögum, sem Bandaríkin og bandamenn þeirra sömdu í stríðslok, að ákæra Lyndon B. Johnson og aðra leiðtoga Bandaríkjanna sem stríðsglæpamenn fyrir alþjóðlegum stríðslæpadómstóli.

Hvað er það nú, sem rekur Bandaríkin til þess að gera svona nokkuð? Það er í fyrsta lagi ímynduð barátta gegn kommúnismanum. Við sjáum á þessu dæmi, sem þarna er að gerast, hvað þessi hugmyndalega krossferð getur leitt eina þjóð út í ægilegar ógöngur og ægilegt æði. Það er þetta, sem raunverulega er rætt um allan tímann. Í hvert skipti sem Bandaríkin tala um þetta, segja þau bara: Við erum að berjast á móti kommúnistum. — Að ætla að heyja slíka hugmyndalega styrjöld er náttúrlega alveg fjarri lagi, og þeir menn, sem af mestu viti hugsa um þetta í Bandaríkjunum nú, leggja líka áherzlu á það, að slíkt nái ekki nokkurri átt. Fulbright öldungadeildarþm. segir í þeirri bók sinni, sem ég hef oft vitnað hér í, á bls. 111:

„Höfuðatriði sorgleiksins í Víetnam er sú staðreynd, að þar er á ferðum ein voldugasta þjóðernissinnahreyfingin í nokkru landi, og hún er undir forustu kommúnista.“ Síðan heldur hann áfram: „Ho-Chi-Minh er ekki agent fyrir kommúnistískt Kína, enn þá síður fyrir alþjóðlegt kommúnistískt samsæri, eins og við heyrum svo mikið um. Hann er sanntrúaður þjóðernissinnaður byltingarmaður, forustumaður í uppreisn þjóðar sinnar gegn franskri nýlendustefnu, en hann er líka kommúnisti, og það er aðalaástæðan til þess, að hann síðan 1850 er álitinn óvinur af Bandaríkjunum.“

Fulbright rekur síðan í þessari bók sinni hvað eftir annað, hvílíka vitleysu Bandaríkin séu að gera með þessu. Í staðinn fyrir að semja einmitt við Víetnam, semja við Ho Chi-Minh, gætu þau skapað sér vináttu við þjóð, sem að vísu mun að öllum líkindum velja sér kommúnistíska forustu, en síður en svo hafi eitthvað á móti því að vera vinveitt Banda ríkjunum. Og ég held, að þeir þm., sem fyrst og fremst vildu gjarnan taka tillit til þess, sem forustumenn Bandaríkjanna segja í þessum efnum, ættu að kynna, sér til fullnustu þessa bók Fulbrights, sem ég veit, að margir þeirra, hafa hlustað á, þegar hann kom hingað. Hann leggur áherzlu á það, að það sé ekki aðeins í sambandi við alla erfð Bandaríkjanna, alla þeirra gömlu andstöðu gegn nýlendustefnu, minningarnar um þeirra eigin gamla frelsisstríð, heldur líka út frá þeirra núverandi pólitík, sé það eina vitið að semja við Víetnam, og hann leggur áherzlu á það sérstaklega á bls. 126 í þessari bók sinni, að allt sambandið milli austurs og vesturs, allt það batnandi ástand, sem gerzt hafi, þar með líka spurningin um framtíð Þýzkalands, það fari allt saman eftir því, hvernig það gangi nú í Víetnam, því að ef þar fari illa, gæti það leitt til eyðileggingar einmitt á því tiltölulega góða andrúmslofti, sem skapazt hafi milli stórveldanna í suðri og vestri. Það er þess vegna alveg ljóst, að það að heyja þetta stríð af hálfu Bandaríkjanna sem almenna baráttu á móti kommúnismanum í staðinn fyrir að líta á þetta sem hverja aðra þjóðernislega frelsisbaráttu, sem að vísu sé að mjög miklu leyti undir forustu kommúnista, það er greinilegt, að aðeins með því að skoða þessa styrjöld þannig er mögulegt að komast að skynsamlegri niðurstöðu um hana, og þeir menn Bandaríkjanna, sem skynsamlegast hugsa í þessum efnum, berjast fyrir því, að þetta sé gert.

Og við ættum einmitt, þegar við kynnum þetta mál hér heima og ræðum þetta mál, að taka tillit til þess, hvað einmitt þessir menn segja. Við skulum muna eftir því, að Bandaríkin hafa áður, þegar þau hafa sjálf lent í árásarstyrjöld við þjóð, átt menn, sem höfðu dirfsku til þess að tala á móti sínum eigin valdhöfum. Þegar Bandaríkin ráðast á Mexíkó á sínum tíma, er það Abraham Lincoln, sem rís upp í Bandaríkjaþinginu og ræðst á ríkisstj. fyrir að gera sig seka um slíka árás.

Í öðru lagi: þær ástæður, sem Bandaríkin hefðu til þess að vera að heyja þetta stríð, sem sé það, sem Eisenhower kom inn á, baráttan um auðæfi jarðarinnar, það er ekkert eins fjarri lagi og ætla að reyna að rökstyðja þessa styrjöld með því. Bandaríkjaþjóðin er 6 % af íbúum jarðarinnar, en þessi Bandaríkjaþjóð ræður yfir 80% af öllu auðmagni heimsins. Ætti því þessi þjóð að gera kröfu til þess, að einmitt þarna., svo að segja lambi fátæka mannsins verði hún að bæta við allan sinn auð? Það er ekki hægt að flytja fram þær röksemdir fyrir neinn sem réttlætingu fyrir þessu stríði, að Bandaríkin væru svo fátæk, að þau þyrftu endilega að ná í auðæfi þessarar Víetnamþjóðar.

En það er önnur og þriðja ástæðan fyrir þessu stríði, sem er e.t.v. sú ískyggilegasta, en sú sanna, og það er, að gróðinn af hergagnaframleiðslu er orðinn bezti „bisnessinn“ í Bandaríkjunum núna, að það að framleiða hergögn og hagnýta þau og stofna þess vegna til styrjalda er beati gróðavegurinn fyrir auðmannastétt Bandaríkjanna. Það stafar af því, að það er orðið mjög dýrt að draga menn nú á tímum. Þess vegna er hægt að eyða mjög miklu fé í styrjöld, og það er ríkið, sem borgar útgjöldin í styrjöld, en það eru einstök gróðafélög, sem framleiða hergögnin og græða á styrjöldinni. Amerískur maður hefur athugað það, hvað það kostaði að drepa einn hermann í styrjöld. Það voru ekki nema nokkur amerísk cent á tímum Cesars. Það voru 23 þús. dollarar, sem kostaði að drepa einn hermann í fyrri heimsstyrjöldinni. Það kostar í síðari heimsstyrjöldinni 50 þús. dollara að drepa hvern hermann. Núna í Víetnam kostar það 175 þús. dollara að drepa hvern hermann. Það er því mikill „bisness“ fyrir stærstu hergagnaframleiðendur Bandaríkjanna, að þau geta eytt 7 1/2 millj. ísl. kr. í að drepa hvern skæruliða, sem þau drepa í Víetnam, fá þannig ágætismarkað fyrir sín hergögn og láta ríkið, ameríska ríkið, borga. 7 1/2 millj. kostar það að drepa hvern af þessum fátæku bændum og öðrum hermönnum, sem þarna eru að berjast. Það er meiri upphæð en þessir menn sjá í öllu sínu lífi. Ef Bandaríkin vildu eyða því, sem þau eyða í dag í að drepa menn í Víetnam, gæti Víetnam verið með fremstu velferðarríkjum heims, þannig að frá hreinu fésýslusjónarmiði, ef Bandaríkin væru að hugsa. um það, hvað væri praktískast upp á að fá þessa þjóð til þess að vera værukæra og rólega, þá væri vafalaust betra að hjálpa henni til þess að verða velmegandi velferðarríki en reyna að murka úr henni lífið, eins og nú er verið að gera.

En sú ægilega mynd, sem þetta hins vegar dregur upp fyrir okkur, er það, að Bandaríkin treysta sér ekki til þess fyrst og fremst sjálf að vera ríkið, sem hjálpi og miðli og gefi öðrum þjóðum heims af sínum miklu auðæfum, en þess forustumönnum finnst betra að láta Bandaríkin verða í raun og veru hernaðarríki, láta þau verða svo að segja herferðarríki, en ekki velferðarríki í slíkum efnum.

Þetta er hættulegur hlutur. Hergagnaframleiðsla og hernaður er að verða svo stór þáttur í öllu lífi Bandaríkjamanna, að ekki aðeins Víetnam, heldur öllum heiminum stafar ógn af því, stafar hætta af því. Það eru 55 milljarðar dollara, sem er árlega eytt í þjóðvarnir, þ.e. til hermála Bandaríkjanna á ýmsan hátt. Það eru 7 1/2 millj. manna, sem starfa í einhvers konar hervörnum, og það eru 6—9 millj. manna og það áður en Víetnamstríðið náði því hámarki, sem það nær nú, sem vinna í einhverri vinnu, sem þessar hervarnir skópu. Það er talið, að af þeim 78 millj. manna, sem eru vinnufærir í Bandaríkjunum, séu ýmist atvinnulausir, það er 8%, eða þá menn, sem eru í her eða hervinnu eða í framleiðslu, sem er tengd hernum, 20—24 millj. manna. Ástandið er orðið þannig, að að áliti vissra voldugra manna í Bandaríkjunum er stríð einhvers staðar í heiminum nauðsyn fyrir bandaríska þjóðarframleiðslu.

Við vitum, að Hitler afnam atvinnuleysið í Þýzkalandi með því að leggja út í hergagnaframleiðslu í stórum stíl og leggja síðan út í stríð. Það er sama lögmálið, sem er að verki hjá auðmannastétt Bandaríkjanna. Strax 1957 var hermálaráðuneyti Bandaríkjanna voldugasta „organisasjón“ í veröldinni, frá hvaða sjónarmiði sem séð var. Hermálaráðuneyti Bandaríkjanna réð þá yfir jörð, sem var um 128 millj. km2, og yfir 10 millj. km2 í öðrum löndum. Það réð yfir verðmæti, sem var 160 milljarðar dollara. 1960 var það svo, að 100 stærstu auðfélögin í Bandaríkjunum fengu 3/4 hluta af þeim 21 milljarði dollara, sem fóru beint í vopnaframleiðslu. Og þessi sömu fyrirtæki, þessi sömu hundrað stærstu auðfélög Bandaríkjanna sem fyrst og fremst græða á þessari hergagnaframleiðslu, höfðu þá í sinni þjónustu um 1400 fyrrv. liðsforingja, sem voru hærri í tign en majór, og 260 hershöfðingja. M.ö.o.: sambandið milli hergagnaframleiðslunnar, sem er í höndum einkaauðvaldsins í Bandaríkjunum, og herforingjanna í Bandaríkjunum er þannig, að jafnóðum og herforingjarnir hætta einhvern tíma að vera herforingjar, koma þeir inn í stjórnir þessarar hergagnaframleiðslu, og meðan þeir eru sjálfir í hernum, hafa þeir hagsmunina af því og samböndin við þessa stóru hergagnaframleiðendur. Þannig er búið að tvinna algerlega saman vopnaframleiðsluna í Bandaríkjunum og hershöfðingjavaldið og það í svo ríkum mæli, að þegar t.d. Eisenhower, sem sjálfur var herforingi og talaði þó þessi orð löngu áður en Víetnamstríðið kom til, þegar hann heldur sína kveðjuræðu sem forseti Bandaríkjanna, aðvarar hann Bandaríkin við þessu hernaðarlega og iðnaðarlega tæki, þar sem þess vald sé orðið svo mikið, að menn taki eftir því og verði varir við það í hverjum bæ, í hverri opinberri byggingu og í hverri einustu stjórnarskrifstofu, og hann segir: Hættan er og heldur áfram að vera, að það verði ægilegur vöxtur valdsins á röngum höndum. Eisenhower sá sjálfur ástæðu til þess í sinni kveðjuræðu, þegar hann kvaddi sem forseti Bandaríkjanna, að vara við því, hvaða vald þarna væri að vaxa upp, sem, eins og við skiljum allir, mundi bjóða í raun og veru öllu lýðræði byrginn. Hermálaráðuneytið eitt hefur í sinni þjónustu 3 1/2 millj. manna. Þar af er helmingurinn óbreyttir borgarar, og launalisti þessa ráðuneytis er 11 milljarðar dollara. Þannig mætti lengi rekja. Tíundi hluti alls verkafólks í Bandaríkjunum starfar í hergagnaiðnaðinum.

Það, sem ég vil reyna að sýna fram á með þessu, er, að það sé komið upp vald á hendur fárra manna í Bandaríkjunum, þar sem nokkrir stóriðjuhöldar og hershöfðingjar sameiginlega, án tillits til alls, sem sé skynsamlegt frá sjónarmiði þjóðarinnar sjálfrar og annarra þjóða, geti ráðið sínum ráðum og geti stofnað til annarra eins skelfinga og nú er stofnað til í Víetnam.

Kennedy heitinn forseti sagði 1959, að nú væri svo komið, að ein einasta B-52 flugvél gæti borið meiri sprengjumátt en notaður hefði verið í öllum fyrri stríðum til samans. Þróunin í framleiðslu hergagnanna, í mætti sprengnanna og í burðarþoli flugvélanna er slík, að það er svo að segja orðið alveg ótrúlegt, hvað hægt er að valda miklu tjóni og miklu böli með því að senda þessar flugvélar til þess að ausa sínum hræðilega farmi út yfir saklaust fólk. Sú hörmulega þróun, sem við upplifum, er því sú, að Bandaríkin eru orðin að stríðsríki, sem er rekið til þess að því er virðist af hagsmunum helztu valdamanna þar að leggja í hverja styrjöldina á fætur annarri og verða þannig bölvaldur bláfátækra nýlenduþjóða, sem eru að berjast af hetjumóði fyrir sínu frelsi. Það er hörmulegt hlutskipti, að einmitt Bandaríkjaþjóðin skuli landa í þessu, sú þjóð, sem hóf svo að segja frelsisstyrjöld nýlenduþjóðanna fyrir tæpum 200 árum og sigraði fyrst í þeim fyrir 190 árum. Og það má minna á það, þegar þessi sorgarleikur gerist, að þegar Víetnam lýsti yfir sjálfstæði sínu 2. sept. 1945, byrjaði það einmitt með tilvitnun í frelsisyfirlýsingu Bandaríkjanna um, að allir menn væru fæddir jafnir o.s.frv., sem við könnumst allir saman við. Og næst á eftir sinni frelsisstyrjöld lentu Bandaríkin sjálf í því að heyja innbyrðisstyrjöld fyrir rúmum100 árum, þar sem Norðurríkin og Suðurríkin börðust. Ho Chi-Minh stendur nú í þeirri aðstöðu, sem Abraham Lincoln stóð í þá. Bandaríkin hefðu ekki verið sérstaklega ánægð yfir því, sem þá var talað um þá nokkurn tíma, þegar Stóra-Bretland og Frakkland hótuðu því að fara að viðurkenna Suðurríkin sem sjálfstætt ríki og senda þeim her til aðstoðar. En nú upplifa Bandaríkin það, að nú eru það sjálf þau, sem ráðast þarna inn í suðurríkin og standa nú orðið ein í baráttunni við þjóðina sjálfa, þannig að einmitt í sjálfri sögu Bandaríkjanna og alls þess, sem er glæsilegast úr henni, eru dæmin hvað gleggst, sem ættu að vara Bandaríkjamenn við að helda áfram í þessum efnum. Enda er það svo, að einmitt öldungadeildarþm. Bandaríkjanna hver á fætur öðrum, sem risið hafa upp til þess að reyna að leiðbeina þjóð sinni í þessum efnum, hafa vitnað í það, hvernig Bandaríkin séu þarna að brjóta á móti öllu því, sem þau hafi sjálf álitið bezt í sinni sögu.

Í Víetnamstríðinu hafa Bandaríkin sokkið dýpst, unnið glæp gegn mannkyninu, glæp, sem um leið er tortímingartilraun við allt, sem var gott í þeirra eigin söguerfð. Það, sem Bandaríkin eru að gera í dag í Víetnam, er í algerri andstöðu við allt, sem þeirra beztu menn, George Washington, Benjamín Franklín eða Abraham Lincoln hafa verið að gera. Það, sem Íslendingar hefðu átt að segja við Bandaríkin á þessum tíma, var eitthvað svipað og það, sem Stephan G. Stephanson sagði við Breta, þegar þeir réðust á Búa:

Og allt, sem varstu og vonum enn,

og verða munir, stóra þjóð,

og fyrir þína miklu menn

og mannkyns gagn, sem af þeim stóð,

þá áttu helga heimting á

um höfuðglæp þinn níð að fá.

Það hefði átt að rista þeim níð fyrir það, sem Bandaríkin eru að gera í dag. Stephan G. Stephanson hafði andlegan mátt til þess að gera slíkt í kvæði sínu gagnvart Bretum þá og var hann þá sjálfur í brezku landi. Ég veit, að Alþ. Íslendinga hefur því miður ekki í dag þann siðferðisþrótt, sem þyrfti til þess að rísa þannig upp og þora að segja þessu voldugasta herveldi heims sannleikann um, hvað það er að gera. En hitt aftur á móti vildi ég, að kæmi fram héðan úr ræðustól Alþ., að það er til samúð með frelsisbaráttu þessarar þjóðar, eins ægilega erfitt og hún á í þeirri baráttu í dag.

Þess vegna hef ég og þeir félagar mínir, sem flytja með mér þessa þáltill., ekki farið fram á, að Alþ. Íslendinga tæki afstöðu til að fordæma þessa árásarstyrjöld Bandaríkjanna. Það, sem við förum fram á er, að við tökum undir þær till., sem U Þant framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur flutt fram til lausnar á styrjöldinni í Víetnam. Þessar till. hans eru í þremur liðum: Í fyrsta lagi, að Bandaríkin hætti loftárásum sínum á Norður-Víetnam. Í öðru lagi, að styrjaldaraðilar í SuðurVíetnam dragi úr hernaðaraðgerðum sínum. Í þriðja lagi, að þjóðfrelsishreyfing SuðurVíetnams sé viðurkennd samningsaðili og allir aðilar fallist á að setjast að samningsborði.

(Forseti: Mætti ég spyrja hv. ræðumann, hvort hann ætti mikið eftir af máli sínu? Af sérstökum ástæðum þarf fundur að hætta fljótlega.) Nei, ég get alveg lokið á 5 mínútum, það er allt í lagi, ég skal stytta það.

Þessar till. móta ekki afstöðu í þessum efnum. Þær fordæma ekki Bandaríkin eða taka afstöðu með hinni hrjáðu Víetnamþjóð. En þær eru að mínu áliti og okkar fleiri eitt það praktískasta, sem fram hefur komið enn, og hafa margar till. komið fram um að reyna að binda endi á þessa hræðilegu styrjöld.

U Þant hefur sjálfur lýst þessu, og menn hafa heyrt það áður, og þegar hann kom hér í heimsókn, varð maður líka var við það, að hann var í raun og veru að leita hófanna um það, — þá var hann óviss í því enn þá, hvort hann mundi taka að sér að verða aðalritari Sameinuðu þjóðanna áfram, — hvernig menn tækju í hans sáttatill., m.a. vegna þess, að hann hefði vart tekið að sér að halda áfram að vera aðalritari, hefði hann ekki haft einhverja von um, að það gæti tekizt að koma á friði í Víetnam. Og undir þessa till. hans hefur verið tekið ákaflega víða, m.a. á Norðurlöndum. T.d. segir Jens Otto Krog, forsrh. Dana, í grein, sem hann reit: „Með mér leynist enginn efi um það, að U Þant kom að kjarna í Víetnam-vandamálinu, þegar hann lagði fram hina þrískiptu till. sína fyrir tæpu ári. Við komumst ekki fram hjá þeirri staðreynd, að leiðin til samningaviðræðna verður ekki greidd nema með stöðvun loftárásanna á Norður-Víetnam né heldur án gagnkvæms samdráttar hernaðaraðgerða og þátttöku þjóðfrelsishreyfingarinnar í viðræðum. Meðan stríðsaðilar vilja ekki viðurkenna burðarþol þessarar friðaráætlunar, er að mínu áliti lítil von um, að sá friður náist, sem Víetnam og heimurinn þarfnast svo brýnt. Slíkt væri mikill harmleikur.“

Við vitum, að bæði í t.d. dönsku og norsku ríkisstj., eða yfirleitt hjá ríkisstj. Norðurlanda hefur orðið allmikið vart við samið með þessum till., og það hefur meira að segja komið fram hér heima. Ég man eftir t.d., að í leiðara Vísis 13. febr. þessa árs voru sögð þessi orð: „Till. U Þants um leið til lausnar deilunnar í Víetnam virðast sanngjarnar og skynsamlegar.“ Hvar sem þessar till. hafa verið ræddar, hefur verið vel í þær tekið. Við álitum þess vegna, að Alþ. Íslendinga ætti nú að taka undir þessar till. Það er það minnsta, sem við getum gert til þess að reyna að binda endi á hræðilega styrjöld og til þess að gefa þjóð, sem hefur orðið að ganga gegnum annað eins og Víetnamþjóðin, tækifæri til þess að fá sjálf að útkljá sín innanlandsmál og ráða því sjálf, hvernig hún hagar sínu stjórnarfari. Ég vil þess vegna leyfa mér að mælast til þess við hv. þm., að þeir samþykki þessa þáltill. okkar, og mælast til þess við hæstv. forseta, að umr. verði nú frestað, ef ekki eru fleiri, sem kveðja sér hljóðs, og till. vísað til utanrmn., af því að það er aðeins ein umr. um þessa till.