14.12.1966
Neðri deild: 30. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur tekið frv. þetta til athugunar. N. kallaði á sinn fund framkvæmdastjóra og verkfræðing sjónvarpsdeildar ríkisútvarpsins og fékk hjá þeim ýmsar upplýsingar. Afgreiðsla n. á frv. er einróma á þá lund, að hún er einróma sammála um að mæla með samþykkt þess, en nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.

Við meðferð á þessu máli hefur komið fram hér í þinginu og kom alveg sérstaklega fram í menntmn. mjög mikill áhugi á því að hraða dreifingu sjónvarps um landíð. Liggja hér fyrir till., sem ganga svo langt, að þær gera ráð fyrir, að það dreifikerfi, sem áætlanir hafa verið gerðar um, skuli verða fullgert á 2–3 árum. Mér finnst ástæða til þess að þakka mönnum fyrir svo mikinn stuðning við sjónvarpið og svo mikinn áhuga. En jafnframt sé ég ástæðu til þess að minna menn á það að gera hvorki sjálfum sér né öðrum tyllivonir í sambandi við þetta mál og vanmeta ekki þá tæknilegu örðugleika, sem hljóta að verða á því að byggja það dreifikerfi um landið, sem fyrirhugað hefur verið. Til samanburðar vil ég minna á, að Norðmenn hafa enn ekki komið sjónvarpi um land sitt allt og eiga verulegan hluta Norður-Noregs eftir, og jafnvel mesta sjónvarpsþjóð veraldarinnar, sem er Bretar, stendur í þeirri stöðu í dag, að allstórir hlutar af Norður-Skotlandi og Wales hafa hvorki sjónvarp frá ríkissjónvarpinu né einkasjónvarpinu þar. Brezka einkasjónvarpið byrjaði 1955 með fullar hirzlur fjár, en það er enn ekki búið að koma sínu dreifingarkerfi um allt Bretland og á eftir svæði, þar sem býr rúmlega 1 millj. manns.

Sjónvarpsnefnd gerði á sínum tíma, fyrir 21/2 ári, athuganir á þessum málum, og lagði þá fram tvær áætlanir, aðrar um að koma fyrirhuguðu sjónvarpsneti upp á 5 árum, hina um að koma netinu upp á 7 árum. Báðar þessar áætlanir voru í raun og veru gerðar af verkfræðingum landssímans, sem þá voru, en landssíminn var þá eina stofnunin, sem hafði á að skipa mönnum með tæknikunnáttu á þessu sviði. Ég vil taka það fram, að nm. lögðu mjög hart að verkfræðingunum að gera áætlun um sem allra skemmstan tíma, og þannig varð 5 ára áætlunin til. En það er augljóst mál, að verkfræðingarnir töldu hana meiri eða minni óskhyggju og til þess að framkvæma þá áætlun mundi þurfa gífurlegt aukaátak og mikinn aukakostnað. Þeir töldu því, og ég hef gengið úr skugga um það nú síðast í dag, að þeir telja enn, að 7 ára áætlunin sé miklu frekar raunhæf. Þess vegna get ég sagt út af brtt., sem hér hefur verið lögð fram, þó að ég meti mikils áhuga manna, sem að henni standa, að það er algerlega útilokað, að það sé hægt að ljúka þessu kerfi 1969. Ég tel, að það sé hægt að gera sér raunhæfar vonir um að gera það, ef unnið yrði með hraða 7 ára áætlunarinnar, þannig að þetta kerfi yrði tilbúið 1972–1973. Við verðum að horfast í augu við staðreyndirnar í þessum efnum.

Það hefur verið talað um að reyna að ljúka 4 aðaldreifistöðvunum: á Skálafelli, Vaðlaheiði, Stykkishólmi og Fjarðarheiði, á 2 árum og taka þær allar sem fyrsta áfanga. Ríkisstj. hefur fallizt á að gera þessar stöðvar að einum áfanga og hefur fengið með þessu frv. lánsheimild, sem talið er að muni duga til þess, að örugglega yrði nóg fé til. En eftir munnlegum upplýsingum, sem ég hef fengið hjá verkfræðingum Landssímans í dag, telja þeir, að þeir geti gert sér góðar vonir um að ljúka Vaðlaheiði og Skálafelli haustið 1968, ef ekkert kemur fyrir, en þeir þori ekki að lofa Stykkishólmsstöðinni eða Fjarðarheiðarstöðinni fyrr en 1969, þannig að við verðum að hafa þann fyrirvara á, að þessi fyrsti áfangi geti tekið á þriðja ár frekar en tvö, eins og við höfum gert okkur vonir um hingað til.

Það er allmikið verk að koma upp einni endurvarpsstöð. Fyrsta verkið, sem þarf að vinna, og það, sem tekur lengstan tíma, eru mælingar. Verkfræðingar geta setzt niður og gert áætlanir um staðsetningu stöðva og hvert þær muni ná eftir korti. En slíkar áætlanir eru aldrei öruggar. Það verður að fara út og mæla þetta í náttúrunni. Síðan koma útboð á stöðvunum og pantanir. Þegar þessu er lokið, má reikna með afgreiðslufresti á tækjum, 12 mánuðum. Síðan þarf að setja sjálfar stöðvarnar upp, og þá er gert ráð fyrir, að í millitíðinni hafi verið byggðar nauðsynlegar byggingar, þar sem þeirra er þörf. Af þessu má sjá, að þetta hlýtur að taka nokkurn tíma. Staðan er sú, að það er enn ekki búið að ljúka nærri því öllum mælingum fyrir sendingarnar, sem eiga að vera frá Skálafelli og norður í Eyjafjörð.

Þess vegna hefur enn ekki verið unnt að panta þessar stöðvar eða bjóða þær út, og það þarf að vinna nokkurt undirbúningsstarf enn, áður en það er hægt.

Þá vil ég minna á, að það eru miklir tæknilegir erfiðleikar á þessum framkvæmdum. T.d. er alger óvissa enn þá um það, hvort áætlanir verkfræðinganna um að ná sendingu frá Skálafelli til Eyjafjarðar muni standast. Erlendir verkfræðingar, sem hafa séð þessar áætlanir, hafa yfirleitt verið mjög svartsýnir á, að þetta væri hægt, en okkar verkfræðingar telja, að þetta muni reynast mögulegt, vegna sinnar reynslu af þráðlausa símanum. En það þarf enn þá miklar mælingar, áður en því verður slegið föstu, að þessi kjarni kerfisins muni standast. Ef eitthvað bilar, verður væntanlega að setja nýjar millistöðvar á þessari leið.

Þá er rétt að geta þess, að það þarf að gera miklar mælingar varðandi Austurlandsstöðina, og þær mælingar er ekki hægt að gera fyrr en komin er stöð á Norðurlandi, á Vaðlaheiði, af því að þær byggjast á sendingum þaðan. Þar af leiðandi hlýtur Austurlandsstöðin að verða a.m.k. eitthvað á eftir Vaðlaheiðarstöðinni. Þar að auki eru verkfræðingar nú teknir að velta fyrir sér, hvort ekki væri rétt að finna einhvern annan stað en Vaðlaheiði, dálítið austar, með tilliti til þess, að sú stöð gæti nýtzt fyrir fleiri af íbúum Þingeyjarsýslu, en þeir mundu lítið gagn hafa af Vaðlaheiðarstöðinni vegna þess, hvernig fjallgarðar liggja þarna.

Þá vil ég taka það fram hér, af því að menn hugsa mjög hver um sitt hérað og var kvartað um það í Ed., að Norðurl. v. mundi ekkert gagn hafa af þessum fyrstu framkvæmdum, að Skálafellsstöð er aðalstöð fyrir Norðurl. v. og að það má búast við því, að allmikið af byggðum í Húnavatnssýslu geti fengið sjónvarp beint frá Skálafelli og að fólk geti því náð því á mörgum stöðum, ekki öllum, t.d. á Blönduósi, enda á á Blönduósi að vera allstór endurvarpsstöð til að kasta áfram.

Þá vil ég minna á, að framkvæmdanet eða sendistöðvanet það, sem gerð hefur verið framkvæmdaáætlun um, nær að vísu yfir allt landið og á að ná til allra helztu byggða, en því hefur hvergi verið lofað, að það nái örugglega öllum byggðum, enda kemur í ljós, ef áætlunin er lesin, að það er talað þar um mikið af örsmáum stöðvum, sem menn verða bókstaflega að setja niður, þegar stærri stöðvarnar eru komnar, til þess að fylla í þau skörð, sem þá reynast vera í sjónvarpsmóttöku. Og í sambandi við það, að menn geri ekki óeðlilega miklar kröfur um að fá að vita eitthvað um ártöl, vil ég minna á, að bygging endurvarpsstöðva sjónvarps á Íslandi verður endalaus. Byggðin mun breytast. Það munu koma upp ný vandamál síðar, tækni mun breytast, þannig að það má búast við því, að svo lengi sem sjónvarp verður hér, verðum við að fylla upp í þetta og bæta við. Til þess að undirstrika þetta vil ég minna á, að við erum búnir að hljóðvarpa eða útvarpa, hvort orðið sem menn vilja hafa, í 36 ár og nú á 2–3 síðustu árum er að koma í ljós mjög alvarleg þörf fyrir margar nýjar endurvarpsstöðvar fyrir útvarpið. Ég fer ekki út í það nú að skýra, af hverju þetta er, það eru til skýringar á því, en af þessum sökum vil ég minna á, að þetta er ekki verk, þar sem við getum dregið ákveðna línu og sagt: Nú erum við búnir. Þess vegna tel ég mjög skynsamlegt að halda sér við þá stefnu, sem valin hefur verið, reyna í fyrstu umferð að koma sjónvarpinu til allra landshluta, þannig að það hafi fengið fótfestu, og byggja síðar stærstu stöðvarnar, en gera þetta síðan allt eins hratt og aðstæður, tæknilegar og fjárhagslegar, leyfa. Sú stefna er án efa efst í huga allra, sem um þetta mál fjalla, og ég held, að það þurfi ekki að efast um, að sjónvarpið muni fara um landið eins fljótt og nokkur kostur er. En það hjálpar því lítið, þó að við gerum okkur hér tálvonir nú á fyrstu dögum þess, þegar við erum fullir af ánægju yfir því að vera nú loksins búnir að fá þetta og ánægju yfir því, að það skyldi í byrjuninni, hvað dagskrána snertir, takast eins vel og raun ber vitni.