12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (2400)

43. mál, tillögur U Þants til lausnar á styrjöldinni í Víetnam

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur nú rætt nokkuð þær till., sem við höfum lagt hér fyrir. Ég ætla rétt að minnast á það, sem hann skaut inn hjá sér síðast. Ég er hræddur um, að hann hafi ekki kynnt sér til fullnustu, hvernig atvinnuástand Bandaríkjanna er sem stendur. Ég færði fram í minni ræðu mjög greinilegar tölur um, hve mikill þáttur í allri framleiðslu Bandaríkjanna vopnaframleiðslan er, og sýndi fram á, að vopnaframleiðslan er um leið einhver mesti og öruggasti gróðavegur, sem stóriðjufyrirtæki Bandaríkjanna nú stunda, öruggur gróðavegur vegna þess, að það er í þessu tilfelli alltaf ríkið sjálft, sem er kaupandinn og borgar hergögnin og borgar þau háu verði, og því meira sem eytt er af þessum hergögnum, því betra fyrir hergagnaframleiðendurna. Og það er satt að segja ekki neitt nýtt, þó að þetta hafi aukizt alveg ægilega í Bandaríkjunum. Þetta er satt að segja hlutur, sem utanrrh. flestra landa hafa kynnt sér og þekkja tiltölulega vel, hve geigvænleg þau áhrif eru, sem vopnaauðvaldið í hinum ýmsu löndum hefur, og ein af þeim mestu hættum, sem alltaf hafa vofað yfir, hvað styrjöld snertir, það er, að þessir menn hefðu áhuga á því að koma styrjöld af stað og halda styrjöld við af hreinum gróðaástæðum. Og ef við ætlum að ræða þessi mál ýtarlega, gæti ég bent hæstv. utanrrh. á mjög ýtarlegar skýrslur, sem til eru um þetta, líka bandarískar bækur, þar sem allt atvinnulíf Bandaríkjanna er alveg sérstaklega skilgreint frá þessu sjónarmiði. Þetta er satt að segja ekkert nýtt. Þetta er hlutur, sem við erum búnir að búa við alla, þessa öld. Eftir að það fór að verða svona stórfellt gróðafyrirtæki að framleiða hergögn í fyrri heimsstyrjöldinni, var samstarf allan tímann á milli vopnaframleiðsluhringa Bandaríkjanna eða bandamanna og vopnaframleiðsluhringa miðveldanna. Það var svo náið samstarf, að þegar eftirlitsskipum bandamanna, Frakka í þessu tilfelli, varð það á að taka flutningaskip, sem voru að fara með farm af mjög dýrmætum málmi til Hamborgar, sem hefði gert það að verkum, þetta var seint á árinu 1916, ef ég man rétt, að Þjóðverjar hefðu ekki getað haldið áfram styrjöldinni, ef þeir hefðu ekki fengið þennan farm, og eftir að búið var að taka þetta skip og fara með það inn til Cherborough í Frakklandi, kom eftir nokkurn tíma skipun um að sleppa skipinu og láta það halda áfram, vegna þess að Þjóðverjar hefðu ekki getað haldið áfram stríðinu, svo framarlega sem þeir hefðu ekki fengið þann málm, sem í þessu skipi var. Ég get bent hæstv. ráðh. á einn kunnasta blaðamann aldarinnar, sem hefur skrifað eftirtektarverðar bækur um þessi mál.

Sambandið á milli vopnahringanna var svo náið í allri fyrri heimsstyrjöldinni, að það var ekki aðeins, að þeir hjálpuðu hver öðrum á þennan máta með því að útvega þá hluti, sem þeir þurftu til þess að geta haldið áfram að framleiða vopnin, heldur var það svo, að allt stríðið 1914—1918 voru t.d. Krupp-verksmiðjurnar í Rínarhéruðunum aldrei „bombarderaðar“. Það er svo kaldranaleg staðreynd, að það eru því miður fastir, sem trúa henni, fyrr en þeir hafa kynnt sér þetta til fullnustu, að ríkustu og voldugustu menn í stóriðju veraldarinnar skuli geta rekið manndrápin sem stórkostlegasta gróðafyrirtæki, sem til er. Þetta er staðreyndin. Svona var þetta í fyrri heimsstyrjöldinni, og svona er þetta í dag í ríkara mæli en þá miklu ríkara mæli. Það er miklu gróðavænlegra núna að framleiða hergögn og það þarf miklu meira af slíkum hergögnum en þurfti þá. Ég sný ekki aftur með það og skal, ef við ættum að fara í langar umr. um það, leggja fram allar upplýsingar, að því miður er það svo, að ein gróðavænlegasta framleiðslugrein stóriðjunnar í Bandaríkjunum er hergögnin og það, sem þau snertir. Þess vegna eru hagsmunir bandaríska auðvaldsins af því að framleiða hergögn svo miklir, að þeir reyna að hafa þau áhrif að sjá um, að stríðum sé komið á og stríðum sé haldið áfram. Ef mönnum út af núverandi Bandaríkjaforseta skyldi detta í hug, að það sé harla einkennilegt, þar sem hann var kosinn í baráttunni við Goldwater á þeirri forsendu, að hann væri einmitt friðarins maður, þar sem Goldwater mundi verða ófriðarseggur, ef hann kæmist til valda, þá átti ég tal við bandaríska stjórnmálamenn, þegar þessi kosning fór fram eða þegar kosningabaráttan stóð yfir, og spurði þá um þeirra álit. Og þeir sögðu við mig: Það, sem því miður hefur gerzt í sambandi við þetta framboð nú, er, að voldugir stóriðjuhöldar, sem allt til þessa hafa alltaf stutt Republikanaflokkinn, hafa nú tekið afstöðu með Johnson. Og Johnson mun þess vegna í baráttunni við Goldwater vinna stórkostlegan sigur. En það verður honum dýrt, vegna, þess að hann mun koma til með að neyðast til að framkvæma pólitík þessara stóriðjuhölda. — Við vitum, að það var svo áður fyrr, að Demókrataflokkurinn þótti alltaf í Bandaríkjunum vera sá flokkur, sem á vissan máta hélt aftur af a.m.k. hluta af auðvaldinu þar norður frá. Og það er af þessum undarlegu ástæðum, að Demókrataflokkurinn er til kominn á þann undarlega hátt, að annars vegar stendur að honum sá gamli jarðeignaaðall í Suðurríkjunum, sem beið ósigur í borgarastyrjöldinni, og hins vegar verkalýðshreyfingin í Norðurríkjunum, í staðinn fyrir að Republikanaflokkurinn var frá upphafi flokkur burgeisastéttarinnar í Norðurríkjunum, flokkur stóriðjunnar, sem háði borgarastyrjöldina eða stóð óbeint að því að hefja þá styrjöld, sem háð var gegn þrælaeigendunum í Suðurríkjunum, og tryggja þannig samheldni alls ríkisins. Þess vegna þótti Demókrataflokkurinn löngum vera það róttækur, að hann héldi oft aftur af auðvaldinu í Bandaríkjunum, eins og er til í honum einhver afturhaldssamasti hluti þess fólks, sem í Bandaríkjunum lifir, og svo leifar þess gamla stóreignaaðals í Suðurríkjunum. Við munum t.d. eftir, einmitt á tímum Roosevelts, að Roosevelt var raunverulega skoðaður næstum því sem kommúnisti af Republikanaflokknum og æpt á móti honum þannig. Og það, sem gerðist í síðustu kosningum, var, að voldugir aðilar, sem fram til þessa höfðu stutt Republikanana áratugum saman, tóku afstöðu með Johnson, og það, sem gerðist á eftir, er það, að Johnson er látinn framkvæma pólitík Goldwaters, þá pólitík, sem Goldwater háði kosningabaráttuna upp á. Það var að heyja stríð í Víetnam. Og sú pólitík, sem Johnson forseti er að framkvæma nú, er einmitt sú pólitík, sem Goldwater tapaði á 1964, ef ég man rétt, þegar kosningabaráttan var háð. Þess vegna er það svo, að það stóriðjuvald, sem einmitt sérstaklega hefur hagsmuni af hergagnaframleiðslunni, hefur nú tökin á Bandaríkjaforseta og lætur hann framkvæma sína pólitík. Og þess vegna er ástandið þannig í Demókrataflokknum, að mjög voldugir menn þar hafa risið upp á móti þessari pólitík, m.a. menn úr Kennedy-fjölskyldunni, vegna þess að þeir sjá, að það er verið að þverbrjóta allar þær venjur, sem raunverulega hafa einkennt Demókrataflokkinn í afstöðu hans í bandarískri pólitík.

Það er þess vegna ekki rétt af hæstv. utanrrh, að tala um þennan hlut eins og einhvern fráleitan hlut, því miður. Það er staðreyndin í dag, að voldugustu aðilar í Bandaríkjunum, stór hluti af voldugasta hringavaldinu í Bandaríkjunum hefur hagsmuni af, að það sé alltaf verið að reka styrjöld einhvers staðar. Og þetta eru hlutir, sem við þekkjum ósköp vel frá okkar eigin lífi. Þið þurfið ekki annað en að hugsa til Hitlers. Á hverju er það, sem Hitler útrýmir atvinnuleysinu í Þýzkalandi, eftir að hann kemur til valda? Á því að setja hergagnaframleiðsluna á fullan kraft. Og þegar menn setja þannig hergagnaframleiðsluna á fullan kraft, fara menn á eftir í stríð, því að það er ekki hægt að láta hergagnaframleiðsluna ganga bara upp á það að láta sum hergögnin verða gömul og úrelt og henda þeim. Það verður að nota þau. Þess vegna eru Bandaríkin eitt hættulegasta valdið í heiminum núna hvað það snertir að stofna til styrjaldar, hafa, eins og ég orðaði það harðvítuglega, manndráp að atvinnu. Sá voldugi auðjötunn Bandaríkjanna vill nú hafa, eins og þursarnir forðum daga, menn í mál.

Ég skal ræða þessa hluti betur, ef hæstv. utanrrh. ber frekar brigð á þetta. Þetta er ein kaldranalegasta staðreyndin í okkar heimi, sú staðreynd, sem við vitum ósköp vel að getur grandað öllu mannkyninu hvenær sem vera skal. Líf okkar allra á jörðinni hangir í einum þræði, við skulum ekki vera að gera okkur neinar grillur um það. Það þarf ekki nema einn eða tvo vitlausa herforingja til þess að hleypa af stað styrjöld nú, kjarnorkustyrjöld, og öll kjarnorkuveldin séu komin svo í hár saman, að það er efasamt, að þau geti stöðvað það sjálf, þótt þau vilji. Það er því rétt, að menn geri sér almennt ljóst, hvaða hættur það eru, sem vofa yfir í þessum hlutum. Við skulum ekki tala lengur eins og við lifðum ekki á atómöld, á öld kjarnorkusprengjunnar. Það væri ekki mikil hætta fyrir alla heimsbyggðina í þessum hlutum, ef menn væru að berjast enn þá með sverðum eða gamaldags byssum. En það, að menn skuli hafa í fórum sínum sprengjur, sem geta 15 sinnum tortímt öllu mannkyninu og kannske oftar, ef þess væri þörf, það er sú staðreynd, sem skapar þá ægilegu hættu, sem nú vofir yfir. Og styrjöld eins og í Víetnam getur orðið til þess að hleypa slíkri heimsstyrjöld af stað. Það eru vitlausir menn í Bandaríkjunum nú þegar í þeirra herforingjaveldi, sem heimta, að kjarnorkusprengjur séu notaðar. Ég man ekki betur en Goldwater hafi alveg nýlega gert það. Og Goldwater fékk um 40% atkvæða síðast í Bandaríkjunum, þannig að hættan á að þessi styrjöld geti orðið heimsstyrjöld og kjarnorkustyrjöld þá og þegar, er yfirvofandi.

Menn skulu ekki halda, þó að ástandið sé þannig enn þá, að aðrar þjóðir séu ekki farnar að grípa þarna inn í, Víetnambúum sjálfum og Norður-Víetnam til hjálpar, að það verði þannig endalaust. Það getur orðið hvenær sem er, þegar Bandaríkin siga leppríkjum sínum í Asíu á þá þjóð, Víetnama, sem er að berjast fyrir frelsi sínu, og þá er ógæfan skeð. En við upplifum það hins vegar, að það er haldið áfram af hálfu Bandaríkjahers að vinna þarna eitt versta níðingsverk, sem unnið hefur verið í veraldarsögunni, að kasta úr flugvélum öllum þeim svívirðilegustu vopnum, sem upp hafa verið fundin, líka vopnum, sem bönnuð eru í öllum þeim samningum, sem gerðir hafa veriðum,hvernig heyja skuli stríð, vopnum, sem talið er að drepi oft og tíðum 10—15 saklausa aðila á móti hverjum einum hermanni eða skæruliða, sem þau granda.

Bandaríkin nota þarna eiturefni til þess að eyða öllum gróðri, til þess að reyna að svelta fólkið. Þar eru notuð vopn eins og það, sem Bandaríkjamenn með óhugnanlegum húmor kalla „lata hundinn“, annað eins ægilegt, sársaukafullt drápsvopn og það er. Menn þekkja úr blöðunum lýsingar á því, hvað þarna er að gerast og hve ójafn leikur á sér stað. Víetnambúar þar niðri á jörðinni, sem eru að berjast fyrir að fá sjálfir að ráða ættjörð sinni, og Bandaríkjamenn uppi í loftunum hins vegar, með sprengjuflugvélar fljúgandi daglega, kastandi sprengjum á sjúkrahús, á verksmiðjur, á íbúðarhverfi og að því er þeir sjálfir segja á stöðvar, sem þeir ætla að hafi einhverja hernaðarlega þýðingu. Holdsveikraspítalar og hvað annað hafa þarna orðið fyrir barðinu á Bandaríkjamönnum. Það á auðsjáanlega að reyna að hræða þessa þjóð til uppgjafar. Það eru aðferðirnar, sem við þekkjum frá tímum Hitlers, sem þarna er beitt. Og Bandaríkin eru þarna árásaraðili. Það eru Bandaríkjamenn, sem hófu árásir á NorðurVíetnam. Og Bandaríkin eru í þessu landi, eins og ég sýndi greinilega fram á í minni framsöguræðu, til þess að ræna þetta land. til þess að halda þarna sérstökum hráefnalindum, sem Eisenhower forseti sagði, að Bandaríkin þyrftu að hafa. Bandaríkin eru þarna til þess að tryggja sér sérstakar hernaðarbækistöðvar, þannig að þau eru þarna til að reyna að drottna yfir landi, sem þeim kemur ekkert við. Fólkið í þessu landi átti sjálft að fá að útkljá um örlög sín, um það var samið í Genfarsáttmálanum, og Bandaríkin skárust úr leik, undirskrifuðu hann ekki, en lofuðu hins vegar að skipta sér ekki með vopnavaldi af þessum löndum og sviku það loforð. Bandaríkin standa þarna sem sá ótvíræði árásaraðili, og með hverjum deginum sem líður verður það blóðbað, sem Bandaríkin og forseti Bandaríkjanna valda þarna, ægilegra og voðalegra og siðferðilega ábyrgðin, sem á þeim hvílir, voðalegri.

Frá hálfu íbúanna í Víetnam, hvað SuðurVíetnam snertir, er þarna um að ræða það, sem almennt mundi vera kallað borgarastyrjöld. Það er um að ræða, eins og ég lít á það, að alþýða manna og þjóðfrelsissinnar eru að berjast á móti stjórn, sem þeir skoða sem fasistíska leppstjórn Bandaríkjanna. Hvað Norður-Víetnam snertir, er um að ræða varnarstríð þeirra gegn þeim árásum, sem Bandaríkin í febr. 1985 hófu með flugvélum sínum á Norður-Víetnam. Það, sem einmitt gerði, að ég ræddi eins mikið og ég gerði um eðli þessa stríðs, var einmitt að undirstrika það, að þetta væri styrjöld, þar sem við Íslendingar ættum eðlilega að hafa samúð með íbúum Víetnams, vegna þess að þarna væri um að ræða þjóð, sem hefði áður öldum saman verið eins konar hjálenda eða nýlenda og hefði svo um allmarga áratugi frá því í lok 19. aldarinnar, — 1886 held ég það hafi verið, — og þar til að lokinni heimsstyrjöldinni verið frönsk nýlenda, orðið frjálsir í lok heimsstyrjaldarinnar, en verið sviknir í tryggðum af Frökkum og ráðizt á þá, orðið að heyja 7 ára stríð við Frakka, eftir að hafa áður sigrað Japani, og sigrað að lokum í því stríði, — stríði, sem jafnvel núverandi Bandaríkjaforseti áleit þá svívirðilegt nýlendu- og árásarstríð af hálfu Frakka, þó að Bandaríkin kostuðu það að 70%. Síðan hefur svo þessi þjóð orðið að standa í því stríði, árásarstríði, sem Bandaríkin hófu gegn henni. Þessi þjóð hefur þannig á undanförnum 20—30 árum orðið að berjast þannig við þrjú stórveldi heimsins, Japan, Frakkland og Bandaríkin, til þess eins að fá sjálf að ráða landi sínu.

Öll þessi stórveldi hafa á mismunandi tímum notað leppstjórnir í þessum ríkjum, en að lokum hefur fólkið sjálft í landinu alltaf eigrað. Og það mun svo fara enn. Þegar heil þjóð tygist vopnum til að berjast fyrir frelsi sínu, er einvörðungu hægt að sigra hana með einu einasta móti, og það er að drepa svo að segja hvern einasta mann, þ.e. með þjóðarmorði. Og það er það, sem maður fær alltaf öðru hverju hugmynd um nú, að Bandaríkin muni geta hugsað sér. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að gera okkur þetta eðli styrjaldarinnar ljóst, því að það er eingöngu þetta eðli styrjaldarinnar, sem gerir þessum mönnum, sem þarna berjast af hálfu Víetnambúa, mögulegt að heyja þessa styrjöld. Það þarf allan þann eldmóð til, sem einungis kemur fram í slíkum þjóðfrelsisstríðum, til þess að halda út annað eins og það, sem þessi þjóð verður að þola nú, til þess að halda út þetta sífellda sprengjuregn, halda út þessi ægilegu vopn, sem þarna er beitt.

Þegar Bandaríkjamenn háðu sína frelsisstyrjöld, áttu þeir líka oft erfitt, og það leit ekki vel út fyrir þeim suma veturna í því 7 ára stríði. Og fyrirmyndirnar frá þeim skæruliðum Bandaríkjanna, sem þá að lokum sigruðu enska herinn, enska atvinnuherinn, þær fyrirmyndir hafa líka lifað, eins og í því frelsisstríði, sem Víetnam heyr nú. En það eru hins vegar hryggileg örlög, að sjálf Bandaríkjaþjóðin skuli verða að lifa það að standa nú í þeirri aðstöðu, sem ensku kúgararnir stóðu í 1778 og árin þar á eftir, og það gagnvart einni af fátækustu þjóðum heimsins, þeir sjálfir orðnir ríkasta þjóð veraldar. Þess vegna vildi ég undirstrika þá hluti, þannig að það væri alveg ljóst hjá okkur hér, hvernig þessari styrjöld væri háttað, hvers konar styrjöld hún væri. Og þess vegna sagði ég, að raunverulega ættum við fyrst og fremst að lýsa okkar samúð með þjóð Víetnams í þessu stríði gegn Bandaríkjunum, árásaraðilanum. En fram á það fór ég ekki. Það, sem ég var að fara fram á, var hins vegar aðeins, að við tækjum afstöðu með tillögum U Þants.

Það er rétt og ég varð líka var við það í því samtali, sem ég átti við U Þant svo að segja að tilhlutan hæstv. utanrrh., þegar hann var hér, að hann hefur ákaflega einlægan áhuga á að reyna að leysa þetta mál. Og það er ef til vili alveg sérstök gæfa, að einmitt maður frá Burma, frá einu af nágrannalöndum Víetnams, skuli hafa valizt sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hann skuli hafa haldið áfram að taka það að sér að vera framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, þegar þessi hryllilega styrjöld stendur þarna. Hann þekkir manna bezt, hvernig þarna er öllu til háttað, hann þekkir líka forustumennina þarna. Hann þekkir, eins og hann sagði mér, þá persónulega og hafði við þá talað, og það er engum efa bundið, að hans tilraunir eru ákaflega einlægar í þessum efnum. Og sú till., sem hér liggur fyrir og hann gerði til þess að reyna að fá a.m.k. vopnahléi komið á þarna og friðarsamninga upp tekna, það er mjög skynsamleg till. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh., hann hefur gert aðra till. seinna, þar sem hann er að reyna ofurlítið að vita, hvort ekki sé hægt að fá Bandaríkin til að hverfa frá þessari harðvítugu afstöðu, sem þau hafa tekið í þessum efnum.

Afstaða Bandaríkjamanna er raunverulega þessi: Þeir segjast halda áfram að henda sprengjum á Víetnam og Norður-Víetnam, þangað til raunverulega Norður-Víetnamar viðurkenni, að þeir séu eins konar árásaraðili. Þeir virðast sem sagt ætla að pína þá með manndrápum til þess að játa það, sem þeir segja sjálfir að komi ekki til greina að þeir játi, vegna þess að það sé ósatt. Það minnir mig á þá aðferð, sem Bandaríkjastjórn hafði gagnvart Rosenberg-hjónunum, þegar þau voru ákærð fyrir 13 árum, held ég hafi verið, opinberlega ásökuð fyrir njósnir, dæmd til dauða í rafmagnsstólnum. Þeim var heitið lífi, svo framarlega sem þau vildu játa, það, að þau hefðu stundað njósnir. Þær undarlegu aðfarir eru að hóta sem sé að hætta við að drepa menn, hvort sem það eru Rosenberg-hjónin eða alþýða manna í Norður-Víetnam, svo framarlega sem menn játa það, sem hinn aðilinn er að saka þá um og þeir segjast vera saklausir af og deyja frekar heldur en játa á sig sekt, sem ekki er þeirra.

Þess vegna eru þessar sprengjuárásir Bandaríkjanna á Norður-Víetnam um leið tilraun frá hálfu Bandaríkjanna til þess að fá Norður-Víetnama til að játa á sig glæp, sem þeir hafa ekki drýgt. Og þess vegna er stjórnin í Víetnam svona harðvítug í þessum hlutum. Það er sjálfur heiður manna í veði, þegar um slíkt er að ræða, og menn kjósa heldur að berjast áfram og deyja en játa á sig glæp eða níðingsverk, eða hafa drýgt verk, sem þeir hafa ekki framið. Þess vegna, er það svo, að meðan Bandaríkjamenn halda áfram þessum loftárásum, eru hverfandi lítil líkindi til þess, að hægt sé að koma einu sinni vopnahléi á. Að vísu þykist ég vita, að eitt atriði geti breytt afstöðu Bandaríkjanna hvað þetta snertir. Því nær sem dregur kosningunum í Bandaríkjunum, næstu forsetakosningum, því meira fara þessir tveir flokkar, sem þar keppa um völd, að óttast um sinn hag eða spekúlera í afstöðu almennings. Það hefur nú þegar orðið vart við það, og ýmsir helztu stjórnmálafréttaritarar Bandaríkjanna hafa þegar komið inn á það, svo fremi sem þessi styrjöld haldi áfram, þangað til kosningabarátta þeirra nálgast af fullum krafti, þá kunni svo að fara, að Republikanaflokkurinn hagnýti sér friðarlöngun almennings í Bandaríkjunum til þess að bjóða fram forsetaefni, sem vilji beita sér fyrir friði. Við þekkjum slíkt dæmi, bara fyrir rúmum áratug, í sögu Bandaríkjanna. Slíkt hefur verið notað. M.ö.o.: það gæti hugsazt, ef kæmi að því, að þeir tveir stóru bandarísku flokkar færu að nota hvað sem vera skal í sínum innbyrðisátökum, þá þætti kannske Johnson praktískara að semja frið eða koma á vopnahléi í Víetnam, heldur en að vera svo að segja öruggur með að falla í kosningunum. En það er hart, ef valdabrask tveggja stórra flokka í Bandaríkjunum kynni að vera það eina, sem gæti bundið endi á þær hörmungar, sem alþýða manna í Víetnam verður nú að búa við.

Ég er á því eins og hæstv. ráðh., að þetta mál fari til utanrmn., eins og ég lagði til, og að við athugum þetta mál þar og sjáum til, hvort við getum orðið sammála um nokkrar breyt. á þessu, eða einhvers konar ályktun, sem sýndi það, að Alþingi Íslendinga og íslenzka þjóðin láti sér þær hörmungar ekki vera óviðkomandi, sem fátæk, en frelsisunnandi þjóð verður að þola þar í SuðausturAsíu.