14.12.1966
Neðri deild: 30. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. við þetta frv. ásamt þeim hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Norðurl. e. Fyrri till. er á þskj. 163 og er um það, að lánsheimildin, sem er 25 millj. kr. í frv., hækki upp í 50 millj. Síðari brtt. er ákvæði til bráðabirgða, sem kemur á eftir 5. gr. og er svo hljóðandi: „Ríkisútvarpið skal koma upp endurvarpsstöðvum sjónvarps í öllum landshlutum, og skal hraða framkvæmdum svo, að allar aðalendurvarpsstöðvar og millistöðvar, sem þörf er á, verði fullgerðar eigi síðar en á árinu 1969.“ Það náðist ekki samkomulag í menntmn. um þessi atriði, þó að við stöndum allir að till. um samþykkt frv. að öðru leyti.

Á fundi menntmn. í morgun voru mættir þar framkvæmdastjóri sjónvarpsins og verkfræðingur og voru að ýmsu spurðir þar. M.a. og ekki sízt var rækilega spurt um, hvort það væru einhverjir sérstakir tæknilegir örðugleikar á því að koma upp dreifikerfinu á 3 árum, ef fjármagn skortir ekki. Og ég kannast ekki við, að þeir hafi gefið neinar upplýsingar um, að það væru tæknilegir örðugleikar á því, alls ekki. Þeir sögðu orðrétt: „Það er mikið hægt að gera, ef ekki skortir fé.“ En það var á það minnzt þarna í n., að Landssímann, sem hefur þessar framkvæmdir með höndum, kunni kannske að skorta mannafla til þess að framkvæma þetta á þremur árum, og man ég það, að framkvæmdastjóri sjónvarpsins svaraði þá: „Það eru víðar til menn en á Íslandi, sem kunna að setja upp endurvarpsstöðvarnar.“ Hann meinti, að það væri hægt að fá útlendinga til þess, ef það skorti mannafla hjá Landssímanum. Hins vegar heyrist mér á hv. frsm. n., að hér séu einhverjir gífurlegir tæknilegir erfiðleikar á ferðinni, svo að það sé ekkert vit í því að gera þessa þriggja ára áætlun. Ég vil fullyrða, að það hefur ekki komið fram í þeim upplýsingum, sem n. fékk hjá framkvæmdastjóra sjónvarpsins. Hitt vita allir, að auðvitað geta alltaf komið fram einhverjir erfiðleikar, en það er a.m.k. ekki vitað um það enn, að það þurfi að hindra þessa framkvæmd, ef ekki skortir annað, þ.e.a.s. fjármagnið.

En hvað fjárhagshlið þessa máls snertir, og það er kannske aðalatriðið að mínum dómi, þá er það að segja, að ég tel það bókstaflega óskiljanlegt, hvernig á því stendur, að hæstv. menntmrh., að mér skilst, stendur á móti því, að ríkisstj. fái hærri lánsheimild en 25 millj. Eftír þeim upplýsingum, sem við höfum fengið, mun vera ríflega áætlað, að allt sjónvarpskerfið, auk þess sem nú er búið að framkvæma hér í Reykjavík, — allt sjónvarpskerfið kosti um 180 millj., það var áætlað á 150 millj., og menn telja sæmilega ríflegt að gera ráð fyrir, að það kostí nú um 180 millj. Til þess að standa undir þessum stofnkostnaði eru innflutningsgjöld af sjónvarpstækjum, eins og hæstv. ráðh, hefur margoft skýrt frá, því að það er ætlunin, að innflutningsgjöldin standi undir stofnkostnaðinum, en afnotagjöld og auglýsingatekjur undir rekstrarkostnaði. Á hvern hátt geta þá innflutningsgjöldin staðið undir þessum stofnkostnaði? Gert er ráð fyrir, að hér eftir verði keypt 9 þús. sjónvarpstæki. Búið er að kaupa eitthvað kringum 14 þús. tæki, og menn reikna með, að það verði hér eftir keypt 9 þús. tæki, þegar sjónvarpið er komið um allt land. Innflutningsgjöldin af þeim tækjum, sem búið er að flytja inn, eða þær tekjur munu hafa nægt til þess að borga framkvæmdir hér í Reykjavík og kannske eitthvað meira, ég er ekki alveg öruggur um, að það borgi eitthvað meira. Nú eru þessar innflutningstekjur áætlaðar á ári í kringum 171/2 millj., og það sjáum við líka á brtt. við fjárl., sem hæstv. menntmrh. var að leggja fram í kvöld, — 171/2 millj. Tekjurnar af þeim 9 þús. tækjum, sem mundu þá verða keypt hér eftir, yrðu nálægt 70 millj. En þær 70 millj. koma ekki í gagnið fyrr en sjónvarpið er komið um allt land. Menn fara ekki að kaupa sjónvarpstæki, á meðan þeir hafa enga möguleika á að sjá neitt sjónvarp. Þær hljóta því á fyrstu árunum að verða talsvert minni en þetta, tekjurnar til þess að stofna dreifingarkerfið. Og hverjar eru svo aðrar tekjur til þess að standa undir þessu? Við skulum segja stofnkostnaðurinn 180 millj.? Ég veit ekki um neitt nema 25 millj. kr. lánsheimild. Það er því sýnilegt, að hér skortir verulegt fjármagn, hvernig sem farið er að. Jafnvel þó að sú áætlun, sem mér heyrist nú á hv. frsm. n., að eigi að vera 7 ára áætlun, hann heldur sig víst fast við hana enn, — jafnvel þó að það yrði 7 ára áætlun, skortir fé til þess að koma upp þessu kerfi, vegna þess að það stendur á tekjunum af innflutningsgjöldunum vegna þess, hvað dreifingin gengur seint.

Þá hefur verið haft orð á því, að það kunni að vera hægt að draga eitthvað út úr rekstrinum og leggja við stofnkostnaðinn. En það liggur ekkert fyrir um það, að svo geti orðið. Samkv. afgreiðslu fjárl. eftir till. hæstv. ráðh. er það sýnilegt, að ekki er gert ráð fyrir neinum afgöngum þar. Það er því, held ég, engum blöðum um það að fletta, að ef á eitthvað að hraða dreifingu sjónvarpsins um landið, verður að taka lán og miklu meira lán en þetta, sem nú er gerð till, um í frv.

Hv. frsm, lagði á það áherzlu og alveg réttilega, að það er ákaflega mikill áhugi hjá mönnum yfirleitt í landinu að fá sjónvarpið, og sá áhugi er líka hjá þm. yfirleitt að hraða því að dreifa sjónvarpinu. En mér sýnist sá áhugi vera öllu minni hjá þeim, sem standa gegn því, að ríkisstj. fái meira en 25 millj. kr. lánsheimild. Og hvaða hætta er á því, að hæstv. ríkisstj. fái stærri lánsheimild? Hefur hún það ekki í hendi sinni, hvort hún notar hana að einhverju eða öllu leyti eða að hve miklu leyti? Það er svo sem ekkert verið að setja hæstv. ráðh. stólinn fyrir dyrnar með það, þó að við fáum 50 millj. kr. lánsheimild. En ef ekki eru samþ. nema 25 millj., þá má ríkisstj. ekki taka meira lán. Mér sýnast því allar horfur á því, að með svona lítilfjörlegri lántöku sé það sýnt, að það verður aðeins örfáum stærstu dreifistöðvunum komið upp aðeins þeim allra stærstu.

Hv. þm. segir, að það sé áhugamál — mér skilst bæði hans og annarra — að koma sjónvarpinu í hvern landshluta. Ég hef harla lítinn áhuga á því að koma sjónvarpi í landshluta, ef það er kannske einn, tveir eða þrír bæir, sem eiga að fá sjónvarpið í öllum landshlutanum. Ég skal nefna dæmi um þetta.

Það er gert ráð fyrir því, að í fyrsta áfanga, sem svo er kallaður, verði reistar 4 dreifistöðvar: á Skálafelli, í Stykkishólmi, á Fjarðarheiði og á Vaðlaheiði. Mér skilst, að Stykkishólmsstöðin eigi að nægja fyrir allt Vesturland og Vestfirði. Það er ekki talað um neina aðra dreifistöð þar fyrir utan smástöðvar, sem koma í nokkrum fjörðum þar fyrir vestan, en aðaldreifistöð fyrir Vesturland og Vestfirði og meira að segja fyrir Húnaþing að einhverju leyti er Stykkishólmsstöð. Það er nokkurn veginn öruggt, að þó að þessi stöð komist upp, þá sjá engir sjónvarp á öllum Vestfjörðum, nema ef til vill þrjár sveitir á Barðaströnd, — nokkurn veginn alveg öruggt, að sjónvarp sést hvergi annars staðar. Þetta kalla ég nú ekki að koma sjónvarpi á Vestfirði t.d. Það er mjög lögð áherzla á það, að þetta verði allt að koma í réttri röð, því að útsending í landshlutunum byggist á því, að dreifistöðvarnar komist upp, og allar dreifistöðvarnar byggist á Skálafellsstöðinni. Og þá skilst mér, að þetta sé svona: Það verði fyrst að byggja Skálafellsstöðina. Þegar hún er komin upp, má fara að byggja hinar þrjár og kannske einhverjar fleiri hérna sunnanlands. Þegar þær eru komnar upp, má fara að byrja á hinum smærri dreifistöðvum úti í landshlutunum, og svona koll af kolli. Ég get vel trúað því, að það sé hægt að dreifa þessu á meira en sjö ár með þessu fyrirkomulagi. En ef þetta er ekki nauðsynlegt fjárhagsins vegna, hvers vegna er þá verið með svona áætlun? Þá gæti útgerðarmaðurinn alveg eins sagt, t.d. síldarútgerðarmaðurinn: Fyrst verð ég náttúrlega að kaupa síldarnót, ég veiði með henni, svo skipið, þegar nótin er fengin, svo þegar búið er að fá skipið, þá verður að fara að byggja síldarverksmiðju, og svona koll af kolli. — Er nokkuð ómögulegur hlutur að byggja þetta samtímis, ef fjármagn er fyrir hendi og ef mannafli er fyrir hendi og engir tæknilegir örðugleikar hindra það og ef viljinn er fyrir hendi? Ég held ekki.

Ég vil ekki vera að teygja að óþörfu þessar umr., en ég vil endurtaka það, að eigi að fella þá till. að auka lánsheimildina upp í 50 millj., sem er sannarlega ekki há upphæð, þá er viljinn fyrir útbreiðslu sjónvarpsins minni en þessir menn láta af. Ef það á að vera einhver háski fyrir hæstv. ráðh. að fá heimild upp á 50 millj. kr., hvort sem hann notar hana á þessu ári, næsta ári eða hinu, er viljinn ekki harla mikill.

Ég get látið þetta nægja. Ég held, að það sé ekki miklu við þetta að bæta, þetta er svo einfalt og auðskilið fyrir hvern sem er.

Hv. frsm. n. minntist á afgreiðslufresti, þeir séu langir, og það getur vel verið, ég þekki ekkert inn á það. Það er ekki farið að panta enn stöðina á Skálafelli. Hvenær það verður gert, hef ég engar upplýsingar um. Ef á að fara að panta hinar stöðvarnar, stóru dreifistöðvarnar, eftir að Skálafellsstöðin er kannske komin upp, getur tognað úr þessu. En ég hélt, að það væri mikilsvert, að undirbúningur gæti gengið það hratt, að ekki þyrfti að bíða missirum eða kannske árum saman eftir því, að hægt væri að panta þessar dýrmætu stöðvar. Það getur vel verið, að það sé rétt hjá hv. frsm., að það skorti eitthvað á mælingar, en mér þykir alveg merkilegt, þegar við fáum á fund okkar bæði framkvstj. sjónvarpsins og verkfræðing, að þeir tala ekki um þetta. Það var öðru nær. Hins vegar var auðheyrt á þeim, að þeir bjuggust við því, að landssíminn ætti eitthvað erfitt með að framkvæma mikið á skömmum tíma eða á fáum árum og þá væntanlega vegna skorts tæknifróðra manna. Og það var ekki að tilefnislausu, sem framkvstj. svaraði þá: „Það eru víðar tæknimenn til að setja upp endurvarpsstöðvar en á Íslandi“. M.ö.o.: hann var að benda okkur hreinlega á, að ef það stendur á þeim, er ekkert annað en að fá tæknifróða menn frá öðrum löndum til þess að gera þetta. En það skyldi þó aldrei vera það, að landssíminn sé þessu máli einhver fjötur um fót, ekki að gamni sínu, heldur af því að hann skorti mannafla eða af einhverju öðru? En þá verður bara að ráða bót á því. Þá er það sýnilegt, að þó að tekið væri lán og mun stærra lán en þetta, þessar 50 millj., til þess að hraða dreifingu sjónvarpsins, þyrfti sú lántaka ekki að standa til mjög langs tíma, vegna þess að tekjumöguleikarnir til að endurgreiða þau lán aftur eru þó nokkrir, ef sjónvarpið fær að dreifast út um landið á tiltölulega skömmum tíma, svo að tekjurnar komi af innflutningsgjöldunum af tækjunum.

Þá hefur mér verið tjáð, — ég vil gjarnan, að það komi fram hérna, — af manni, sem þekkir vel til í þessum efnum, að stöðvarnar, þessar dreifistöðvar, sé tiltölulega auðvelt að fá með gjaldfresti, fá þær með 5 ára afborgunum, það standi ekki á seljendum þessara stöðva að selja þær með slíkum kjörum. Það hafa einhvern tíma verið meiri erfiðleikar í fjármálum íslenzkra fyrirtækja en í þessum efnum, og ætti þess vegna ekki að þurfa að draga í mjög mörg ár að koma þessum ágætu fjölmiðlunartækjum til landsmanna, því að ég tel, að sjónvarp geti valdið svo að segja byltingu í dreifbýlinu, þegar fólk getur séð og heyrt daglega kannske viðburði utan úr heimi, hvaðan sem er, í staðinn fyrir þá möguleika, sem þar eru fyrir hendi nú á tímum. Því legg ég mikla áherzlu á, að þessu sé hraðað, og ég tel, að þessu fólki sé miklu meiri þörf á sjónvarpinu en nokkurn tíma fólkinu í þéttbýlinu. Og ég legg áherzlu á, að það verði ekki hindrað, og ég er reyndar sannfærður um, að það verður ekki hægt að hindra þjóðina í að fá þetta tæki á tiltölulega skömmum tíma, áhuginn er svo mikill á útbreiðslu sjónvarpsins.