14.12.1966
Neðri deild: 30. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. menntmn., mætti á fundi hennar í dag framkvæmdastjóri sjónvarpsins og verkfræðingur þess. Það var þar mjög óskað eftir því, að þeir, eftir því sem þeir hefðu aðstöðu til, gæfu yfirlit um þróun þessara mála í framtíðinni, bæði hvað tæknihliðina snerti og eins hvað fjárhagshliðina snerti. Varðandi tæknihliðina upplýsti verkfræðingurinn, að þeir ættu erfitt með að gefa n. þær upplýsingar, sem óskað var eftir, vegna þess að landssíminn hefði undirbúið málið og það væri enn mjög í hans höndum að veita þær upplýsingar og frekast í hans höndum að veita þær upplýsingar, hvað þá hlið málsins snerti. Það lágu fyrir n. hinar umtöluðu 7 eða 5 ára áætlanir, og tel ég, að ekki hafi komið fram frá fulltrúum sjónvarpsins, hvort hægt væri að koma sjónvarpskerfinu á um land allt á skemmri tíma.

Hvað fjárhagshliðina á málinu snerti fékk n. mun betri upplýsingar, og voru þær þannig, að það væri reiknað með, að auglýsingar og afnotagjald, þessir tveir tekjustofnar, stæðu undir rekstri sjónvarpsins, hins vegar mundu aðflutningsgjöldin af sjónvarpstækjum og að ég held einnig efni til viðgerða á sjónvarpstækjum ganga til uppbyggingar dreifikerfisins um landið. Það er rétt, sem hér hefur verið bent á, að það var þeirra áætlun, að þegar væru komin inn í landið um 14 þús. tæki og til viðbótar mætti á næstu árum reikna með, að kæmu um 9 þús. tæki, og gæfi þetta um nokkurt árabil eða eftir nokkur ár samtals um 70 millj. kr. til uppbyggingar dreifikerfisins. Ég tel af þessu, að það sé alveg ljóst, að til uppbyggingar kerfisins þarf ríkisstj. eða stjórnvöld á hverjum tíma að fá mun hærri fjárhæð eða heimild til lántöku fyrir mun bærri fjárhæð en gert er ráð fyrir í 4. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir. En ég undirstrika, að þetta þurfa stjórnvöld, þegar þar að kemur.

Ég held, að öllum þm. sé það ljóst, að þetta sjónvarpsmál, sem mjög var rætt í Ed., sé og muni verða miklu stærra mál en við höfum kannske almennt gert okkur grein fyrir. Með tilkomu sjónvarpsins hér á Suðvesturlandi og Suðurlandi, þar sem það nær, kemur það í ljós, að áhugi fólks á að fá aðstöðu til að horfa á sjónvarp er meiri en menn hafa fyrir fram almennt gert sér grein fyrir. Ég tel þetta skiljanlegt, og ég hygg, að það sé ekki ofsagt, þó að því sé haldið fram, að sjónvarpsmálið sé mun stærra dreifbýlismál en við gerum okkur grein fyrir. Það er ekki einasta, að fólk óski þess að hafa aðstöðu til að sjá sjónvarp. Sumir leggja mjög mikið upp úr því í dreifbýlinu, aðrir kannske minna. En það, sem ég veit, að verkar mjög mikið á fólk úti á landi, er, að það vill geta búið við sömu aðstöðu og þéttbýlið og gerir kröfur til þess, að fyrir því verði séð. Ég tel, að þetta sé ekki minni þáttur hjá fólkinu í dreifbýlinu, að það sé ekki sett til hliðar, búi við verri aðstöðu en við, sem búum í þéttbýlinu, og því verði sköpuð aðstaða til að njóta þeirra þæginda, sem þar eru. Ég tel, að þetta sé það mikið mál fyrir dreifbýlið, að það verði að leggja alla áherzlu á það að koma upp sjónvarpskerfinu úti um alla landsbyggðina, eins fljótt og tök eru á. Ég tel, að það eigi að vera stefna ríkisstj., bæði nú, og ég er sannfærður um, að það verður stefna komandi ríkisstj. í þessu máli að hraða uppbyggingu sjónvarpsins, eftir því sem tækniaðstæður eru til, en láta fjármálin þar ekki hindra í neinu. Þetta er ekki það stórt mál fjárhagslega séð, að ríkissjóði sé það ekki fært með lántökum eða framlögum, og ég tel, að þetta eigi að vera og hljóti að verða stefna þeirrar ríkisstj., sem við tekur nú eftir næstu kosningar.

Eins og ég minntist á og fyrir liggur, er heimild til lántöku að upphæð 25 millj. kr. í frv. því, sem hér liggur fyrir, og er þá gert ráð fyrir, að það fé verði fyrst og fremst notað til uppbyggingar aðalstöðvanna. Ég held, að öllum hljóti að verða það ljóst, að þetta kerfi er þannig, að fyrst þarf að byggja þessar aðalstöðvar og síðan dreifistöðvarnar út frá þeim. Ég tel það engu máli skipta og tel till. þá, sem hér er fram komin um, að þessi heimild verði hækkuð upp í 50 millj., ég tel hana alveg ástæðulausa og engu máli skipta, vegna þess að með þeirri heimild, sem í frv. er, er séð fyrir uppbyggingu aðalstöðvanna, og það liggur alveg ljóst fyrir, að þó að þær væru pantaðar strax í dag, tekur það ár að fá þær, þannig að þær koma ekki til landsins fyrr en síðari hluta næsta árs. Hins vegar, eins og ég sagði áðan, liggur það einnig ljóst fyrir, að þegar kemur að því að halda uppbyggingunni á stærri stöðvunum áfram og koma kerfinu víðar um landið, þarf mun hærri fjárhæð til að fullgera það kerfi en sú till. gerir ráð fyrir, sem hér liggur fyrir, þar sem lagt er til, að þessi heimild verði hækkuð upp í 50 millj. Ég er sannfærður um, að með þeim áhuga, sem er bæði hér á Alþ. og hjá öllum almenningi um land allt, þá mun Alþ. veita hverri ríkisstj. nægilegar heimildir til lántöku til uppbyggingar kerfisins, eftir því sem þörf krefur, og ég tel, að það eigi að vera stefna ríkisstj. í þessu máli, bæði nú og síðar, að láta ekki fjárhagsleiðina að neinu leyti hindra uppbygginguna, heldur verður hún að framkvæmast með þeim hraða, sem tæknilega er mögulegt. Ég tel, að það sé aðalatriðið, að eftir þessu verði farið: Hvort lánsheimild í fyrstu umferð er 25 eða 50 millj., tel ég ekki skipta neinu máli, því að 25 millj. eru nægilegt fé, við verðum að trúa því, það hafa verið veittar um það upplýsingar frá þeim aðilum, sem þetta mál þekkja, — það er nægileg upphæð til að koma grunnstöðvunum áfram, fá þær hingað til landsins og koma þeim upp, þannig að það er fyrir þeim þegar séð, þó að hins vegar liggi einnig fyrir, eins og ég hef áður sagt, að heildarupphæð, sem endanlega þarf að veita ríkisstj. heimild fyrir, sé mun hærri en þessar 25 millj., mun hærri en þær 50 millj., sem till. gerir ráð fyrir, og hlýtur að koma, þegar að því kemur, að endanlegar smærri stöðvar og smærri dreifistöðvar er nauðsynlegt að byggja.