24.02.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (2420)

51. mál, afnám fálkaorðunnar

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti.

Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 55 till. um afnám fálkaorðunnar.

Fálkaorðan mun verða 46 ára gömul á þessu ári. Vorið 1921 kom konungur vor, Kristján X, hingað til lands. Með honum var drottning hans, Alexandrína, og annað föruneyti. Í þeirri för gaf hans hátign út konungsbréf um stofnun hinnar íslenzku fálkaorðu. Bréfið var gefið út í Reykjavík 3. júlí 1921 af konunginum og Jóni Magnússyni forsrh. Það er prentað í Stjórnartíðindunum. Upphaf bréfsins er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér, Christian hinn Tíundi af guðs náð, konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg, gjörum kunnugt:

Oss hefur þótt það rétt, til þess að geta veitt þeim mönnum og konum, innlendum og útlendum, sem skarað hafa fram úr öðrum í því að efla heiður og hag fósturjarðarinnar að einhverju leyti, opinbera viðurkenning, að stofna íslenzka orðu, sem Vér viljum að sé nefnd „Íslenzki fálkinn“, og viljum Vér setja um hana þessa reglugjörð“ o.s.frv.

Það vekur athygli í bréfinu, eins og það er prentað í Stjórnartíðindunum, að orðið guð er með litlum upphafsstaf, en vér með stórum. Og í bréfinu eru konur ekki taldar með mönnum, heldur sérstaklega.

Með þessu konungsbréfi hefst saga fálkaorðunnar. Strax sama daginn, sem bréfið var gefið út, hófust orðuveitingar. Í Stjórnartíðindunum er alltaf skýrt frá því, hverjir fá orðurnar. Mér telst svo til, að á fyrsta árinu, 1921, hafi alls 81 menn verið sæmdir fálkaorðunni. Af þeim eru 33 innlendir, en 28 útlendir. Af þeim innlendu voru 16 embættismenn eða opinberir starfsmenn. Í hópi þeirra innlendu voru aðeins 2 konur, og eru þær nefndar ekkjufrúr á skránni. Af hinum 28 útlendingum, sem fengu fálkaorðuna 1921, voru líka aðeins 2 konur. Önnur þeirra er nefnd hoffröken, en hin var hennar hátign Lovísa ekkjudrottning í Kaupmannahöfn, þá komin á efri ár með alllangan starfsdag að baki. Hún átti sjötugsafmæli um haustið þetta ár, 1921, síðasta dag októbermánaðar, og fékk fálkaorðuna á afmælisdaginn, blessunin.

Tímar liðu fram og að því kom, að konungsríki var lagt niður hér á landi, lýðveldi var stofnað 1944 og forseti þess kjörinn. Þá var ekki lengi látið bíða að gefa út forsetabréf um fálkaorðuna. Það var gefið út 11. júlí 1944. Í 1. gr. bréfsins segir:

„Orðunni má sæma þá menn, innlenda og útlenda, og þær konur, sem öðrum fremur hafa eflt hag og heiður fósturjarðarinnar eða unnið afrek í þágu mannkynsins.“

Enn er mönnum skipt í tvo hópa, menn og konur, eins og á kóngsins tíð, og enn á sú regla að gilda samkv. bréfinu, að orðan á að veitast þeim, sem öðrum fremur hafa eflt hag og heiður fósturjarðarinnar.

Ég hef ekki athugað, hverjir fengu orðuna ár hvert síðan í árslok 1921. En í svonefndri Ríkishandbók, sem út var gefin 1965, er birt skrá yfir alla orðuhafa í lok októbermánaðar 1964. Á skránni er sægur af útlendum mönnum. Ég þekki þá ekki og enn síður veit ég, hvað þeir hafa gert til að efla. hag og heiður Íslands og Íslendinga, en ég vil gera ráð fyrir, að það sé sómafólk allt það fólk. Ég hef talið saman innlenda fálkaorðuhafa samkvæmt skránni í októberlok 1964, en samkv. reglunum á að skila aftur orðum þeirra, sem látnir eru, og má því gera ráð fyrir, að skráin sýni aðeins þá, sem vomu á lífi eða svo nýlátnir, að ekki var búið að skila heiðursmerkjum þeirra. Við talninguna fékk ég út 414 innlenda orðumenn, þar af 376 karla, en 38 konur aðeins. Á skránni ber langmest á embættismönnum og öðrum opinberum starfsmönnum, þáverandi og fyrrverandi. Af 376 körlum eru í þeim flokki manna 143. En þar með eru taldir fáeinir íslenzkir ræðismenn búsettir utanlands. Næst koma forstjórar fyrirtækja, stórkaupmenn og smásalar, samtals 40, þá bændur 24 að tölu, skipstjórar eru 19, en aðeins 1 ber titilinn sjómaður. Rithöfundar, skáld og listamenn eru 19, hreppstjórar 16, útgerðarmenn 13, bankastjórar þáv. og fyrrv. 12 og smiðir og rafvirkjar líka 12, alþm. og fyrrv. alþm. 11, háskólagengnir menn, sem ekki eru í opinberri þjónustu, 10, starfsmenn bæjarfyrirtækja eru 8, söngvarar, söngstjórar og hljóðfæraleikarar líka 8, en forsetar ýmissa félaga 6. Eru þá ótaldir 35 karlar úr ýmsum stéttum og starfsgreinum. Af þeim 38 innlendu konum, sem voru orðuhafar í októberlok 1964, voru 9 ráðherrafrúr og sendiherrafrúr, þáv. og fyrrv., 7 ríkisstarfsmenn, 6 ekkjur embættismanna. Á skránni er 1 kona, sem lengi var formaður í verkalýðsfélagi, og þar eru 2 húsfreyjur í sveitum.

Ég þekki nokkuð margt af því innlenda fólki, sem er á skránni, meira og minna. Þar á meðal eru margir mannkostamenn, sem hafa unnið þjóðinni gagn og eru virðingarverðir. En þegar litið er á hópinn í heild, er ekki hægt að segja, að þar séu þeir saman komnir, sem hafa öðrum fremur eflt hag og heiður fósturjarðarinnar, sem þó hefði átt að vera samkv. forsetabréfinu frá 1944.

Það er mjög eftirtektarvert, að af þeim 414 mönnum innlendum, sem höfðu fálkaorðuna fyrir 2 árum, voru aðeins 38 konur eða því sem næst 1 af hverjum 10 orðuhöfum. Alkunnugt er, að konur vinna mjög þýðingarmikil störf í þjóðfélaginu. M.a. má nefna mikil fórnarstörf þeirra á ýmsum sviðum. Við þekkjum t.d. margar konur, sem eiga fjölda af börnum og verja öllum kröftum sínum til að annast þau og heimilin. Þær uppfylla þarfir barnanna, meðan þau eru að öllu ósjálfbjarga. Þær halda í hendur þeirra, þegar þau stíga fyrstu skrefin, þær sauma og prjóna föt handa þeim og gefa þeim mat að borða. Þær kenna þeim bænir og vers, svæfa þau á kvöldin, signa þau og breiða ofan á þau. Þær rísa fyrstar heimilismanna úr rekkju á morgnana og ganga síðast til hvílu á kvöldin. Þeir, sem stjórnað hafa orðuveitingunum, þjóðhöfðingjarnir og orðunefndarmenn, segja, að margir aðrir menn séu þessum konum fremri í því að efla hag og heiður fósturjarðarinnar. Ég segi, að dómur þeirra sé rangur, og það, að konurnar eru svo mjög sniðgengnar við veitingu fálkaorðunnar, hefur ekki sízt orðið mér hvöt til að flytja till., sem hér liggur fyrir.

Nokkurn kostnað hefur ríkið af orðuframleiðslunni, því að menn fá þær ókeypis. Er að því vikið í grg. með till., að með afnámi orðunnar mætti spara nokkur útgjöld. Að vísu skal viðurkennt, að þetta er lítill hluti af ríkisútgjöldunum, og ef til vill segir hæstv. fjmrh., að þess gæti lítið í svo mikilli mjólk. En það er svo um þann hæstv. ráðh. og ýmsa fylgismenn hans, að þeir eru búnir að klæða sig úr sparnaðarbuxunum, sem þeir gengu í fyrir nokkrum árum.

Ég er ekki svo mikill þjóðnýtingarmaður, sem það er kallað, að ég sjái nokkra ástæðu til þess, að ríkið reki framleiðslu á fálkaorðum, og mér finnst óviðfelldið og jafnvel óviðeigandi að láta sjálfan þjóðhöfðingjann, herra forsetann á Bessastöðum, vera afgreiðslumann í þessari ríkisverksmiðju. Ríkið á að mínu áliti að leggja niður krossaverksmiðjuna, þar getur hið frjálsa framtak einstaklinganna komið til sögunnar og notið sín fullkomlega. Ef mig skyldi langa til að eignast skrautmun til að hengja á mig, vildi ég miklu heldur kaupa hann sjálfur en að láta ríkið gefa mér hann. Ef einkaframtakið kemur hér í stað ríkisrekstrar, yrði valfrelsi manna líka miklu meira en nú er. Hér eru til hugmyndaríkir og dverghagir gull- og silfursmiðir og þeir geta framleitt ýmsar gerðir af skrautmunum, en í framleiðslu ríkisverksmiðjunnar vantar fjölbreytnina.

Fyrir Alþingi mun nú liggja frv. um að leggja niður eina ríkisstofnun, Viðtækjaverzlun ríkisins. Ég tel sízt minni ástæðu til að leggja niður krossaverksmiðju ríkisins. Hún hefur alltaf verið fjárhagsleg byrði á ríkinu, en aldrei gefið svo mikið sem einseyring í tekjur. Hér á hinu háa Alþingi eru margir menn, sem telja sig andvíga svonefndri þjóðnýtingu eða ríkisrekstri. Hér gefst þeim tækifæri til að votta þeirri stefnu sinni hollustu í verki með því að greiða atkv. með till. minni um að leggja niður krossaverksmiðjuna. En ef svo skyldi fara, mót von minni, að meiri hl. hv. alþm. séu svo harðir ríkisrekstrarmenn, að þeir megi ekki heyra annað nefnt en að ríkið haldi áfram að framleiða þá skrautmuni, sem fálkaorður nefnast, og vilji láta úthluta, þeim með sama hætti og gert hefur verið, vil ég þenda á að óhjákvæmilegt er að gefa út nýtt forsetabréf um orðuna nú þegar, en fella gamla bréfið úr gildi. Í því nýja bréfi ætti ekki að nefna heiður og hag fósturjarðarinnar, en þar ættu að vera fyrirmæli um, að orðuna skuli einkum veita embættismönnum og þá sérstaklega þeim, sem eru tíðir gestir í veizlum stórhöfðingja innanlands og utan. Þetta er alveg nauðsynlegt, til þess að bréfið verði í einhverju ræmi við framkvæmdina og framkvæmdin í nokkru samræmi við bréfið.

Áður hef ég bent á, að í Stjórnartíðidunum er getið allra þeirra manna, sem fá fálkaorðuna. Í Stjórnartíðindum er líka birt konungsbréfið og forsetabréfið um orðuna, þar sem fram er tekið, að hana beri að veita þeim, sem hafa skarað fram úr öðrum því að efla hag og heiður fósturjarðarinnar. Seinni tíma menn hafa því mátt líta svo á, að í frásögnum Stjórnartíðindanna af orðuhöfum megi sjá það, hverjir hafi verið öðrum fremri í því efni. En þetta er ekki rétt. Með framkvæmd orðuveitinganna og opinberum skýrslum þar um hefur verið skráð villandi saga. Það er ekki sæmandi að alda þannig söguritun áfram. Mál er að hætta slíku og hefði átt að vera búið að því fyrir löngu. Þess vegna þarf að gefa út ný fyrirmæli um orðuveitingarnar, eins og ég áðan sagði, ef menn vilja ekki fallast á till. mína um afnám orðunnar.

Eins og um getur í grg. með till., er þessi orðutízka innflutt hingað frá nágrannaþjóðum okkar og þau ríki munu enn halda uppi þeirri starfsemi að veita heiðursmerki af þessu tagi. En eitt er það ríki, sem ekki veitir neinar slíkar orður. Það eru Bandaríki NorðurAmeríku. Þau munu að vísu veita stríðshetjum sínum heiðursmerki, því að það er víst venja hjá þeim þjóðum, sem hafa her, en aðrir menn í því ríki fá engar orður, og Bandaríkjamenn banna embættismönnum sínu að taka við heiðursmerkjum frá öðrum ríkjum. Í veizlum þjóðhöfðingja og annarra stórmenna eru ambassadorar og sendiherrar margra ríkja skjóttir af orðuglingri, en þar mæta sendiherrar Bandaríkjastjórnar skrautlausir með öllu. Vafalaust eru þeir þó enn mjúkklæddir, eins og segir í Heilagri ritningu, því að menn geta verið þokkalega til fara án þess að vera með orðudót utan sér. Ein Evrópuþjóð mun fylgja sömu reglu og Bandaríkjamenn í þessu efni. Það eru visslendingar. Ég tel, að við Íslendingar ættum að taka Bandaríkin til fyrirmyndar í þessu efni og losa okkur við þennan hégóma.

Herra forseti. Það má víst telja eðlilegt skv. siðvenjum, að till. fái athugun í ., og líklega ætti það að vera allshn. Sþ. Ég vil því leggja til, að þegar forseta þykir henta, verði gert hlé á umr. og till. vísað þangað, og ég vil vænta þess, að till. eigi góðum skilningi að mæta hjá þeirri virðulegu þingnefnd.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, aðeins lesa till., það tekur ekki langan tíma, hún er stutt. Tillgr. er á þessa Ieið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því, að öll ákvæði um hina íslenzku fálkaorðu og orðunefnd verði numin úr gildi. Þó skulu þeir, sem hafa hlotið fálkaorðuna, halda þeim heiðursmerkjum.“

Grg. er líka fáorð, og hún er þannig:

Hér er farið fram á það að fella niður orðuveitingar og spara útgjöldin, sem til þess fara.

Orðan barst frá okkar grönnum, eins og fleira þarflaust tildur. Þeir eru vanir þessu, t.a.m. Danir. Og sagt er, að Rússar sæmi ýmsa svona skrauti. Það er hengt á vildarvini valdhafanna í heiðursskyni.

Þó að sumir þrái krossa, þá munu fleiri mæla, að enginn Íslendingur ætti að dýrka þannig glingur.