14.12.1966
Neðri deild: 30. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að sjónvarpið sé e.t.v. miklu stórbrotnara mál og mikilvægara í augum þjóðarinnar en allur þorri manna hefur gert sér ljóst til skamms tíma. Hins vegar hygg ég, að margir þeir, sem staðið hafa fyrir að berjast fyrir sjónvarpinu, t.d. útvarpsráðsmenn, sem hér eru í húsinu fjórir, hafi skilið þetta fyrir löngu.

Ég skil satt að segja ekki ástæðuna fyrir því, að hv. 3. þm. Vestf. er að æsa sig hér upp og belgja sig út, liggur mér við að segja, út af þessu máli og reyna að aka því þannig til, að hann geti dylgjað með það, að menntmrh., ég eða aðrir hafi ekki áhuga á því að koma sjónvarpinu um landið. Ég held, að það sé sízt af öllu ástæða til þess að gefa slíkt í skyn, og ég tek slíkt ekki alvarlega og vænti þess, að hann meini þetta ekki. Og ég vil segja það um till. hans, að ég tel, að hún sé flutt hér að meira eða minna leyti út í hött, upphæðin 50 millj. Það er tekin slétt og hugguleg tala, sem byggist ekki á neinu. Þetta er alveg út í bláinn. Till. sú, sem menntmrh. féllst á að setja inn í frv. í Ed., er byggð á því, sem við vitum, áætlunum um lánsfjárþörf til þeirra framkvæmda, sem ákveðnar eru fyrir árin 1967, 1968 og fram á árið 1969. Og allur framgangur sjónvarpsins hefur kennt okkur, að þetta er nýjung, sem við höfum ekki fengizt við áður, og við lærum meðferð þess bókstaflega frá mánuði til mánaðar. Þess vegna er alls ekki skynsamlegt að reyna að negla svona hluti niður allt of langt fram í tímann, heldur er hitt aðalatriðið, hvort menn trúa því, að það sé vilji til þess að breiða þetta út eins ört og nokkrir möguleikar eru á eða ekki.

Ég vil taka það fram til skýringar, — aðeins leiðrétta örfáar af þeim fjölmörgu villum, sem voru í ræðu hv. þm., — ég vil aðeins taka fram til skýringar, að verkfræðingur sjónvarpsins hefur aðeins með útsendinguna hérna í Reykjavík að gera, það sem henni viðkemur, hann hefur ekki með dreifikerfið að gera. Dreifikerfið er eingöngu í höndum landssímans, uppbygging þess og rekstur. Það var það, sem hann sagði, þegar hann var spurður, hann sagði: Ég get ekki svarað þessu, af því að ég hef ekki með það að gera, og landssíminn á að svara því. — Ég tel, að það sé alls ekki rétt að draga þá ályktun af þessu samtali í n. í morgun, að framkvæmdastjóri og verkfræðingur sjónvarpsins sjái ekkert því til fyrirstöðu að byggja allt sjónvarpskerfið á 3 árum. Ég held, að það sé alls ekki rétt. Ég hef hins vegar í dag eins og oft áður talað við verkfræðinga landssímans um þessi mál, og þeir hafa ítrekað það, sem ég sagði í n., í morgun, hv. þm. hefur annaðhvort ekki heyrt eða ekki viljað heyra, að 5 ára áætlunin hafi verið talin þannig, að það væri teflt á tæpasta vað og það mundi kosta mjög mikinn aukakostnað að pína framkvæmdir það hratt, og sjónvarpsnefndin og verkfræðingar landssímans, sem unnu með henni, hafi talið, að 7 ára áætlunin væri raunhæf. Þeir ítrekuðu það við mig síðast í dag, þegar ég spurði þá: Hvað haldið þið, að væri hægt að gera þetta fljótt, ef stæði ekki á neinum peningum? Og þá komu þeir aftur að því, að 7 ára áætlunina höfum við gert og við teljum, að hún sé raunhæf og henni væri hægt að fylgja, ef allar aðstæður væru réttar. Það er því ekki af því, að ég sé allt í einu orðinn á móti sjónvarpi, að ég sé farinn að gerast einhver dragbítur, að ég bendi á þetta, heldur vil ég endurtaka það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að mér finnst áhugi manna svo mikill á að hraða þessu, og ég skil hann vel og met hann, að mér finnst mér beri skylda til þess að vara við því, að það er hætta á því, að menn skapi sjálfum sér eða öðrum tálvonir. Ég tel, að það mundi skaða sjónvarpið og okkur alla, ef við færum að vekja vonir manna um, að það sé raunverulega hægt að gera þetta á 2–3 árum, þegar það er ekki hægt. Og hann spurði: Hvaða tæknilegir örðugleikar eru á þessu? Ég tók það fram, að það, sem tekur lengstan tíma og mesta vinnu og kostnað í undirbúningi, eru mælingar. Í núverandi áætlun eru stöðvarnar settar niður bara eftir lauslegri athugun verkfræðinga eftir kortum. Áður en stöðvarnar eru endanlega ákveðnar, pantaðar, þá verður að fara með tæki á staðinn og um allt nágrennið og gera mjög nákvæmar mælingar, sem taka langan tíma. Ég skal nefna honum dæmi þessu til sanninda. Hann spurði sjálfur í morgun um Stykkishólmsstöðina, af hverju hún væri þarna niðri í bæ, ekki uppi á einhverri hárri hæð. Ég leitaði mér upplýsinga um þetta. Þá kom í ljós, að þeir telja, að það þurfi svo miklar mælingar í kringum Stykkishólmsstöðina, áður en það er hægt að ákveða henni stað, koma henni fyrir, að þess vegna er ekki hægt að koma stöðinni upp eða hafa hana tilbúna fyrr en sennilega í byrjun árs 1969. Þó að stöðin lægi hér á hafnarbakkanum í dag, þá verður hún ekki komin upp fyrr en eftir nokkrar vikur. Það hefur komið til greina að finna annan stað, m.a. vegna sendingarinnar vestur. Það þarf að gera reynslusendingar og athuga, hvort hægt er að komast af án fleiri millistöðva. Þeim hefur dottið ýmislegt þannig í hug, dottið í hug sjálfvirk stöð uppi á Snæfellsnesfjallgarði, sem gæti greitt fyrir þessu sambandi öllu saman. Þetta er allt óleyst mál, og verkfræðingarnir lofa því ekki að hafa þessar stöðvar til, fyrr en þeir hafa fengið að gera þessar athuganir og mælingar. Það er því alls ekki út í bláinn sagt, að það þurfi undirbúning, og það er annað en að panta eitthvert góss og fá það í pakka og halda, að svo hafi maður sjónvarp.

Ég vil endurtaka það, að ég á ekki von á því, að peningahliðin muni draga úr hraðanum á þessum framkvæmdum, heldur hitt, að við verðum að þreifa okkur áfram bókstaflega hlekk fyrir hlekk. Sjónvarpsgeislinn er einu sinni þannig, að það er ekki hægt að segja fyrir fram, hvernig hann hegðar sér í ólíku landslagi.

Út af fjárhagshliðinni og því, hvar við ætlum að fá þessar 180 millj. kr., sem í þetta fara, þá tala þeir um það, að Íslendingar eigi eftir að kaupa 9 þús. sjónvarpstæki og af því fáist tekjur, 70 millj. Ég tel, að þessi áætlun sé ekki rétt. Ég játa það, að í sjónvarpsskýrslunni eru allar tölur um það, hvað við búumst við að verði mörg tæki flutt inn, mjög lágar, af því að menn voru fyrir 2–3 árum hræddir við háar tölur og þekktu það ekki. En athugið, að það eru komin 14 þús. tæki í suðvesturhorn landsins. Ég held, að það séu um 30 þús. heimili á þessu sama svæði. Eigum við ekki að reikna með því, að meira en annað hvert heimili geti eignazt sjónvarp? Haldið þið, að það verði ekki eitt einasta sjónvarpstæki keypt á öllu þessu svæði á komandi árum? Jú, svo sannarlega. Mér kæmi ekki á óvart, þótt næstu 5–6 árin verði keypt önnur 8–9 þús. tæki á þessu svæði til viðbótar við þau, sem verða keypt út á landsbyggðina. Og talan 9 þús. úti um landsbyggðina er á sama hátt íhaldssöm. Núna getur maður verið djarfari í þessu, af því að við höfum þegar reynsluna. Við erum búin að sjá, hvað fólkið sækist eftir þessu og kaupir þetta ört, en þegar við gerðum áætlanirnar um þetta, vissum við ekkert um það, það voru 500–600 tæki í landinu.

Þá vil ég taka það fram, að sú skipan, sem ráðh. hefur ákveðið nú, að aðflutningstekjurnar eigi að fara í uppbygginguna á dreifikerfinu, en auglýsingatekjur og afnotagjald eigi að fara í reksturinn, hún mun væntanlega gilda í næstu 2–3 ár, en það er alls ekki víst, að hún gildi miklu lengur. Og það má ganga út frá því vísu, að þessi regla breytist, vegna þess að þegar fjöldi notenda verður miklu meiri og þegar reksturinn er kominn í góðan gang, þá má reikna með því, að auglýsingatekjur verði miklu voldugri stofn en við höfum nokkurn tíma þorað að setja á pappír og þá verði rekstrartekjurnar það miklar. Hins vegar er þetta allt við það miðað, að við komum upp á fyrstu tveim árunum eða svo því „útsendingarapparati“, sem á að duga okkur í allmörg ár. Við getum ekki byrjað sjónvarpssendingar á kortéri og farið svo upp í hálftíma, svo upp í þrjú kortér. Við verðum að byrja á einhverju, hvort sem það verða 2 dagar eða 4, 5 eða 6. Þess vegna mun rekstrarkostnaðurinn ekki aukast eftir sams konar „kúrfu“ og tekjurnar hljóta að aukast.

Loks vil ég minna á það, að íslenzk stjórnvöld hafa fengið sjónvarpinu þrjá tekjustofna: í fyrsta lagi aðflutningsgjöldin af tækjunum, sem er mjög rausnarlegt, að láta nýja stofnun fá slíkan stofn, og svo afnotagjöldin og loks auglýsingatekjurnar. Sömu stjórnarvöld, sem hafa með að gera dreifingu sjónvarpsins um landið, taka ákvarðanir um þessa tekjustofna. Hvað höfum við aðflutningsgjöldin af sjónvarpstækjunum mikil? Hvað höfum við afnotagjöldin há? Hvað höfum við auglýsingarnar dýrar? Með því að ráða tekjustofnunum, það eru auðvitað takmörk fyrir því, hvað þessir stofnar þola, eins og allir, — en með því að ráða þessu eiga stjórnvöld að geta séð til þessi að það komi þarna inn þær tekjur, sem þarf til þess að greiða fyrir þessu kerfl. Og, einmitt á þennan hátt er dæmið sett upp nákvæmlega tölulega alveg á enda í sjónvarpsskýrslunni, og það má sjá þar, hvernig þetta fléttast saman, þó að allar tölur, sem þar eru, séu nú tveggja og hálfs árs gamlar og að ýmsu leyti úreltar. En sjálf uppbyggingin á þessu, hugmyndin er sú sama og þar var, og ég held, að hún geti staðizt. Ég vil því enda á því, að ég tel, að Alþingi geti treyst því, að þeir, sem með þessi mál hafa að gera í ríkisstj. og annars staðar, hafa fullan hug á því að koma sjónvarpinu um landið eins fljótt og framast er hægt, en það er ástæða til þess að vara menn við því að gera sér óraunhæfar vonir.