14.12.1966
Neðri deild: 30. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. — Hv. 3. þm. Vestf. segist skilja takmarkað af því, sem sagt er í sambandi við sjónvarpið, og eitt af því, sem hann ekki skildi, var afstaða mín til þeirrar tillögu, sem hann ásamt öðrum hv. þm. hefur hér flutt. Ég vil í þessu sambandi reyna að gera honum grein fyrir, af hverju þessi er mín afstaða.

Ég sagði áðan í minni fyrri ræðu, og ég held, að það liggi ljóst fyrir öllum þm., að heildaráætlun um allt dreifikerfi landsins er miklu hærri upphæð en 25 eða 50 millj. Aftur fyrsti áfangi, sem á að standa undir aðalstöðvunum, ríkisstj. þarf heimild fyrir 25 millj. kr. lántöku í því sambandi. Ég segi því, að annaðhvort er að samþykkja það, sem þar er um að ræða, í 4. gr., þessar 25 millj. eða samþykkja lántökuheimild fyrir öllum áætluðum kostnaði við heildarkerfið. Það má um það deila, hvort það á að gerast núna á þessu þingi eða hvort það á að gera síðar að samþykkja lántökuheimild handa ríkisstj. fyrir öllu heildarplaninu. En ég segi: Annaðhvort er að gera það eða samþykkja heimildina fyrir þeim áfanga, sem vitað er að er undirstaðan undir hinum smærri stöðvum, og það, sem hægt verður að framkvæma, að við vonum, á næsta ári. Ég sagði þess vegna, og það er ástæðan fyrir, að ég sagði, að 50 millj. eru þarna engin úrlausnartala. Talan er allt of lág til þess að byggja upp allt kerfið. En hún er óþarflega há til að byggja upp aðalstöðvarnar, sem áætlað er að kosti ekki nema 25 millj., þannig að ég tel, eins og ég sagði áðan, till. að því leyti gjörsamlega óþarfa og engum tilgangi þjóna nema aðeins hreinni sýndarmennsku. Annaðhvort er fyrir Alþ. að stíga skrefið fullt og samþykkja lántökuheimild handa ríkisstj. fyrir allri upphæðinni, sem er 100–130 millj., eftir því sem hægt er að gera sér grein fyrir nú, eða binda sig við það, sem við vitum að þarf að greiða á næsta ári. Þetta var ástæðan fyrir því, að ég sagði þetta um þá till., sem hv. 3. þm. Vestf. ásamt öðrum hefur lagt hér fram. Ég sagði það líka, að ég efaðist ekkert um það, að komandi ríkisstj. mundi verða af Alþingi veitt heimild til lántöku fyrir því fé, sem þarf til uppbyggingar kerfisins á hverjum tíma, hvort sem það verður gert í einu lagi eða eftir áætlun, sem þá kann að liggja fyrir á síðara stigi. Ég endurtek, að bæði áhugi almennings í landinu og áhugi þm. á uppbyggingu sjónvarpskerfisins er svo mikill, að það er engin ástæða til að ætla annað en ríkisstj. fái á hverjum tíma heimild til nægjanlegrar lántöku fyrir uppbyggingu kerfisins, eftir því sem þörf krefur.