24.02.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (2451)

55. mál, skólaskip og þjálfun sjómannsefna

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Við höfum hér nokkrir þm. leyft okkur að flytja till. til þál., sem fjallar um skólaskip og þjálfun sjómannsefna. Till. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að vinna að því í samráði við sérfróða menn, að tekin verði upp skipuleg þjálfun sjómannsefna, m.a. með rekstri hentugs skólaskips, eins eða fleiri, eftir því sem tiltækt þætti.“

Þess er að geta, að sjómennska er ein mikilvægasta undirstöðugrein íslenzks þjóðarbúskapar, og má segja, að hún sé ein af líftaugum þjóðarinnar. Og hér gildir hið fornkveðna, sem Rómverjar höfðu um orð, „að sigling sé nauðsyn“. Það má ekki henda, að ekki verði nægilegt framboð af vöskum mönnum, sem vilja gefa sig að sjómennsku. Fari svo, er meira en lítil ástæða til að óttast um tilveru þjóðernis okkar og fullveldis. Ég held, að þjóðin fái ekki staðizt, án þess að hún eigi yfir að ráða nægilega fjölmennri innlendri sjómannastétt. Það er nauðsyn og raunar lífsnauðsyn, að sjómannastéttin sé fjölmenn og einnig vel mennt. Það er nauðsyn að búa þannig um hnútana af þjóðfélagsins hálfu, að ungir menn sækist eftir því að gera sjómennsku að ævistarfi. Það verður því að launa sjómönnum vel störf þeirra og gera aðbúnað þeirra sem beztan. En hitt er einnig nauðsyn, eins og till. þessi gerir ráð fyrir, að tekin verði upp skipuleg þjálfun sjómannsefna, m.a. með rekstri sérstaks skólaskips, eins eða fleiri. Eins og þróunin er í þjóðfélaginu nú, er sú hætta fyrir hendi, að framboð á sjómönnum og sjómannsefnum verði ekki nægilegt. Það, sem ég óttast sérstaklega í þessu sambandi, er sú staðreynd, að það unga fólk, sem nú er að vaxa upp í bæjum og borg, sé á ýmsan hátt viðskila við þennan frumþátt atvinnulífsins. Það þekkir sjómennsku lítið sem ekkert af eigin reynd, né heldur af beinni snertingu innan síns umhverfis, svo að sjómennskan verður því næsta fjarlæg, og má segja, að það sé tæpast eðlilegt, að það gerist sjómenn, enda ólíku saman að jafna og þegar um er að ræða börn eða unglinga, sem alast upp við sjómennsku og við sjó alveg frá blautu barnsbeini. Unglingur í sjávarþorpi, sem daglega hefur fyrir augunum sjó og skip og sjómenn og sjóvinnu, er með allt öðrum hætti búinn undir það að verða sjómaður en. sá unglingur, sem elst upp utan slíks umhverfis og án veruleikatengsla við þessa atvinnugrein. Það er ekki endalaust hægt að treysta á, að sveitirnar og sjávarþorpin leggi fram lið til íslenzku sjómannastéttarinnar. Það er nauðsyn að vekja áhuga sem allra flestra unglinga á sjómennsku, og þá þarf ekki síður að ná til unga fólksins í hinum ört vaxandi bæjum og hér í borginni.

till., sem hér er til umr., miðar að því, að tekin verði upp skipuleg þjálfun sjómannsefna í miklu ríkara mæli en hingað til. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar í þessa átt, bæði í Reykjavík og víðar á landinu, en þær hafa verið framkvæmdar við ófullkomnar aðstæður, og þó hafa þær gefið góða raun. Nú er nauðsyn að stíga stærri skref og koma á fastri sjómannsþjálfun. Sjómannsstörf eru margþætt og sum ærið vandasöm. Ýmislegt af því, sem að sjómennsku lýtur, má læra í landi, en mikilvægast í sambandi við sjómannsþjálfunina hlýtur það að vera, að tiltækt sé hentugt skálaskip, sem búið sé þeim vélum og tækjum og öðrum búnaði, sem almennt tíðkast á skipum. Slík skip eru nú auðfáanleg, hvort heldur til kaups eða leigu. Það er skoðun okkar flm., að með starfrækslu slíks skólaskips og jafnframt sjóvinnukennslu í landi sé gerlegt að vekja áhuga fjölmargra unglinga, sem ella kæmust aldrei í beina snertingu við sjómennsku og mundu því aldrei gera hana að ævistarfi. Hér yrði því um mikið þjóðnytjastarf að ræða, sem fljótt skilaði beinum arði.

Í sambandi við þeta mál þykir mér rétt að geta þess, að þó að ég hafi lagt höfuðáherzlu á nauðsyn skipulegrar þjálfunar sjómannsefna eða unglinga, sem vildu leggja sjómennsku fyrir sig, ber einnig að minnast á þá nauðsyn, að stýrimannaskólinn fái sitt skólaskip til afnota vegna þjálfunar og menntunar skipstjórnarmanna. Á grundvelli þeirrar till., sem hér er til umr., er að sjálfsögðu kostur að taka það mál upp, enda gert ráð fyrir því í till., að hæstv. ríkisstj. vinni að framkvæmd málsins í samráði við sérfróða menn. Við tillögumenn teljum okkur hvorki bæra né heldur færa um að segja fyrir um skipulag þessara mála í smáatriðum, þar verður að kalla til sérfróða menn. En með till. þessari höfum við viljað vekja athygli á nauðsyn þess, að tekin verði upp skipuleg þjálfun sjómannsefna og hafinn rekstur skólaskips, eins eða fleiri í einu eða öðru formi, eftir því sem kunnáttumönnum teldist heppilegast og mest aðkallandi.

Ég vil leggja til, herra forseti, að umr. um þetta mál verði nú frestað og málinu vísað til hv. allshn.