08.03.1967
Sameinað þing: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (2470)

71. mál, skipan heilbrigðismála

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er ekki nema gott eitt til þess að vita, þegar þm. vilja bera fram till. til úrbóta á sviði mikilvægra mála, eins og heilbrigðismálin að sjálfsögðu eru. Það örlaði ekki mikið á slíkum till, frá flm. þeirrar þáltill., sem hér er til umr. Ég ætla ekki að elta ólar við allar hinar staðlausu staðhæfingar þessa hv. þm. og sleggjudóma um heilbrigðismálin. Ég hef heyrt það sagt, að flokkur hans treysti sér ekki til að bjóða hann fram áfram í næstu þingkosningum í vor, og þessi ræða verður ásamt ýmsu öðru, sem hann hefur hreytt úr sér á sviði heilbrigðismála annarra, viðeigandi og virðulegur svanasöngur hans hér í þinginu.

Að sjálfsögðu má margt betur fara og ýmissa umbóta þörf á sviði heilbrigðismála, og ég skal víkja að því. En ég fullyrði, að það er dæmalaust að hlusta á lækni hér í þinginu tala um, að hér sé allt saman í óstjórn og upplausn, miðað við það, sem á sviði þessara mála hefur verið gert á undanförnum árum og ég skal víkja að. Það er rétt, að mannafli er ekki mikill í yfirstjórn heilbrigðismálanna. Það má segja, að í dómsmrn. séu það þrír menn, þar sem er ráðh., ráðuneytisstjóri og deildarstjóri í heilbrigðismálum, sem þar hvílir mest á. Í landlæknisembættinu, en landlæknir á samkv. lögum að vera ráðunautur ráðh., er landlæknir sjálfur og hálfur læknir í viðbót, þ.e. skólayfirlæknir, sem að nokkru leyti starfar hjá landlækni, fyrir utan eitthvert skrifstofufólk. Það hefur líka verið að vefjast fyrir mér nauðsyn þess að breyta skipan þessara mála, og mundi sú breyting að sjálfsögðu fyrst og fremst miða að því að fá miklu meiri mannafla til þess að stjórna þessum mikilvægu málum heldur en fram að þessu hefur verið.

Ég hef sjálfur sett fram hugmyndir um, að það væri ástæða til að setja upp sérstakt heilbrmrn. Ég gerði það í Læknablaðinu, og þá vakti m.a. fyrir mér, að það yrðu fleiri menn en áður og meiri mannafli til að stjórna þessum málum. En málið er alls ekki eins einfalt og menn skyldu halda, og við nánari umhugsun þessara mála hef ég komizt að raun um, að margt fleira komi til athugunar en það eitt, að það héti svo, að hér væri sérstakt heilbrmrn. Þar undir mundi í öðru lagi koma, að landlæknisembættið væri stórum eflt sem sjálfstæð stofnun, að vísu undir heilbrmrh. eða yfirstjórn ríkisstj. Í þriðja lagi kæmi til álita sameining heilbr- og félmrn. með tveimur sameinuðum sterkum stofnunum, landlæknisembætti og Tryggingastofnun með endurskoðuðu fyrirkomulagi sjúkratrygginga sérstaklega. Við þau kynni, sem ég hef haft af stjórn þessara mála, er það skoðun mín, áð á því sviði sé nauðsyn sterkrar embættismannastjórnar, sem yrði, eins og ég sagði áðan, að vísu undir yfirstjórn ríkisstjórnar á hverjum tíma.

Það er mikill misskilningur, sem komið hefur fram á opinberum vettvangi, jafnvel frá læknum, að það sé einsdæmi hér á landi, að það sé ekkert heilbrmrn. til. Sannleikurinn er sá, að allar frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa skipað þessum málum með sérstakri yfirstjórn ákveðinna stofnana, sem hafa svo og svo mikla sjálfstjórn út af fyrir sig, þó að þær endanlega heyri eins og ýmsar stofnanir hjá okkur undir yfirstjórn ríkisstjórnar. Í Noregi og Svíþjóð heyra þessi mái undir félmrn., en í Noregi er hið svokallaða Helsedirektorat, sem er mjög sjálfstætt í sínum störfum, og í Svíþjóð Kungliga medicinalstyrelsen. Í Danmörku er Sundhedsstyrelsen, sem er mjög sjálfstæð stofnun, en heyrir endanlega undir innanríkisráðuneytið. Í Finnlandi er Medisinalstyrelsen, sem heyrir einnig undir innanríkisráðuneytið í því landi. Það, að ég hef hneigzt meira að þeirri hugmynd, að hér væri e.t.v. skynsamlegra að hafa nokkuð sterka embættismannastjórn eða sterka stofnun með töluverða sjálfstjórn, er af því, hversu þessi mál eru flókin og erfitt fyrir ráðh., sem koma inn í ríkisstj. og eru þar oft skamman tíma, að henda reiður á öllu því völundarhúsi, enda sannaðist það bezt á síðustu ræðu hv. flm. að þessari till., að lítið skildi hann í þessum málum, svo sem mun koma fram síðar í mínu máli.

Ég get ekki með nokkru móti fallizt á staðhæfingar og sleggjudóma flm. þessarar till., sem fram koma á þskj. 83, og ég skal nokkuð víkja að þeim. Þó að ég nenni ekki að elta ólar við allar staðhæfingarnar og rangfærslurnar í ræðu hv. þm., þá skal ég víkja nokkuð að því, sem fram kemur í grg., auk þess sem ég hygg, að leiða megi sitthvað um það efni af því, sem ég hyggst koma að síðar almennt í ræðu minni.

Hv. 9. þm. Reykv. vill fela ríkisstj. að láta rannsaka frá grunni meðferð heilbrigðismála í landinu. Hann segir, að að baki liggi sannfæring um það, að skipan þeirra mála sé orðin úrelt, gegni því ekki hlutverki sínu lengur, en slíkt sé þjóðinni að sjálfsögðu mikil skaðsemd. Hann telur, að stjórn heilbrigðismála hérlendis sé í molum, heildarstjórnin svo til engin í reynd og afleiðingin verði bein afturför, segir hv. þm. Hann segir enn fremur í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Yfirstjórn heilbrigðismála hér á landi er fortíðarfyrirbæri, og þó er sönnu nær að segja, að heildarstjórnin sé engin til lengur, því að þessi mál eru öll í tætingi.“ Hann hefur nú aldrei komið, þessi virðulegi þm., til að reyna að kynna sér neitt um stjórn þessara mála í rn., svo að mér sé vitanlegt. Hann hefði getað lært ýmislegt af því. „Í stjórnarráði finnst ekki neitt rn. heilbrigðismála, heldur er þeim málum holað þar niður á víð og dreif. Flest munu þau niður komin í skrifborðsskúffum dóms- og kirkjumrn., en fjölmörg þeirra rekur einnig á fjörur félmrn. Í rn. menntamála mun einnig liggja slæðingur þessara málefna. Það er nú ekki ótrúlegt, að nokkur hluti þessara mála sé í félmrn., þegar tryggingamálin heyra undir félmrh. og þar á meðal allar sjúkratryggingar í landinu, og hvernig mætti annað vera en einhver slæðingur væri í menntmrn., þegar menntmrn. ræður yfir Háskóla Íslands, þar sem sjálf læknadeildin er, skipun allra prófessora og yfirstjórn kennslumála í læknisfræði í landinu. Furðar menn á því, þó að einhver slæðingur í þessum málum sé á þessum vettvangi?

Ég skal í framhaldi af þessu víkja að ýmsum þáttum í stjórnsýslunni á sviði heilbrigðismála, sem ættu að geta gefið nokkuð til kynna, hvort ekkert hafi verið aðhafzt á sviði þessara mála, hvort þau séu öll í tætingi og fortíðarfyrirbrigði.

Nýlega hefur verið gefin út reglugerð um ríkislán til læknastúdenta, — ríkislán til þess að stuðla að því, að þeir fáist út í hinar dreifðu byggðir til þess að þjóna þar fólki, sem hefur átt við mjög erfið kjör að búa að þessu leyti. Reglugerðin var gefin út 1. marz 1966 og breytt 8. des. 1966. Í marz 1966 voru veitt lán 4 stúdentum í þessu skyni, hvert á 75 þús. kr. Í febr. 1967 voru veitt lán 7 stúdentum, hvert á 75 þús. kr., og þar af fengu 2 stúdentar lán í annað sinn. Það hefur með reglugerð frá 19. apríl 1966 verið stofnaður bifreiðalánasjóður héraðslækna, einnig í þeim tilgangi að fá lækna fremur en ella út í héruðin til þess að gegna þar læknisþjónustu í dreifbýlinu. Fjárveiting hefur verið til þess í fjárlögum 1966 500 þús. kr. og síðari fjárveiting í fjárl. 1967 500 þús. kr. Lán voru veitt á árinu 1966 til þriggja lækna, sem voru að hefja störf í héraði, 100 þús. kr. til hvers, lánstími 3 ár.

Læknaskipunarlaganefnd, sem undirbjó hina nýju löggjöf um læknaskipun hér á landi, gerði ályktunartill. um nám læknanema í læknastörfum utan sjúkrahúsa. Rn. sendi till. til menntmrn., sem framsendi hana læknadeild háskólans. Rn, ítrekaði þessa till. í júlí 1966, og framsendi menntmrn. læknadeild þá ítrekun. Hér var að því stefnt af heilbrigðismálastjórninni að stuðla að því, að teknar yrðu upp breytingar á læknakennslunni, sem fyrst og fremst miðuðu við það að gera lækna að hæfari héraðslæknum, og það er talið af mörgum fróðum mönnum, sem til þekkja, að nám læknanna, eins og það nú er, þar sem þeir vinna hópvinnu á spítölunum, sé mjög fjarri því að vera til þess fallið að laða þá út í hinar dreifðu byggðir til þess að gegna þar læknisþjónustu. Þetta mál hefur verið rætt af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar við Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur, og Læknafélag Íslands hefur kynnt sér aðstöðu þessara mála, t.d. í Skotlandi, þar sem allt önnur útkoma er á þessum málum en hér, vegna þess, að því er þeir telja, að læknakennslan er með öðrum hætti og miklu stærri prósenta. fæst til almennrar læknaþjónustu í landinu. Það hafa ekki orðið breytingar á kennslu læknanna vegna þessarar till. enn þá, en mér er tjáð, að Jónas Hallgrímsson læknir vinni að endurskoðun á læknanáminu í heild í framhaldi af þessum tilmælum. Það hefur verið kvartað undan, að það sé jafnvel orðið erfitt að fá heimilislækna í höfuðstað landsins. Um þetta gerði læknaskipunarlaganefnd einnig ályktunartill., að læknadeild háskólans yrði falið að semja reglur um nám til sérfræðiviðurkenningar á heimilislæknum og embættislæknum, og á þetta hefur yfirstjórn heilbrigðismálanna lagt mikla áherzlu. Og yfirstjórn heilbrigðismálanna hefur ítrekað ritað læknadeildinni um að fá slíkar reglur samdar, og eru þær í athugun.

Það hefur einnig verið í athugun að tilhlutun heilbrigðisstjórnarinnar, hversu hægt væri í ríkari mæli en verið hefur að hagnýta flugþjónustu til læknisþjónustu úti á landi. Um það hafa átt sér stað viðræður við Björn Pálsson, hinn þekkta flugmann, og einnig við landhelgisþjónustuna, og það mál er í nánari athugun.

Stjórnarnefnd ríkisspítalanna hefur með bréfi, dags. 27. jan. s.l., óskað eftir milligöngu rn. við að fá hingað sérfræðing frá Svíþjóð til þess að kanna eftirtalin atriði í rekstri Landsspítalans: 1) Æskilegar breytingar á rekstri Landsspítalans, m.a. varðandi verkefni hans, svo að hann geti sem bezt gegnt hlutverki sínu sem kennsluspítali, sérdeildasjúkrahús fyrir landið og rannsóknaspítali. 2) Þörf fyrir starfslið í Landsspítala, vinnutími þess og vinnuskipulag í spítalanum. 3) Hlutverk stjórnarnefndar, spítalastjóra og yfirlækna í Landsspítalanum. — Dómsmrn. hefur farið þess á leit við utanrrn., að það aðstoðaði við að fá sérfræðing hingað til lands, og sérstaklega óskað eftir, að hann komi fyrri hluta þessa árs.

Hv. flm, þessarar till, sagði, að það væru dauf eyru heilbrigðisstjórnarinnar við till. og hagsmunamálum lækna. Ég vísa þessum orðum algerlega á bug sem annaðhvort vankunnáttu eða þá bara ósannindum, ef hv. þm. veit ekki betur en þetta. Ég hef gert mér far um að ná tengslum og samvinnu við lækna, bæði Læknafélag Reykjavíkur og Læknafélag Íslands og alveg sérstaklega þá yngri lækna, sem hafa látið að sér kveða á síðari árum, öðlazt mjög góða sérþekkingu erlendis, þó að það sé ekki þar með í því falið, að þeir hafi öðlazt neina sérþekkingu, sem mikils virði sé á sviði stjórnunar þessara mála. Engu að síður hef ég lagt mig fram um það að ná tengslum við þessa lækna, og á grundvelli þess var skipuð hin svo kallaða Þorláksmessunefnd, en ég hafði þá að undanförnu haft samráð við allmarga hinna ungu lækna og skipaði 1965 á Þorláksmessu nefnd til þess að gera till. út af málum ýmsum, sem fram höfðu komið í viðræðum mínum við þessa lækna, til þess að koma á betri stjórnun á spítölunum, bæta aðstöðu læknanna og heilbrigðisþjónustunnar í heild. Í nál. segir svo, að 23. des. 1965 skipaði Jóhann Hafstein heilbrmrh. nefnd til þess að endurskoða skipun og fyrirkomulag læknisþjónustu í Landsspítalanum, sérstaklega með tilliti til þess, að nokkur vandkvæði væru fram komin hjá læknum, sem starfa hjá ríkisspítölunum, og leiða mætti af því, að margir hefðu sagt upp starfi sínu. Tekið er og fram, að rétt væri að hafa í huga, að slík endurskoðun gæti haft viðtækari áhrif í sambandi við rekstur annarra spítala. Þess var vænzt, að n. lyki störfum sem fyrst og léti rn. í té álitsgerð og till. Í þessa n. voru skipaðir Árni Björnsson læknir, sem var tilnefndur af Læknafélagi Íslands og er nú formaður Læknafélags Reykjavíkur, Jón Þorsteinsson læknir, sem tilnefndur var af Læknafélagi Reykjavíkur, Ólafur Bjarnason yfirlæknir, tilnefndur af yfirlæknaráði Landsspítalans og Rannsóknarstofu háskólans, dr. Sigurður Samúelsson yfirlæknir, tilnefndur af yfirlæknaráði Landsspítalans og Rannsóknarstofu háskólans, og Guðjón Hansen tryggingafræðingur, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar.

Fjölmargar till. komu fram í þessu nál. Þorláksmessunefndar, ef ég mætti svo kalla hana. Að vísu voru þær margar til meðferðar þá þegar á vegum heilbrigðisstjórnarinnar og sumar jafnvel komnar til framkvæmda. Engu að síður voru margar þeirra nýmæli, sem síðan hefur verið unnið að, en í nánum tengslum við læknana, og eftir að þessi n. lét af störfum, gerði ég henni kost á því að fylgjast með framkvæmd allra þessara mála á vegum heilbrigðisstjórnarinnar á hverjum tíma, og hef ég átt marga fundi með nm. um framkvæmd þeirra mála, sem þeir bentu á. Um ýmislegt af því, sem fram kom, get ég aðeins nefnt nokkur dæmi, en þau vitna nokkuð um það, hvort á öllum sviðum sé sofið og allt í tætingi. Þeir bentu á nauðsyn þess, að sett yrði nánari reglugerð og ný reglugerð um verkefni stjórnarnefndar ríkisspítalanna. Rn. hefur fyrir löngu falið stjórnarnefndinni að gera till. um slíkar reglur, og í bréfinu, sem ég vitnaði til áðan frá 27. jan., gerir stjórnarnefndin till. um það að fá sérfræðing, sænskan sérfræðing, til þess að gera frumdrög að nýrri skipan þessara mála, og hefur verið orðið við þeirri ósk. Þegar ekki alls fyrir löngu var hérna á ferðinni einn af æðstu mönnum heilbrigðismálastjórnarinnar í Bandaríkjunum, átti ég tal við hann ásamt landlækni, og þá leitaði ég einmitt hófanna og upplýsinga hjá honum um það, hvar líklegt væri, að hægt væri að fá góða menntun í hospital management, þ.e.a.s. stjórnun á spítölum, ef rn. hefði hug á því að leita eftir því við einhverja unga menn að fara utan og afla sér þessarar menntunar og taka við æðstu stjórnun þessara spítala að því loknu. Ég geri ráð fyrir því að fá frá honum till. um þetta á sínum tíma, hvar helzt sé að leita fyrir sér í þessu efni. Ég er ekki þar með að halda því fram, að það sé helzta leiðin að hverfa til Ameríku í þeim efnum. Hins vegar get ég ósköp vel látið þess getið, að þessi yfirmaður heilbrigðismála í Bandaríkjunum sagði mér strax, án þess að ég væri nokkuð að leita eftir því, að ég skyldi alls ekki láta mér detta í hug að fá lækni í þetta, heldur væri það að sínum dómi fyrst og fremst æskilegt að fá í þetta lögfræðing eða viðskiptafræðing með þeirri sérþekkingu, sem hann gæti svo fengið á þessu sviði erlendis. Ég er ekki með þessu að gera neitt lítið úr stjórnunarhæfileikum lækna á þessu sviði. Þetta var skoðun þessa manns.

N. talaði í sínum till. um nauðsyn þess að fá spítalastjóra yfir fyrst og fremst ríkisspítalana, sem gæti svo verið ráðgefandi fyrir spítala sveitarfélaganna sem sérfræðingur á þessu sviði. Þetta var það sama sem við vorum að vinna að og ég nú hef verið að lýsa.

Það var talað mikið í nál. um sérstöðu Landsspítalans sem kennsluspítala, og niðurstöður urðu, að það mál væri þess eðlis, að eðlilegt væri að fá erlenda sérfræðinga til þess að rannsaka slíkt nánar. Það var talað um reglur og verksvið og ábyrgð læknanna. Stjórnarnefndinni var síðan falið af dómsmrn. í samráði við yfirlækna ríkisspítalanna að gera till. um verksvið og ábyrgð lækna ríkisspítalanna. Þeir lögðu mikla áherzlu á það, læknarnir, að fá fastaráð lækna í Landsspítalanum. Það er nú starfandi de fakto. Sjálfur hafði ég sett reglugerð um yfirlæknaráð í júlímánuði 1964, en þeir vildu fá þessa reglugerð útvíkkaða, þannig að í þessu læknaráði væru einnig aðrir en yfirlæknarnir, sérfræðingar spítalanna líka, og lögðu á það mikla áherzlu. Ég spurði, hvort þeir þekktu nokkurs staðar til þess konar fyrirkomulags slíkra mála og hvort þeir vildu senda mér till. sínar um þau efni. Ég hef ekki fengið þær enn þá. En ég tjáði mig þegar reiðubúinn að kanna þau mál. Þá mundi sjálfsagt þurfa breytingar á löggjöf, spítalalöggjöf og á öðru sviði. En það hefur vafizt fyrir þessum ágætu læknum að senda mér þessar till., sem þeir lögðu þó svo mikla áherzlu á að tekið væri upp fastaráð lækna, ekki aðeins yfirlæknanna, heldur sérfræðinganna sjálfra. Ég lét í ljós þá skoðun, að það væri að mínum dómi töluvert öryggi í stjórn heilbrigðismála, að yfirlæknarnir hefðu vissa yfirstjórn mála. Þeir eru annarrar skoðunar, hinir ungu læknar, og um það ætla ég ekki að dæma. En ég sagði strax við þá: Látið þið mig heyra, hvað fyrir ykkur vakir, og þá verður það mál skoðað. — Þeir kvörtuðu undan skorti á vinnuherbergjum, sem var alveg réttmætt, og úr því hefur svo verið reynt að bæta í sambandi við spítalabygginguna, skorti á læknaritum, nauðsyn á dagheimili fyrir börn hjúkrunarkvenna, það er komið í framkvæmd, að hjúkrunarkonurnar á Landsspítalanum hafa dagheimili, þar sem Grænaborg er, og hefur af því orðið mikið gagn, um kennslu fyrir aðstoðarfólk á rannsóknarstofum, það er líka komið í framkvæmd og er deild í tækniskólanum. Námskeið vildu þeir fá fyrir læknaritara, það hefur ekki komið til framkvæmda enn þá, og þeir vildu fá fullkomið læknisfræðilegt bókasafn undir forustu læknadeildar háskólans. Ég álít, að hún ætti fyrst og fremst að hafa forustu um þau mál. Nauðsyn er á að koma reglu og skipan á bókasafn Landsspítalans. Það er unnið að innréttingu húsnæðis þess, og það ætti að vera komið í framkvæmd innan tíðar. Þeir vildu líka, að settar yrðu reglur um utanferðir lækna ríkisspítalanna og greiðslu ferðastyrkja í því sambandi. Vitað er, að læknarnir, sérfræðingarnir, eru komnir á sérstaka kjarasamninga, sem gera ráð fyrir, að þeir greiði slíkan kostnað sjálfir, og hefur ekki þótt ástæða til að athuga þetta atriði frekar. Þeir töluðu um vöntun eftirskoðunar sjúklinga á Landsspítalanum. Húsnæði fyrir slíka starfsemi verður væntanlega tilbúið í vor.

Það er að sjálfsögðu rætt ýmislegt um byggingarframkvæmdir við ríkisspítalana, sem ég skal koma að síðar, en það er nú stefnt að því, að þeim áföngum, sem eru undir höndum í Landsspítalanum, verði lokið á næstu þremur árum, þ.e.a.s. þessu ári, 1967, 1968 og 1969, og eru áætlanir við það miðaðar. Þeir töldu nauðsyn á, heildarstefnu í byggingarmálum heilbrigðisstofnana, og skal ég víkja að því nánar síðar, og nauðsyn á skipulagi landsspítalalóðarinnar, en þetta er nokkuð samtengt. En ég hafði endurskipað byggingarnefnd Landsspítalans á árinu 1965, held ég það hafi verið, og falið henni þá sem höfuðverkefni og fyrsta verkefni að vinna að því að skipuleggja landsspítalalóðina, þannig að það lægi fyrir, hverju er hægt að koma fyrir af skipulagslegum ástæðum á þessari lóð, hver er nauðsynin, í hvaða röð eiga byggingarnar að koma og hvað er áætlað að hver bygging mundi kosta. Þá kom inn í byggingarnefnd fulltrúi frá læknadeildinni, en læknadeildin hafði lengi haft hugmyndir um að byggja læknadeild utan landsspítalalóðarinnar en þá voru komnar hugmyndir um að hafa hana innan lóðarinnar. Að þessu máli hefur verið unnið. Ég hef lagt ríka áherzlu á að reka eftir því, en það er ekki fyrr en nú alveg upp á síðkastið, að það liggur fyrir frá læknadeildinni og frá hinum einstöku læknum sérdeilda á Landsspítalanum, til hvers sé ætlazt á landsspítalalóðinni. En sem betur fer er það mál nú að komast í höfn, og ég geri ráð fyrir því, að alveg næstu daga verði teknar ákvarðanir, sem miða að því að ganga endanlega frá skipulagi þessara lóða, en sjálfur hef ég átt ítrekaða fundi við lækna um þetta mál, við skipulagsyfirvöld Reykjavíkur, því að lóðin er orðin mjög þröng, og það kemur mjög til álita að flytja Hringbrautina, þegar þar að kemur, til þess að ætla Landsspítalanum meira rúm og byggingu læknahúss og rannsóknarstofa heldur en ella væri kostur. Það var haldinn mjög ýtarlegur fundur um þetta síðast í nóv., og gerði ég þá, grein fyrir því í upphafi fundarins, þar sem voru fulltrúar borgarstjóra, fulltrúar lækna spítalans og heilbrigðisstjórnarinnar, landlæknis og bygginganefndar, að verkefni fundarins væri að ræða skipulag landsspítalalóðar, og lagði ég áherzlu á, að skipulag lóðarinnar væri skipulagt sem fyrst og síðan gengið á röð þeirra verkefna, sem fyrir liggja.

Ég vil leyfa mér að gera hv. Alþ. nokkra grein fyrir því, hvernig þessi mál hafa staðið alveg fram til hins síðasta, svo sem kemur fram í bréfi frá húsameistara ríkisins, en embætti hans hefur haft með að gera byggingar á landsspítalalóðinni fram til þessa. Með leyfi hæstv. forseta, segir í þessu bréfi frá því í febr.: „Undanfarið hefur byggingarnefnd Landsspítalans unnið markvisst að því að fá skorið úr um stækkun og framtíðarþarfir stofnunarinnar og hversu mikið til viðbótar mætti byggja á lóðinni innan þess nýtingarhluta, sem borgaryfirvöld hafa ákveðið skv. aðalskipulaginu. Nú í febrúarmánuði liggja fyrir athuganir og niðurstöður allra deilda Landsspítalans, en það er fyrst í febr. s.l., um húsnæðisþörf miðað við 700 rúma sjúkrahús og þjónustuþarfir þess, en núna munu vera um 400 rúm í Landsspítalanum. Enn fremur liggja fyrir áætlanir læknadeildar háskólans um þarfir kennslustofnana, sem æskilegast væri að byggðar yrðu í sem nánustu sambandi við sjúkrahúsið. Er því komið að þáttaskilum í starfi að framtíðarskipulagi og byggingaráætlun á landsspítalalóðinni, þegar loksins er fenginn grundvöllur, sem væntanlega má byggja teiknistörf á. Áður hafði verið gerður lauslegur skipulagsuppdráttur lóðar miðað við nýtingarhlutfall. Skv. honum og eftir að athuganir um húsnæðisþörf bárust má ætla, að fullnægja megi velflestum byggingarþörfum á lóðinni innan þess ramma, sem nýtingarhlutfall og skipulagsákvæði setja. Að sjálfsögðu verður að endurskoða þessar skipulagstillögur, þegar heildarsýn er fengin yfir byggingarþörf, og þá einkum með hliðsjón af afstöðu bygginga hverrar til annarrar.

Er þá komið að því veigamikla atriði, hvernig bezt skuli hagað vinnubrögðum í sambandi við teiknistörf, og að því, sem snýr að embætti húsameistara ríkisins.“ — Hér vil ég skjóta því inn, að það hafa komið fram hugmyndir um það frá læknadeildinni að láta fara fram samkeppni erlendis um það, hvernig bæri að nýta lóðina, en nú er svo komið, að það er mikið til byggt og búið að festa byggingar á þessari lóð, og var því skoðun húsameistara o. fl., að það væri mjög undir hælinn lagt, hvort á slíku stigi málsins væri hægt að efna til erlendrar samkeppni um málið. Til hennar hefði aldrei verið hægt að efna, fyrr en loksins lágu fyrir till. frá læknunum sjálfum, sem hlut áttu að máli, um það, hvað þyrfti að byggja þarna, hver sjúkrahúsþörfin væri. Heilbrigðisstjórnin var ásökuð áðan fyrir það, að hún hefði ekki látið fara fram neina athugun á sjúkrahúsaþörfinni. Hún hefur beðið eftir þessari athugun frá þessum viðkomandi aðilum, sem sannarlega ber skylda til þess að láta í ljós skoðanir sínar á því. Síðan segir húsameistari áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Þær athuganir, sem nú síðast hafa verið gerðar á skipulagi og staðsetningu byggingareininga á lóð Landsspítalans, verði lagðar sem grund völlur undir samstarf við nokkra færustu sérfræðinga í nágrannalöndunum, enda samþykki heilbrmrh., að slíkrar starfsaðstöðu verði leitað. Hef ég í því sambandi spurzt. fyrir um það hjá prófessor Bredsdorf í Kaupmannahöfn, hvort slíkt samstarf kæmi til greina með starfsaðstöðu á teiknistofu hans um nokkurn tíma, en svo sem kunnugt er var hann einn helzti höfundur aðalskipulags Reykjavíkur og gagnkunnugur þeim vandamálum, er varða byggingu Landsspítalans, auk þess sem hann hefur verið til ráðuneytis um sambærileg verkefni viðar um lönd, sem og í sínu heimalandi. Prófessor Bredsdorf hefur, ef til kemur, heitið fyllsta stuðningi sínum í málinu og boðið starfsaðstöðu á teiknistofu sinni, meðan á athugun stæði. Hefur hann boðizt til þess að kalla einnig til samstarfs og ráða hinn danska arkitekt, sem teiknað hefur Rigshospitalet að nýju, svo og arkitekt þann, sem með hefur að gera sjúkrahúsamál danska ríkisins öðrum fremur. Enn fremur kæmi til greina að leita álits sænskra og finnskra arkitekta, sem ég hef aðgang að og fúsir mundu veita leiðbeiningar, en hafa einmitt nú með höndum sams konar verkefni.“

Siðar hefur húsameistari skrifað annað bréf nánar um áform í þessu í marzmánuði, og næstu daga, eftir 2—3 daga hygg ég, verða teknar endanlegar ákvarðanir um þetta í stjórnarnefnd ríkisspítalanna. En af því, sem ég nú hef sagt, er það fyrst nú, sem hægt er í raun og veru að ganga frá og reyna að móta fastar till., þar sem skort hefur upplýsingar frá þeim aðilum, sem hlut eiga að máli, hve þörf þeirra væri mikil á hinum mismunandi sviðum þessara mála, hinum einstöku rannsóknardeildum, hinum einstöku spítaladeildum, hver þörf væri læknadeildarinnar og hvað hún hygðist fyrir.

Mér hefur verið það ljóst, að það hefur verið mikill misbrestur á framkvæmd á lögum um heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir í landinu. Um þetta hef ég oftar en einu sinni átt viðræður við stjórn Læknafélags Íslands og alveg sérstaklega við formann stjórnarinnar, Ólaf Bjarnason, einnig nauðsyn þess, að þegar nú væri komið á það stig, að væri hægt að fastmóta skipulagið um byggingu heilbrigðisstofnana á landsspítalalóðinni, væri ástæða til þess að hafa samráð við læknasamtökin í einhvers konar ráðgefandi nefnd um það, hvernig áframhaldið yrði á spítalabyggingum utan Reykjavíkur. Ég hef ákveðið að skipa n. til þess að endurskoða lög nr. 35 frá 1940, um heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir, og gera till., eftir því sem þurfa þykir, til nýskipunar, sem stuðli að því að tryggja raunhæfa og hagkvæma framkvæmd heilbrigðiseftirlitsins á þessu sviði. Frá samgmrn. hafði ég áður fengið, í janúarmánuði, bréf frá ferðamálaráði, sem taldi mikla nauðsyn á sterkara eftirliti á hótelum landsins, heilbrigðiseftirliti, og mundi það falla inn í þennan ramma. En ferðamálaráðstefna, sem haldin var á Akureyri 1966, beindi þeim eindregnu tilmælum til ríkisstj., að sett verði hið fyrsta samræmd heilbrigðislöggjöf, er gildi fyrir landið í heild, og komið verði á fót raunhæfu heilbrigðiseftirliti alls staðar á landinu. Benedikt Tómasson skólayfirlæknir mun vera formaður þessarar nefndar, Sigurgeir Jónsson bæjarfógeti í Kópavogi einnig í n., Þórhallur Halldórsson framkvstj. heilbrigðiseftirlitsins í Reykjavík og síðan einn héraðslæknir, sem ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um af sérstökum ástæðum. Ég beindi þeim tilmælum til Júlíusar Sigurjónssonar prófessors í heilbrigðisfræðum að taka að sér formennsku n., en hann færðist undan því, en taldi sig reiðubúinn til þess að veita n. alla þá aðstoð, sem hann mætti.

Ég hef hérna fyrir framan mig fjölda fundargerða, sem ritaðar hafa verið upp á þeim fundum, sem ég hef átt við lækna og hafa verið við það miðaðir að ná samstöðu og samvinnu við lækna á sviði heilbrigðismála. Það yrði auðvitað allt of langt mál að rekja, en um það munu þeir bera vitni og geta frætt hv. flm. þessarar tillögu, stjórnarmeðlimir í Læknafélagi Íslands og Læknafélagi Reykjavíkur, að það hefur sannarlega ekki staðið á mér að leita samráðs og samstöðu við lækna og leita ráðlegginga frá þeim á sviði þessara mála. Í desembermánuði skrifaði ég borgarstjóra í framhaldi af fundum, sem höfðu verið á s.l. hausti, um nauðsyn þess að koma á samræmdari starfsemi í sjúkrahúsamálum í Reykjavík, þannig að samvinna skapaðist á milli sjúkrahúsanna, en e.t.v. væri ekki verið að vinna sama verkið eða kaupa sömu áhöldin á tveimur stöðum, sem ástæðulaust væri. Þessu var vel tekið, og að þessu starfa nú landlæknir, Jón Thors fulltrúi í dómsmrn. og borgarlæknir. Þá barst mér bréf frá borgarlækni 10. febr. s.l., sem ég vil leyfa mér að vitna nokkuð í, en það er framsent af landlækni, en þeir höfðu þá átt viðræður um það mál, sem bréfið greinir. Þar segir borgarlæknir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af viðtal við yður, herra landlæknir, um knýjandi þörf fyrir sérfræðilegar athuganir á vissum sviðum heilbrigðismála, vil ég skýra yður frá því, að tækifæri býðst nú til að fá hingað til lands á komandi hausti einn fremsta sérfræðing Svía á sviði almennra heilbrigðismála, dr. Bo Åkerrén. Dr. Åkerrén er nú lénslæknir í stærsta léni Svíþjóðar, Stokkhólmsléni, og jafnframt ritstjóri hins mikilsvirta sérfræðirits um heilbrigðismál, Hygienisk Revy. Hann er kunnur þeim, sem við almenn heilbrigðismál fást, vegna fjölmargra ágætra greina um þessi mál. Auk þess er hann Íslendingum að góðu kunnur vegna, styrkja, sem hann um árabil hefur veitt íslenzkum námsmönnum. Hann hefur og látið í ljós ákveðnar óskir um framtíðarstarf hér á landi. Verkefni, sem dr. Åkerrén gæti veitt okkur aðstoð við að leysa, tel ég m.a. vera þessi: 1) Sóttvarnir með sérstakri hliðsjón af sívaxandi ferðamannastraumi hingað, m.a. frá hitabeltislöndum. 2) Slysavarnir, epidemiologia þeirra og skipulag. 3) Aukið heilbrigðiseftirlit á vegum héraðslækna, e.t.v. með aðstoð heilbrigðisfulltrúa, sem tvö eða fleiri læknishéruð sameinuðust um. 4) Manneldismál, athuganir og aðgerðir. 5) Hugsanlegar breytingar á heilbrigðissamþykktum, m.a. með hliðsjón af æskilegri stækkun umráðasvæða heilbrigðisnefnda og aukinni tíðni langvinnra sjúkdóma.“ Það eru svo borin fram þau tilmæli, hvort heilbrigðisstjórnin vilji bjóða lækninum hingað og kosta dvöl hans hér í 2—3 mánuði að fullu eða e.t.v. að hálfu í samvinnu við Reykjavíkurborg, og borgaryfirvöldin samþykktu þá tilhögun, og ég hef fyrir mitt leyti fallizt á að taka þátt að hálfu leyti á móti Reykjavíkurborg í að bjóða fyrst í stað þessum sérfræðingi til 2—3 mánaða dvalar til fulltingis á sviði þessara mála á hausti komanda.

Mér þykir þá rétt að víkja nokkuð að löggjöf á sviði heilbrigðismála, en þar get ég farið fljótt yfir sögu, því að hv. þm. eru kunnugri en aðrir þeirri löggjöf, sem sett hefur verið á undanförnum árum á sviði heilbrigðismála. En setning löggjafar á þessu sviði vitnar sannarlega um mjög fjölþætta og mikilvirka löggjöf, sem er síður en svo þess eðlis, að hægt sé að segja um, að hér hafi verið látið reka á reiðanum og allt sé i tætingi í sambandi við löggjöf á sviði heilbrigðismálanna.

Það liggur í hlutarins eðli, að læknaskipunarlög og sjúkrahúsalög eru meginstoðirnar í heilbrigðismálum þjóðarinnar á hverjum tíma, en um bæði þessi atriði hafa verið sett ný lög á undanförnum árum. Ég vil aðeins vegna ummæla hv. flm., 9. þm. Reykv., um geðveikralög og skort á þeim segja það, að þeim Tómasi Helgasyni og Þórði Möller hefur verið falið að vinna að undirbúningi geðveikralaga ásamt fulltrúa frá dómsmrn. Það er álit Tómasar prófessors, að æskilegt sé að setja sérstök geðveikralög, en nauðsynleg ákvæði komi í önnur skyld lög, t d. lögræðislög. Málið er viðkvæmt meðal geðlækna, og er Alfreð Gíslasyni, flm. þessarar till., áreiðanlega um það kunnugt, og ég held, að honum hljóti einnig að vera kunnugt um þessa athugun. En prófessor Tómas hefur þegar unnið verulega í þessu máli, og með hliðsjón af því held ég, að það hafi verið alveg óþarfar þær staðhæfingar, sem hv. 9. þm. Reykv. hafði um geðveikralöggjöfina og sinnuleysið á því sviði í ræðu sinni áðan.

Það hafa verið sett lyfsölulög, heildarlöggjöf á því sviði, 1963. Það er merk og mikil löggjöf, og hefur verið unnið að og er verið að setja ýmsar reglugerðir á grundvelli þeirrar löggjafar. Auk þess hef ég nýlega skipað n., — ég veit ekki, hvort sagt hefur verið frá því í blöðunum, ég fylgist ekki svo vel með auglýsingastarfseminni á þessu sviði, — til þess að endurskoða fyrirkomulag og hagkvæmni á sviði rekstrar lyfjabúða hér á landi. Í þeirri n. eiga sæti fulltrúar frá Apótekarafélaginu og apótekurum úti á landi og einnig úr rn., og prófessor í viðskiptafræði við háskólann hefur tekið að sér formennsku þessarar n. En auðvitað er það verulegur þáttur á sviði heilbrigðismála, að lyfsölumálin séu í góðu lagi og einnig rekstur og fyrirkomulog lyfjabúðanna.

Á Alþ. 1964 voru samþ. lög um breytingar á sjúkrahúsal. Ég hef fundið það alveg tvímælalaust, að þm. utan af landi hafa vel kunnað að meta þessa löggjöf og telja í henni stórkostlega og mikla breytingu til bóta frá því, sem áður var. Sérstaklega var hér orðinn mjög langur hali á skuldbindingum ríkisins, án þess að þær væru gjaldfallnar, upp í byggingarstyrki til sjúkrahúsanna. Þetta mál var tekið þeim tökum, að ríkissjóður skyldi ljúka sínum skuldbindingum á 8 árum, frá því að áætlun var samþ. og lögð fram, og er algert nýmæli, og á 5 árum, þegar um minni sjúkrahús væri að ræða og læknisbústaði. Mér er hins vegar ljóst, að áætlanir hafa hér farið langt fram úr því, sem upphaflega stóð til, og þar myndast, ef svo mætti segja, nýr hali, og er það enn eitt nýtt vandamál og viðfangsefni, sem verður að glíma við og kallar sjálfsagt á enn nýja endurskoðun þessarar löggjafar, áður en langt um liður, og kannske strax á næsta þingi. Ákvæðum um rekstrarstyrki til sjúkrahúsa sveitarfélaganna var líka mjög breytt og til bóta að dómi þeirra, sem um þessi mál fjalla úti á landi, frá því, sem áður var.

Síðan voru sett hér læknaskipunarlög 1965. Það var mjög merk löggjöf. Hún mætti að vísu nokkrum andblæstri í upphafi, en þó endaði það þannig, að það voru allir ásáttir um margþætt og merkileg nýmæli þeirrar löggjafar, og hún kom ekki, um það er lauk, til þess að valda neinum verulegum ágreiningi hér í þinginu. Og ýmislegt á grundvelli þessarar löggjafar er þegar komið til framkvæmda og mun vissulega stuðla að bættri læknisþjónustu úti á landi.

Ég get nefnt nokkur dæmi t.d., sem voru i þessari löggjöf, sem sýna það, að hverju stefnt var með henni. Það var nýmæli, að heimilað var að ráða einn lækni, með ótiltekinni búsetu til að veita neyðarlæknisþjónustu í læknislausum héruðum. Það var heimilað að sameina læknishéruð og koma upp læknamiðstöðvum fyrir hin sameinuðu héruð, eftir því sem nauðsyn krefur og staðhættir leyfa, og þó ekki fyrr en hlutaðeigandi hérað hefði verið auglýst minnst tvívegis án árangurs. Eitt af því, sem ekki mætti góðum undirtektum í þinginu, var vissar ráðagerðir um sameiningu læknishéraða. En þegar lengi er búin að vera í lögum heimild til þess að setja upp læknamiðstöð, fara nokkrir ungir læknar að skrifa um þetta í blöðin í sumar, og það er alveg eins og þeir hafi fundið Ameríku, sem aldrei hafi verið talað um, það sé ekkert vænlegra til þess að auka læknisþjónustuna úti á landi heldur en að setja upp læknamiðstöð, en þá er verið að vinna að því í heilbrmrn. eða dómsmrn. á grundvelli læknaskipunarlaganna að byggja upp þær reglur, sem. í 4. gr. l. var heimild til að setja um, hvernig koma mætti upp læknamiðstöðvum, sem flestir hverjir virðast nú líta á sem eitt helzta úrræðið til þess að auka læknaþjónustuna úti á landi. Þeir vinna nú að setningu reglna um þetta, Þór Vilhjálmsson prófessor, sem er formaður í n. þeirri, Helgi Valdimarsson, einn af hinum ungu læknum, sem hefur verið héraðslæknir úti á landi, á Hvammstanga, og nú á Slysavarðstofunni, einn úr þessum fræga þætti, sem hv. 9. þm. Reykv. var að tala um, og Ólafur Björnsson héraðslæknir á Hellu. Í grg. frv. til læknaskipunarlaga var gerð ýtarleg grein fyrir hugmyndum þeirrar n., sem undirbjó þetta frv., hvernig koma mætti upp læknamiðstöðvum. Á vissum stöðum væri ekki líklegt, að þær kæmust upp, annars staðar væri það líklegt, og þetta var allt saman tíundað í frv. Hefðu þessir ungu læknar, sem höfðu svona mikinn áhuga á þessu máli á s.l. sumri, hirt um að lesa grg. þessa frv., þegar það var lagt fyrir þingið 1964, hefðu þeir sennilega getað veitt mér og öðrum, sem stóðu að flutningi þessa. máls, ríkisstj., brautargengi, þegar málið var til meðferðar í þinginu, og sannfært ýmsa þm. fyrr en ella var um nauðsyn þess og ágæti þess að koma upp þessum læknamiðstöðvum. En þá heyrðist ekkert í þessum ágætu mönnum.

Fjórða atriðið var það, að við veitingu héraðslæknisembætta skal sá umsækjandi, sem hefur lengstan starfsaldur sem héraðslæknir, að öðru jöfnu sitja fyrir öðrum umsækjendum um stöðuna. Í fimmta lagi: Í 20 tilteknum læknishéruðum og ef nauðsyn krefur í 5 öðrum, en ótilteknum héruðum skal greiða héraðslækni staðaruppbót á laun, er nemi hálfum launum í hlutaðeigandi héraði. Í sjötta lagi: Í sömu héruðum, sem um ræðir í fimmta lið, sem ég las núna, skal héraðslæknirinn, sem hefur setið 3 ár samfleytt í héraðinu, eiga rétt á að hljóta eins árs frí með fullum launum til framhaldsnáms hér á landi eða erlendis. Þetta ákvæði kemur fyrst til framkvæmda tveimur árum eftir gildistöku laganna. Ráðherra er heimilt, ef nauðsyn krefur, að takmarka fjölda þeirra lækna, sem njóta slíkra hlunninda á einu og sama árinu. Í sjöunda lagi: Embættisaldur héraðslækna í sömu héruðum, sem ég nú hef greint, skal teljast 5 ár fyrir hver 3 ár, sem hann hefur gegnt hlutaðeigandi héraði, þannig að hann standi betur að vígi til þess að flytja sig í þéttbýlið heldur en ella væri. Heimilt skal samkv. till. landlæknis, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð, að veita læknastúdentum ríkislán til náms gegn skuldbindingu um læknisþjónustu í héraði að loknu námi. Þessu hef ég sagt frá áður, og um þetta hefur verið sett reglugerð. Og ákvæði voru um að stofna bifreiðalánasjóð héraðslækna með 1 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði. Um það hefur líka verið sett reglugerð, og ég hef greint frá því áður.

Það voru sett hér ný hjúkrunarlög fyrir tveimur árum, og ein leið til þess að bæta að nokkru úr hjúkrunarkvennaskortinum var talin að þjálfa sérstaka stétt aðstoðarfólks, er vinni við hjúkrunarstörf undir stjórn hjúkrunarkvenna. Ákvæði um þetta voru í þessum lögum, og um það hefur verið sett reglugerð, mörg námskeið hafa verið haldin til slíkrar sjúkraþjálfunar, og mér er alveg óhætt að segja, að þessi löggjöf hafi þegar gefið mjög góða raun. Það hefur svo, eins og kunnugt er, verið unnið að byggingu Hjúkrunarkvennaskólans á sama tíma og varið til þess miklum fjármunum. Þá hafa verið sett hér ljósmæðralög, sem fela m.a. í sér að efla og styrkja nám ljósmæðranna frá því, sem áður var, og fyrir þinginu, sem nú situr, eru lög um fávitastofnanir, sem ég hygg að sé ekki deilt um, að séu til mikilla bóta á því sviði. Það er verið að ganga frá í dómsmrn. samningu frv. um eiturefni og hættuleg efni og reglugerð á grundvelli þeirrar löggjafar.

Ég hef nefnt nokkuð af þeirri mikilvægu löggjöf, sem ég tel, að sett hafi verið á undanförnum árum og mönnum hlýtur að vera ljóst, að hrindir alveg gersamlega staðhæfingum hv. 9. þm. Reykv., að á sviði þessara mála hafi ekkert verið aðhafzt, ekkert nema kyrrstaða og dauði á undanförnum árum. En eins og ég sagði áðan, læt ég mér slíka sleggjudóma í léttu rúmi liggja, en mér finnst ástæða til þess, að hv. þm. minnist þeirra verka, sem þeir sjálfir hafa unnið að í góðu samkomulagi við heilbrigðisstjórnina á undanförnum árum, að bæta og efla svo veigamikla löggjöf sem ég nú hef nefnt á sviði heilbrigðismála.

Ég get þá vikið nokkuð að framkvæmdum í byggingarmálum og fjárveitingum. Það hefur kannske verið sofið þar á verðinum líka, en á undanförnum árum hefur miðað mjög fram byggingu Landsspítalans, og þegar haft er í huga, að ríkissjóður hefur einnig tekið að sér að styrkja að 60% byggingarkostnað Borgarsjúkrahússins, eru ekki litlir fjármunir, sem hér hafa verið á döfinni. Það er ekki fráleitt að ætla, að Landsspítalinn, þegar dokið verður þeim áföngum, sem nú er unnið að, 1969, með tilheyrandi byggingum, sem ómögulegt er að komast hjá, eins og mötuneyti og eldhúsi, kosti kannske eitthvað nálægt 250 millj. kr. og kannske Borgarsjúkrahúsið eitthvað líkt. (Forseti: Mætti ég spyrja hæstv. ráðh., hvort hann ætti langt mál eftir. Það er komið fram á flokksfundatíma, og ef hæstv, ráðh. á mikið eftir af ræðu sinni, vildi ég fara fram á við hann, að hann gerði hlé á henni. Ég mundi nú, held ég, heldur kjósa að reyna að ljúka þessu fljótlega.

Það hefur oft verið gagnrýnt, að það hafi ekki farið fram með nógu mikilli hagkvæmni byggingarnar á landsspítalalóðinni. Ég vil um það segja aðeins það, að læknar hafa alltaf frá öndverðu verið þar til ráðuneytis, tveir af yfirlæknunum í byggingarnefndinni, og með þeim fyrirmælum að kveðja ævinlega til ráðuneytis yfirlækni í þeirri deild, sem í það og það skiptið væri verið að fjalla um. 1965 hlutaðist ég til um það, að byggingarnefndin fékk í þjónustu sína verkfræðing, Rögnvald Þorláksson, til þess að gera áætlanir og hafa umsjón með því, að þeir fjármunir, sem Alþ. veitti til þessara byggingarframkvæmda, nýttust sem bezt. Ég held þess vegna, að langmest af því, sem sagt hefur verið um það óvarlega, bæði á opinberum vettvangi og manna, á milli, um einhverju óreiðu á þessu sviði, sé sleggjudómar, sem ekki fái staðizt gagnrýni, ef þeir væru athugaðir. Á sama tíma sem þessar byggingarframkvæmdir hafa átt sér stað hér í Reykjavík hefur átt sér stað úti á landi bygging sjúkrahúsa í Vestmannaeyjum, Akranesi, Húsavík. Þetta eru sjúkrahús, sem áætlað er að kosti 30—40 millj. kr., eða milli 20 og 30 millj. þau, sem nokkru minni eru. Nýlokið er byggingu sjúkrahúss á Siglufirði, ekki mjög langt síðan tók til starfa sjúkrahús á Sauðárkróki, ráðagerðir eru um stórkostlega stækkun sjúkrahússins á Akureyri og till. á frumstigi um sjúkrahús á Suðurlandi. Þegar allt þetta er haft í huga, eru hér undir höndum byggingarframkvæmdir, sem kosta hundruð milljóna kr. Ég sagði einhvern tíma 1964, þegar ég talaði hér í þinginu um þessi mál, að það væru sennilega 700—800 millj., og þó að það væri ágizkunartala, veit ég, að það fer nærri, að svo muni reynast. Það er verið að vinna við fæðingardeildina á þessu sumri. Það verk var boðið út og gengur mjög vei. Því miður stækkar ekki fæðingardeildin, heldur batnar aðstaðan þar og við ljósmæðraskólann og aðstaða læknanna. Þeir fá þó einhverja stóla til að sitja á og einhver herbergi til að vera í. En hins vegar er mér ljóst, að það er orðin ein af brýnustu nauðsynjunum að stækka sjálfa fæðingardeildina.

Ég skal svo fyrir tilmæli forseta reyna að ljúka máli mínu. Ég hef látið gera yfirlit yfir kostnaðinn við heilbrigðistofnanirnar og færa allt til verðlags 1965 og tekið samanburð frá 1958, og þá er miðað við það, að við hefðum búið við sama verðlag allan tímann, og er sá útreikningur unninn af Efnahagsstofnuninni, og ég geri ekki ráð fyrir, að hann verði vefengdur: Það má auðvitað segja, að þá yrði eðlilegt, að það ykjust útgjöldin til þessara hluta vegna fjölgunar þjóðarinnar, sem er kannske 15—20% á þessum tíma, en með sambærilegu verðlagi hafa aukizt útgjöldin á langflestum sviðum þessara mála miklu meira. Laun til héraðslækna hafa hækkað um 25.8% með sambærilegu verðlagi, rekstur ríkisspítalanna hækkað um 133.9%, rekstrarstyrkir til opinberra sjúkrahúsa 86.1%, til einkasjúkrahúsa 111.9%, til heilsuverndarstöðva 109.3%, til byggingar læknisbústaða, byggingarstyrkir 119.4%, fjárveitingar til ríkisspítalanna hækka um 139.8% og ýmis kostnaður í heilbrigðismálum um 106%. Það er þess vegna gífurlegt, sem fjárveitingavaldið, Alþ. — og ég leyfi mér að þakka fyrir það — með góðu samkomulagi á hverjum tíma hefur aukið framlögin til þessara mála á undanförnum árum. Og ég endurtek, að þetta er miðað við sambærilegt verðlag, og verðbólguþróun, sem á þessum tíma hefur átt sér stað, hefur þess vegna engin áhrif á það. Þegar allt hækkar um rúm 100% og upp í 140—150%, en fólksfjölgunin ein ekki nema 15—25%, sjá menn í raun og veru, hvað hér hefur verið mikið að gerast á þeim tíma, sem sumir telja, að allt hafi verið í tætingi og kyrrstöðu. Um lækna get ég upplýst það, að á landsspítalanum og Rannsóknarstofu háakólans voru 13 læknar 1940; þeir eru 20 1950, þeir eru 39 1960 og 52—53 1967. Það er þess vegna gífurlega mikil aukning á læknum og læknaþjónustu, og sem betur fer eigum við ágæta lækna, sem við stöndum öll í þakkarskuld við, prýðilega sérfræðinga, ekki sízt í hópi yngri lækna, sem getur verið okkur öllum ánægjuefni. Hitt er svo vandamál, að það hefur gengið illa að fá ýmsa lækna til þess að koma heim frá sérnámi erlendis. En það er bara ekkert sárstakt fyrirbrigði fyrir Ísland. Sama sagan er alls staðar, þar sem ég þekki til. Í Hollandi var mikið vandamál með læknana ekki alls fyrir löngu. Bretar eru að missa alla sína lækna til Ameríku, lifa nú á indverskum læknum. En ég held þó, að með þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á sviði heilbrigðismálanna, sé meiri von til þess en nokkru sinni áður að fá lækna til þess að snúa heim með sína sérmenntun og láta hana hagnýtast hér á landi.

Ég skal svo ekki þreyta þolinmæði hv. þm. meir né heldur hæstv. forseta, en ég vil ljúka máli mínu með því að vísa algerlega á bug þeim sleggjudómum og órökstuddu staðhæfingum um þá kyrrstöðu, aðgerðarleysi og stjórnleysi, sem ríkt hafi á sviði heilbrigðismála á undanförnum árum. Ég vona, að ég hafi veitt hv. 9. þm. Reykv. nokkurn lærdóm í þessu efni, sem honum sannarlega veitti ekki af.