24.02.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (2489)

97. mál, fullnaðarpróf í tæknifræði

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 11. þm. Reykv. leyft mér að flytja á þskj. 192 till. til þál. um fullnaðarpróf í tæknifræði o. fl. En efni þessarar till. er að fela ríkisstj. að hefja, svo fljótt sem unnt er, nauðsynlegan undirbúning, til þess að hægt verði að láta fara fram fullnaðarpróf í tæknifræði við Tækniskóla Íslands, enda sé að því stefnt, að slík próf geti hafizt í Reykjavík eigi síðar en vorið 1970 og á Akureyri eigi síðar en vorið 1972. Jafnframt verði tækniskólum gefinn kostur á styttra sérnámi til að mennta aðstoðarfólk sérfræðinga.

Lög um Tækniskóla Íslands voru samþ. hér á hinu háa Alþ. árið 1963. Í þeim l. var ríkisstj. heimilað að stofna Tækniskóla Íslands í Reykjavík og greiða kostnað við hann úr ríkissjóði, ásamt undirbúningsdeild við skólann í Reykjavík og á Akureyri. Í sömu l. var jafnframt heimilað að ,,starfrækja aðrar bekkjar- og skóladeildir tækniskólans á Akureyri, enda sé að því stefnt, að þar rísi sjálfstæður tækniskóli,“ segir í þessum lögum.

Sú hefur orðið framkvæmd þessa máls, að tækniskóli er nú starfandi í Reykjavík og auk þess undirbúningsdeild í Reykjavík og önnur á Akureyri. Náminu í Reykjavík, þar sem þetta er lengra komið, er þannig hagað, að nemendur stunda nám í tækniskólanum í tvo vetur, en hafa þá áður lokið prófi úr undirbúningsdeild, þannig að í raun og veru er þarna um þriggja vetra nám að ræða að meðtalinni undirbúningsdeildinni. Á Akureyri starfar undirbúningsdeild, og þeir, sem prófi ljúka úr henni, fá inngöngu í tækniskólann hér í Reykjavík. Þegar nemendur hafa lokið prófi eftir tveggja vetra nám í tækniskólanum hér í Reykjavík, hafa þeir lokið því, sem kallað er fyrri hluti tæknifræðinnar, og eiga eftir síðari hlutann, en kennsla í þessum síðari hluta fer enn ekki fram hér á landi. Hins vegar hafa nemendur héðan með fyrrihlutaprófi fengið inngöngu í síðari hluta tækniskóla í Danmörku og í Noregi, og munu vera um það samningar, að þeir eigi þar vísa inngöngu. Ég ætla, að þeir muni vera nálægt 40, sem lokið hafa þessu fyrrihlutaprófi hér, síðan skólinn var stofnaður.

Það, sem farið er fram á í þessari till., er það, að hafinn verði undirbúningur að því að lengja námið hér á landi, þannig að nemendur geti tekið hér fullnaðarpróf í tæknifræði, þ.e.a.s. í einhverjum greinum tæknifræðinnar, því að hún skiptist í margar greinar, og í till. er það sett sem mark, að fyrstu fullnaðarprófin verði haldin hér í Reykjavík vorið 1970 og á Akureyri, þar sem þetta nám er skemmra komið, tveimur árum síðar eða 1972.

Það er auðvitað svo, að það er mjög kostnaðarsamt að senda svo stóran hóp nemenda sem hér verður mjög sennilega um að ræða á komandi árum til annarra landa. Það er kostnaðarsamt bæði fyrir nemendurna, sem þarna eiga hlut að máli, og fyrir þjóðfélagið, að slíkt þurfi að eiga sér stað. En til þess að renna stoðum undir það, sem ég sagði, að hér muni geta orðið um stóran hóp að ræða, vil ég nefna það, að tæknifræðingar hér á landi, sem allir eru útskrifaðir erlendis, munu vera um 150 talsins, eftir því sem mér hefur verið tjáð. En fyrir menntun af þessu tagi er mjög vaxandi þörf um allan heim og þá einnig hér á landi. Þessi tala tæknifræðinga, sem hér eru starfandi, er ákaflega lág miðað við það, sem annars staðar gerist. Mér er sem sé tjáð af fróðum mönnum, að ef starfandi tæknifræðingar væru hér hlutfallslega álíka margir og t.d. á Norðurlöndum, mundu þeir eiga að vera 800 í staðinn fyrir 150, sem þeir eru nú. Ég skal ekki segja um það, hvort þessi bala er nákvæm, en hún gefur hugmynd um það verkefni, sem hér er fram undan í því að mennta unga menn á þennan hátt, og það muni geta orðið allstórir hópar, sem þurfa á síðarihlutanámi í tæknifræði að halda á komandi tímum.

Mér er kunnugt um það, og það er vikið að því hér í grg. till., að sumarið 1961 voru á vegum tækniskólans eða menntamálastjórnarinnar sendir tveir sérfróðir menn til útlanda til þess að kynna sér þar kennslu í tæknifræði. Þessir menn lögðu fyrst og fremst leið sína til þeirra landa, sem tækniskólinn hér hefur samband við, þ.e.a.s. til Danmerkur og Noregs, en einnig fóru þeir til Vestur-Þýzkalands og kynntu sér allýtarlega tækniskólakerfið þar. Ég hef átt þess kost og við flm. að sjá skýrslu, sem þessir menn, sem báðir höfðu verið kennarar við tækniskólann hér og annar er, að ég ætla, enn, gerðu um ferð sína., og skal ég ekki rekja efni hennar, en það, sem ég vil tilgreina úr þeirri skýrslu sérstaklega, er, að þeir sögðu það, þessir sendimenn okkar, sem voru að kynna sér þessi mál, að það hefði verið samhljóða álit tækniskólamanna, sem þeir hefðu rætt við í þessum löndum, að við Íslendingar settum að reka hér fullkominn tækniskóla, bæði af þeim ástæðum, sem ég nefndi hér áðan, og þó ekki síður vegna, þess, að þá fyrst töldu þeir, að verulegt gagn og fullt gagn yrði fyrir íslenzka atvinnuvegi af störfum þessara manna, ef fullkominn tækniskóli værri hér starfandi, og þá. sjálfsagt með tilliti til þess, að nemendur skólans mundu þá jafnframt náminu starfa í íslenzkum atvinnuvegum og hljóta þar nauðsynlega þjálfun.

Tilgangur okkar með þessari till. er að beita okkur fyrir því, að þetta mál, lenging tækniskólans í Reykjavík og stofnun tækniskóla á Akureyri, verði nú tekið upp til ýtarlegrar athugunar, og væntum þessa, að niðurstaðan af því verði sú, að okkur íslendingum auðnist að koma hér upp þeim tækniskóla, sem hér er vikið að. Það er auðvitað öllum ljóst, sem um þessi mál hugsa„ að til þess að svo megi verða, þarf allmikinn undirbúning og að þetta er ekki alveg einfalt mál. Tækniskólinn á, eins og sakir standa, ekki þak yfir höfuðið sjálfur. Hann er á báðum stöðunum, bæði í Reykjavík og á Akureyri, í húsakynnum annarra menntastofnana, en auðvitað er það, að ef þetta kemur til framkvæmda, sem gert er ráð fyrir í till. okkar, þarf þessi menntastofun að eignast húsnæði við sitt hæfi. Sömuleiðis eru að sjálfsögðu nokkur vandkvæði á því að fá kennslukrafta til slíkrar stofnunar, en hún kemur því aðeins að gagni, að það takist að fá nógu mikla og nógu góða kennslukrafta. En við verðum að vænta þess, að með vaxandi framhaldsmenntun hér á landi, sem ungt fólk fær bæði innanlands og utan, verði hægt að komast yfir þessi vandkvæði. Sömuleiðis er það náttúrlega svo, að því aðeins getur tækniskólinn starfað, að hann hafi yfir að ráða þeim kennslutækjum, sem nauðsynleg eru, og mun nú mega segja það, sem er raunar ánægjuefni, að það er kominn góður vísir að slíku kennalutækjasafni víð tækniskólann hér, þar sem er eðlisfræðistofa tækniskólans. En hér þarf meira til. Og sjálfsagt er það svo, að þó að því marki verði náð, sem gert er ráð fyrir í till., að koma upp þeirri framhaldskennslu, að hér geti orðið haldin fullnaðarpróf í fleiri eða færri greinum tæknifræðinnar, megi samt gera ráð fyrir því, að í einhverjum greinum verði menn einnig á komandi tímum að leita sér fræðslu erlendis, eins og verið hefur, því að um margar greinar er að ræða á þessu sviði.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég vildi mega vænta þess og við flm., að það gæti tekizt samstarf með mönnum hér á Alþ. og í ríkisstj. um að hrinda þessu nauðsynjamáli áleiðis. Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að umr, verði frestað og málinu vísað til allshn.