12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (2520)

115. mál, samstarf gegn alþjóðlegum einokunarauðhringum

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessari þáltill. sökum þess, að hún hefur þegar borizt nokkuð í tal í þinginu í umr., sem fram hafa farið milli mín og hæstv. forsrh., og skal aðeins í stuttu máli greina, hvernig á henni stendur.

Það gerðist fyrir nokkru í Noregi, að norska ríkið varð að selja helming hlutabréfa í ríkisfyrirtækinu A/S Árdal og Sunndal Værk, einni af stærstu alúminíumverksmiðjum Noregs, og það var upplýst, eins og hér hefur verið rætt, að norska ríkið var til þess knúið eða leit svo á að það væri til þess knúið, vegna þess að alúminíumhringarnir hefðu slík tök bæði á framleiðslunni á því hráefni, sem þurfti að nota, báxít og alúminíumoxíð, og hins vegar á markaðinum fyrir fullunnið alúminíum, að þetta stóra og mikla norska ríkisfyrirtæki gæti ekki staðið sjálfstætt, þegar hringarnir settu því þá kosti, að annaðhvort yrði það svo að segja lagt að velli í baráttunni eða þá að þeir fengju að kaupa helminginn af hlutabréfunum í því.

Þessi atburður, sem gerðist í Noregi, ræddur var í norska þinginu og ég hef hér tvisvar sinnum gert að umtalsefni áður úr þessum ræðustól og vitnað í ýmsa þá norsku þm., þá fyrrv. ráðh., sem um þetta töluðu, — allt þetta gerði það að verkum, að ég áleit, að það væri nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga, sem nú fáum hér upp erlenda alúminíumverksmiðju, sem við höfum ráðgert í samningunum við hana, að hægt væri að þjóðnýta, ef okkur félli ekki samstarfið, — ég áleit, að það væri nauðsynlegt fyrir okkur að gera ráðstafanir til þess, að við stæðum ekki uppi eins einangraðir og yrðum að gefast upp, ef til slíks kæmi, eins og Norðmenn hafa orðið að gera núna. Þess vegna legg ég í þessari þáltill. til, að hæstv. ríkisstj. leiti samstarfs við ríkisstj. Noregs og aðrar ríkisstj., sem vildu koma á samvinnu sín á milli, um það að tryggja, að þjóðir geti framkvæmt stefnu sína án þess að vera knúðar til þess að breyta henni vegna áhrifavalds erlendra auðhringa.

Þegar svo sterk ríkisstj. sem norska ríkisstj. og með ríkt og voldugt land á bak við sig eins og hún er neyðist til þess að gera slíka hluti eins og þarna voru gerðir, getum við rétt hugsað okkur, hvernig aðstæðan væri fyrir okkur hérna heima. Ég hef áður skýrt frá því og skal rétt minna á það, að alúminíumhringarnir, kanadiski og bandaríski, sem raunverulega eru einn og hinn sami, aðeins í tvennu lagi vegna ákvæða löggjafarinnar í Bandaríkjunum á móti einokunarauðhringum, — þessir hringar ráða raunverulega yfir 4/5 hlutum af öllum alúminíummarkaðinum í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, og þessir hringar eru svo ríkir og svo voldugir og aðstaða þeirra til þess að geta drottnað þarna er svo sterk, að það er ekkert annað vald, sem á móti þeim gæti staðið, heldur en samstarf ríkisstj. sjálfra í svo og svo mörgum löndum, sem eiga sína hagsmuni undir þessu. Við getum rétt hugsað okkur, ef t.d. þessir amerísku alúminíumhringar færu að gleypa á einn eða annan hátt Swiss Aluminium eða setja því sérstök skilyrði viðvíkjandi sölu hlutabréfa eða annað slíkt, mundi Swiss Aluminium, þótt það sé mjög sterkt fyrirtæki og eitt af 200 ríkustu fyrirtækjum utan Bandaríkjanna, ekki standa þeim snúning. Bara fjáreign þessara tveggja kanadísku og bandarísku alúminíumhringa, sem eru einn og hinn sami, er raunverulega upp undir 150 þús. millj. ísl. kr., þannig að við getum rétt af því séð, hvílíkt gífurlegt fjárhagslegt vald er þarna um að ræða. Við þekkjum það úr sögunni, hvað hefur áður komið fyrir, bæði gagnvart Íslendingum og Norðmönnum, að voldugt erlent fjárhagslegt vald hefur sett þeim stólinn fyrir dyrnar. Ef við t.d. hugsum aftur til tímabils Hansastaðanna, þá gátu Hansakaupmennirnir þýzku sett ríkisstj. bæði Danmerkur, Noregs og fleiri landa alveg stólinn fyrir dyrnar í krafti síns áhrifavalds á vörumarkaðinum á þeim tíma og sinna auðæfa.

Fyrir alla þá, sem láta sér annt um lýðræði meðal þjóðanna, hlýtur þess vegna þetta fyrirbrigði að vera eitt hið alvarlegasta, sem um getur. Ef ríkisstj. og þjóðlönd fá ekki að framkvæma vilja þjóðanna, vegna þess að voldugir auðkýfingar koma í veg fyrir það, þá er lýðræðið að engu gert. Það er ekki mikill munur á því eða t.d. þegar norska þjóðin kýs þannig á sitt þing, að það þing samþ. að koma t.d. upp ríkisfyrirtæki, eins og ég nefndi áðan. Síðan kemur slíkur alúminiumhringur og neyðir ríkisstj. til að selja helminginn í slíku fyrirtæki sjálfum sér, — það er ekki mikill munur á slíkri aðferð eða hinu, að einn ræningi brýzt inn, setur skammbyssu fyrir brjóstið á forsrh. og segir: Nú ert þú búinn að vera, nema þú sjáir til þess, að svona og svona lög verði sett í þinginu. — Það er ekkert lýðræði, sem gildir lengur, þegar svona er komið. Ef við ætlum að gera lýðræði að einhverju meira en einhverjum óskadraumi, svo að ég noti orð Einars Gerhardsens, verðum við að sjá til þess, að auðhringarnir geti ekki haft svona vald. Það er þá alveg á sama hátt hægt að koma hérna gagnvart t.d. okkar iðnaði hér á Íslandi, hraðfrystihúsaiðnaði eða öðru, af voldugum auðhringum úti í heimi og segja: Ef þú selur mér ekki fyrir lágt verð og skapar mér þá aðstöðu, sem ég vil hafa hér heima, þá eyðilegg ég ykkur í samkeppninni.

Við verðum að hugsa út í það, þegar Norðmenn eru meira að segja ekki stærri og sterkari en það, að þeir neyðast til svona hluta, því að neyðzt til þess hafa þeir, — þá getum við skoðað í okkar eigin brjóst til að sjá, í hvaða aðstöðu við mundum verða settir, annars vegar með okkar smáa innlenda iðnað, smáan á alþjóðamælikvarða séð, og hins vegar með okkar eigið ríkisfyrirtæki, ef um slíkt væri að ræða. Til þess að vera öruggir um, að það lýðræði, sem við berjumst fyrir að framkvæmt sé, verði meira en rómantískur óskadraumur, þá verðum við að reyna að skapa samstarf við lýðræðisstjórnir annarra landa um að vinna gegn valdi þessara miklu auðhringa.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. þm. íhugi þetta mál mjög alvarlega, hvort sem það tekst að afgr. það á þessu þingi eða ekki.

Ég lagði það til í þessari þáltill. sömuleiðis, að hjá Sameinuðu þjóðunum væru fulltrúar Íslands látnir vekja athygli á þessu. Við vitum, að Sameinuðu þjóðirnar hafa rætt þessi mál, hvað snertir ofurveldi auðhringanna, ekki sízt þegar gömlu nýlenduþjóðirnar eiga í hlut eða þær fátæku þjóðir, sem nýlega hafa öðlazt pólitískt sjálfstæði, þannig að þar er einnig vettvangur, þar sem hægt væri að vinna að þessum málum.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því, að þegar fleiri kveðja sér ekki hljóðs við þessa umr. nú, þá sé henni frestað og málinu vísað til hv. utanrmn.