12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (2551)

145. mál, lánasjóður fyrir tækninýjungar í iðnaði

Flm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Þáltill. borin fram af mér á þskj. 288 fjallar um, að athugaðir séu möguleikar á stofnun lánasjóðs til örvunar tækninýjungum í iðnaðarframleiðslu hér á landi. Er gert ráð fyrir. að málið sé að frumkvæði hæstv. iðnmrh. athugað nánar í samráði við leiðandi samtök iðnaðarins. Á ég þar við Landssamband iðnaðarmanna og Félag ísl. iðnrekenda.

Eins og tekið er fram í grg., tel ég, að margar góðar hugmyndir hafi komið fram hér á landi, bæði hjá hugvitssömum mönnum og þróast hjá vinnandi mönnum við dagleg störf. Slíkar hugmyndir, ef þær fá að þróast eðlilega með verklegum tilraunum á sjálfum vinnustöðvunum, geta oft haft úrslitaþýðingu og þjóðhagslegt gildi. Slíkur lánasjóður fyrir tækninýjungar gæti stuðlað að betri athugun á verkefnum, sem að er unnið hverju sinni, í stað þess að hefja framleiðslu án undangenginna verklegra athugana. Það getur oft verið kostnaðarsamt að koma nytsömum hugmyndum á framfæri þannig, að þær skapi raunhæfa framleiðslumöguleika. Það sýnir sig oft, að einstaklingar, höfundar hugmyndanna, hafa ekki aðstæður til að gera þær nothæfar eða. framleiðsluhæfar. Erlendis eru það oft stóru fyrirtækin eða samsteypur fyrirtækja, sem þá taka við. Hér er slíkum máttarstólpum ekki til að dreifa, en gera má ráð fyrir, að margir fengjust þó til að huga betur að framleiðslunýjungum, ef ríkisvaldið örvaði viðkomandi með hagkvæmum lánum.

Fullkomin löggjöf um rannsóknaráð og rannsóknastofnanir fyrir höfuðatvinnugreinar landsmanna er nú fyrir hendi. Margt af því, sem snýr að tilraunastarfsemi, heyrir undir þessar stofnanir. Þessum fyrirhugaða lánasjóði er að sjálfsögðu ekki ætlað að rýra starfssvið þessara stofnana, nema síður væri. Hugsazt gæti, að margar af þeim framleiðslunýjungum, sem sjóðurinn lánaði til, væru unnar í nánu samstarfi einmitt við Rannsóknastofnun iðnaðarins.

Um langan aldur hafa bæði sjávarútvegur og landbúnaður haft sjóði til styrktar nýjungum í einu eða öðru formi. Um gagnsemi þeirra þarf ekki að efast. Ég vil hér aðeins nefna eitt dæmi í sambandi við fiskimálasjóð, sem ætti að geta varpað nokkru ljósi á, hversu slík starfsemi getur hentað þjóðarbúi okkar. Það mun hafa verið fyrir 12 árum, að tveir íslenzkir verkfræðingar höfðu hugmyndir um, að bætt nýting mjölvinnslu í síldarverksmiðjum væri möguleg með sérstökum tækjabúnaði. Í samráði við vélsmiðju hér á landi var möguleiki til smíði á tilraunatækjum, en nokkurt fjármagn var nauðsynlegt. Fiskimálasjóður, sem þarna hljóp undir bagga fjárhagslega, stuðlaði að því, að smíðuð voru tilraunatæki til mjölvinnslu úr soði, en soðið fór annars beint í sjóinn. Þessi tilraunatæki voru þrotlaust prófuð í heilt ár eða meir. Sú reynsla, sem fékkst, varð til þess, að fullkomin soðvinnslutæki voru smíðuð, þau fyrstu hér á landi. Í dag er óhugsandi, að síldarverksmiðja geti borið sig nema nýta soðið frá verksmiðjunni til mjölvinnslu, enda eykur það mjölvinnsluna um 20%. Á síðaska ári var útflutt síldarmjöl 117 þús. tonn, að verðmæti 900 millj. kr. Það hefur því munað íslenzku þjóðina á árinu 1966 150 millj. kr. full mjölnýting í síldarverksmiðjum landsmanna, sem grundvölluð var 1954, m.a. vegna aðstoðar fiskimálasjóðs. Það mætti líka nefna gagnstæð dæmi, þar sem anað hefur verið út í stórframkvæmdir eða framleiðslu án nauðsynlegs undirbúnings.

Eins og tekið er fram í grg. fyrir þáltill., er vísað til reynslu Norðmanna, en þar í landi er slíkur sjóður sem hér er ráðgerður, myndaður fyrir iðnaðinn skv. sérstökum l. í byrjun árs 1965, svokallaður „Utviklingsfond for industrien“. Voru á því ári veittar til sjóðsins 25 millj. norskra kr., en það mundi jafngilda, að slíkur sjóður hér fengi í upphafi stofnfé 7 1/2 millj. ísl. kr. og síðan að sjálfsögðu framlög árlega fyrstu árin. Væri vel hugsanlegt, að nokkuð af því fé kæmi sem hluti af þeim álögum, sem íslenzk iðnaðarframleiðsla er nú látin bera. En ég vil alveg sérstaklega taka fram, að það er ekki hugsun mín, að iðnaði landsmanna verði íþyngt með nýjum skattaálögum vegna. slíkrar sjóðsstofnunar. Þvert á móti væri það mjög heillavænlegt, ef eitthvað væri hægt að lina þá skattabyrði, sem nú hvílir á iðnaðarframleiðslunni.

Varðandi það, að hér sé verið að koma á nýju sjóðsbákni með dýrri yfirstjórn, má þar til svara, að slík stofnun mundi sóma sér vel t.d. með afgreiðslu í iðnlánasjóði eða í Iðnaðarbankanum og þá að sjálfsögðu án teljandi kostnaðar. Í Noregi er 5 manna stjórn og 12 manna ólaunað ráð, mest leiðandi menn úr atvinnulífinu, sem hafa æðstu stjórn sjóðsins þar á hendi. Slík tilhögun yrði einnig farsæl hér á landi.

Í till. minni er gert ráð fyrir lánasjóði, en ekki sjóði til styrkveitinga. Þetta er gert með ráðnum hug. Góðar hugmyndir, sem komast til framkvæmda, geta borið sig fjárhagslega. Ef um beinar styrkveitingar yrði að ræða, er meiri hætta á, að minna yrði hugsað um arðsemi í framkvæmd, auk þess sem meiri hætta væri á misnotkun. Hér á landi er margfalt minna lagt til rannsókna af því opinbera en í þeim löndum, sem við eigum að bera okkur saman við, og enn minna er þó gert á skipulegan hátt af hálfu fyrirtækja til að efla tækninýjungar í framleiðslustarfsemi sinni. Hugsum okkur, hve verkefnin eru stórkostleg t.d. í húsbyggingum. Gæti það ekki hentað vel okkur Íslendingum, ef nýjungar yrðu örari í byggingarháttum, sem væru sniðnar eftir okkar veðurfari, eða ef hægt væri að lækka byggingarkostnað með því að styðja við bakið á íslenzkum hugvitsmönnum, sem vildu leggja, á sig það erfiði að hugsa. fram í framtíðina?

Herra forseti. Ég legg til, að þessari umr. verði frestað og till, vísað til umsagnar hv. allshn. Ég vænti þess, þótt mjög sé liðið á þinghaldið, að n. bregði svo skjótt við, að till. þessi fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi.