26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (2577)

27. mál, Vesturlandsvegur

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég vil þakka, svör hæstv. ráðh. við fsp. minni. Það bréf, sem hæstv. ráðh. las upp úr frá vegamálastjóra, varpar að vissu leyti nokkru ljósi á hvernig ástandið er um þennan tiltekna veg. Ég harma það, að sá undirbúningur, sem vinna þarf í sambandi við, að framkvæmdir geti hafizt, virðist hafa gengið talsvert miklu verr en ráðgert hefur verið, því að ég skil það svo, að þegar ríkisstj. fær tekna upp í vegáætlun lántökuheimild á árinu 1968, hafi hún þar með á þeim tíma væntanlega reiknað með, að öllum undirbúningi að framkvæmdum væri þá lokið og hægt væri að hefja verkið, ef fjármagn hefði verið til. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. ýti á eftir því, að þessum undirbúningi verði hraðað. Ég vil minna á að í vegáætlun fyrir árið 1966 eru lántökuheimildir vegna þriggja vega, þ.e.a.s. Reykjanesbrautar, Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar, og a.m.k. lántökuheimildin vegna Suðurlandsvegar, 5.3 millj. kr.. hefur að fullu verið notuð á árinu 1966. Lántökuheimildin vegna Vesturlandsvegar er sú eina af þessum þrem heimildum, sem hefur ekki verið notuð að neinu leyti, og ber að harma það, því að sannarlega, er þörfin á framkvæmdum við veg þennan, sem mun nú fjölfarnasti þjóðvegur landsins að hluta, upp að Þingvallaafleggjaranum a.m.k., ekkert síðri en víðast annars staðar. Eins og allir hv. þm. þekkja, liggja leiðir allra, sem fara héðan úr höfuðborginni og af Suðvesturlandinu og Reykjanesskaganum norður, vestur og austur um allt landið, yfir þennan vegarspotta, og allir þeir, sem ekið hafa hann, t.d. á vorin, þegar bleyta fer úr veginum, vita um ófremdarástandið, sem þar ríkir. Enn fremur er rétt að benda á það í þessu sambandi, að um þennan vegaspotta er mikil umferð mjög þungra bifreiða, sem aka miklum hluta þess byggingarefnis, sem notað er hér í Reykjavík og nágrannasveitum, en það er tekið að miklu leyti uppi í Mosfellssveit og á Kjalarnesi, og þær fara mjög illa með veginn, því að í sanneika sagt er vegurinn engan veginn þess umkominn að bera þá þungu umferð, sem þessir bílar skapa.

Hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að þörf væri á því að auka tekjur vegasjóðsins og lántökuheimildir vegna Vesturlandsvegar, af því að þar væri um dýra framkvæmd að ræða. Ég er honum alveg sammála um þetta og fagna því, ef eitthvað verður úr því gert af hálfu hæstv. ráðh. að fá auknar lántökuheimildir vegna þessa vegar. En í sambandi við þann fjárskort, sem hæstv. ráðh. upplýsti að væri nú hjá vegasjóði, vildi ég aðeins segja það, að nú kæmi sér vel að hafa 47 millj. kr. ríkisframlagið, sem upphaflega var yfirlýst af hálfu hæstv. ráðh., að ríkissjóður mundi leggja vegasjóðnum til árlega sem algert lágmark. Ég býst við, að hv. þm. minnist þess í þeim umr., sem hér fóru fram fyrir 1—2 árum um vegalagafrv., að hæstv. ráðh. lýsti því þá yfir, að þetta ríkisframlag, 47.1 millj. kr., mundi verða greitt áfram úr ríkissjóði og það gæti ekki lækkað, heldur væri miklu sennilegra, að það mundi hækka. En það var fellt út úr tekjum vegasjóðs, held ég, ári eftir að hæstv, ráðh. gaf þessa yfirlýsingu.